Mál nr. 20/2018

Ákæruvaldið (Jón H. B. Snorrason saksóknari)
gegn
X (Guðmundur Ómar Hafsteinsson lögmaður)
Lykilorð
 • Líkamsárás.
 • Hættubrot.
 • Bifreiðar.
Útdráttur

X var sakfelldur fyrir brot gegn 217. gr. og 4. mgr. 220. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa ekið bifreið á aðra kyrrstæða á allt að 40 kílómetra hraða á klukkustund með þeim afleiðingum að ökumaður þeirrar bifreiðar slasaðist og lífi og heilsu hennar og farþega bifreiðarinnar var stofnað í augljósan háska. Við ákvörðun refsingar var litið til þess að X hefði verið í mikilli geðshræringu umrætt sinn og ekki yrði talið að hann hafi haft sterk áform um að valda brotaþolum ótta um líf sitt eða þann ásetning að valda þeim skaða. Var refsing X ákveðin fangelsi í 45 daga en fullnustu hennar frestað skilorðsbundið í tvö ár.

Dómur Landsréttar

Mál þetta dæma landsréttardómararnir Ingveldur Einarsdóttir og Jón Finnbjörnsson og dr. Haraldur Sigþórsson umferðarverkfræðingur.

Málsmeðferð og dómkröfur aðila

 1. Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar Íslands 25. apríl 2017 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Gögn málsins bárust Landsrétti 2. janúar 2018 en samkvæmt 1. mgr. 78. gr. laga nr. 49/2016, sbr. 76. gr. laga nr. 117/2016 og 4. gr. laga nr. 53/2017, hefur málið verið rekið fyrir Landsrétti frá þeim tíma. Áfrýjað er dómi Héraðsdóms Reykjaness 31. mars 2017 í málinu nr. S-204/2016.
 2. Ákærði krefst aðallega sýknu, til vara að honum verði ekki gerð refsing, en til þrautavara að refsing verði milduð.
 3. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að refsing ákærða verði þyngd.

  Málsatvik og sönnunarfærsla
 4. Atvikum er lýst í hinum áfrýjaða dómi. Ákærða er gefin að sök líkamsárás og hættubrot með því að hafa ekið bifreið sinni á kyrrstæða bifreið, þar sem eiginkona hans og nafngreindur maður sátu. Í ákæru er háttsemi ákærða talin varða við 217. gr. og 4. mgr. 220. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
 5. Eins og greinir í hinum áfrýjaða dómi hefur ákærði neitað að hafa ekið á bifreiðina af ásetningi. Ákærði kom fyrir Landsrétt. Staðfesti hann framburð sem hann hafði gefið fyrir héraðsdómi og gaf viðbótarskýrslu. Ákærði hefur allt frá því að hann gaf skýrslu hjá lögreglu daginn eftir atvikið verið staðfastur í þeirri frásögn sinni að ákeyrslan hafi verið óhapp. Hann hafi ætlað að stöðva bifreið sína aftan við hina bifreiðina með því að taka í handbremsu hennar og koma eiginkonu sinni og hinum nafngreinda manni á óvart. Hann hafi misst stjórn á bifreiðinni þegar handbremsan slitnaði upp og samtímis hafi stýrið gengið til hliðar. Það hafi ekki verið ætlun sín að meiða einhvern.
 6. E prófessor gerði skýrslu um ökuhraða bifreiðar ákærða. Byggði hann á tæknirannsókn á báðum bifreiðunum sem unnin hafði verið að tilhlutan lögreglu, svo og ljósmyndum af vettvangi og uppdráttum sem lögreglan hafði gert. Gerð er grein fyrir skýrslunni í hinum áfrýjaða dómi. Þar er talið að hraðinn hafi verið 37 km/klst., ekki minni en 34 km/klst. og ekki meiri en 40 km/klst. E kom fyrir Landsrétt og staðfesti skýrslu sína og framburð sem hann hafði gefið fyrir héraðsdómi. Í skýrslu hans fyrir Landsrétti kom fram að ákærði hefði hemlað við áreksturinn. Hann kvaðst draga þá ályktun af þeirri staðreynd að bil hefði verið á milli bifreiðanna eftir ákeyrsluna. E kvaðst ekki hafa áttað sig á þessari staðreynd fyrr en eftir að hann gaf skýrslu fyrir héraðsdómi. Þetta benti til þess að hraði bifreiðar ákærða hefði verið álíka og hann hefði talið í skýrslu sinni.

  Niðurstaða
 7. Ályktunum E um líklegan ökuhraða ákærða hefur ekki verið hnekkt. Sú fullyrðing ákærða að hann hafi misst vald á bifreið sinni er ótrúverðug. Í hinum áfrýjaða dómi er gerð grein fyrir læknisvottorði vegna áverka sem eiginkona ákærða hlaut við ákeyrsluna. Matsgerð um örorku hennar vegna umferðaróhapps á árinu 2013 haggar ekki þessu vottorði.
 8. Með framangreindum athugasemdum en að öðru leyti með skírskotun til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.
 9. Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, sem eru ákveðin 744.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Ákærði, X, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 782.198 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Guðmundar Ómars Hafsteinssonar lögmanns, 744.000 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjaness föstudaginn 31. mars 2017

Mál þetta, sem tekið var til dóms 6. febrúar síðastliðinn, er höfðað með ákæru héraðssaksóknara, útgefinni 1. júní 2016, á hendur X, kennitala […], […], Kópavogi, „fyrir líkamsárás og hættubrot, með því að hafa sunnudaginn 27. september 2015, á bifreiðastæði við Árbæjarlaug við Fylkisveg í Reykjavík, ekið bifreiðinni […] á allt að 40 kílómetra hraða á klukkustund, á vinstra afturhorn bifreiðarinnar […] sem þar stóð kyrrstæð, með þeim afleiðingum að eiginkona hans, A, sem sat ökumannsmegin í bifreiðinni […], fékk högg aftan á hnakka hægra megin og tognun og ofreynslu á hálshrygg auk þess sem ákærði stofnaði með háttseminni lífi og heilsu A og B, sem sat í farþegasæti bifreiðarinnar, í augljósan háska á ófyrirleitinn hátt.“ 

Telst þetta varða við 217. gr. og 4. mgr. 220. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Er þess krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

Ákærði krefst aðallega sýknu, en til vara vægustu refsingar sem lög leyfa. Verjandi ákærða krefst þóknunar sér til handa.

I

A

Samkvæmt frumskýrslu lögreglu var lögregla kvödd að sundlauginni í Árbæ sunnudaginn 27. september 2015 vegna tilkynningar um að maður hefði ekið á bifreið eiginkonu sinnar í afbrýðiskasti. Þegar lögregla kom á vettvang stóð eiginkona ákærða á bifreiðastæði við Árbæjarlaug við bifreiðarnar […] og […], sem stóðu þétt upp við hvor aðra og voru sjáanlega báðar talsvert „tjónaðar.“ Var ákærði að ræða við vitnið B skammt frá bifreiðunum.

Í skýrslunni er haft eftir eiginkonu ákærða, vitninu A, að hún hafi komið að Árbæjarlaug til þess að hitta B sem hafi verið í sundi í lauginni. Sagði vitnið A að B hefði sest inn í bifreið hennar […] og þau hefðu verið að ræða saman þegar eiginmaður hennar, ákærði í málinu, hefði komið á mikilli ferð eftir planinu á bifreiðinni […] og ekið síðan mjög ákveðið á vinstra afturhorn […] með þeim afleiðingum að bifreiðin snérist á bílastæðinu. Báðir öryggispúðar bifreiðarinnar […] hafi „sprungið út“ við áreksturinn. Kvaðst A hafa fengið hálshnykk við áreksturinn og sennilega skollið með höfuðið í dyrastafinn. Einnig segir að henni hafi farið að líða illa, svimað og verið flökurt. Þá hafi verið óskað eftir sjúkrabifreið á vettvang. Þá er haft eftir vitninu A að hjónaband hennar og ákærða hefði verið mjög erfitt síðastliðin fjögur ár. Eftir skoðun sjúkraflutningamanna var A flutt með sjúkrabifreiðinni til skoðunar á slysadeild í Fossvogi. Var ákærði handtekinn og færður í fangageymslu vegna rannsóknar málsins. Gaf ákærði öndunar- og þvagsýni. Ekkert athugavert kom fram. Báðar bifreiðarnar voru fjarlægðar af vettvangi með kranabifreið.

Í vettvangsskýrslu, sem […] lögreglufulltrúi skráði 14. október 2016, segir að bifreiðin […] hafi verið kyrrstæð í bifreiðastæði austan við Árbæjarlaug. Var bifreiðin í fimmta bifreiðastæði frá Fylkisvegi og lagt með framenda til austurs að kanti bifreiðastæðisins. Þá segir að bifreiðinni […] hafi verið ekið Fylkisveg til austurs frá félagsheimili Fylkis og beygt til suðurs inn á bifreiðastæðið og ekið á vinstra afturhorn […]. Við áreksturinn snérist bifreiðin […] svo að hún varð þversum í bifreiðastæðinu með framenda til norðurs og hægra framhjól á grasi sem var handan kantsteins bifreiðastæðisins. Voru báðar bifreiðarnar óökuhæfar eftir áreksturinn.

Segir í skýrslunni að engin hemlaför hafi verið sjáanleg. Kantsteinn meðfram austurkanti bifreiðastæðisins mældist átta sentímetrar á hæð. Þá segir að ekki sé vitað með nákvæmum hætti hvar í bifreiðastæðinu bifreiðin […] hafi verið staðsett, en miðað við ætlaða stöðu hennar, það er að henni hafi verið lagt á milli yfirborðsmerkinga sem afmarka bifreiðastæðið, hafi afturendi hennar færst til austurs um 4,19 metra þegar bifreiðin snérist. Mældi lögregla vettvanginn og ljósmyndaði. Loks segir að óskað hafi verið eftir bíltæknirannsókn á báðum bifreiðum og enn fremur að hraði bifreiðarinnar […] yrði reiknaður.

Ákærði var yfirheyrður hjá lögreglu 28. september 2016. Skýrsla lögreglu af vitninu B var tekin 7. október 2016 og af vitninu A 27. september og 12. október sama ár.

B

Í læknisvottorði D, sérfræðings á slysa- og bráðadeild Landspítala háskólasjúkrahúss í Fossvogi, segir að A hafi við komu á bráðamóttöku lýst því fyrir lækni að hún hafi setið í ökumannssæti kyrrstæðrar fólksbifreiðar við Árbæjarlaug þegar eiginmaður hennar hafi ekið jeppa viljandi á bifreiðina aftarlega ökumannsmegin. Við áreksturinn hafi hún fengið högg aftan á hnakka hægra megin, en man ekki hvort hún slengdist utan í gluggapóst við höggið. Haft er eftir A að hin bifreiðin hafi verið á mikilli ferð, en hún geti ekki tjáð sig nánar um það. Við áreksturinn hafi bifreið hennar kastast til.

Einnig tjáði A lækni að eiginmaður hennar hafi nýlega komist að því að hún hefði verið honum ótrú og væri í sambandi við annan mann. Hann hafi tjáð henni að hann hefði hlerað símann hennar og fylgst með því sem hún væri að gera í tölvunni. Þau hefðu búið í stormasömu hjónabandi í 20 ár, en aldrei áður hefði komið til líkamlegs ofbeldis.

Þá segir að við komu á bráðamóttöku hafi A verið í miklu uppnámi, grátið, andað ört og skolfið og erfitt hafi verið að ná sambandi við hana. Hafi læknir setið hjá henni nokkra stund og hafi hún róast við það. Við skoðun hafi ekki verið að sjá áverka á höfði og engin eymsli við þreifingu á höfði. Væg eymsli hafi verið yfir hryggjartindum og hafi hún fundið heldur meira til hægra megin við hálshryggjarsúlu og niður á herðasvæði hægra megin. Ekki hafi verið að sjá áverka á bringu og engin eymsli hafi verið við þreifingu á brjóstkassa. Þá er ekki getið um nein áverkamerki annars staðar á líkamanum. Röntgenmynd af hálshrygg sýndi ekki nein brot eða skekkjur í hálsliðum. Þá hafi liðbolir verið eðlilegir að lögun og liðþófabil eðlileg og engin mjúkvefjaþykknun. Taldi læknir A hafa tognað á hálsi og fékk hún verkja- og bólgustillandi lyf. Loks segir að batahorfur vegna líkamlegra áverka séu góðar og muni hún jafna sig fljótt af hálseymslum.   

C

Í skýrslu um bíltæknirannsókn á ökutækinu […] segir að rannsóknin hafi beinst að mælingu á formbreytingu á ökutækinu eftir árekstur. Rákust ökutækin saman þannig að miðhluti framenda […] hafi rekist á vinstra afturhorn […] í um 100° til 105° horni. Hafi afturhluti […] færst til hægri þannig að ákoman á ökutækið færðist frá afturhorni stuðara fram á við og lauk á vinstra afturhjóli. Dróst afturhluti […] vinstra megin inn á við allt frá „aftasta hluta grindarkjálka ... til fremsta hluta fals vinstri afturhurðar.“ Var yfirbyggingin að öðru leyti óskemmd. Í skýrslunni er gerð grein fyrir mælingu á formbreytingum með lasertæki. Ökutækið aflagaðist á vinstra afturhorni, afturhluta vinstri hliðar og vinstra afturhjóli. Engin ummerki fundust um eldri skemmdir eða viðgerðir. Niðurstaða rannsóknarinnar er eftirfarandi: „Formbreyting á ökutækinu var á vinstra afturhorni, afturhluta vinstri hliðar og vinstra afturhjóli. Afturhluti […] vinstra megin dróst inn á við allt frá aftasta hluta grindarkjálka, burðarbiti í sjálfberandi yfirbyggingu, allt frá fremsta hluta fals vinstri afturhurðar.“

Í skýrslu um bíltæknirannsókn á ökutækinu […] segir að rannsóknin hafi samkvæmt beiðni beinst að ástandi hemla og formbreytingu á burðarvirki og yfirbyggingu. Hemlamæling var gerð með hemlaklukku og formbreyting mæld með lasertæki. Notuð var rétt staða mælipunkta í sambærilegu ökutæki og hún borin saman við stöðu tilsvarandi mælipunkta í […]. Þannig hafi fengist út aflögun yfirbyggingar og burðarvirkis. Þá segir að ökutækið hafi verið skemmt á framhluta eftir högg sem hafi komið sem næst miðlínu þess. Gerðar hafi verið mælingar á formbreytingu yfirbygginga og stöðu grindarkjálka fremst. Koma lýsingar á stöðu burðarvirkis og yfirbyggingar fram á ljósmyndum sem eru hluti skýrslunnar. Í niðurstöðu rannsóknarinnar segir meðal annars að enginn ágalli hafi fundist í hemlabúnaði utan þess að stöðuhemilsvírarnir sem yfirfæra aflið frá stöðuhemilshandfanginu til stöðuhemlaborða í afturhjólum hafi verið lausir úr tengingu við handfangið og því hafi stöðuhemillinn ekki virkað. Miðað við nuddför á endum víranna hafi þeir verið tengdir en losnað. Þá segir að ekki sé útilokað að vírarnir hafi losnað vegna vanrækslu í viðgerð á hemlabúnaði, en miðað við ryðtæringu á innri slitflötum hemladiskanna að aftan hafði verið gert við hemlana og skipt um hemlaklossa fyrir aksturshemla. Veruleg formbreyting varð á framhluta ökutækisins í árekstri og tilfærsla fremsta hluta grindarkjálkanna en þeir hafi dregist saman þegar þverbitinn innan við stuðarann sem tengir kjálkana saman hafi gengið inn á við. Hafi bíltæknirannsóknin leitt í ljós að aksturshemlar hafi virkað eðlilega og í hemlaprófun hafi hemlunin reynst „góð eða 78% af G.“ Hafi ökutækið látið fullkomlega að stjórn í hemlaprófuninni.

D

E, prófessor í vélaverkfræði, mældi ökuhraða bifreiðarinnar […] þegar hún lenti á bifreiðinni […] á bifreiðastæðinu við Fylkisveg. Í greinargerð E, sem dagsett er 28. desember 2015, er lýst þeim aðferðum sem notaðar eru til að greina hraða bifreiðar, sett upp líkan af atburðinum og fjallað um úrvinnslu útreikninga. Þá eru niðurstöður settar fram. Um forsendur og líkangerð segir meðal annars: Yfirborð vegar er slétt malbik sem var að þorna þegar atburðurinn átti sér stað. Gengið er út frá því að ökutækið […] hafi verið kyrrstætt í stæði á bifreiðastæðinu austan Fylkisvegar og að ökutækið […] hafi ekið inn á stæðið, haldið beinni stefnu og ekið án þess að hemla á vinstra afturhorn ökutækisins […]. Þá er formbreyting ökutækis […], sem er á framenda, metin út frá ljósmynd sem birt er í greinargerðinni með skýringum. Formbreyting ökutækis […], sem er á vinstra afturhorni, er metin út frá ljósmynd sem birt er með skýringum í greinargerðinni.

Ökutækið […] kastaðist frá eftir áreksturinn um vegalengdina 4,19 metra. Ökutækið […] kastaðist frá eftir áreksturinn um vegalengdina 2,20 metra og snérist um 80°. Niðurstöður um hraðaútreikninga ökutækis […] þegar það ekur á vinstra afturhorn ökutækis […], sem var kyrrstætt, eru:

-ætlaður hraði er 37 km/klst.

-mögulegur lágmarkshraði er 34 km/klst.

-mögulegur hámarkshraði er 40 km/klst.

Orðrétt segir í lok greinargerðar E: „Þeir þættir sem ekki er tekið tillit til í útreikningum valda því að raunverulegur hraði er meiri en útreiknaður hraði.“

II

Ákærði lagði fram skriflega greinargerð samkvæmt heimild í 1. mgr. 165. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Þar segir meðal annars að niðurstaða í skýrslu E um að mögulegur hámarkshraði bifreiðarinnar hafi verið 40 km/klst. standist ekki, enda sé niðurstaðan byggð á gefinni forsendu um staðsetningu bifreiðarinnar sem ekið hafi verið á. Fram komi í skýrslu tæknideildar lögreglu að ekki sé vitað með nákvæmum hætti hvar í bifreiðastæðinu bifreiðin […] hafi verið staðsett, en miðað sé við ætlaða stöðu hennar, það er að henni hafi verið lagt á milli yfirborðsmerkinga sem afmarki bílastæðið. Sé við það miðað hafi afturendi hennar færst um 4,19 metra þegar bifreiðarnar snertust. Engar haldbærar upplýsingar liggi hins vegar fyrir um staðsetningu bifreiðarinnar […] fyrir áreksturinn og hafi það nánast ekkert verið rannsakað af lögreglu. Ályktunin um að afturhluti bifreiðarinnar hafi kastast til um 4,19 metra sé greinilega byggð á því að bifreiðinni hafi verið rétt lagt milli merktra bílastæðislína. Ekki sé fallist á að lögreglan geti gefið sér að bifreiðinni hafi verið rétt lagt og sé sérstaklega bent á það að engar aðrar bifreiðar voru á stæðunum við hliðina, sem hafi gert það að verkum að ekkert hafi komið í veg fyrir að bifreiðin væri skökk í stæðinu.

Þá segir að ákæra málsins snúist um líkamsárás samkvæmt 217. gr. almennra hegningarlaga. Til að slíkt brot geti talist liggja fyrir þarf að liggja fyrir sönnun sem ekki verði vefengd með skynsamlegum rökum um að ákærði hafi ekið viljandi á bifreiðina […] og ætlað sér með því að valda líkamsmeiðingum. Hvorugt liggi fyrir í málinu. Ákært sé fyrir hættubrot samkvæmt 4. mgr. 220. gr. almennra hegningarlaga sem gangi út á það að fangelsi skuli sá sæta sem í ábataskyni, af gáska eða á annan ófyrirleitinn hátt stofni lífi eða heilsu annarra í augljósan háska. Ljóst sé að ákærði hafi ekki stofnað lífi eða heilsu þeirra sem voru í bifreiðinni […] í augljósan háska og séu afleiðingar árekstursins besta staðfestingin á því. Þá skipti miklu að hraðaútreikningar vegna bifreiðar ákærða séu gallaðir og veiti ekki sönnun um raunverulegan hraða, sem sé lykilatriði þegar háski sé metinn í þessu sambandi og hversu augljós hann hafi verið.

III

Verða nú raktar skýrslur ákærða og vitna fyrir dómi að því marki sem máli skiptir fyrir úrlausnarefnið:

Í skýrslu sinni fyrir dómi neitaði ákærði sök í málinu. Skýrði hann svo frá að hann hefði farið að sundlauginni í Árbæ í umrætt skipti vegna gruns um að eiginkona sín ætti í framhjáhaldi. Kvaðst hann hafa lagt bíl sínum í stæði til hliðar við sundlaugina og sjái „þennan mann sitja þar í bíl.“ Í þeirri andrá hefði hann séð A koma akandi niður götuna og leggja bíl sínum í stæði í brekku og manninn labba inn í bílinn. Skýrði ákærði frá því að fokið hefði í hann og hann rokið af stað og ætlað að leggja bíl sínum þversum fyrir aftan bíl A. Kvaðst hann hafa ætlað að bremsa með því að „rífa í handbremsuna“ og stökkva út úr bílnum og eiga orðaskipti við manninn en þegar hann hefði rifið í „gengur handbremsan alla leiðina upp og það er eins og það slitni barkinn.“ Við þetta hefði honum fipast og stýrið gengið aðeins til hliðar og hann endað aftan á horninu á bílnum. Kvað hann atvikið slys og aldrei verið markmiðið að keyra á bíl eða meiða aðra manneskju eða sjálfan sig. Í kjölfarið hefði hann rifið upp hurðina á sínum bíl og B sprottið út úr bílnum. Kvaðst hann hafa sest inn í bíl til A og þau lent í orðaskaki. Spurður um afstöðu bíls A kvaðst ákærði halda að bíllinn hefði „vísað aðeins undan í stæði en ekkert meira en það,“ það er afturhluti bílsins hefði vísað örlítið í austur. Bíl A hefði ekki verið lagt milli bílastæðalína. Þá kvaðst hann hafa verið að aka á um 20 til 30 kílómetra hraða þegar bílarnir skullu saman. Ákærði kvað ekki rétt eftir sér haft að hann hefði gefið þá skýringu á hátterninu að hann hefði ætlað sér að hræða þau. Þá kvað ákærði þau A hafa unnið úr sínum málum í dag og eiga unga dóttur saman.

Í skýrslu sinni kvaðst vitnið A hafa ákveðið að keyra niður í Árbæjarlaug þar sem hún hafi vitað að B gæti hafa verið í sundi þar sem hún hafi viljað spjalla við hann. Kvaðst hún hafa séð B labba út og gefið honum merki um að koma. Kvaðst hún hafa lagt bílnum í „öftustu stæðunum“ við Árbæjarlaug og B sest inn í bílinn. Skýrði A frá því að þau B hefðu rætt saman í um 5 til 6 mínútur þegar atvikið hefði átt sér stað. Kvaðst hún hafa horft út um farþegagluggann og ekki séð bílinn koma en B, sem setið hafi í farþegasætinu, gefið frá sér einhver hljóð og einni til tveimur sekúndum síðar hefði höggið komið á bílinn. Kvaðst hún hafa kastast til og verið í sjokki en atvikið hefði engar aðrar afleiðingar haft. Kvað A ekki rétt haft eftir sér í lögregluskýrslu að hún hefði orðið fyrir miklu höfuðhöggi. Hún hefði aðeins sagt að það gæti verið að höfuðið hefði skollið í. Kvað hún þau ákærða hafa rifist í bílnum í kjölfarið en áreksturinn ekki komið til tals í því samtali. Þá mundi hún ekki eftir því að ákærði hefði haft uppi hótanir gagnvart sér. Aðspurð kvaðst A ekki muna nákvæma afstöðu á bíl sínum í stæðinu en kvaðst halda að hann hefði verið aðeins skakkur, með framendann í áttina upp Fylkisveg. A kvað viðhorf sitt til atburðarins í upphafi hafa byggst á því sem B hefði sagt henni að hann hefði séð og því að hún hefði verið í miklu uppnámi. Um tveimur dögum síðar hefði hún séð atvikið í réttu ljósi.

Vitnið B lýsti atvikum þannig að þau A hefðu verið að tala saman í bíl A þegar hann hefði séð „útundan sér“ hvar ákærði kom aðvífandi á nokkurri ferð og ók á bílinn. Aðeins hafi liði „sekúndur“ frá því hann sá bíl ákærða og þar til hann ók á þau. Kvað hann bíl ákærða hafa lent á þeim í um 120° stefnu miðað við bíl A. Kvað vitnið bílinn hafa komið beint að þeim. Um þann framburð sinn hjá lögreglu að ákærði hefði ekið meðvitað á bílinn, kvaðst hann byggja hann á því að það leiði af sjálfu sér að þegar ekið sé á þessum hraða og stefnt á annan bíl sé það gert meðvitað. Kvað vitnið ekki mögulegt fyrir sig að átta sig á hvaða hraða ákærði hefði verið á. Þá kvaðst vitnið ekki muna eftir því að ákærði hefði haft uppi hótanir í þess garð í kjölfar atviksins. Aðspurt kvað vitnið bíl A hafa verið lagt rétt í stæði miðað við málaðar línur og henst til við höggið með þeim hætti sem myndir í gögnum málsins sýni.

F lögregluvarðstjóri kom fyrir dóminn og skýrði frá því að hann hefði fengið tilkynningu um að maður hefði keyrt á bíl eiginkonu sinnar í afbrýðiskasti. Kvaðst hann upphaflega hafa komið einn á vettvang og séð A standa við bílana, sem hafi verið mikið klesstir, en ákærða og B tala saman nokkuð frá. Kvaðst hann hafa metið aðstæður svo að tilefni væri til að kalla til sjúkrabíl, tæknideild og rannsakendur á staðinn. Hafi tjón á bílunum og hvernig þeir snéru bent til þess að höggið hefði verið mikið og hugsanlega verið um tilraun til manndráps að ræða. Kvað hann A hafa verið í miklu áfalli og svimað en ekkert séð á henni. 

C, lögreglufulltrúi í tæknideild, skýrði svo frá í skýrslu sinni fyrir dómi að á vettvangi hafi mátt sjá hvar bíl hefði verið ekið á kyrrstæðan bíl sem snúist hefði þversum á bílastæðinu. Við vettvangsskoðun hefðu engin hemlaför verið sjáanleg. Staðfesti C að við gerð skýrslu um atvikið hefðu ekki legið fyrir upplýsingar um hvernig kyrrstæða bílnum hefði verið lagt í stæðið heldur gengið út frá því að bifreiðinni hefði verið lagt beint í stæðið miðað við yfirborðsmerkingar. Kvaðst hann telja þessa afstöðu bílsins líklegasta en ekki unnt að útiloka að hún hefði verið önnur. Þá kvað hann engin för hafa verið í malbikinu sem gefið gátu til kynna hvernig bíllinn hefði færst til. Aðspurður kvaðst C ekki kannast við að bifreið A hefði kastast um 2,20 metra eins og miðað sé við í skýrslu E prófessors í málinu.

Vitnið G kvaðst hafa mælt formbreytingar á bílunum tveimur samkvæmt beiðni lögreglu. Í þeirri vinnu hefði hann leitast við að finna út afstöðu bílanna er þeir rákust saman og hvernig áreksturinn hefði þróast. Kvað hann rannsókn sína hafa leitt í ljós að ákoma […]-bifreiðarinnar hafi verið 15° frá því að vera hornrétt þegar bílarnir lentu saman. Við áreksturinn hefði kyrrstæða […]-bifreiðin hörfað undan en […]-bifreiðin haldið stefnu sinni. Við snúning […]-bifreiðarinnar hefði ákomustaður færst frá aftari horni bifreiðarinnar að afturhjóli. Ákomustaður á […]-bifreiðinni hefði verið nálægt miðju á framhluta bifreiðarinnar. Kvaðst hann ekki geta sagt til um hvort kyrrstæðu bifreiðinni hefði verið lagt rétt milli yfirborðslína á bílastæðinu en kvað þó skemmdirnar gefa til kynna að bifreiðin hefði færst „allmikið til“. Aðspurður um ástand á stöðuhemli kvað vitnið víra sem liggi frá handbremsu aftur í hjólin hafa losnað úr gripi sem þeir hefðu átt að liggja í. Af förum hefði mátt greina að búnaðurinn hefði áður verið tengdur. Kvaðst vitnið ekki geta sagt til um ástæðu þess að vírarnir hefðu losnað úr og að engin leið væri að sjá hvenær það hefði gerst. Aðspurt sagði vitnið handbremsu venjulega ekki það öfluga að geta stöðvað bifreið sem ekið væri á 30 km hraða á klukkustund. Þá kvað vitnið það eðlilegt að loftpúðar kyrrstæðu bifreiðarinnar hefðu ekki blásið út við höggið þar sem höggið hefði komið á ská aftan á horn bifreiðarinnar.

Í skýrslu E prófessors fyrir dómi kvað hann rannsókn sína á hraða bifreiðar ákærða byggða á gögnum sem hann hefði fengið frá lögreglu um áreksturinn, meðal annars að kyrrstæða bifreiðin hefði í upphafsstöðu verið bein í stæði og hvert frákast hefði verið. Við mat á hraðanum kvaðst hann hafa stuðst við formbreytingar og frákast bifreiðanna. Þá kvað hann útreikningana byggða á því að dekkin á báðum bílum hefðu verið læst. Ef lagt væri til grundvallar að […]-bifreiðin hefði verið á „fríhjóli“ væri reiknaður hraði bifreiðarinnar lægri en skýrsla hans gerði ráð fyrir, þar sem núningsstuðull bifreiðarinnar væri þá minni. Þá kvað hann útreikninga sína ekki taka tillit til þess að dekk kyrrstæðu bifreiðarinnar hefðu farið yfir og á kant sem gerði það að verkum að reiknaður hraði […]-bifreiðarinnar í niðurstöðum hans væri lægri en raunverulegur hraði bifreiðarinnar.

Vitnið D, læknir og sérfræðingur slysa- og bráðadeild Landspítalans í Fossvogi, kvaðst hafa skoðað A ásamt deildarlækni við komu á bráðamóttökuna. Staðfesti D að A hefði verið í miklu uppnámi. Líkamlegir áverkar A væru afleiðing af því að hún hefði slengst til við áreksturinn og fengið hnykk á hálsinn og högg á hnakkann. Kvað hún A ekki hafa áttað sig á því hvort hún hefði rekist utan í dyrakarm eða hnakkapúða. Kvað hún A hafa verið með augljós einkenni hálstognunar.

Auk þess gáfu skýrslu fyrir dómi vitnin I lögreglumaður, J unglingafulltrúi, K félagsráðgjafi, L sálfræðingur og M héraðsdómslögmaður, en ekki þykir vera þörf á að rekja framburð þeirra sérstaklega.

IV

Ákærða í máli þessu er gefin að sök líkamsárás og hættubrot með því að hafa á bifreiðastæði við Árbæjarlaug ekið bifreiðinni […] á allt að 40 km/klst. hraða á vinstra afturhorn bifreiðarinnar […] sem þar stóð kyrrstæð, með þeim afleiðingum að eiginkona hans, A, sem sat ökumannsmegin í bifreiðinni […], fékk högg aftan á hnakka hægra megin, tognun og ofreynslu á hálshrygg auk þess sem ákærði hafi með háttseminni stofnað lífi og heilsu A og B, sem sat í farþegasæti bifreiðarinnar, í augljósan háska á ófyrirleitinn hátt. Samkvæmt ákæru er háttsemi ákærða talin varða við 217. gr. og 4. mgr. 220. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Svo sem fram er komið neitar ákærði sök. Fyrir dómi skýrði hann frá því að fokið hefði í hann þegar hann hafi séð mann setjast upp í bíl konu sinnar við Árbæjarlaug. Hann hefði ætlað að leggja bíl sínum fyrir aftan bíl konunnar og ætlað að stöðva bílinn með því að „rífa í handbremsuna“. Ákærði hefði því næst ætlað að stökkva út úr bílum og eiga orðaskipti við manninn. Handbremsan hefði hins vegar gengið alla leiðina upp eins og barkinn hefði slitnað. Við það hefði honum fipast, stýrið gengið aðeins til hliðar og bifreiðin endað aftan á horninu á bíl konunnar. Atvikið hefði verið slys. Aldrei hefði staðið til að aka á bílinn eða meiða einhvern.

Vitnið A greindi frá því fyrir dómi að hún hefði ekki séð bifreiðina […] koma að bifreiðinni […], en vitnið B hefði gefið frá sér einhver hljóð einni til tveimur sekúndum áður en höggið kom á bílinn. Hún hefði kastast til eins og eðlilegt væri við bílslys. Hún kvaðst hafa orðið fyrir áfalli, en atvikið hefði ekki haft neinar aðrar afleiðingar. Þá sagði vitnið að framendi bifreiðarinnar […] hefði snúið að Fylkisvegi. Bifreiðin væri sjálfskipt og hefði verið í parki. Nánar aðspurt kvaðst vitnið ekki hafa fengið högg við áreksturinn, fremur hnykk. Í skýrslu vitnisins B fyrir dómi kom fram að hann hefði séð „út undan sér“ hvar ákærði kom aðvífandi á nokkurri ferð og hefði ekið beint að bílnum sem vitnið og A sátu í. Þá sagði vitnið um þann framburð sinn hjá lögreglu, að bifreiðin […] hefði ekið vísvitandi á bifreiðina […], að það leiði af sjálfu sér þegar ekið sé á þeim hraða sem bifreiðin var á og stefnt á annan bíl sé það gert meðvitað. Þá kom fram hjá vitninu að bifreiðinni […] hefði verið lagt rétt í stæði miðað við málaðar línur og hefði hún kastast til við höggið með þeim hætti sem ljósmynd í gögnum málsins sýni. Í framburði F lögregluvarðstjóra kom fram að tjón á báðum bílunum og hvernig þeir snéru þegar að var komið hefði bent til þess að höggið við áreksturinn hefði verið mjög mikið og hugsanlega verið um tilraun til manndráps að ræða. 

Í ljósi þess sem fram er komið og hugarástands ákærða þykir fjarstæðukennd sú skýring að hann hafi í umrætt sinn ætlað að nota handbremsu til að stöðva bifreiðina sem hann ók í því ljósi að aksturshemlar bifreiðarinnar virkuðu eðlilega, eins og staðfest er í skýrslu G. Verður því ekki byggt á þeim skýringum sem ákærði gefur á því af hvaða ástæðu bifreiðirnar rákust saman. Fyrir liggur að ákærði vefengir útreikninga E prófessors á ökuhraða bifreiðarinnar […] og segir ekki standast að ökuhraðinn hafi verið 40 km/klst., enda byggist það á gefinni forsendu um staðsetningu bifreiðarinnar sem ekið var á. Hefur ákærði lagt fram í málinu álit H í bréfi 21. september 2016, stíluðu á eiginkonu ákærða, vitnið A, þar sem komist er að þeirri niðurstöðu að ökuhraði bifreiðarinnar […] hafi verið á bilinu 28 km/klst. þegar gert er ráð fyrir að einungis stöðuhemli hafi verið beitt, eða 22 km/klst. hafi engum hemlum verið beitt.

Að beiðni lögreglu reiknaði E, prófessor í vélaverkfræði, út hraða bifreiðarinnar […] þegar henni var ekið á vinstra afturhorn bifreiðarinnar […], sem var kyrrstæð. Kemst E að þeirri niðurstöðu að mögulegur hámarkshraði bifreiðarinnar hafi verið 40 km/klst. Fyrir dómi greindi E frá því að rannsókn hans á hraða bifreiðarinnar hefði verið byggð á gögnum sem hann fékk hjá lögreglu um áreksturinn, meðal annars þeim upplýsingum að kyrrstæðu bifreiðinni hefði við upphafsstöðu verið lagt beint í stæði. Þá kvaðst hann við mat á hraðanum hafa stuðst við formbreytingar og frákast bifreiðanna. Við útreikninga sína hefði hann hins vegar ekki tekið tillit til þess að dekk kyrrstæðu bifreiðarinnar hefðu farið yfir og á kant sem gerði það að verkum að reiknaður hraði bifreiðarinnar […] væri lægri í niðurstöðu hans en raunverulegur hraði. Á móti því kemur að útreikningar E miða við það að bifreiðin […] hefði ekki fríhjólað við áreksturinn, heldur hefðu dekk beggja bifreiðanna verið læst. Að þessu gættu þykir mega byggja á skýrslu E um hraða bifreiðarinnar […] þegar áreksturinn varð. Fær óstaðfest álit H í bréfi 21. september 2016 því ekki breytt.

Samkvæmt vettvangsskýrslu C, lögreglumanns í tæknideild, og í framburði hans og vitnisins B, sem sat í kyrrstæðu bifreiðinni, fyrir dómi þykir sannað að bifreiðinni […] hafi verið lagt beint í stæði á milli yfirborðsmerkinga. Í skýrslu C segir að afturendi bifreiðarinnar […] hafi færst til austurs um 4,19 metra frá upphafsstöðu bifreiðarinnar þegar bifreiðarnar snertust. Samkvæmt skýrslu E prófessors var reiknaður hámarkshraði bifreiðarinnar […] allt að 40 km/klst. þegar bifreiðin lenti á afturhorni bifreiðarinnar […].

Samkvæmt læknisvottorði og framburði D, sérfræðings á slysa- og bráðadeild Landspítalans, fyrir dómi, en hún skoðaði brotaþola við komu hennar á slysa- og bráðadeild í kjölfar árekstursins, var brotaþoli greind með tognun og ofreynslu á hálshrygg. Fram kom hjá D að líkamlegir áverkar brotaþola væru afleiðingar af því að hún hefði slengst til við áreksturinn, fengið hnykk á hálsinn og högg á hnakkann.

Samkvæmt rannsóknargögnum málsins og framburði ákærða fyrir dómi er fram komið að ákærði í máli þessu hafði grunað eiginkonu sína um að halda fram hjá honum og hafði um nokkurt skeið fylgst með ferðum hennar. Þegar atvik málsins urðu fór ákærði að sundlauginni í Árbæ og lagði bifreið sinni til hliðar við sundlaugina. Sá hann þá „þennan mann“ sitja þar í bíl og í sömu andrá sá ákærði eiginkonu sína koma akandi niður götuna og leggja bíl sínum í stæði og manninn labba að bíl konunnar og setjast inn í bíl hennar. Lýsti ákærði því að fokið hefði í hann og hann rokið af stað akandi. Að virtum aðstæðum á vettvangi, eins og þeim er lýst í skýrslum lögreglumannanna F og C, og samkvæmt framburði vitnisins B, sem sá ákærða aka í áttina að kyrrstæða bílnum, þykir nægilega sannað, þannig að ekki verði vefengt með skynsamlegum rökum, að ákærði hafi í afbrýðiskasti ekið vísvitandi á kyrrstæðu bifreiðina […] á allt að 40 kílómetra hraða á klukkustund á vinstra afturhorn bifreiðarinnar með þeim afleiðingum sem lýst er í ákæru málsins, og að með þeirri háttsemi sinni að aka bifreiðinni, sem er 1.693 kg að þyngd samkvæmt skýrslu E, á allt að 40 km/klst. hafi hann stofnað lífi og heilsu A og B í augljósan háska á ófyrirleitinn hátt. Samkvæmt þessu verður ákærði sakfelldur fyrir líkamsárás og hættubrot, sbr. 217. gr. og 4. mgr. 220. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.    

V

Ákærði, sem fæddur er 1970, hefur ekki áður sætt refsingu. Hann er með dómi þessum sakfelldur fyrir brot gegn 217. gr. og 4. mgr. 220. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Ákærði bar um það að hann hefði verið í mikilli geðshræringu í umrætt sinn þegar hann hefði komist að því að eiginkona hans stæði í framhjáhaldi. Er þetta ekki dregið í efa af dómnum, en með það í huga verður að álykta sem svo að ákærði hafi ekki haft sterk áform um að valda eiginkonu sinni eða vitninu B ótta um líf þeirra, eða að ásetningur hans hafi staðið til þess að valda þeim skaða. Að þessu virtu þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 45 daga. Fært þykir að skilorðsbinda refsinguna eins og nánar greinir í dómsorði.

Með vísan til 1. mgr. 218. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála ber ákærða að greiða sakarkostnað málsins, það er þóknun tilnefnds verjanda við upphaf rannsóknar og skipaðs verjanda síns, sem ákveðin er eins og í dómsorði greinir, að virðisaukaskatti meðtöldum. Þá greiði ákærði 292.076 krónur í annan sakarkostnað.

Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari flutti málið af hálfu ákæruvaldsins.

Dóm þennan kveða upp Jón Höskuldsson héraðsdómari, sem dómsformaður, Kristinn Halldórsson héraðsdómari og Ármann Gylfason dósent. Fyrir uppkvaðningu dómsins var gætt fyrirmæla 1. mgr. 184. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. 

D ó m s o r ð:

Ákærði, X, sæti fangelsi í 45 daga. Fresta skal fullnustu refsingarinnar og skal hún falla niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dómsins að telja, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Ákærði greiði þóknun verjenda sinna, Jónasar Arnar Jónassonar hdl., 61.380 krónur og  Bjarna Haukssonar hrl., 1.023.000 krónur. Þá greiði ákærði 292.076 krónur í annan sakarkostnað.