LANDSRÉTTUR Úrskurður þriðjudaginn 8. júní 2021. Mál nr. 372/2021 : Ákæruvaldið (Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari) gegn X (Leó Daðason lögmaður) Lykilorð Kærumál. Farbann. Útdráttur Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem X var gert að sæta farbanni á grundvelli 1. mgr. 100. gr., sbr. b - lið 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Úrskurður Landsréttar Landsréttardómararnir Ásmundur Helgason , Ragnheiður Bragadóttir og Símon Sigvaldason kveða upp úrskurð í máli þessu. Málsmeðferð og dómkröfur aðila 1 Varnaraðili skaut málinu til Landsréttar með kæru 4. júní 2021 , sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 7. sama mánaðar . Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2. júní 2021 í málinu nr. R - [...] /2021 þar sem varna raðila var gert að sæta farbanni, þó ekki lengur en til föstudagsins 1. október 2021, klukkan 16. Kæruheimild er í l - lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. 2 Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar. 3 Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að farbanninu verði markaður skemmri tími. Niðurstaða 4 Eins og fram kemur í hinum kærða úrskurði byggir sóknaraðili kröfu sína um farbann varnaraðila, sem sé erlendur ríkisborgari, á að honum sé gefið að sök mjög alvarlegt brot sem geti varðað þungri fangelsisvist. Mikil hætta sé á að hann muni reyna að komast úr landi til að koma sér undan málsókn eða fullnustu refsingar sæti hann ekki farbanni meðan málið, sem hann sætir ákæru í, er til meðferðar fyrir héraðsdómi. Er um kröfu sóknaraðila vísað til b - liðar 1. mgr. 95. gr. og 1. mgr. 100. gr. laga nr. 88/2008. 2 5 Varnaraðili, sem er [...] ríkisborgari, byggir kröfur sínar á því að tengsl hans við Ísland séu sterkari en við heimalandið og að h ann hafi ekkert þangað að sækja. Hann hafi búið hér á landi frá árinu 2014. Hann búi hér með konu sinni og [...] börnum, sé í fastri vinnu og hafi sótt um framlengingu á dvalarleyfi sínu. Því hafi ekki verið sýnt fram á að skilyrðum b - liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 sé fullnægt. 6 Með vísan til þess sem fram kemur í hinum kærða úrskurði er fallist á það með ákæruvaldinu að fram sé kominn rökstuddur grunur um að varnaraðili hafi gerst sekur um háttsemi sem fangelsisrefsing er lögð við. Einnig er fallist á að tengsl varnaraðila við landið séu það takmörkuð að ætla megi að hann muni reyna að komast úr landi til að koma sér undan málsókn eða fullnustu refsingar sæti hann ekki farbanni á meðan málið er til meðferðar fyrir héraðsdómi. Að því virtu teljast upp fyllt skilyrði b - liðar 1. mgr. 95. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. laga nr. 88/2008, fyrir því að varnaraðila verði gert að sæta farbanni og er því jafnframt markaður hæfilega langur tími í hinum kærða úrskurði. Verður úrskurður héraðsdóms því staðfestur. Úrsku rðarorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur. Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2. júní 2021 Krafa Þess er krafist að X, kt. [ ... ], sæti farbanni með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur, til föstudagsins 1. október 2021, kl. 16:00. Þess er krafist að X, kt. [ ... ], sæti farbanni með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur frá því að afplánun hans lýkur fimmtudaginn 3. júní kl. 8:00, til föstudagsins 1. október 2021, kl. 16:00. Málsatvik Með ákæru héraðssaksóknara dagsettri 11. maí sl. höfðaði embættið sakamála á hendur ákærða og þremur öðrum fyrir manndráp. Er þeim gefið að sök að hafa laugardaginn 13. febrúar 2021, í félagi staðið saman að því að svipta A lífi. Ákærða X er gefið að sök að hafa ekið ásamt meðákærða Y að [ ... ] í Reykjavík og lagt við gatnamót [...] og [...] . Þegar bifreið A var ekið að heimili hans að [ ... ] , ók ákærði á eftir honum, hleypti meðákærða ú bifreiðinni framan við heimilið og ók sjálfur nokkrar húsalengdir þar sem hann snéri bifreiðinni og beið eftir Y. Y fór að húsinu og skaut A 9 skotum í l íkama og höfðu og gaf svo ákærða merki og kom hann þá og sótti Y og þeir óku í framhaldi út úr bænum og í [ ... ] með viðkomu í [ ... ] þar sem Y losaði sig við skammbyssu. Er vísað til fyrirliggjandi ákæru í málinu að því er nánari verknaðarlýsingu varðar. Ákæruvaldið byggir á því að um verkskipta aðild fjögurra ákærðu sé að ræða þar sem hvert um sig hafði ákveðnu hlutverki að gegna þótt það hafi verið meðákærði Y sem skaut A. Hlutverk hvers og eins hafi verið órjúfanlegur þáttur í þeirri atburðarás sem átti sér stað og þau beri því öll refsiábyrgð. Málið var þingfest í héraðsdómi Reykjavíkur 25. maí sl. og neitaði ákærði þá sök. Aðalmeðferð málsins mun fara fram 13. - 20. september nk. 3 Lagarök Ákæruvaldið byggir á því að ákærði sé undir rökstuddum grun um að h afa framið brot sem fangelsisrefsing liggur við. Hann hefur að mati ákæruvaldsins verið ótrúverðugur í framburði sínum hvað varðar atvik þann 13. febrúar sl. Hann kannast við að hafa ekið með meðákærða Y að heimili A en segist ekki hafa vitað hver bjó þar né hvað hafi staðið til. Er þessi framburður að mati ákæruvaldsins ótrúverðugur sérstaklega í ljósi þess að ákærði hafði komið á heimili A auk þess sem hann ók með meðákærða Z um fyrr um daginn og hafa þeir gefið ótrúverðurgar og osamhljóða skýringar á því. Þá liggur fyrir að daginn áður hitti ákærði meðákærða Y í þar sem hann og meðákærða Þ tók við tösku frá Y sem í var byssa og geymdi ákærði töskuna til laugardags. Hann hefur sagt að hann hafi ekki vitað hvað var í töskunni en það telu r ákæruvaldið ótrúverðugt. Þá er á það bent að meðákærði Y fór úr bílnum sem ákærði ók vopðnaður skammbyssu og hljóðdeyfi og kom til baka í bílinn með þetta samsett og setti á gólf bifreiðarinnar. Lengd byssunnar með hljóðdeyfi er rúmir 40 cm. og því ekki mjög trúverðugt að hann hafi ekkert séð né vitað hvað til stóð. Ákærði er nú í afplánun [...] og lýkur henni fimmtudaginn 3. júní nk. kl. 8:00. Hann er erlendur ríkisborgari og er honum gefið að sök mjög alvarlegt brot sem getur varða þungri fangelsisvist. Ákæruvaldið telur mikla hættu á því að ákærði muni reyna að komast úr landi til að koma sér undan málsókn eða fullnustu refsingar sæti hann ekki farbanni á meðan málið er til meðferðar fyrir héraðsdómi, sbr. b - lið 1. mgr. 95. gr. og 1. mgr. 100. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008. Niðurstaða Lögreglan hefur til rannsóknar manndráp sem talið er varða við 211. gr. almennra hegningarlaga, eins og nánar greinir í kröfu lögreglu. Meint brot varðar þungri óskilorðsbundinni fangelsisrefsingu e f sök sannast. Í málinu er rökstuddur grunur um að brotið hafi verið framið í samverknaði nokkurra og jafnvel með hlutdeild annarra líkt og gögn og umfang málsins bera með sér. Dómurinn telur framlögð gögn sýna ótvírætt að á ákærða hvíli rökstuddur grunur um aðild að þeim verknaði sem lögregla rannsakar. Það liggur fyrir að ákæra var gefin út á hendur kærða og sakamálið þingfest 25. maí sl. og aðalmeðferð er fyrirhuguð 13. september nk. Ákærði hefur setið í gæsluvarðhaldi frá 22. febrúar sl. á grundvelli rannsóknarhagsmuna og hóf síðan afplánun sem lýkur 3. júní nk. Sú krafa lögreglustjóra að ákærða verði nú gert að sæta farbanni byggist á rannsóknarhagsmunum svo og því að ákærði sé erlendur ríkisborgari og talin sé hætta á að hann muni reyna að komast úr landi. Samkvæmt 211. gr. almennra hegningarlaga varðar það fangelsi að svipta annan mann lífi. Hlutdeildarbrot varðar samkvæmt 22. gr. sömu laga sömu refsingu. Því er uppfyllt skilyrði 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008, svo sem áður hefur verið s taðfest í úrskurðum þessa dóms og Landsréttar. Dómurinn fellst á að ákærði kunni að geta torveldað rannsókn málsins eigi hann þess kost að komast úr landi á þessu stigi rannsóknarinnar. Þá er fallist á að ákærði, sem er erlendur ríkisborgari, kunni að reyna að komast úr landi eða leynast eða koma sér með öðrum hætti undan málsókn eða fullnustu refsingar haldi hann ótakmörkuðu ferðafrelsi. Því eru uppfyllt skilyrði a - og b - liðar 1. mgr. 95. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. laga nr. 88/2008 til þess að fallast megi á kröfuna. Helgi Sigurðsson kveður upp úrskurð þennan. Úrskurðarorð Kærði, sæta farbanni, þó ekki lengur en til föstudagsins 1. október 2021, kl. 16:00. Farbannið gildir frá því að afplánun kærða lýkur kl. 8:00 fimmtudaginn 3. júní 2021.