Mál nr. 564/2018

Ákæruvaldið (Guðrún Sveinsdóttir settur saksóknari)
gegn
X (Arnar Kormákur Friðriksson lögmaður)
Lykilorð
  • Kærumál.
  • Gæsluvarðhald.
  • 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.
Útdráttur

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Úrskurður Landsréttar

Landsréttardómararnir Arnfríður Einarsdóttir, Sigurður Tómas Magnússon og Þorgeir Ingi Njálsson kveða upp úrskurð í máli þessu.

Málsmeðferð og dómkröfur aðila

  1. Varnaraðili skaut málinu til Landsréttar með kæru 6. júlí 2018 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 9. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 5. júlí 2018 í málinu nr. R-[…]/2018 þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi þar til dómur gengur í máli hans en þó eigi lengur en til fimmtudagsins 2. ágúst 2018 klukkan 10. Kæruheimild er í l-lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.
  2. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími.
  3. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.

    Niðurstaða
  4. Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður fallist á að skilyrði áframhaldandi gæsluvarðhalds varnaraðila á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 séu uppfyllt. Ekki þykja efni til að marka gæsluvarðhaldinu skemmri tíma en gert er í úrskurði héraðsdóms, sbr. til dæmis dóma Hæstaréttar 30. nóvember 2012 í máli nr. 710/2012 og 25. júlí 2017 í máli nr. 475/2017.
  5. Samkvæmt þessu verður hinn kærði úrskurðar staðfestur.

Úrskurðarorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness fimmtudaginn 5. júlí 2018

 

Ríkissaksóknari hefur í dag gert kröfu um að ákærða, X, kt. […], verði gert að sæta áfram gæzluvarðhaldi þar til dómur gangi í máli hans en þó ekki lengur en til fimmtudagsins 2. ágúst  kl. 10:00.

Ákærði mótmælir kröfu ríkissaksóknara og krefst þess að henni verði hafnað en til vara að gæzluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.

Í greinargerð með kröfunni kemur fram að þann 13. apríl sl. hafi héraðssaksóknari gefið út ákæru á hendur ákærða fyrir ítrekuð  og langvarandi kynferðisbrot gegn börnum og nauðganir.

Ákærði sé meðal annars ákærður fyrir að hafa í fjölmörg skipti á tímabilinu 1998 til 2004 eða 2005, haft önnur kynferðismök, við nafngreindan dreng, er hann hafi verið 6 ára til 12 eða 13 ára gamall og fyrir að hafa í fjölmörg skipti á tímabilinu 2004-2010 haft önnur kynferðismök við annan nafngreindan dreng, er hann hafi verið 7 til 13 ára gamall. Þá sé ákærði ákærður fyrir að hafa í eitt skipti, á tímabilinu 2005 til 2008, þegar nafngreind stúlka hafi verið 7-10 ára gömul, haft önnur kynferðismök við hana og fyrir að hafa í eitt skipti haft önnur kynferðismök við þriðja nafngreinda drenginn, á árunum 2002 eða 2003, þegar hann hafi verið 13 eða 14 ára gamall. Sé ákærði ákærður fyrir að hafa nýtt sér yfirburði sína gagnvart börnunum og traust  þeirra og trúnað sem fjölskylduvinur eða skyldmenni er hafi verið trúað fyrir þeim til kennslu og uppeldis auk þess að beita þau ofbeldi og/eða notfæra sér ástand þeirra. Samkvæmt ákærunni hafi brotin átt sér jafnan stað þegar börnin hafi gist í rúmi ákærða á heimili hans en í nokkrum tilvikum á öðrum vettvangi.

Þá sé ákærði ákærður fyrir að hafa nauðgað nafngreindum manni, árið 2006, er hann hafi gist í rúmi ákærða að […] í Reykjavík, með því að hafa við hann önnur kynferðismök, án samþykkis hans, með því að beita hann ofbeldi og ólögmætri nauðung auk þess að notfæra sér að hann gat ekki spornað við háttseminni sökum andlegrar fötlunar.

Séu framangreind brot talin varða við 1. og 2. mgr. 194. gr. og 1. og 2. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og geta varðað allt að 16 ára fangelsi.

Við rannsókn málanna hafi ákærði neitað sök. Framangreind ákæra hafi verið þingfest þann 11. maí, sbr. mál héraðsdóms Reykjaness nr. S-[…]/2018. Ákærði hafi fengið frest til að skila greinargerð til 1. júní. Málið hafi verið dómtekið að lokinni aðalmeðferð 29. júní. Ákæruvaldið vænti þess að dómur verði kveðinn upp í málinu fljótlega, sbr. 1. mgr. 184. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008.

Ákærða hafi upphaflega verið gert að sæta gæzluvarðhaldi á grundvelli rannsóknarhagsmuna frá 19. janúar til 16. febrúar. Frá þeim tíma hafi ákærði sætt gæsluvarðhaldi á grundvelli almannahagsmuna skv. úrskurðum héraðsdóms Reykjaness, sbr. síðast úrskurð héraðsdóms Reykjaness í máli nr. […]/2018 frá 7. júní sl. Úrskurðirnir hafi allir verið staðfestir af Landsrétti, sbr. síðast úrskurð Landsréttar í máli nr. 423/2018 frá 16. maí 2018, fyrir utan þann síðasta en hann hafi ekki verið kærður.

Að mati ríkissaksóknara sé ákærði undir sterkum grun um ítrekuð og langvarandi kynferðisbrot eins og í ákæru greini. Ákært hafi verið meðal annars fyrir ítrekuð brot gegn 1. og 2. mgr. 194. gr. og 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga, en brot gegn ákvæðunum geti varðað allt að 16 ára fangelsi. Að mati ákæruvaldsins séu brotin þess eðlis að nauðsynlegt sé, með tilliti til almannahagsmuna, að tryggja áfram að kærði gangi ekki laus á meðan mál hans séu til meðferðar hjá dómstólum. Dómstólar hafi ítrekað talið skilyrði gæzluvarðhalds á grundvelli almannahagsmuna vera fyrir hendi í málum ákærða. Samþykkt hafi verið að ætluð brot ákærða séu þess eðlis að það stríði gegn réttarvitund almennings að gangi hann laus meðan mál hans séu til meðferðar. Ekkert nýtt hafi komið fram í málunum sem breytt geti því mati dómstóla.

Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála sé þess krafist að krafan nái fram að ganga.

 

Ákærði krefst þess að kröfu ríkissaksóknara verði hafnað en til vara að gæzluvarðhaldi verði markaður skemmri tími. Segir að hann að ekki sé lengur fyrir hendi sterkur grunur um að hann hafi framið þau brot sem hann hafi verið sakaður um. Þá hafi hann nú sætt gæzluvarðhaldi í langan tíma.

Samkvæmt úrskurði Landsréttar í máli nr. 423/2018, uppkveðnum 16. apríl maí, leikur sterkur grunur á að ákærði hafi framið afbrot sem að lögum getur varðað 10 ára fangelsi. Með úrskurðinum var því jafnframt slegið föstu að fullnægt væri skilyrðum 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 til þess að ákærði sætti gæzluvarðhaldi.  Sakamál hefur verið höfðað á hendur ákærða fyrir brot gegn 1. og 2. mgr. 194. gr. og 1. og 2. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en meint brot ákærða varða allt að 16 ára fangelsi. Málið hefur nú verið dómtekið.

Ekkert hefur fram komið í málinu sem gefur til kynna að þau sjónarmið sem framangreindu úrskurður Landsréttar var reistur á eigi ekki lengur við. Samkvæmt því og með vísan til þess sem að ofan segir þykir vera fullnægt skilyrðum 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 til þess að ákærða verið gert að sæta gæzluvarðhaldi. Krafan verður því tekin til greina eins og nánar greinir í úrskurðarorði.

Af hálfu ríkissaksóknara gerði kröfuna Guðrún Sveinsdóttir settur saksóknari.

Úrskurð þennan kveður upp Þorsteinn Davíðsson héraðsdómari. 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Ákærði, X, sæti gæzluvarðhaldi þar til dómur gengur í máli hans en þó ekki lengur en til fimmtudagsins 2. ágúst 2018 kl. 10:00.