Mál nr. 414/2018

Wow air ehf. (Einar Gautur Steingrímsson lögmaður)
gegn
Hótel Keflavík ehf. (enginn)
Lykilorð
 • Kærumál.
 • Kærumálsgögn.
 • Frestur.
 • Frávísun frá Landsrétti.
Útdráttur

Málinu var vísað frá Landsrétti þar sem kærumálsgögn voru ekki afhent réttinum innan tveggja vikna frests 3. mgr. 147. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Úrskurður Landsréttar

Landsréttardómararnir Kristbjörg Stephensen, Sigurður Tómas Magnússon og Vilhjálmur H. Vilhjálmsson kveða upp úrskurð í máli þessu.

Málsmeðferð og dómkröfur aðila

 1. Sóknaraðili skaut málinu til Landsréttar með kæru 7. maí 2018 en kærumálsgögn bárust Landsrétti 22. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 24. apríl 2018 í málinu nr. E-[…]/2017, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um dómkvaðningu tveggja matsmanna. Kæruheimild er í c-lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
 2. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og fallist á kröfur hans um að dómkvaddir verði tveir matsmenn í samræmi við matsbeiðni sem hann lagði fram í þinghaldi 27. febrúar síðastliðinn. Þá er krafist kærumálskostnaðar.
 3. Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Landsrétti.

  Niðurstaða
 4. Samkvæmt 3. mgr. 147. gr. laga nr. 91/1991 skal sá sem kærir úrskurð senda Landsrétti innan tveggja vikna frá því að kæra hans barst héraðsdómi þau gögn málsins í fjórriti sem hann telur sérstaklega þörf á til úrlausnar um kæruefnið. Í 4. mgr. 147. gr. sömu laga er svo fyrir mælt að afhendi sá sem kærir úrskurð ekki kærumálsgögn til Landsréttar innan þess frests sem greinir í 3. mgr. sömu lagagreinar verði ekki frekar af máli.
 5. Eins og að framan segir barst héraðsdómi kæra sóknaraðila 7. maí 2018 en hann skilaði fyrst kærumálsgögnum til Landsréttar 22. sama mánaðar en þá var liðinn sá frestur sem kveðið er á um í 3. mgr. 147. gr. laga nr. 91/1991. Af þeim sökum verður ekki hjá því komist að vísa máli þessu sjálfkrafa frá Landsrétti, sbr. 4. mgr. sömu lagagreinar.
 6. Ekki verður úrskurðað um kærumálskostnað.

Úrskurðarorð:

Máli þessu er vísað frá Landsrétti.

Kærumálskostnaður fellur niður.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 24. apríl 2018

Mál þetta, sem var tekið til úrskurðar 3. apríl sl., um ágreining vegna kröfu um dómkvaðningu matsmanna, er höfðað af Hótel Keflavík ehf., Vatnsnesvegi 12, Reykjanesbæ, á hendur Wow air ehf., Katrínartúni 2, Reykjavík, með stefnu birtri 10. apríl 2017.

Í þessum úrskurði er til úrlausnar krafa stefnda, sóknaraðila í máli þessu, um dómkvaðningu matsmanna.

Varnaraðili krefst þess að kröfu um dómkvaðningu matsmanna verði hafnað.

Báðir aðilar krefjast þess að ákvörðun málskostnaðar bíði endanlegs dóms í málinu.

II

Dómkröfur varnaraðila í efnisþætti málsins eru þær að sóknaraðili verði dæmdur til að greiða varnaraðila skuld að fjárhæð 31.487.776 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, af 663.806 krónum frá 24. júlí 2016 til 26. júlí 2016, af 4.499.935 krónum frá 26. júlí 2016 til 27. júlí 2016, af 20.850.489 krónum frá 27. júlí 2016 til 28. júlí 2016, af 27.059.003 krónum frá 28. júlí 2016 til 29. júlí 2016, og af 31.487.776 krónum frá 29. júlí 2016 til greiðsludags. Þá krefst varnaraðili þess að sóknaraðili verði dæmdur til greiðslu málskostnaðar samkvæmt mati dómsins eða samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi.

Sóknaraðili krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af öllum kröfum varnaraðila en til vara að þær verði lækkaðar verulega. Í báðum tilvikum er gerð sú krafa að varnaraðili verði dæmdur til að greiða sóknaraðila málskostnað, að mati dómsins, að skaðlausu.

III

Í þinghaldi 27. febrúar sl. lagði lögmaður sóknaraðila fram matsbeiðni, dagsetta sama dag. Þar var þess óskað að dómkvaddir yrðu tveir hæfir og óvilhallir matsmenn, sbr. 61. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991, til að meta neðangreint:

Varðandi farþega sem stefnandi krefst greiðslu fyrir:

 1. Hvaða farþega, sem stefnandi krefst greiðslu fyrir í málinu, þjónustaði stefnandi í raun.
 2. Hvaða þjónustu fékk hver farþegi með tilliti til fjölda gistinátta og máltíða.
 3. Hvar fór sú þjónusta fram sem hverjum farþega var veitt.
 4. Var sú þjónusta, gisting og máltíðir, sem farþegar fengu á öðrum hótelum en hjá stefnda, sambærileg að gæðum við þá þjónustu sem stefnandi veitir. Ef ekki, í hverju voru frávikin fólgin.

 Varðandi farþega í gagnkröfu stefnda til skuldajöfnunar:

 1. Hvaða farþega, sem stefndi hefur greitt fyrir á grundvelli reikninga nr. […], […] og […], þjónustaði stefnandi í raun.
 2. Hvaða þjónustu fékk hver farþegi með tilliti til fjölda gistinátta og máltíða.
 3. Hvar fór sú þjónusta fram sem hverjum farþega var veitt.
 4. Var sú þjónusta, gisting og máltíðir, sem farþegar fengu á öðrum hótelum en hjá stefnda sambærileg að gæðum við þá þjónustu sem stefnandi sjálfur veitir. Ef ekki, í hverju voru frávikin fólgin. 

IV

Varnaraðili höfðaði mál þetta til innheimtu 13 reikninga sem allir voru gefnir út á árinu 2016, samtals að fjárhæð 31.487.776 krónur. Reikningarnir hafa verið lagðir fram í máli þessu og eru þeir í samræmi við kröfugerð stefnanda. Í stefnu kemur fram að krafan sé vegna viðskipta sóknaraðila við varnaraðila og séu reikningarnir vegna hótelgistingar, fæðiskostnaðar og aksturs farþega sóknaraðila. Varnaraðili byggir á því að þjónustan hafi verið veitt að beiðni sóknaraðila og hefur lagt fram gögn, m.a. tölvuskeyti, því til stuðnings. Sóknaraðili byggir varnir sínar á atriðum er varða réttmæti þeirra reikninga sem hér er krafist greiðslu á og byggir hann sýknukröfu sína m.a. á því að hann eigi gagnkröfu á hendur varnaraðila, til skuldajafnaðar.

Í tilefni af framlagningu matsbeiðni lagði varnaraðili fram bókun í þinghaldi 7. mars 2018 þar sem hann gerir athugasemdir við matsbeiðni og telur að hafna beri kröfu um að dómkvaðningu matsmanna. Þar kemur fram að það sé mat varnaraðila að með matsbeiðni sé sóknaraðili að óska eftir mati á atriðum sem ekki sé þörf á sérfræðiþekkingu til að skera úr um heldur verði að ætla að dómara beri sjálfum að leggja mat á, enda krefjist mat á veittri þjónustu eingöngu almennrar þekkingar, sbr. 2. mgr. 60. gr. laga nr. 91/1991. Þá liggi fyrir í málinu upplýsingar um veitta þjónustu af hálfu varnaraðila sem veitt hafi verið með sama hætti og tíðkast hafði í athugasemdalausu viðskiptasambandi aðila um langt skeið. Engar upplýsingar liggi fyrir í málinu um farþega sem hingað til lands komu og ekki fengu veitta þjónustu stefnanda. Óumdeilt sé að sóknaraðili óskaði eftir því að varnaraðili útvegaði gistingu, fæði og akstur vegna allra farþega sem reikningar varnaraðila varða og að varnaraðili afpantaði í engum tilvikum þá þjónustu. Ekki verði þannig annað séð en að mat sóknaraðila á þeim atriðum er matsbeiðnin lýtur að sé þýðingarlaust með öllu fyrir úrlausn dómsins um dómkröfu varnaraðila samkvæmt stefnu, sbr. 3. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991. Þá telur varnaraðili jafnframt að matsbeiðni sóknaraðila í heild sinni fullnægi ekki áskilnaði 1. mgr. 61. gr. laganna um að skýrlega komi fram í matsbeiðni hvað meta eigi og hvað aðili hyggist sanna með mati. Matsbeiðni sóknaraðila varði þannig ekki sanngirni fjárhæðar vegna endurgjalds fyrir þjónustu varnaraðila líkt og varnir sóknaraðila hefðu gefið tilefni til að æskja mats á.

V

Sóknaraðili byggir á því að tilgangurinn með matsbeiðninni sé að skjóta stoðum undir fullyrðingar sínar um að sóknaraðili krefjist greiðslu fyrir þjónustu sem hann hafi ekki veitt og að reikningagerð stefnanda sé óréttmæt og ósanngjörn. Sé varnaraðili að krefjast greiðslu fyrir farþega sem ekki komu til landsins og voru þar af leiðandi ekki þjónustaðir, fyrir tvær gistinætur þegar farþegar voru einungis eina nótt hér á landi, fyrir máltíðir sem aldrei voru veittar og að fjárhæðin sem krafist er greiðslu á sé ósanngjörn með tilliti til gæða þjónustunnar. Tilgangurinn sé jafnframt að fá sjálfstæða rannsókn óvilhallra matsmanna á framangreindum þáttum. Hugtakið matsgerð taki bæði til álitsgerða sérfróðra manna en einnig til lýsinga á matsandlagi og rannsókna á því, sbr. 1. mgr. 60. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og falli matsbeiðnin því vel að efni hennar.

Vísar sóknaraðili til þess að unnt sé að framkvæma matið. Annars vegar þurfi sérfræðing í gagnavinnslu og/eða tölvukerfum til þess að skoða farþegaskrár, skrár yfir hótelgesti og upplýsingar um dvalartíma farþega hér á landi. Hins vegar þurfi sérfræðing í gæðamati á hótelum til að gera samanburðinn. Yrði það auðunnið verk þar sem notaðir yrðu alþjóðlegir og þekktir staðlar í þeim efnum.

Þá byggir sóknaraðili á því að undir rekstri matsmáls sé hugsanlegt að skýrslutökur þurfi að fara fram samkvæmt 4. málslið 2. mgr. 62. gr. laga nr. 91/1991. Það geti ráðist af því hversu fúsir varnaraðili eða starfsmenn annarra hótela séu til að gefa matsmönnum nauðsynlegar upplýsingar eða eftir atvikum að mæta á matsfund og gefa upplýsingar. Það kunni að vera nauðsynlegt að kalla vitni fyrir dóm á grundvelli 5. mgr. 51. gr. laga nr. 91/1991.

Sóknaraðili bendir á að í stefnu sé á því byggt að óumdeilt sé að varnaraðili hafi veitt þá þjónustu sem reikningar varða en þessari fullyrðingu mótmæli hann þar sem reikningar séu einnig vegna farþega sem aldrei komu.

Þá byggi sóknaraðili á því í greinargerð að fjárhæðir reikninga séu ósanngjarnar í skilningi 45. gr. laga um lausafjárkaup nr. 50/2000 og byggi varnaraðili öðrum þræði á því ákvæði í stefnu, þ.e. að um eðlilegt gangverð þjónustu sé að ræða. Því þurfi að líta til efnisatriða ákvæðisins, þ.e. hvort verðið sé sanngjarnt, og að þessu lúti matsgerðin. Aðilar deili um það hvort verðið endurspegli þá þjónustu sem var veitt. Í greinargerð hafi hann gert athugasemd við einstaka reikninga og sé matsmanni ætlað að leiða í ljós hvort umdeildar staðhæfingar er varða reikninga séu réttar eða ekki. Ekki sé hægt að leggja fram gögn um þau atriði sem þarf að skoða, fara þurfi á vettvang, kanna hvar fólk var og lesa úr tölvukerfum. Mikil rannsóknarvinna þurfi að fara fram. Þá reyni á það eftir að matsvinna hefst hvort nauðsynlegt sé að einhver skýrslutaka fari fram.

Þá gerir sóknaraðili athugasemd við bókun varnaraðila þar sem fram komi að dómari leggi mat á atriði á grundvelli þekkingar. Forræði sönnunarfærslu sé hjá aðilum og sé það ekki hlutverk dómara að afla gagna, eins og gert sé með öflun matsgerðar, eða að leggja mat á það hvort þörf sé á því að afla gagna. Ekki sé byggt á því í lögum um meðferð einkamála að matsmenn séu sérfróðir heldur að þeir hafi nauðsynlega kunnáttu, sbr. 2. mgr. 61. gr. laganna. Þá sé gert ráð fyrir því í 1. mgr. 60. gr. laganna að lýsingar á hlutum falli undir matsgerðir og undir það falli t.d. að fara í tölvu til að sækja gögn en það verði ekki gert í dómsal. Þá bendir sóknaraðili á að í málatilbúnaði varnaraðila, t.d. bókun, komi fram að hann telji að ekki liggi fyrir neinar upplýsingar um þetta. Hér sé ekki um að ræða atriði sem dómari geti á grundvelli almennar þekkingar lagt mat á né heldur geti hann lagt mat á gæði þjónustu. Þörf sé á matinu til að sanna umdeildar staðreyndir og einnig til að leggja mat á gæði þannig að ákvæði 45. gr. laga um lausafjárkaup verði beitt.

VI

Varnaraðili mótmælir þeim málatilbúnaði sóknaraðila sem beiðnin byggir á og krefst þess að henni verði hafnað. Telur varnaraðili að beiðnin fullnægi ekki áskilnaði hvað varðar tilgreiningu á því hvað meta eigi og hvað sanna eigi með mati. Bendir hann sérstaklega á að það varði ekki sanngirni verðs fyrir þjónustu eins og áskilið sé í greinargerð. Einnig vísar varnaraðili kröfu sinni til stuðnings til bókunnar sem lögð var fram í þinghaldi 7. mars 2018.

Þá byggir varnaraðili kröfu sína á því að ekki sé ágreiningur um það milli aðila að þjónustan sem reikningarnir byggja á hafi verið pöntuð og að gögn hafi verið lögð fram um það og um samskipti aðila á þessu tímabili. Þá hafi engin gögn komið fram um afpöntun á þessu tímabili. Um hafi verið að ræða neyðarþjónustu sem veitt hafi verið á háannatíma. Beri sóknaraðila að greiða fyrir þjónustuna hvort sem hann nýtti sér hana eða ekki. Það liggi því fyrir nægileg gögn til að tekin verði afstaða til sakarefnis og því sé þarflaust að afla frekari gagna hvað þetta varðar. Þá sé hægt að afla frekari gagna með skýrslutökum við aðalmeðferð málsins en matsbeiðnin sé þýðingarlaus.

Einnig bendir varnaraðili á að matsbeiðni sé þýðingarlaus þar sem þegar liggi fyrir gögn til að taka afstöðu til kröfunnar og ekki fáist séð að þau gögn sem afla eigi komi til með að hafa áhrif á niðurstöðu málins, og vísar hann máli sínu til stuðnings til 3. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Þá sé ekki þörf á sérþekkingu til að leysa úr álitaefnum heldur dugi til þess almenn þekking dómara.

Þá telur varnaraðili að matsbeiðnin fullnægi ekki áskilnaði 1. mgr. 61. gr. laga nr. 91/1991 hvað varði lýsingu á því hvað eigi að meta og hvað sóknaraðili hyggist sanna með þeim hætti. Matsbeiðnin lúti ekki að því að meta sanngjarnt verð fyrir þjónustu í samræmi við málatilbúnað. Loks beri dómara á grundvelli 3. mgr. 46. gr. laganna að meta hvort gagn sé tilgangslaust til sönnunar.

VII

Samkvæmt 1. mgr. 61. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála getur dómari kvatt til einn eða tvo matsmenn til að framkvæma mat eftir skriflegri beiðni aðila. Í beiðni skal koma skýrlega fram hvað eigi að meta, hvar það er sem meta á og hvað aðili hyggist sanna með mati. Það á þó ekki við ef svo stendur á sem greinir í 2. og 3. mgr. 60. gr. sömu laga, þ.e. ef dómari leggur sjálfur mat á atriði sem krefjast almennrar þekkingar og menntunar eða lagaþekkingar eða ef opinber starfsmaður hefur verið skipaður í eitt skipti fyrir öll til að meta tiltekin atriði. Samkvæmt 3. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991 getur dómari meinað aðila sönnunarfærslu ef hann telur bersýnilegt að atriði, sem aðili vill sanna, skipti ekki máli eða að gagn sé tilgangslaust til sönnunar.

Varnaraðili byggir á því að beiðni um dómkvaðningu matsmanns sé of seint fram komin og því beri að hafna henni. Eins og ráðið verður af 1. mgr. 80. gr. og 2. mgr. 99. gr. laga nr. 91/1991 skulu aðilar einkamáls tefla fram kröfum og öðrum atriðum er varða málatilbúnað þeirra, þ. á m. sönnunargögnum, eins fljótt og kostur er. Jafnframt er leitast við í lögunum að sporna við því að aðilar geti upp á sitt eindæmi eða með sammæli sín á milli dregið mál á langinn að óþörfu. Styðst sú meginregla að hraða beri máli eftir föngum ekki einungis við hagsmuni málsaðila heldur búa einnig að baki henni ríkir almannahagsmunir. Í samræmi við það sem mælt er fyrir um í 2. mgr. 102. gr. laganna skulu aðilar nota fresti, sem dómari veitir þeim undir rekstri málsins, jöfnum höndum til að leita sátta og til að afla frekari gagna. Mál þetta var höfðað með stefnu birtri 10. apríl 2017 eða fyrir um ári. Varnaraðili nýtti sér heimild 4. málsliðar 2. mgr. 99. gr. laga nr. 91/1991 til að leggja fram greinargerð einungis um frávísunarkröfu. Eftir að þeirri kröfu var hafnað lagði varnaraðili fram greinargerð vegna efnisvarna sinna 21. nóvember 2017 og var beiðni um dómkvaðningu matsmanns lögð fram í þinghaldi 27. febrúar s.l. Með vísan til þessa er það mat dómsins að eins og á standi sé beiðni sóknaraðila um dómkvaðningu matsmanns ekki of seint fram komin og verður henni ekki hafnað af þeim sökum.

Þá telur varnaraðili að matsbeiðni sóknaraðila í heild sinni fullnægi ekki áskilnaði 1. mgr. 61. gr. laga nr. 91/1991 um að skýrlega skuli koma fram í matsbeiðni hvað meta eigi og hvað aðili hyggist sanna með mati. Samkvæmt matsbeiðni þá lagði sóknaraðili fram beiðni um dómkvaðningu matsmanna til að tryggja sér sönnun annars vegar á því hvort sú þjónusta sem krafist er greiðslu fyrir hafi verið notuð og hins vegar hvort gæði þjónustu sem veitt hafi verið annars staðar en á hóteli varnaraðila hafi verið sambærileg þjónustunni á hótelinu hvað varðar gæði og ef svo var ekki í hverju frávikin voru fólgin. Málsaðilar hafa samkvæmt 1. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991 forræði á sönnunarfærslu í einkamálum og ráða því þar með hvernig þeir færa sönnun fyrir umdeildum atvikum. Í samræmi við það hefur aðilum verið veittur víðtækur réttur til að afla matsgerða til að færa sönnur á staðhæfingar sínar. Sá réttur takmarkast hins vegar af öðrum meginreglum einkamálaréttarfars. Málsaðilar hafa lagt fram gögn til stuðnings málsástæðum sínum, m.a. tölvuskeyti þar sem þjónusta var pöntuð fyrir nafngreinda einstaklinga. Verður ekki talið að þau gögn sem aflað yrði úr tölvukerfum aðila eða önnur gögn sem fengin yrðu samkvæmt mati á grundvelli matsspurninga nr. 1-3 og 5-7 geti bætt einhverju við þá sönnunarfærslu sem verði fengið með því að kalla þá, sem byggt er á að hafi nýtt sér þjónustuna, eða aðra sem um það geta borið, fyrir dóminn sem vitni. Þegar af þeirri ástæðu verður að telja að öflun matsgerðar í þessu skyni sé bersýnilega tilgangslaus til sönnunar eins og á stendur í máli þessu, sbr. 3. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991.

Þá byggir varnaraðili á því að hafna beri seinni hluta matsspurningar, eða matsspurningum 5 og 8, þar sem hún varði ekki fjárhæð sanngjarns endurgjalds fyrir þjónustu varnaraðila líkt og varnir sóknaraðila hefðu gefið tilefni til að æskja mats á heldur gæði. Eins og rakið hefur verið skal, samkvæmt 1. mgr. 61. gr. laga nr. 91/1991, koma skýrlega fram í beiðni hvað eigi að meta, hvar það sé sem meta eigi og hvað aðili hyggist sanna með mati.

Sóknaraðili vísar í greinargerð til meginreglu 45. gr. laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup hvað varðar lækkun kröfu og byggir á því að fjárhæð reikninga og fjárhæð einstakra liða sé ósanngjörn og beri að lækka. Byggir hann á því að kröfur varnaraðila séu ekki sanngjarnar m.t.t. gangverðs sambærilegrar þjónustu, bæði almennt séð og hvað varðar umfang viðskiptanna. Hafnaði sóknaraðili því sérstaklega að öll hótelin sem varnaraðili notaði hefðu verið sambærileg að gæðum við hótel stefnanda og vísaði einnig til þess að fjárhæð einstakra þjónustuliða hafi verið mun hærri en samkvæmt verðskrá. Af þessu má ætla að með matsgerðinni hyggist sóknaraðili færa sönnur fyrir málsástæðum sínum með hliðsjón af þeim viðmiðum sem tilgreind eru í 45. gr. laga nr. 50/2000. Í ákvæðinu segir að ef kaup eru gerð án þess að kaupverðið leiði af samningi skuli kaupandi greiða fyrir söluhlut það gangverð sem er á sams konar hlutum, seldum við svipaðar aðstæður, við samningsgerðina, enda sé verðið ekki ósanngjarnt. Ef ekki er um neitt slíkt gangverð að ræða skal kaupandi greiða það verð sem sanngjarnt er miðað við eðli hlutar, gæði hans og atvik að öðru leyti. Ljóst er að ef fram fer mat í samræmi við seinni hluta matsspurningar verður ekki með því svarað þeirri spurningu hvert sé sanngjarnt endurgjald fyrir þjónustu, eins og varnir sóknaraðila byggja á. Þegar af þeirri ástæðu verður einnig að telja að öflun matsgerðar í þessu skyni sé bersýnilega tilgangslaus til sönnunar eins og á stendur í máli þessu, sbr. 3. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991.

Það er mat dómara, með hliðsjón af framangreindu, að ekki séu skilyrði til að fallast á beiðni sóknaraðila um dómkvaðningu matsmanna og er henni því synjað.

Sigríður Elsa Kjartansdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Kröfu matsbeiðanda, Wow air ehf., um dómkvaðningu tveggja matsmanna er synjað.