Mál nr. 326/2018

J.A.M. van Raamsdonk (Einar Gautur Steingrímsson lögmaður)
gegn
LBI ehf. (Guðmundur Óli Björgvinsson lögmaður)
Lykilorð
 • Kærumál.
 • slit.
 • Fjármálafyrirtæki.
 • Kröfulýsingarfrestur.
Útdráttur

J lýsti kröfu við slit LBI ehf. eftir að kröfulýsingarfrestur rann út. Ágreiningur aðila laut að því hvort undanþáguheimild 2. töluliðar 118. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., ætti við í málinu. Fram kom að LBI ehf. hefði verið rétt að senda J, sem var búsettur erlendis, tilkynningu um slitameðferðina í samræmi við 1. mgr. 86. gr. laga nr. 21/1991. Talið var ósannað að tilkynningar frá umsjónarmönnum neyðarmeðferðar á útibúi bankans í Amsterdam, með upplýsingum um slitameðferð hans, hefðu komist til vitundar J.  Ekki var fallist á það að J hefði í ljósi auglýsinga og umfjöllunar í hollenskum fjölmiðlum mátt gera sér grein fyrir því að LBI ehf. væri í slitameðferð á Íslandi og að hann þyrfti að lýsa kröfu sinni fyrir slitastjórn hér á landi til að hún félli ekki niður. Var því fallist á að J hafi hvorki verið kunnugt né mátt vera kunnugt um gjaldþrotaskipti LBI ehf. innan kröfulýsingarfrests. Þá var talið að J hefði lýst kröfu sinni án ástæðulausra tafa eftir að hann fékk vitneskju um slitameðferðina. Var því fallist á að krafa J kæmist að við slitameðferð LBI ehf.

Úrskurður Landsréttar

Landsréttardómararnir Ásmundur Helgason, Hervör Þorvaldsdóttir og Ragnheiður Harðardóttir kveða upp úrskurð í máli þessu.


Málsmeðferð og dómkröfur aðila

 1. Sóknaraðili skaut málinu til Landsréttar með kæru 3. apríl 2018. Kærumálsgögn bárust réttinum 17. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 20. mars 2018, í málinu nr. X-277/2015, þar sem kröfu sem sóknaraðili lýsti við slit varnaraðila var hafnað. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl. 
 2. Sóknaraðili krefst þess að krafa hans að fjárhæð 54.394,18 evrur verði viðurkennd við slit varnaraðila með stöðu í réttindaröð samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
 3. Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

  Niðurstaða
 4. Málsatvik eru rakin í úrskurði héraðsdóms auk þess sem þar er gerð grein fyrir röksemdum aðila fyrir þeim kröfum sem þeir gera í málinu. Eins og þar kemur fram barst kröfulýsing sóknaraðila vegna forgangskröfu samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991 eftir að fresti samkvæmt 2. mgr. 85. gr. sömu laga lauk við slit varnaraðila. Um afleiðingar þess fer eftir 118. gr. laganna, sbr. 4. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki. Í ákvæðinu kemur fram sú meginregla að krafa falli þá niður gagnvart þrotabúi nema við tilteknar aðstæður sem þar er lýst í sex töluliðum. Í máli þessu greinir aðila á um hvort fullnægt sé skilyrðum 2. töluliðar ákvæðisins. Þar kemur fram að krafa falli ekki niður þótt kröfulýsing berist eftir kröfulýsingarfrest ef kröfuhafinn er búsettur erlendis og honum hafi hvorki verið kunnugt né mátt vera kunnugt um gjaldþrotaskiptin, enda sé kröfunni lýst án ástæðulausra tafa og áður en boðað er til skiptafundar um frumvarp til úthlutunar úr búinu.
 5. Sóknaraðili er búsettur erlendis auk þess sem enginn ágreiningur er um að krafan hafi borist áður en boðað var til þess skiptafundar sem vísað er til í niðurlagi 2. töluliðar 118. gr. laga nr. 21/1991. Lýtur ágreiningur aðila aðallega að því hvort sóknaraðila hafi verið kunnugt eða mátt vera kunnugt um skiptin á búi varnaraðila. Að því frágengnu greinir aðila á um hvort kröfunni hafi verið lýst án ástæðulausra tafa eftir að sóknaraðila varð það kunnugt.
 6. Gögn málsins bera með sér að sóknaraðili hafi átt innstæðu að fjárhæð 150.000 evrur auk áfallinna vaxta á Icesave-reikningi í útibúi varnaraðila í Amsterdam 7. október 2008 þegar Fjármálaeftirlitið á Íslandi beitti heimild samkvæmt 100. gr. a í lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008, tók yfir stjórn bankans og skipaði honum skilanefnd. Hinn 13. sama mánaðar féllst héraðsdómur í Amsterdam á kröfu De Nederlandsche Bank NV (DNB) um að útibú varnaraðila í Amsterdam skyldi sæta sérstakri neyðarmeðferð næstu 18 mánuði samkvæmt ákvæðum hollenskra laga um fjármálaeftirlit. Tveir nafngreindir lögmenn voru skipaðir umsjónarmenn meðferðarinnar. Sama dag virkjaði DNB hollenska innstæðutryggingakerfið í þágu innstæðueigenda í Icesave í Hollandi.
 7. Umsjónarmenn neyðarmeðferðarinnar í Hollandi munu hafa sinnt lögboðinni upplýsingaskyldu sinni gagnvart innstæðueigendum og öðrum kröfuhöfum meðal annars með því að senda tölvuskeyti til þekktra kröfuhafa útibúsins. Í málinu liggur fyrir tilkynning frá þeim 18. nóvember 2008, sem ber yfirskriftina Upplýsingabréf nr. 1 (Informatiebullitin nr. 1). Þar kemur fram að innstæðueigendur þurfi ekki að lýsa kröfum sínum heldur eigi það að gerast sjálfvirkt enda samþykki innstæðueigandinn uppgefna lokainnstæðu. Þar er einnig upplýst að sækja þurfi sérstaklega til DNB um greiðslu úr hollenska innstæðutryggingakerfinu. Fái innstæðueigendur ekki lokainnstæðu sína greidda að öllu leyti úr innstæðutryggingakerfinu  segir í bréfinu að þeir njóti áfram stöðu kröfuhafa vegna eftirstöðvanna gagnvart útibúi varnaraðila í Amsterdam, en að nánari upplýsingar verði veittar um það síðar.
 8. Í gögnum málsins kemur fram að sóknaraðili hafi 1. desember 2008 sótt um greiðslu 150.000 evra, auk 1.526,71 evru í vexti, úr hollenska innstæðutryggingakerfinu. DNB mun hafa greitt honum 100.000 evrur 20. janúar 2009 en það svaraði til þeirrar hámarksgreiðslu sem íslenska og hollenska innstæðutryggingakerfið tryggði. Af þessu verður ekki dregin önnur ályktun en að sóknaraðila hafi á þessum tíma verið kunnugt um ógjaldfærni varnaraðila. Miðað við þær upplýsingar sem þá lágu fyrir var sóknaraðili eftir sem áður í góðri trú um að hann ætti kröfu í útibú varnaraðila í Amsterdam fyrir eftirstöðvunum og þyrfti ekki að bregðast frekar við til að fylgja henni eftir.
 9. Eins og rakið er í úrskurði héraðsdóms hófst slitameðferð varnaraðila með skipun slitastjórnar 29. apríl 2009. Degi síðar gaf slitastjórn út innköllun til kröfuhafa, sem var birt í Lögbirtingablaði sama dag, og var kröfulýsingafrestur sex mánuðir frá þeim degi. Tilkynningar til kröfuhafa um innköllun voru einnig birtar í erlendum fjölmiðlum, þar á meðal í tveimur hollenskum dagblöðum 5. og 8. júní 2009, auk þess sem auglýsingin var birt í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins 5. júní 2009.
 10. Umsjónarmenn neyðarmeðferðar á útibúi varnaraðila í Amsterdam vöktu athygli kröfuhafa útibúsins á slitameðferð varnaraðila á Íslandi í Upplýsingabréfi nr. 3 (Informatiebulletin nr. 3) 27. júlí 2009. Efni þessa skjals er rakið í úrskurði héraðsdóms. Þar kemur meðal annars fram að lýsa þurfi öllum kröfum fyrir 30. október 2009 og að það eigi einnig við um kröfur sem séu umsjónarmönnum neyðarmeðferðarinnar kunnar. Samkvæmt gögnum sem varnaraðili hefur lagt fram var þessi tilkynning send 30. júlí 2009 á netfangið […] sem er netfang sem sóknaraðili hafði gefið upp við stofnun Icesave-reikningsins og var á þessum tíma skráð í tölvukerfi útibús varnaraðila í Amsterdam. Þessar upplýsingar um slitameðferð varnaraðila á Íslandi og um nauðsyn kröfulýsingar voru áréttaðar í næstu tveimur upplýsingabréfum 11. og 29. september 2009, sem munu einnig hafa verið send á sama netfang.
 11. Framangreind upplýsingabréf nr. 3, 4 og 5 stafa ekki frá slitastjórn varnaraðila og uppfylla ekki áskilnað 1. mgr. 86. gr. laga nr. 21/1991. Sóknaraðili var þekktur kröfuhafi í útibúi varnaraðila í Amsterdam og hefur varnaraðili ekki fært sönnur á að útilokað hafi verið fyrir slitastjórn bankans að afla upplýsinga um hann þó að útibúið hafi verið í sérstakri neyðarmeðferð samkvæmt hollenskum lögum. Upplýsingagjöf umsjónarmanna neyðarmeðferðarinnar í Hollandi gat engu breytt um að slitastjórn varnaraðila var rétt að senda sóknaraðila tilkynningu samkvæmt 1. mgr. 86. gr. laga nr. 21/1991. Misbrestur að þessu leyti leiðir þó ekki sjálfkrafa til þess að fyrrgreindum skilyrðum 2. töluliðar 118. gr. laganna sé fullnægt. Hins vegar verður að líta svo á að það hvíli á varnaraðila að færa sönnur á að sóknaraðila hafi þrátt fyrir þetta verið kunnugt eða mátt vera kunnugt um slit varnaraðila hér á landi.
 12. Sóknaraðili hefur staðfastlega haldið því fram að hann hafi aldrei fengið framangreindar tilkynningar frá umsjónarmönnum neyðarmeðferðarinnar sem merktar eru nr. 3, 4 og 5, enda hafi hann skipt um netfang 9. júní 2009. Undir rekstri ágreiningsmálsins lagði sóknaraðili fram gögn á hollensku þessu til stuðnings og hafa þýðingar þeirra verið lagðar fyrir Landsrétt. Varnaraðili hefur ekki hnekkt framangreindum staðhæfingum sóknaraðila. Tilkynningarnar voru ekki sendar með þeim hætti að tryggt væri að þær bærust viðtakanda. Í ljósi þess sem hér hefur verið rakið er ósannað að framangreindar tilkynningar með upplýsingum um slitameðferð varnaraðila hafi komist til vitundar sóknaraðila.
 13. Sóknaraðili tilkynnti ekki umsjónarmönnum neyðarmeðferðarinnar í Hollandi um breytt netfang. Í fyrsta upplýsingabréfinu var gerð grein fyrir því að tilkynningar umsjónarmanna, aðrar en endanleg reikningsyfirlit, kæmu í tölvupósti auk þess sem leiðbeint var um hvernig tilkynna mætti breytt netfang. Varnaraðili byggir meðal annars á því að sóknaraðili verði að bera hallann af því að hafa ekki gætt hagsmuna sinna að þessu leyti.
 14. Við mat á því hvort sóknaraðila hafi verið kunnugt eða mátt vera kunnugt um slitameðferð varnaraðila hér á landi áður en kröfulýsingarfrestur rann út verður að líta til þess að sóknaraðili er einstaklingur sem var í góðri trú um að hann þyrfti ekki að fylgja kröfu sinni um greiðslu eftirstöðva innstæðunnar í útibúi varnaraðila frekar eftir. Ekki verður á það fallist að sóknaraðila hafi í ljósi auglýsinga og umfjöllunar í hollenskum fjölmiðlum mátt gera sér grein fyrir því á árinu 2009 að varnaraðili væri í slitameðferð á Íslandi og að hann þyrfti að lýsa kröfu sinni fyrir slitastjórn hér á landi til að hún félli ekki niður. Framlagðir skilmálar Icesave-reikninga í Hollandi gáfu ekki til kynna að litið væri svo á að almennar tilkynningar, sem sendar væru á netfang sem reikningseigandi hafði síðast gefið upp, væru komnar til vitundar móttakanda. Þó að sóknaraðili hafi látið hjá líða að tilkynna umsjónarmönnum neyðarmeðferðar útibúsins um breytt netfang, með þeim afleiðingum að tilkynningar með upplýsingum um framangreint fóru fram hjá honum, leiðir það ekki til þess að honum hafi mátt vera kunnugt um slitameðferð varnaraðila hér á landi. Í þessu ljósi verður á það fallist að fullnægt sé skilyrði 2. töluliðar 118. gr. laga nr. 21/1991, um að honum hafi hvorki verið kunnugt né mátt vera kunnugt um gjaldþrotaskipti varnaraðila innan kröfulýsingarfrests.
 15. Eins og rakið er í úrskurði héraðsdóms spurðist sóknaraðili fyrir um afdrif eftirstöðva kröfu sinnar með tölvuskeyti til varnaraðila 9. desember 2014. Í svari starfsmanns varnaraðila 10. sama mánaðar kom fram að lýsa hafi átt kröfum fyrir slitastjórn eigi síðar en 30. október 2009. Þess var einnig getið í tölvuskeyti starfsmannsins að vanlýst krafa félli niður nema sérstakar undanþágur í 118. gr. laga nr. 21/1991 ættu við. Í tölvuskeytinu var tengill á enska þýðingu laganna en samskiptin fóru fram á enskri tungu. Sóknaraðili færði nánari rök fyrir kröfu sinni með tölvuskeyti 20. janúar 2015 og fór fram á að slitastjórnin samþykkti hana. Í kjölfarið var sóknaraðila leiðbeint um hvernig bæri að lýsa kröfu og honum látið í té eyðublað í því skyni. Kröfulýsing sóknaraðila, sem er dagsett 21. janúar 2015, var móttekin af hálfu slitastjórnar 27. sama mánaðar. Í ljósi framangreindra samskipta, þess tíma sem þau tóku og stöðu sóknaraðila gagnvart varnaraðila er á það fallist að kröfulýsingin hafi komið fram án ástæðulausra tafa.
 16. Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið er á það fallist að skilyrðum 2. töluliðar 118. gr. laga nr. 21/1991 sé fullnægt þannig að taka megi kröfu sóknaraðila til greina við slit varnaraðila. Þar sem ekki er að öðru leyti ágreiningur um réttmæti, fjárhæð eða réttindaröð kröfu sóknaraðila, verður á hana fallist eins og í úrskurðarorði greinir.
 17. Varnaraðila verður gert að greiða sóknaraðila málskostnað í héraði og kærumálskostnað sem verður ákveðinn í einu lagi eins og greinir í úrskurðarorði.

Úrskurðarorð:

Krafa sóknaraðila, J.A.M. Van Raamsdonk, að fjárhæð 54.394,18 evrur, er viðurkennd sem krafa við slitameðferð varnaraðila, LBI ehf., í réttindaröð samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl.

Varnaraðili greiði sóknaraðila samtals 900.000 krónur í málskostnað í héraði og kærumálskostnað.


Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur, þriðjudaginn 20. mars 2018 

I. Kröfur aðila

Máli þessu var vísað til dómsins með bréfi slitastjórnar varnaraðila, dags. 20. nóvember 2015, sbr. 2. mgr. 120. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., sbr. einnig 171. gr. sömu laga og lög nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, með síðari breytingum, sbr. lög nr. 44/2009. Málið var þingfest 15. apríl 2016 en tekið til úrskurðar 24. janúar 2018.

Sóknaraðili gerir þær dómkröfur að viðurkennd verði krafa hans á hendur varnaraðila vegna slitameðferðar hans að fjárhæð EUR 54.394,18, með stöðu í réttindaröð samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl. Þá krefst hann málskostnaðar að skaðlausu. Varnaraðili krefst þess að kröfum sóknaraðila verði hafnað, auk málskostnaðar.

Í bréfi slitastjórnar til dómsins frá 20. nóvember 2015 kemur fram að kröfulýsingarfresti við slitameðferð varnaraðila hafi lokið 30. október 2009. Kröfulýsing frá sóknaraðila hafi hins vegar borist 27. janúar 2015. Samkvæmt henni er krafan komin til vegna Icesave innstæðureiknings sem sóknaraðili átti í útibúi varnaraðila í Hollandi. Krafan samkvæmt kröfulýsingunni nam 50.000 evru höfuðstól og vöxtum eða samanlagt 69.338,70 evrum.

Með bréfi til sóknaraðila, dags. 26. febrúar 2015, hafnaði slitastjórn kröfu hans. Í bréfinu var vísað til þess að kröfunni hefði ekki verið lýst fyrir slitastjórn áður en frestur samkvæmt 2. mgr. 85. gr. laga nr. 21/1991 rann út. Vísaði slitastjórnin þá til þess að fresturinn hafi verið til loka dags 30. október 2009 en ekki yrði séð að undantekningar samkvæmt 118. gr. laga nr. 21/1991 ættu við.

Sóknaraðili mótmælti þessari afstöðu varnaraðila með bréfi, dags. 6. mars 2015. Bar sóknaraðili því við að hann hefði ráðið það af samskiptum sínum við skiptastjóra útibús varnaraðila í Hollandi að krafa hans yrði send áfram. Ágreiningur aðila varð ekki jafnaður á kröfuhafafundi sem haldinn var 30. september 2015. Í kjölfarið var ákveðið að vísa ágreiningnum til héraðsdóms, eins og áður segir.

II. Málavextir

         Landsbanki Íslands hf. hóf rekstur útibús í Hollandi árið 2006. Sama ár hóf bankinn að taka við innlánum þar í landi frá lögaðilum. Í kjölfarið fór bankinn að bjóða upp á innlánsreikninga undir nafninu Icesave en í maílok 2008 fór bankinn að taka við innlánum á Icesave reikninga útibús síns í Amsterdam.

         Skömmu áður, eða þann 23. maí 2008, hafði bankinn gert samning við hollenska seðlabankann, De Nederlandsche Bank N.V. („hér eftir DNB“), um aðild að hollenska innstæðutryggingakerfinu í því skyni að auka við þá tryggingu sem hollenskir innstæðueigendur nutu vegna íslenska innstæðutryggingakerfisins. Á þeim tíma var hámarksfjárhæð tryggingar samkvæmt hollenska innstæðutryggingakerfinu 40.000 evrur, en frá 9. október 2008 bætti hollenski tryggingarsjóðurinn í umsjón DNB innstæður allt að 100.000 evrum. Með samningnum féllst Landsbanki Íslands hf. einnig á að DNB tæki yfir réttindi innstæðueigenda gagnvart Landsbanka Íslands hf. að því marki sem DNB myndi greiða viðkomandi innstæðueigendum. Landsbanki Íslands hf. fól dótturfélagi sínu, Landsbanka Luxembourg S.A. að halda utan um greiðslur til og frá innlánseigendum Icesave í Hollandi ásamt gögnum um þær.

Þann 7. október 2008 beitti Fjármálaeftirlitið heimild stjórnvalda samkvæmt 100. gr. a. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008 um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl., til að taka yfir starfsemi Landabanka Íslands hf. Skipaði Fjármálaeftirlitið þá skilanefnd til að taka við stjórn bankans.

Að kvöldi sama dags lokaði DNB fyrir færslur á Icesave innlánsreikningum í Hollandi. Sama dag lagði DNB fram beiðni fyrir héraðsdóm í Amsterdam um að lýsa yfir tilteknum neyðarreglum gagnvart Landsbanka Íslands hf. á grundvelli hollenskra laga um fjármálaeftirlit. Þann 9. október 2008 var hluti af eignum, réttindum og skyldum Landsbanka Íslands hf., flutt yfir til NBI hf. (nú Landsbankinn hf.) samkvæmt ákvörðun Fjármálaeftirlitsins þess efnis.

Hinn 13. október 2008 lýsti héraðsdómur í Amsterdam því yfir að neyðarreglurnar skyldu gilda um útibú Landsbankans í Amsterdam og virkjaði þá DNB hollenska innstæðutryggingakerfið. Að tilhlutan DNB skipaði héraðsdómur í Amsterdam skiptastjóra yfir útibúi Landsbanka Íslands hf. í Amsterdam þann 13. október 2008, í 18 mánuði eða til 13. apríl 2010.

Greiðslur til innstæðueigenda fóru fram á tímabilinu 11. desember 2008 til 21. ágúst 2009 og tók DNB yfir kröfuréttindi viðkomandi innstæðueigenda með viðtöku greiðslunnar frá DNB. Fjárhæð útgreiðslu DNB var að hámarki 100.000 evrur fyrir hvern reikningseiganda.

Í mars 2010 úrskurðaði héraðsdómur í Amsterdam að skipun skiptastjóra útibúsins í Amsterdam yrði ekki framlengd og færðist forræðið þá til skilanefndar og slitastjórnar varnaraðila.

Þann 22. apríl 2009 tóku gildi lög nr. 44/2009 um breytingu á lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Meðal þess sem lögin höfðu í för með sér var skipun slitastjórnar og upphaf slitameðferðar á greiðslustöðvunartíma. Héraðsdómur Reykjavíkur skipaði samkvæmt því slitastjórn fyrir varnaraðila þann 29. apríl 2009 sem sinnti öllum öðrum verkefnum en þeim sem skilanefnd voru sérstaklega falin samkvæmt lögum nr. 161/2002 fram til ársloka 2011 er verkefni skilanefndar færðust einnig á hendur slitastjórnar, sbr. lög nr. 78/2011.

Þann 30. apríl 2009 gaf slitastjórn varnaraðila út innköllun til kröfuhafa sem var birt í Lögbirtingarblaðinu sama dag. Þá fékk slitastjórn varnaraðila birtar auglýsingar um slitameðferðina í tveimur hollenskum dagblöðum, dagana 5. og 8. júní 2009 auk þess sem auglýsingin var birt í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins þann 5. júní 2009, sbr. ákvæði 4. gr. reglugerðar nr. 872/2006 um tilkynningu og birtingu ákvarðana um endurskipulagningu fjárhags og slit lánastofnana. Kröfulýsingarfrestur við slitameðferð varnaraðila rann út á miðnætti 30. október 2009.

Ekki er ágreiningur um það í málinu að skiptastjórum útibús Landsbanka Íslands hf. í Amsterdam hafi á grundvelli hollenskra lagareglan borið að veita kröfuhöfum skriflegar upplýsingar um framgang þeirra úrræða sem gripið var til gagnvart kröfuhöfum útibúsins. Á þeim grundvelli voru kröfuhöfum sendar upplýsingar í bréfpósti og síðar með tölvubréfum auk þess sem upplýsingarnar voru birtar á tiltekinni vefsíðu. Í því skyni studdust skiptastjórar útibúsins í Amsterdam við upplýsingar úr kerfum Landsbanka Íslands hf. sem upphaflega var komið fyrir í gagnagrunni Landsbanka Luxembourg S.A. sem falið var að sjá um að senda kröfuhöfum upplýsingar í fyrstu. Síðar var KPMG í Hollandi falin upplýsingagjöf að beiðni og fyrir hönd skiptastjóranna.

Á grundvelli framangreindra upplýsinga sendu skiptastjórar útibús Landsbanka Íslands hf. í Amsterdam fimm tölvubréf til kröfuhafa útibúsins á tímabilinu 1. júlí 2009 til 22. apríl 2010. Tölvubréfin innihéldu upplýsingar um framgang skiptameðferðarinnar í Hollandi auk annarra upplýsinga til kröfuhafa. Í þriðja bréfinu sem kröfuhöfum var sent 30. júlí 2009 sagði meðal annars:

 

„Hjá Landsbanka hf. á Íslandi var skipuð stjórn til að sjá um slitameðferð seint í apríl 2009, við hliðina á sérstaklega skipaðri nefnd. Þessi stjórn hefur, meðal annars, það verkefni að vinna úr öllum kröfum á Landsbanka hf. og sjá um hugsanlegar greiðslur á Íslandi.

Í þessu samhengi auglýsti stjórn slitameðferðar, þann 5. júní 2009, í fréttablað Evrópusambandsins. Þessi auglýsing fylgir skýrslu nr. 2 sem hjálagt efni. Í auglýsingunni segir meðal annars að það eigi að leggja fram allar kröfur hjá stjórn slitameðferðar fyrir 30. október 2009. Þetta gildir því einnig fyrir þær kröfur sem hafa verið lagðar fram eða eru þekktar hjá Niðurlensku stjórnendunum.

Stjórnendurnir ráðleggja því öllum kröfuhöfum að leggja fram kröfur sínar tímanlega, að því leyti sem þeir eru ekki búnir að gera það nú þegar. Í auglýsingunni frá 5. júní 2009 (hjálögð skýrslu nr. 2) eru leiðbeiningar um hvernig eigi að leggja fram kröfur. Á vefsíðu Landsbankans hf. (www.lbi.is) eru einnig upplýsingar um þetta.“

Sambærilegar upplýsingar koma fram í fjórða og fimmta upplýsingabréfinu sem send voru kröfuhöfum 11. og 22. september 2009.

Varnaraðili heldur því fram í málinu að þessar upplýsingar hafi verið sendar sóknaraðila á skráð netfang hans hjá bankanum […] en það netfang hafi verið skráð sem netfang sóknaraðila í tölvukerfi útibús varnaraðila í Hollandi. Sóknaraðili hefur hins vegar mótmælt því að hann hafi fengið senda tölvupósta eða gögn eftir að hann tók við fyrstu skýrslu skiptastjóra. Í aðilaskýrslu sinni fyrir dómi kvaðst sóknaraðili hafa lokað netfanginu […] sem hann var með hjá bankanum í júní 2009.

Samkvæmt gögnum málsins sendi sóknaraðili DNB kröfu þann 1. desember 2008, þar sem hann óskaði eftir greiðslu innstæðu sinnar að fjárhæð 150.000 evrur auk vaxta að fjárhæð 1.527 evrur. Samkvæmt sömu upplýsingum fékk kröfuhafi greiddar 100.000 evrur frá DNB þann 20. janúar 2010.

Þann 9. desember 2014 sendi sóknaraðili varnaraðila tölvubréf þar sem óskað var upplýsinga um það hvenær sóknaraðili fengi greiddar þær 50.000 evrur, auk vaxta sem hann hefði ekki fengið bættar frá DNB. Varnaraðili sendi sóknaraðila tölvubréf næsta dag þar sem sóknaraðila var tilkynnt um að kröfulýsingarfrestur við slitameðferð varnaraðila hafi runnið út þann 30. október 2009 en tilkynning um innköllun hafi verið birt í hollenskum dagblöðum dagana 5. og 8. júní 2009. Í tölvubréfinu kemur fram að hafi kröfu ekki verið lýst fyrir lok kröfulýsingarfrests teljist hún fallin niður, nema undantekningar 1.-6. tölul. 118. gr. laga nr. 21/1991 eigi við um kröfuna og var sóknaraðila bent á enska útgáfu laga nr. 21/1991.

Þann 20. janúar 2015 sendi sóknaraðili varnaraðila tölvubréf þar sem hann óskaði þess að slitastjórn varnaraðila samþykkti kröfu hans að fjárhæð 50.000 evrur auk vaxta. Varnaraðili svaraði sóknaraðila samdægurs með tölvubréfi, þar sem sóknaraðila var bent á að skila inn skriflegri kröfulýsingu. Meðfylgjandi tölvubréfinu var kröfulýsingarform.

Krafa sóknaraðila barst varnaraðila þann 27. janúar 2015. Er krafan að fjárhæð 69.338,70 evrur og er henni lýst sem forgangskröfu samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991. Bréfaskiptum aðila í kjölfarið er lýst í kafla I hér að framan.

Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur uppkveðnum þann 18. desember 2015 var nauðasamningur varnaraðila staðfestur. Úrskurðurinn sætti ekki kæru til Hæstaréttar og varð nauðasamningurinn því endanlegur og bindandi að loknum kærufresti, þann 25. desember 2015. Lauk slitameðferð varnaraðila þann dag með því að nauðasamningur komst á milli varnaraðila og kröfuhafa hans.

III. Málsástæður aðila

Málsástæður sóknaraðila

Sóknaraðili byggir á því að hann hafi lýst kröfu sinni í tæka tíð og vísar um það til 86. gr. laga nr. 21/1991. Þar komi fram sú aðalregla þegar kunnugt er um kröfuhafa erlendis skuli tilkynna honum sérstaklega um gjaldþrotaskiptin, hvenær kröfulýsingarfrestir endi og hvaða afleiðingu það geti haft að kröfu sé ekki lýst innan frestsins.

Sóknaraðili telur að allar upplýsingar um hann hafi legið fyrir hjá varnaraðila enda um innstæðueiganda að ræða en þrátt fyrir það hafi varnaraðili brugðist lagaskyldu sinni í þessum efnum. Hafi vanrækslan gengið svo langt að þegar sóknaraðili sneri sér fyrst til varnaraðila hafi honum einfaldlega verið tjáð að kröfu væri of seint lýst. Í orðsendingunni hafi falist að ekki þýddi að gera frekari kröfur eða aðhafast frekar í málinu.

Það hafi svo ekki verið fyrr en sóknaraðili bankaði ákafar á dyrnar að honum er sent kröfulýsingarform og það án þess að tilkynning samkvæmt 1. mgr. 86. gr. laga nr. 21/1991 fylgdi í raun og veru. Sóknaraðili hafi engu að síður brugðist við samdægurs og daginn eftir sent kröfulýsingu. Því sé ljóst að hann hafi brugðist við án ástæðulauss dráttar. Kröfulýsingin hafi síðan verið móttekin viku seinna.

Sóknaraðili bendir enn fremur á að birting almennrar auglýsingar felli ekki niður skyldur samkvæmt 1. mgr. 86. gr. um persónulega tilkynningu. Því síður hafi hún þau réttaráhrif að krafa þekktra kröfuhafa falli niður við að hafa ekki lesið slíkar tilkynningar. Kröfuhafar eigi því að geta treyst því að slitastjórn fylgi lögum þess lands þar sem skiptin fara fram. 

Sóknaraðili telur að ákvæði 2. tölul. 118. gr. laga nr. 21/1991 eigi við um atvik málsins. Samkvæmt því ákvæði falli krafa sem lýst er utan kröfulýsingarfrests ekki niður þegar kröfuhafinn er búsettur erlendis og hefur hvorki verið kunnugt né mátt vera kunnugt um gjaldþrotaskiptin, enda sé kröfunni lýst án ástæðulausra tafa og áður en boðað er til skiptafundar um frumvarp til úthlutunar úr búinu.

Að mati sóknaraðila getur innköllun til óþekktra kröfuhafa í skilningi 2. mgr. 86. gr. laga nr. 21/1991 ekki haft réttaráhrif gagnvart þekktum kröfuhöfum. Sóknaraðili telur að draga megi þá ályktun af 86. gr. laga nr. 21/1991 sem og dómaframkvæmd Hæstaréttar að þekktur erlendur kröfuhafi sem ekki fær bréf samkvæmt 1. mgr. 86. gr. laga nr. 21/1991 geti lýst kröfu eftir að kröfulýsingarfresti er lokið en áður en að úthlutunarferli kemur sé hann grandlaus og lýsi kröfu án ástæðulauss dráttar, sbr. 2. mgr. 118. gr. laga nr. 21/1991. Til að hann teljist vera grandsamur þarf hann ekki aðeins að vita eða mega vita um slitin heldur einnig um innköllun og hverju það varði að kröfu sé ekki lýst. Slíkar upplýsingar hafi sóknaraðili hins vegar aldrei fengið nokkurs staðar frá fyrr en með tölvupósti varnaraðila 10. desember 2014 en þá hafi hann brugðist skjótt við.

Á því er byggt að sóknaraðili hafi hvorki vitað ná mátt vita um slitameðferð varnaraðila, nauðsyn sérstakrar kröfulýsingar eða afleiðingar þess að lýsa ekki kröfu. Sóknaraðili telur varnaraðila ekki geta skotið sér á bak við að hann hafi sent auglýsingu sem er ætluð var óþekktum kröfuhöfum erlendis á sama tíma og hann þverbrýtur skyldur sínar um að tilkynna þekktum kröfuhöfum erlendis um skiptin og afleiðingar vanlýsingar. 

Á því er byggt að skýra verði ákvæði íslenskra gjaldþrotalaga til samræmis við reglur Evrópska efnahagssvæðisins en þær heimila ekki að sóknaraðili missi kröfu sína vegna vanlýsingar við þær aðstæður sem að framan er lýst. 

Málsástæður varnaraðila

Varnaraðili byggir á því að afstaða slitastjórnar hans um höfnun kröfu sóknaraðila sem sóknaraðila hafi verið kynnt fái staðist að öllu leyti. Varnaraðili mótmælir þeim málsástæðum sem sóknaraðili rekur í greinargerð til héraðsdóms og krefst þess að kröfu hans að þessu leyti verði hafnað.

Til stuðnings kröfu sinni vísar varnaraðili í fyrsta lagi til þess að líkt og áður er rakið skipaði héraðsdómur í Amsterdam skiptastjóra yfir útibúi Landsbanka Íslands hf. í Amsterdam þann 13. október 2008, í 18 mánuði eða til 13. apríl 2010. Á grundvelli hollenskra lagareglna bar skiptastjórum útibúsins að veita kröfuhöfum þess skriflegar upplýsingar um framgang þeirra úrræða sem gripið var til gagnvart kröfuhöfum útibúsins. Á þeim grundvelli hafi kröfuhöfum verið sendar upplýsingar í bréfpósti og síðar tölvubréfum auk þess sem upplýsingarnar hafi verið birtar á tiltekinni vefsíðu. Í málinu liggja fyrir gögn sem sýna fram á að kröfuhöfum, þ.m.t. sóknaraðila, var tilkynnt um slitameðferð varnaraðila hér á landi og kröfulýsingarfrest, af hinum hollensku skiptastjórum, auk þess sem skorað var á kröfuhafa að lýsa kröfu og þeim bent á tiltekið form til þess.

Í því samhengi bendir varnaraðili á að framangreindar tilkynningar hafi verið sendar sóknaraðila á það netfang sem skráð hafði verið í kerfum Landsbanka Íslands hf. Vísar varnaraðili til þess að samkvæmt grein 8.7 í skilmálum fyrir Icesave reikninga í Hollandi áskildi Landsbanki Íslands hf. sér rétt til þess að hafa samband við reikningseigendur í pósti, símleiðis eða í tölvubréfi á það netfang sem gefið var upp í umsókn viðkomandi reikningseiganda. Byggir varnaraðili á því að tilkynningar til sóknaraðila hafi þannig verið réttilega sendar á tilgreint netfang hans og sóknaraðili verði að bera hallann af því að hafa ekki kynnt sér efni þeirra og brugðist við. Þá vísar varnaraðili til þess að slitastjórn hans fékk birtar auglýsingar um slitameðferðina í tveimur hollenskum dagblöðum dagana 5. og 8. júní 2009, auk þess sem auglýsingin var birt í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins þann 5. júní 2009. Þá verður ekki fram hjá því litið að mikil umfjöllun var í Hollandi um afdrif Icesave reikninga og slitameðferð varnaraðila í kjölfar þess að reikningunum var lokað.

Að framangreindu virtu byggir varnaraðili á því að sóknaraðila hafi óumdeilanlega verið tilkynnt um slitameðferð varnaraðila á Íslandi af hinum hollensku skiptastjórum og byggir varnaraðili á því að sú tilkynning verði lögð að jöfnu við tilkynningu skiptastjóra samkvæmt 1. mgr. 86. gr. laga nr. 21/1991.

Verði ekki fallist á framangreinda málsástæðu byggir varnaraðili á því að krafa sóknaraðila sé allt að einu of seint fram komin við slitameðferð varnaraðila og fallin niður gagnvart honum, enda uppfylli hún ekki skilyrði 2. tölul. 118. gr. laga nr. 21/1991. Varnaraðili vísar í fyrsta lagi til þess að það leiði af fyrri umfjöllun í greinargerð varnaraðila að sóknaraðila hafi verið kunnugt um slitameðferð varnaraðila eða í öllu falli mátt vera kunnugt um hana í skilningi lagaákvæðisins. Byggir varnaraðili á því að leggja verði til grundvallar að sóknaraðila hafi borist þau tölvubréf frá slitastjóra útibús bankans í Hollandi og verði að bera hallann af því að hafa ekki brugðist við tilkynningum og áskorunum um að lýsa kröfu við slitameðferðina sem honum bárust á skráð netfang hans í gagnasafni varnaraðila. Mótmælir varnaraðili sérstaklega þeirri málsástæðu sóknaraðila sem rangri, að til þess að sóknaraðili geti talist „grandsamur“ um slitameðferð varnaraðila þurfi hann ekki einungis að vita eða mega hafa vitað um slitameðferðina, heldur hafi hann einnig þurft að vita um innköllun og hverju það varði að kröfu sé ekki lýst, enda verði slíkt ekki ráðið af ákvæðum 2. tölul. 118. gr. laga nr. 21/1991.

Hvað sem framangreindu líður byggir varnaraðili í öðru lagi á því að kröfu sóknaraðila hafi ekki verið lýst án ástæðulausra tafa í skilningi 2. tölul. 118. gr. laga nr. 21/1991. Vísar varnaraðili til þess að leggja verði til grundvallar að sóknaraðila hafi verið kunnugt um slitameðferð varnaraðila í síðasta lagi þann 9. desember 2014 þegar sóknaraðili sendi varnaraðila tölvubréf þar sem óskað var upplýsinga um það hvenær sóknaraðili fengi greiddar þær 50.000 evrur auk vaxta sem hann hafði ekki fengið bættar frá DNB. Bendir varnaraðili á að þá höfðu liðið tæp fimm ár frá því að sóknaraðili fékk greiddar 100.000 evrur frá DNB á grundvelli innstæðu hans hjá Landsbanka Íslands hf. Sóknaraðili lét hins vegar hjá líða að lýsa kröfu sinni í meira en mánuð en kröfulýsing barst slitastjórn varnaraðila þann 27. janúar 2015, líkt og áður er rakið.

Áréttað er að málsástæðu sóknaraðila þess efnis að skýra verði ákvæði íslenskra gjaldþrotalaga til samræmis við reglur EES er mótmælt sem vanreifaðri.

Af öllu framangreindu telur varnaraðili leiða að hafna beri kröfu sóknaraðila þar sem henni hafi ekki verið lýst innan kröfulýsingarfrests við slitameðferð varnaraðila og að hún uppfylli ekki skilyrði 2. tölul. 118. gr. laga nr. 21/1991 til þess að komast að við slitin.

Fallist dómurinn á að krafa sóknaraðila komist að við slitameðferð varnaraðila telur varnaraðili að hafna verði kröfunni allt að einu þar sem sóknaraðili hefur ekki sýnt fram á kröfu sína, svo sem með framlagningu reikningsyfirlita sem sýna stöðu innstæðureiknings hans þegar færslum af Icesave reikningum var lokað þann 7. október 2008. Í greinargerð sóknaraðila er því haldið fram að innstæðan hafi þá numið 150.000 evrum. Skorar varnaraðili á sóknaraðila að leggja fram gögn til stuðnings framangreindu.

Verði fallist á kröfu sóknaraðila í málinu mótmælir varnaraðili vaxtakröfu sóknaraðila sem hann telur vanreifaða. Þá byggir varnaraðili á því að færa verði fjárhæð kröfu sóknaraðila í íslenskar krónur eftir skráðu sölugengi evru á úrskurðardegi við slitameðferð varnaraðila, 22. apríl 2009, sbr. 3. mgr. 99. gr. laga nr. 21/1991.

Um lagarök vísar varnaraðili til laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti og laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Málskostnaðarkrafa varnaraðila er byggð á 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., sbr. einnig lög nr. 50/1998 um virðisaukaskatt en varnaraðili er ekki virðisaukaskattskyldur.

IV. Niðurstaða

Samkvæmt 4. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, svo sem ákvæðinu var breytt með 6. gr. laga nr. 44/2009, gilda ákvæði XVIII. kafla laga nr. 21/1991 um meðferð krafna á hendur fjármálafyrirtæki við slit þess. Í upphafsorðum 118. gr. þeirra laga er sett fram sú meginregla að krafa falli niður ef henni er ekki lýst áður en kröfulýsingarfrestur líður, en frá þeirri reglu eru undantekningar sem taldar eru í 1. til 6. tölulið greinarinnar. Í málinu sem hér um ræðir reynir á 2. tölulið 118. gr., sem gildir um kröfuhafa búsettan erlendis er ekki hefur fengið tilkynningu samkvæmt 1. mgr. 86. gr. laganna, en hann getur þá komið kröfu sinni að ef honum hvorki var né mátti vera kunnugt um slitin, enda sé kröfunni lýst án ástæðulausra tafa.

Varnaraðili í málinu hefur haldið því fram að sóknaraðila hafi eins og öðrum kröfum verið sendar tilkynningar 30. júlí 2009, 11. september 2009 og 29. september 2009 þar sem fram hafi komið lýsa þurfi kröfu á hendur skilanefnd varnaraðila og frestur til þess renni út 30. október 2009. Þessar tilkynningar hafi verið sendar á netfangið […] sem hafi verið verið skráð sem netfang sóknaraðila í tölvukerfi útibús varnaraðila í Hollandi. Sóknaraðili hefur sem fyrr segir mótmælt því að hafa fengið umræddar tilkynningar og kvaðst hann fyrir dómi hafa lokað umræddu netfangi í júní 2009.

Varnaraðili hefur stutt fullyrðingar sínar um að sóknaraðili hafi fengið umræddar tilkynningar með því að vísa til minnisblaðs lögmannsstofunnar Houthoff Buruma frá 9. september 2016 sem sent hafi verið lögmönnum varnaraðila og fylgigagna með því minnisblaði en meðal þeirra er skýrsla frá KPMG í Amsterdam frá 8. september 2016 Af efni þessa minnisblaðs og skýrslu KPMG verður hins vegar ótvírætt ráðið að þeirra hefur verið aflað einhliða af sóknaraðila í tilefni af málarekstri sóknaraðila. Eðli málsins samkvæmt hafa umrædd gögn því afar takmarkað sönnunargildi gegn mótmælum sóknaraðila og vöntunar á samtímagögnum um það að fyrrnefndar tilkynningar hafi verið sendar sóknaraðila. Hvað snertir staðhæfingar sóknaraðila um að hann hafi lokað netfangi sinu sem skráð var hjá bankanum þá hefur sóknaraðili heldur ekki lagt fram nein gögn sem styðja fullyrðingar hans í þá átt.

Hvað sem sannleiksgildi gagnstæðra fullyrðinga aðila málsins líður um hvort sóknaraðili hafi í reynd fengið þær tilkynningar sem kröfuhöfum voru sendar 30. júlí 2009, 11. september 2009 og 29. september 2009 liggur hins vegar ljóst fyrir að í þeim tilkynningum til kröfuhafa sem sóknaraðili hefur vísað til er þess ekki getið hvaða afleiðingar það kynni að hafa fyrir þá að kröfum sé ekki lýst innan tiltekins tíma eins og mælt er fyrir um í 1. mgr. 86. laga nr. 21/1992. Þessi annmarki á tilkynningum ræður þó ekki úrslitum um það hvort krafa sóknaraðila komist að samkvæmt ákvæði 2. tölul. 118. gr. sömu laga. Úrlausn þess ræðst þvert á móti af því hvort sóknaraðila hafi verið kunnugt eða mátt vera kunnugt um gjaldþrotaskiptin og hvort hann hafi lýst kröfunni án ástæðulausra tafa og áður en boðað er til skiptafundar um frumvarp til úthlutunar úr búinu. Þar sem ákvæði 2. tölul. 118. gr. miðast samkvæmt skýru orðalagi sínu við það hvort kröfuhafa sé kunnugt um gjaldþrotaskiptin sem slík getur sóknaraðili í engu reitt sig á þær málsástæður sínar um að hann þurfi ekki aðeins að vita um slitin samkvæmt ákvæðinu heldur einnig um innköllun og hverju það varði að kröfu sé ekki lýst.

Í því sambandi verður ekki horft framhjá því að í gögnum málsins liggur fyrir að sóknaraðili sendi DNB kröfu 1. desember 2008 þar sem hann óskaði eftir greiðslu innstæðu sinnar að fjárhæð 150.000.000 evrur, auk vaxta að fjárhæð 1.527. Auk þess liggur fyrir að hann fékk greiddar 100.000 evrur frá DNB þann 20. janúar 2010 á grundvelli beiðni sinnar frá 1. desember 2008.

Í ljósi þessa verður að telja að sóknaraðila hafi mátt vera kunnugt um slit varnaraðila í síðasta lagi 1. desember 2008. Á þeim tíma stóðu eftir tæplega 11 mánuðir af fresti til að lýsa kröfu á hendur varnaraðila en kröfulýsingarfresti lauk 30. október 2009. Óumdeilt er að kröfulýsing sóknaraðila barst varnaraðila hins vegar ekki fyrr en 9. desember 2014 eða rúmlega sex árum eftir að honum mátti vera kunnugt um slitin og þar með meira en fimm árum frá því að fresturinn til að lýsa kröfum rann út.

Af þessum sökum og með vísan til þess sem rakið er hér að framan er því ekki fullnægt skilyrðum 2. töluliðar 118. gr. laga nr. 21/1991 til þess að sóknaraðili geti komið kröfu sinni að við slit varnaraðila. Kröfu sóknaraðila í máli þessu er því hafnað.

Dómurinn tekur fram að þar sem sýnt þykir að sóknaraðila hafi verið kunnugt um gjaldþrotaskipti varnaraðila þegar í desember 2008 þá verður ekki séð að sóknaraðili geti átt tilkall til þess að varnaraðili viðurkenni kröfu hans á grundvelli 2. tölul. 118. gr. laga nr. 21/1991 eins og ákvæðið verður túlkað með hliðsjón af tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2001/24/EB frá 4. apríl 2001 um endurskipulagningu og slit lánastofnana, sbr. 3. gr. laga nr. 2/1993, um Evrópska efnahagssvæðið. Í síðastnefnda ákvæðinu kemur fram að skýra skuli lög og reglur, að svo miklu leyti sem við á, til samræmis við EES-samninginn og þær reglur sem á honum byggja. Umrædd tilskipun var tekin upp í EES-samninginn, með breytingu á IX. viðauka samningsins með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 167/2002 frá 6. desember 2002 en ákvörðunin öðlaðist gildi 1. ágúst 2003.

Með hliðsjón af þessum úrslitum málsins verður sóknaraðili úrskurðaður til að greiða varnaraðila málskostnað sem þykir hæfilega ákveðin sú fjárhæð sem nánar greinir í úrskurðarorði.

Kjartan Bjarni Björgvinsson héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð að gættu ákvæði 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála 

Úrskurðarorð:          

Kröfu sóknaraðila, J.A.M. van Raamsdonk á hendur varnaraðila LBI ehf. er hafnað. Sóknaraðili greiði varnaraðila alls 800.000 krónur í málskostnað.