Mál nr. 438/2018

Ákæruvaldið (Sigríður J. Friðjónsdóttir ríkissaksóknari)
gegn
X (Björgvin Jónsson lögmaður)
Lykilorð
 • Kærumál.
 • Lögmaður.
 • Atvinnuréttindi.
 • Stjórnarskrá.
Útdráttur

X krafðist staðfestingar úrskurðar héraðsdóms þar sem svipting réttinda hans til að vera héraðsdómslögmaður var felld niður. Í úrskurði Landsréttar kom fram að við umfjöllun um kröfu X fyrir dómi bæri ekki aðeins að fjalla um hvort fella bæri niður réttaráhrif dóms um réttindasviptingu hans, heldur kæmi einnig til álita hvort hann fullnægði almennum hæfisskilyrðum til að njóta þeirra réttinda. Fram kom að ákvæði almennra hegningarlaga nr. 19/1940, er lutu að uppreist æru, hefðu verið felld brott tímabundið með lögum nr. 80/2017 og af því leiddi að dómaframkvæmd um endurveitingu lögmannsréttinda, þar sem niðurstaða hafi ráðist af því hvort dómfellda hafi verið veitt uppreist æru, hefði ekki þá þýðingu sem hún hefði áður haft. Var talið varhugavert að slá því föstu að X hefði áunnið sér það traust sem lögmenn yrðu að njóta að teknu tilliti til hlutverks lögmanna í réttarkerfinu og þeirra skyldna sem á þeim hvíla samkvæmt lögum. Þá var litið til þess að bú X hefði verið tekið til gjaldþrotaskipta árið 2001 og því fullnægði hann ekki almennu hæfisskilyrði 2. töluliðar 1. mgr. 6. gr. laga nr. 77/1998, um lögmenn. Þá yrði ákvæði 2. mgr. 6. gr. laganna ekki skilið á annan veg en að meðmæli Lögmannafélags Íslands, um að X yrði veitt undanþága frá fyrrgreindu hæfisskilyrði, yrðu að liggja fyrir svo unnt væri að fallast á kröfu X, en félagið hefði hafnað því að veita slík meðmæli. Væri synjun Lögmannafélagsins ítarlega rökstudd og henni yrði ekki hnekkt með röksemdum X sem hann tefldi fram í máli sem rekið væri á grundvelli 2. mgr. 68. gr. a í almennum hegningarlögum og XXVII. kafla laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála. Sú skerðing atvinnufrelsis sem fælist í sviptingu lögmannsréttinda samkvæmt lögum fullnægði áskilnaði 75. gr. stjórnarskrárinnar og af þeim lagareglum sem fjalli um sviptingu lögmannsréttinda mætti enn fremur ráða með nægilega skýrum hætti á hvaða grunni viðkomandi gæti öðlast þau réttindi að nýju. Þau sjónarmið sem X tefldi fram, og reist væru á 75. gr. stjórnarskrárinnar, leiddu ekki til þess að víkja bæri til hliðar þeim lagakröfum sem gerðar væru í því efni. Var kröfu X því hafnað.

Úrskurður Landsréttar

Landsréttardómararnir Ásmundur Helgason, Hervör Þorvaldsdóttir og Ragnheiður Harðardóttir kveða upp úrskurð í máli þessu.

Málsmeðferð og dómkröfur aðila

 1. Sóknaraðili skaut málinu til Landsréttar með kæru 18. maí 2018. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 16. maí 2018, í málinu nr. Ö-6/2018, þar sem svipting réttinda varnaraðila til að vera héraðsdómslögmaður var felld niður. Kæruheimild er í w-lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála.
 2. Sóknaraðili krefst þess að kröfu varnaraðila, um niðurfellingu sviptingar leyfis hans til málflutnings fyrir héraðsdómi, verði hafnað og honum gert að greiða allan málskostnað vegna meðferðar málsins.
 3. Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og málskostnaðar úr ríkissjóði vegna meðferðar málsins í héraði og fyrir Landsrétti.

  Niðurstaða
 4. Málavextir eru raktir í hinum kærða úrskurði. Eins og þar kemur fram var varnaraðili sakfelldur fyrir manndráp með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 29. maí 2001 og dæmdur til 16 ára fangelsisvistar, en gæsluvarðhald hans frá 16. nóvember 2000 skyldi draga frá fangelsisrefsingunni. Varnaraðili var með dóminum jafnframt sviptur leyfi til málflutnings fyrir héraðsdómi með vísan til niðurlags 2. mgr. 68. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Honum var veitt reynslulausn frá og með 22. maí 2011 skilorðsbundið í fjögur ár. Ekki liggur annað fyrir en að varnaraðili hafi staðist skilorð reynslulausnarinnar.
 5. Í niðurlagi 2. mgr. 68. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 6. gr. laga nr. 31/1961, kemur fram að sé maður dæmdur sekur um brot og það telst stórfellt megi svipta hann heimild, er hann hefur öðlast til að stunda starfsemi sem opinbert leyfi, löggildingu, skipun eða próf þarf til að gegna, ef hann telst ekki framar verður til að rækja starfann eða njóta réttindanna. Svipta má mann slíkum réttindum um tiltekinn tíma, allt að fimm árum, eða ævilangt, sbr. 3. mgr. 68. gr. laganna.
 6. Samkvæmt 2. mgr. 68. gr. a í almennum hegningarlögum, sbr. 7. gr. laga nr. 31/1961, er þeim sem sviptur hefur verið réttindum ótímabundið með dómi í sakamáli heimilt, þegar fimm ár eru liðin frá uppsögu dóms, að bera undir dómstóla, samkvæmt reglum um meðferð sakamála, hvort fella skuli niður réttindasviptingu. Krafa varnaraðila í málinu er reist á þessum lagagrunni. Í athugasemdum við frumvarp það er varð að lögum nr. 31/1961 kemur fram að ákvæðið sé nýmæli um endurveitingu réttinda þar sem almennt ákvæði um það efni hefði skort. Þar var haft á orði að dómstóll fjallaði um endurveitingu réttindanna. Við umfjöllun um kröfu varnaraðila fyrir dómi ber því ekki aðeins að fjalla um hvort fella beri niður réttaráhrif dóms um réttindasviptingu hans, heldur kemur einnig til álita hvort hann fullnægi almennum hæfisskilyrðum til að njóta þeirra réttinda.
 7. Eins og ráðið verður af athugasemdum við frumvarp það er varð að lögum nr. 31/1961 er réttindasvipting samkvæmt niðurlagi 2. mgr. 68. gr. almennra hegningarlaga vegna stórfellds brots ekki aðeins á því reist að nauðsynlegt sé að maður þurfi að vera hæfur til að rækja starfann, heldur einnig að almenningur beri traust til hans. Þar segir að með stórfelldu refsiverðu broti kunni hann að hafa „firrt sig trausti almennings“ með þeim afleiðingum að hann sé ekki lengur talinn „verður þess að njóta leyfis eða löggildingar“. Við ákvörðun um að beita þessari heimild var í athugasemdunum við það miðað að ekki kæmi til réttindasviptingar nema maður gerðist sekur um mjög vítavert atferli „og á þá ekki einungis að líta á brotategundina, heldur einnig öll atvik að broti og sérhagi sakbornings“.
 8. Ekki er í framangreindum athugasemdum vikið að því til hvers dómstólar eiga að líta þegar metið er hvort fallast eigi á kröfu um endurveitingu réttinda samkvæmt 2. mgr. 68. gr. a í almennum hegningarlögum. Af framansögðu verður þó helst ráðið að taka beri tillit til atriða sem eru til þess fallin að varpa ljósi á hvort ætla megi að viðkomandi hafi áunnið sér traust til þess að gegna að nýju þeim starfa sem hann var sviptur réttindum til að gegna.
 9. Af dómi Hæstaréttar Íslands 16. október 1980 í máli nr. 187/1980 (Hrd. 1980:1647), sem vikið er að í hinum kærða úrskurði, verður ráðið að við úrlausn á þessu hafi einkum verið litið til þess hvort dómfellda hefði verið veitt uppreist æru. Í því máli var auk þess tekið tillit til þess hve langt var síðan viðkomandi var sviptur málflutningsréttindum og að ekki yrði annað séð en að hann uppfyllti almenn skilyrði til málflutningsstarfa. Hafði þá verið leitað umsagnar meðal annars Lögmannafélags Íslands, en í umsögn stjórnar félagsins sagði að hún sæi ekki annað en að almennum skilyrðum væri fullnægt til að viðkomandi fengi leyfi til málflutningsstarfa. Sömu sjónarmiðum var beitt við úrlausn á kröfu um endurveitingu lögmannsréttinda sem fjallað var um í dómi Hæstaréttar Íslands 15. júní 2017 í máli nr. 361/2017.
 10. Forseti Íslands féllst 23. nóvember 2015 á tillögu innanríkisráðherra um að varnaraðila yrði veitt uppreist æru að því er snerti framangreindan héraðsdóm frá 29. maí 2001. Tæplega tveimur árum síðar voru ákvæði almennra hegningarlaga er lutu að uppreist æru felld brott tímabundið með lögum nr. 80/2017. Af athugasemdum með frumvarpi er varð að þeim lögum verður ráðið að tilefni lagasetningarinnar hafi verið umræða í samfélaginu, í kjölfar fyrrgreinds dóms Hæstaréttar Íslands 15. júní 2017, um tíðkanlega framkvæmd við afgreiðslu beiðna um uppreist æru. Þar segir meðal annars að almennt muni vera sammæli „um að það sé óásættanlegt að menn sem dæmdir hafa verið fyrir mjög alvarleg afbrot geti endurheimt borgaraleg réttindi sem þeir hafa misst með refsidómi svo skömmu eftir að afplánun er lokið eins og raunin er samkvæmt núgildandi lögum og stjórnsýsluframkvæmd“. Stæði og til að taka lagafyrirmæli um áhrif mannorðsflekkunar til heildarendurskoðunar. Yrði þá miðað við að mælt yrði fyrir um það í viðkomandi lagabálkum í hvaða tilvikum sakaferill skyldi leiða til missis tiltekinna réttinda. Megi þannig taka „eðlilegt tillit til þeirra ólíku hagsmuna sem eru í húfi varðandi mismunandi störf og réttindi“. Þá yrði skoðað „hvaða skilyrði er rétt að setja fyrir því að einstaklingar öðlist tiltekin starfsréttindi, embætti og kjörgengi að nýju, þ.e. hvers konar brot og refsingar séu þess eðlis að rétt sé að þau girði fyrir slíkt og hve langur tími skuli líða frá því að refsing var að fullu tekin út“. Í frumvarpinu var vikið að efni þess í samhengi við atvinnufrelsisákvæði 75. gr. stjórnarskrárinnar, þar sem kveðið er á um að setja megi atvinnufrelsi skorður með lögum, enda krefjist almannahagsmunir þess. Á það er bent í frumvarpinu að rök megi færa fyrir því að „almannahagsmunir krefjist þess að þeir sem gerst hafi sekir um alvarleg afbrot sinni ekki ábyrgðarstörfum fyrir hið opinbera“. Eigi það meðal annars við um „störf sem varða með beinum hætti þjónustu við réttarkerfið, svo sem við á um lögmennsku og dómarastörf“.
 11. Af framangreindri lagasetningu leiðir að dómaframkvæmd um endurveitingu lögmannsréttinda, þar sem niðurstaða virðist hafa ráðist af því hvort dómfellda hafi verið veitt uppreist æru, hefur ekki þá þýðingu sem hún hafði áður. Verður því að meta í hverju tilviki hvort tilefni sé til þess að fella niður réttindasviptingu, meðal annars í ljósi alvarleika brotsins og þyngdar refsingar og að teknu tilliti til þess hve langur tími er liðinn frá því að viðkomandi var sviptur réttindunum, hve langt er síðan afplánun var lokið, hegðun hans í kjölfarið og kröfu um vammleysi sem eðlilegt er að gera til þeirra sem gegna þeim starfa sem um ræðir.
 12. Samkvæmt 3. mgr. 1. gr. laga nr. 77/1998, um lögmenn, eru lögmenn opinberir sýslunarmenn. Verður engum öðrum falið að fara með mál fyrir dómi í umboði málsaðila, sbr. 1. mgr. 2. gr. laganna. Þeir einir verða skipaðir eða tilnefndir verjendur í sakamáli eða réttargæslumenn brotaþola, sbr. 2. mgr. 33. gr. og 44. gr. laga nr. 88/2008. Auk þess að fara að lagafyrirmælum ber þeim að fylgja siðareglum sem Lögmannafélag Íslands setur og lúta eftirliti félagsins, sbr. 2. mgr. 5. gr. og 27. gr. laga nr. 77/1998. Að teknu tilliti til hlutverks lögmanna í réttarkerfinu og þeirra skyldna sem á þeim hvíla er brýnt að almenningur beri til þeirra traust.
 13. Varnaraðili var sem áður segir sakfelldur fyrir manndráp árið 2001 og dæmdur til 16 ára fangelsisrefsingar. Brot það sem hann var fundinn sekur um telst alvarlegast að lögum og án efa einnig að almenningsáliti. Þótt 17 ár séu nú liðin frá því dómur féll í manndrápsmálinu, sjö ár frá því að varnaraðila var veitt reynslulausn og þrjú ár frá því að reynslutíma lauk er enn varhugavert að slá því föstu að hann hafi áunnið sér það traust sem lögmenn verða að njóta samkvæmt framansögðu.
 14. Þá er til þess að líta að með úrskurði 25. október 2001 var bú varnaraðila tekið til gjaldþrotaskipta og lauk skiptum 23. júní 2004. Varnaraðili fullnægir því ekki almennu hæfisskilyrði 2. töluliðar 1. mgr. 6. gr. laga nr. 77/1998 um að bú hans hafi aldrei verði tekið til gjaldþrotaskipta. Eins og rakið er í hinum kærða úrskurði hefur Lögmannafélag Íslands hafnað því að mæla með að varnaraðila verði veitt undanþága frá framangreindu skilyrði, sbr. 2. mgr. 6. gr. laganna. Ákvæði þetta verður ekki skilið á annan veg en að slík meðmæli félagsins verði að liggja fyrir svo að varnaraðila sé unnt að starfa sem lögmaður að nýju.
 15. Synjun Lögmannafélagsins 6. febrúar 2018 er ítarlega rökstudd. Í niðurlagi hennar er vísað til þess að varnaraðili hafi gerst sekur um manndráp í tilefni af deilum um fjárhagsmálefni, ekki gætt að reglum um fjárvörslu lögmanna á fyrri tíð, veitt ónógar upplýsingar um fjárhag sinn, og eins og þar segir, leitast við að komast hjá réttindasviptingu með liðsinni annarra lögmanna í andstöðu við lög og siðareglur. Þá hafi hann veitt ófullnægjandi upplýsingar um kaup á tilteknum fasteignum auk þess sem losarabragur hafi verið á skattskilum hans. Synjun þessari verður ekki hnekkt með þeim lagaröksemdum, sem varnaraðili teflir fram, í máli sem hann rekur á grundvelli 2. mgr. 68. gr. a í almennum hegningarlögum og XXVII. kafla laga nr. 88/2008.
 16. Ótímabundin svipting lögmannsréttinda vegna stórfellds hegningarlagabrots varnaraðila er skerðing á atvinnuréttindum hans sem á sér stoð í 68. gr. almennra hegningarlaga. Almannahagsmunir krefjast hennar enda byggist hún á nauðsyn þess að almenningur beri fullt traust til þeirra sem því starfi gegna. Í ljósi hlutverks lögmanna á sama við um þá skerðingu atvinnufrelsis sem felst í þeirri kröfu að bú lögmanns megi aldrei hafa verið tekið til gjaldþrotaskipta. Skerðingin sem í þessu felst fullnægir áskilnaði 75. gr. stjórnarskrárinnar. Af lagareglum sem um þetta fjalla og vikið hefur verið að má enn fremur ráða með nægjanlega skýrum hætti á hvaða grunni viðkomandi getur öðlast þau réttindi að nýju. Þau sjónarmið sem varnaraðili teflir fram, og reist eru á framangreindu stjórnarskrárákvæði, leiða ekki til þess að víkja beri til hliðar þeim lagakröfum sem gerðar eru í því efni.
 17. Í ljósi þess sem hér hefur verið rakið ber að hafna þeirri kröfu varnaraðila að fella niður sviptingu á leyfi hans til málflutnings fyrir héraðsdómi sem ákveðin var með  dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 29. maí 2001. Rétt þykir að hvor aðila beri sinn kostnað af rekstri málsins í héraði og fyrir Landsrétti.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu varnaraðila, X, um að fella niður sviptingu á leyfi hans til málflutnings fyrir héraðsdómi.

Ákvæði úrskurðar héraðsdóms um málskostnað skal vera óraskað.

Kærumálskostnaður fellur niður.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness, miðvikudaginn 16. maí 2018

 

Með beiðni sóknaraðila, X, […], sem barst Héraðsdómi Reykjaness 9. mars 2018, var þess farið á leit við dóminn að felld yrði niður svipting leyfis sóknaraðila til málflutnings fyrir héraðsdómi, sem ákveðin var með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur þann 29. maí 2001 í máli nr. S-599/2001. Sóknaraðili krefst málskostnaðar.

Af hálfu varnaraðila, ríkissaksóknara, Suðurlandsbraut 4 í Reykjavík, er þess krafist að kröfu sóknaraðila verði hafnað og sóknaraðila gert að greiða varnaraðila málskostnað.

Mál þetta er rekið samkvæmt 2. mgr. 68. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. XXVII. kafla laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Málið var tekið til úrskurðar 3. maí síðastliðinn að loknum munnlegum málflutningi. 

I

Með dómi Héraðsdóms Reykjaness nr. 599/2001, uppkveðnum 29. maí 2001, var sóknaraðila gert að sæta fangelsi í 16 ár fyrir manndráp, brot gegn 211. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, með því að hafa, miðvikudaginn 8. nóvember 2000, veist að E, fæddum […], á bifreiðastæði í Öskjuhlíð í Reykjavík og banað honum með því að slá hann fjórum sinnum í höfuðið með hamri. Með dóminum var sóknaraðili einnig sviptur leyfi til málflutnings fyrir héraðsdómi með vísan til 2. mgr. i.f. 68. gr. almennra hegningarlaga. Í niðurlagi ákvæðisins segir: „Þegar brot er stórfellt, má einnig svipta mann ofangreindum rétti, ef hann telst ekki framar verður til að rækja starfann eða njóta réttindanna.“ Þann 23. nóvember 2015 féllst forseti Íslands á tillögu innanríkisráðherra um að veita sóknaraðila uppreist æru.

Frá refsivist sóknaraðila dróst gæsluvarðhaldsvist, 237 dagar, sem sóknaraðili sætti frá 16. nóvember 2000 að telja.

Samkvæmt gögnum málsins hóf sóknaraðili afplánun dómsins 29. maí 2001. Var sóknaraðila veitt reynslulausn frá og með 22. maí 2011 í fjögur ár á 1920 daga eftirstöðvum, eftir að hafa afplánað 2/3 hluta dæmdrar fangelsisrefsingar. Samkvæmt bréfi Fangelsismálastofnunar ríkisins þann 22. maí 2015 var staðfest að skilorðstíminn væri liðinn. 

Sóknaraðili leitaði eftir meðmælum Lögmannafélags Íslands samkvæmt 2. mgr. 6. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn og óskaði þess  að vikið yrði frá skilyrði 2. tl. 1. mgr. 6. gr. lögmannalaga um að lögmaður skuli aldrei hafa þurft að sæta því að bú hans hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta vegna fyrirhugaðrar umsóknar hans um endurveitingu lögmannsréttinda. Synjaði Lögmannafélag Íslands umbeðnum meðmælum sóknaraðila með bréfi þann 6. febrúar 2018.

II

Sóknaraðili reisir kröfu sína í málinu á 2. mgr. 68. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Sóknaraðili hafi verið sviptur málflutningsréttindum sínum með dómi héraðsdóms í máli nr. S-599/2001, uppkveðnum 29. maí 2001. Séu því nær sautján ár frá réttindasviptingunni. Sóknaraðili hafi hvorki sætt kærum né fengið refsingu dæmda frá þeim tíma. Hann hafi staðist skilyrði reynslulausnar auk þess að hafa fengið uppreist æru þann 23. nóvember 2015. Hann hafi öðlast óflekkað mannorð sbr. 2. gr., sbr. 85. gr., almennra hegningarlaga sem hafi verið í gildi á þeim tíma.

Sóknaraðili telur að synjun LMFÍ á meðmælum sé byggð á ólögmætum sjónarmiðum. Í 2. tl. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn sé tekið fram að eitt af þeim skilyrðum sem þurfi að uppfylla til að fá lögmannsréttindi sé að umsækjandi hafi aldrei orðið að sæta því að bú hans hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta. Í 2. mgr. 6. gr. segi að víkja megi frá skilyrði 2. tl. 1. mgr. að fengnum meðmælum Lögmannafélags Íslands ef umsækjandi hefur haft forræði á fé sínu að minnsta kosti þrjú undanfarin ár. Stjórn Lögmannafélagsins sé eingöngu skipuð lögmönnum og af því leiði að í þeim tilvikum sem reyni á meðmæli félagsins  samkvæmt 2. mgr. 6. gr. sé stjórnin að fjalla um umsækjendur sem komi til með að starfa á sama samkeppnismarkaði og stjórnarmennirnir sjálfir. Þá skapi umrætt fyrirkomulag hættu á huglægum forsendum, s.s. persónulegum skoðunum einstakra stjórnarmanna á umsækjanda eða að innbyrðis deilur við hann geti haft áhrif á afgreiðslu málsins hjá félaginu. Þá telur sóknaraðili að sé ekki fallist á ofangreint, sé af hálfu sóknaraðila byggt á því að meðmælasynjun LMFÍ sé reist á ólögmætum sjónarmiðum. Samkvæmt undanþáguákvæðinu megi víkja frá almennu hæfisskilyrði ef aðili hefur haft óslitið búsforræði í þrjú ár að fengnum meðmælum frá LMFÍ. Félagið hafi það ekki í hendi sér hvaða sjónarmið það velji þegar það mæli með eða synji um að mæla með tilteknum umsækjanda. Sjónarmið að baki slíkri ákvörðun hljóti til að mynda að þurfa að uppfylla skilyrði um að hafa skýra og málefnalega tengingu við það lagaatriði sem undanþágan snúi að, þ.e. fjárhagsstöðu umsækjanda, svo þau séu lögmæt. Telur sóknaraðili að LMFÍ sé ekki fært um að synja um meðmæli en í meðmælasynjun félagsins sé einkum vísað til málsatvika í framangreindu sakamáli S-599/2001. Í ljósi þess að sóknaraðila hafi þann 23. nóvember 2015 verið veitt uppreist æru og að það sé í verkahring dómstóla að meta hvort varhugavert teljist, í ljósi brots ákærða, að svipting lögmannsréttinda hans verði felld niður, sem og í ljósi framangreinds um að mat á því hvort meðmæli félagsins skv. 2. mgr. 6. gr. lögmannalaga skuli veitt eigi eingöngu að snúa að því hvort einhverjar fjárhagslegar ástæður mæli gegn því að veitt skuli undanþága frá skilyrðum um óslitið búsforræði, verði að telja að í meðmælasynjun LMFÍ hafi verið stuðst við ólögmæt sjónarmið. Þá sé meðmælasynjun LMFÍ rökstudd með því að af frásögn sóknaraðila af atvikum fyrir dómi í fyrrgreindu sakamáli frá 2001 „megi ráða að  fjármál hans hafi verið stjórnlaus þegar hann greip til þess ráðs að bana viðskiptafélaga sínum.“ Telur sóknaraðili það ekki vera hlutverk LMFÍ að endurmeta niðurstöður héraðsdóms um fjármál sóknaraðila fyrir átján árum heldur skoða fjárhagsstöðu hans síðustu þrjú til fjögur árin. Þá sé í bréfi LMFÍ horft til þess að sóknaraðili skilaði ekki fjárvörsluyfirlýsingum sem kveðið sé á um í 23. gr. laga nr. 77/1998 fyrir rekstrarárin 2000 og hluta ársins 2001. Sóknaraðili hafi ekki verið með rekstur lögmannsstofu árið 2001. Þá byggi LMFÍ meðmælasynjun sína á þeim rökum að sóknaraðili hafi stundað lögmannsstörf og setið í stjórn lögmannsstofu og vísar í því sambandi til úrskurðar Úrskurðarnendar lögmanna í máli nr. 26/2016. Sóknaraðili hafi ekki stundað lögmannsstörf frá því að hann missti lögmannsréttindi sín. Hann hafi sagt sig úr stjórn einkahlutafélags þess sem hann sat í í framhaldi. Þessi rök LMFÍ hafi hins vegar engin tengsl við 2. tl. 1. mgr. 6. gr. lögmannalaga. Að lokum sé meðmælasynjun LMFÍ gerð með vísan til þess að sóknaraðili hafi ekki gert nægjanlega grein fyrir framfærsluháttum sínum og því hvernig hann hafi eignast tvær fasteignir á árunum 2013. Því hafi sóknaraðili svarað og gert grein fyrir hjá félaginu.

Telur sóknaraðili framangreind sjónarmið LMFÍ að baki meðmælasynjun félagsins ekki lögmæt sjónarmið. Sé þar fjallað um atriði sem ekki eigi að hafa þýðingu við mat á því hvort meðmæli beri að veita, s.s. vísun til atvika í umræddu sakamáli, ályktanir um að fjármál sóknaraðila hafi verið stjórnlaus áður en þau atvik hafi átt sér stað og að hann hafi ekki skilað fjárvörsluyfirlýsingu til LMFÍ á árinu 2001. Telur sóknaraðili að þrátt fyrir að lög um lögmenn nr. 77/1998 kveði á um að málflutningsréttindi megi aðeins  veita þeim sem aldrei hafi orðið að sæta því að bú hans hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta verði að líta til þess hversu lengi sóknaraðili hafi haft forræði á búi sínu. Sóknaraðili hafi haft búsforræði á búi sínu frá því í júní 2004 eða í rúmlega þrettán og hálft ár. Líta beri hér til almennra reglna um fyrningu og gera kröfu um að við mat á afleiðingum gjaldþrots sóknaraðila þurfi að gæta samræmis við atvinnufrelsisákvæði 75. gr. stjórnarskrár Íslands.

Sóknaraðili byggir kröfu sína um niðurfellingu réttindasviptingar á 2. mgr. 68. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Vísar hann einnig til 75. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, sbr. 13. gr. laga nr. 97/1995 varðandi atvinnufrelsi og 2. gr. stjórnarskrár varðandi þrígreiningu ríkisvaldsins. Þá vísar hann til reglna stjórnsýsluréttarins um að stjórnvaldsákvarðanir þurfi að grundvallast á lögmætum sjónarmiðum og að gæta þurfi meðalhófs og jafnræðis í afgreiðslu mála. Varðandi kröfu um málskostnað úr ríkissjóði vísar sóknaraðili m.a. til héraðsdóms frá 15. júní 2017 í máli nr. 361/2017.

Sóknaraðili gaf skýrslu fyrir dóminum og lýsti því að hann hafi verið í mikilli fíkniefnaneyslu á þeim tíma sem hann varð félaga sínum að bana. Hann hafi ekki smakkað áfengi í tuttugu ár og ekki snert fíkniefni sl. átján ár. Þá eru engin gögn um að sóknaraðili hafi fengið agabrot í afplánun né að hann hafi brotið skilyrði reynslulausnar.

III

Varnaraðili mótmælir því að krafa sóknaraðila nái fram að ganga. Byggir varnaraðili í fyrsta lagi á því að lagaskilyrði skorti, að svo stöddu, fyrir því að réttindasvipting sóknaraðila verði felld niður með dómi. Þá er gerð krafa um að sóknaraðila verði gert að greiða málskostnað vegna meðferðar máls þessa.

Varnaraðili bendir á að þrátt fyrir að sóknaraðili hafi hlotið uppreist æru, og þar með öðlast óflekkað mannorð samkvæmt þágildandi ákvæðum almennra hegningarlaga, þá hafi það atriði ekki þýðingu hvað varði refsikennd viðurlög eins og sviptingu réttinda til að vera héraðsdómslögmaður. Uppreist æru hafi einungis lotið að því að sóknaraðili fengi aftur notið þeirra borgaralegu réttinda sem glatast höfðu við það að fá fangelsisdóm, sbr. þágildandi ákvæði 84. og 85. gr. almennra hegningarlaga.

Þrátt fyrir það sem ráða megi af dómi Hæstaréttar í máli nr. 361/2017, m.a. um þýðingu þess að sá lögfræðingur sem þar um ræddi hafi öðlast óflekkað mannorð við það að fá uppreist æru, þá verði ekki fram hjá því litið að eftir að sá dómur féll hafi ákvæði almennra hegningarlaga sem fjölluðu um uppreist æru verið felld úr gildi með lögum nr. 80/2017. Í frumvarpinu sem varð að þeim lögum segir meðal annars að við heildarendurskoðun laga varðandi mismunandi störf og réttindi sé mikilvægt að farið verði yfir hvaða kröfur eigi að gera til ýmissa starfsstétta að þessu leyti og því megi halda fram að frá refsipólitísku sjónarhorni sé æskilegt að þeir sem gerst hafi brotlegir við refsilög hljóti að nýju borgaraleg réttindi að einhverjum tíma liðnum nema sérstök rök standi til annars. Það þurfi að taka til skoðunar í hverju tilviki fyrir sig hvaða skilyrði sé rétt að setja fyrir því að einstaklingur öðlist tiltekin starfsréttindi, embætti og kjörgengi að nýju, þ.e. hvers konar brot og refsingar séu þess eðlis að rétt sé að þau girði fyrir slíkt og hve langur tími skuli líða frá því að refsing hafi að fullu verið tekin út.  Þá segir einnig í inngangi frumvarpsins að atvinnufrelsi skv. 75. gr. stjórnarskrár megi setja skorður með lögum, enda krefjist almannahagsmunir þess. Færa megi rök fyrir því að almannahagsmunir krefjist þess að þeir sem gerst hafi sekir um alvarleg afbrot sinni ekki ábyrgðarstörfum fyrir hið opinbera. Á þetta m.a. við störf sem varði með beinum hætti þjónustu við réttarkerfið, svo sem við á um lögmennsku og dómarastörf.

Þá bendir varnaraðili á að af framangreindri tilvitnun í frumvarpið megi ljóst vera að það sé ekki vilji löggjafans að uppreist æra, og þar með óflekkað mannorð, hafi þau réttaráhrif sem ráða megi af dómi Hæstaréttar í máli nr. 361/2017 þegar komi að endurveitingu réttinda. Þvert á móti verði það metið sjálfstætt í hverju tilviki fyrir sig, m.a. með hliðsjón af því hvers konar brot viðkomandi hafi verið dæmdur fyrir, hvort rétt sé að sá einstaklingur geti yfirhöfuð endurheimt þau réttindi sem hann hafi verið sviptur með dómi. Umfjöllun í greinargerð með frumvarpi er varð að lögum nr. 31/1961 (breyting á almennum hegningarlögum nr. 19/1940) verði einnig skilin á þennan veg að mati ríkissaksóknara. Þar sé meðal annars fjallað um nauðsyn þess að almenningur beri traust til manna sem gegni opinberu starfi eða hlotið hafa löggildingu til starfs. Varnaraðili telji afar brýnt að almenningur beri traust til lögmanna, ekki síst þegar þeir sinni störfum verjenda og réttargæslumanna. Verði fallist á kröfu sóknaraðila sé ljóst að hann geti m.a. sinnt þeim störfum. Héraðsdómari hljóti að þurfa að meta það hvort sóknaraðili teljist þess verður að njóta réttinda, sbr. 2. mgr. i.f. 68. gr. almennra hegningarlaga. Í því efni telji varnaraðili óhjákvæmilegt að skoða verknaðinn sem varð upphaflega tilefni réttindasviptingarinnar. Í dómi Héraðsdóms Reykjaness í máli nr. 599/2001 sé það m.a. tiltekið að atlaga sóknaraðila að B hafi verið ofsafengin og að vilji ákærða til að bana B hafi verið styrkur og einbeittur er hann sló hann fjórum sinnum í höfuðið með hamri. Þá sé um það fjallað að sóknaraðili hafi eftir verknaðinn ákveðið að leyna atburðinum og losað sig við það sem hann taldi sönnunargögn. En það er ekki bara verknaðurinn sem varnaraðili telji að líta beri til, heldur einnig hvernig sóknaraðili hafi hagað sér í kjölfar réttindasviptingarinnar. Eftir því sem varnaraðila sé best kunnugt hafi sóknaraðili ekki greitt aðstandendum B bætur, svo sem honum bar að gera skv. dómi Héraðsdóms Reykjaness í máli nr. 599/2001. Í bréfi aðstandenda B til varnaraðila, dagsettu 25. janúar 2015, segi að þau hafi höfðað mál á árinu 2002 til að fá greitt upp í bæturnar, en tekið hafi verið til fullra varna og engin tilraun hafi verið gerð af hálfu sóknaraðila til að gera einhvers konar sátt, né hafi hann nokkurn tímann komið að máli við fjölskyldu hans eða sýnt tilburði til iðrunar.

Þá verði ekki fram hjá því litið að stjórn Lögmannafélags Íslands hafi talið sér ófært að veita sóknaraðila meðmæli á grundvelli 2. mgr. 6. gr., sbr. 1. mgr. 11. gr., laga nr. 77/1998 um lögmenn, vegna ýmissa atriða sem rakin séu í bréfi stjórnarinnar frá 6. febrúar 2018, og varði háttsemi sóknaraðila eftir réttindasviptinguna. Hér komi til ákvæði í sérlögum, þ.e. lögum um lögmenn, er varði endurveitingu málflutnings-réttinda fyrir héraðsdómi í kjölfar þess að bú lögmanns hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta. Í þessu sambandi er vakin athygli héraðsdóms á ákvæði 2. mgr. i.f. 68. gr. a almennra hegningarlaga, en þar segir: „Sérákvæði í lögum um brottfall réttindasviptingar skulu halda gildi sínu.“

Þá telur varnaraðili að ef niðurstaðan héraðsdóms í máli þessu verði sú að taka beri kröfu sóknaraðila til greina, og fella niður réttindasviptingu hans með vísan til 2. mgr. 68. gr. a almennra hegningarlaga, þá komi þessi höfnun stjórnar Lögmannafélagsins á að veita meðmæli í veg fyrir að heimilt sé að veita sóknaraðila málflutningsréttindi fyrir héraðsdómi. Ekki sé á það fallist með sóknaraðila að afgreiðsla stjórnar Lögmannafélagsins sé grundvölluð á ólögmætum sjónarmiðum og leyfir varnaraðili sér að vísa til áðurgreinds bréfs stjórnarinnar í heild sinni og þeirra röksemda sem þar eru settar fram. Að öllu framangreindu virtu telur varnaraðili einsýnt að hafna beri kröfu sóknaraðila um að felld verði niður svipting leyfis sóknaraðila til málflutnings fyrir héraðsdómi.

IV

Samkvæmt 2. mgr. 68. gr. a. almennra hegningalaga nr. 19/1940 getur maður, sem sviptur hefur verið réttindum ótímabundið með dómi í sakamáli, þegar fimm ár eru liðin frá uppsögu dóms, borið undir dómstóla samkvæmt reglum um meðferð sakamála, hvort fella skuli réttindasviptinguna niður. Samkvæmt lokamálslið 2. mgr. 68. gr. a skulu sérákvæði í lögum „um brottfall réttindasviptingar“ halda gildi sínu.

Í dómi Hæstaréttar Íslands í málinu nr. 195/1980 (Hrd. 1980:1651) var svipting réttinda manns sem sakfelldur hafði verið fyrir brot gegn 211. gr. almennra hegningarlaga felld niður. Má af því leiða að þrátt fyrir að einstaklingur gerist sekur um stórfellt hegningarlagabrot, sem alvarlegust teljist að almenningsáliti og lögum, sé svipting starfsréttinda með dómi ekki fortakslaust til allrar framtíðar. 

Sautján ár eru liðin frá því að sóknaraðili var með dómi sviptur réttindum til að starfa sem héraðsdómslögmaður. Sóknaraðili hefur hlotið uppreist æru að því er snertir þann refsidóm sem var grundvöllur réttindasviptingarinnar. Að lögum hefur sóknaraðili þar með öðlast óflekkað mannorð að nýju.

Sóknaraðili byggir kröfu sína á 2. mgr. 68. gr. a almennra hegningarlaga en þar segir að nú hafi maður verið sviptur réttindum ótímabundið með dómi í sakamáli og er þá heimilt, þegar fimm ár eru liðin frá uppsögu dóms, að bera undir dómstóla samkvæmt reglum um meðferð sakamála hvort fella skuli niður réttindasviptingu. Í III kafla laga nr. 77/1998 um lögmenn er talið upp í 1. mgr. 6. gr. hvaða skilyrði maður þarf að uppfylla til að veita megi honum málflutningsréttindi. Í  1. tl. segir að hann skuli vera lögráða og svo á sig kominn andlega að hann sé fær um að gegna störfum lögmanns. Í 2. tl. er það skilyrði að hann hafi aldrei orðið að sæta því að bú hans sé tekið til gjaldþrotaskipta. Í 3. tl. segir að hann þurfi að hafa óflekkað mannorð, svo sem áskilið sé til gjörgengis við kosningar til Alþingis. Í 2. mgr. segir að víkja megi frá skilyrði 2. tl. 1. mgr. að fengnum meðmælum Lögmannafélags Íslands ef umsækjandi hefur haft forræði á fé sínu að minnsta kosti í þrjú undanfarin ár.

Ekkert hefur komið fram um að sóknaraðili uppfylli ekki 1. tl. 1. mgr. 6. gr. laganna. Sóknaraðili fékk uppreist æru með bréfi innanríkisráðuneytisins dagsettu 27. nóvember 2015, þann 23. nóvember s.á. Uppfyllir sóknaraðili því 3. tl. 1. mgr. þrátt fyrir að breyting hafi orðið á lögum um uppreista æru.

Sóknaraðili var úrskurðaður gjaldþrota með úrskurði uppkveðnum 25. október 2001 og var skiptum lokið 23. júní 2004. Uppfyllir hann því ekki skilyrði 2. tl. 1. mgr. 6. gr. laganna. Í 2. mgr. 6. gr. er undantekningarákvæði þar sem segir að víkja megi frá skilyrði 2. tl. 1. mgr. að fengnum meðmælum Lögmannafélags Íslands ef umsækjandi hefur haft forræði á fé sínu að minnsta kosti þrjú undanfarin ár. Sóknaraðili hefur haft forræði á búi sínu rétt tæp fjórtán ár.

Með bréfi lögmanns sóknaraðila dagsettu 16. júní 2017 til Lögmannafélags Íslands óskaði sóknaraðili eftir meðmælum skv. 2. mgr. 6. gr. lögmannalaga nr. 77/1998. Í bréfi félagsins segir að sóknaraðili uppfylli skilyrði 2. mgr. 6. gr. að því leyti að hann hafi haft forræði á búi sínu að lágmarki í þrjú ár. Umrædd þrjú ár séu hins vegar lágmarkstími. Því kunni atvik að vera með þeim hætt að þótt sá lágmarkstími sé liðinn kunni að teljast rétt að lengri tími líði áður en til álita komi að meðmæli verði veitt. Segir að við mat á því hvort slík meðmæli verði veitt sé óhjákvæmilegt að líta til sömu sjónarmiða og félagið hafi almennt gert þegar sá sem óski slíkra meðmæla hyggst hefja störf sem sjálfstætt starfandi lögmaður. Segir í bréfinu að lög nr. 77/1998 séu þögul um til hvaða atriða skuli líta þegar tekin sé afstaða til þess hvort veita beri meðmæli samkvæmt 2. mgr. 6. gr. Þannig takmarki lögin hvergi þau efnislegu atriði sem heimilt sé að líta til. Orðið „meðmæli“ gefi þó vissa vísbendingu. Þannig vísi orðið „meðmæli“ til þess að sá sem þau veiti sé svo hlynntur umsækjandanum eða hliðhollur að hann treysti sér a.m.k. til að mæla með honum til allra almennra lögmannsstarfa. Þó að í þessu felist vísbending sé hún ekki einhlít. Núverandi fjárhagsstaða umsækjanda geti hér skipt miklu máli en sé hún ótraust mæli slíkt gegn veitingu meðmæla. Fyrri háttsemi umsækjanda komi hér einnig til álita, ekki síst þegar hún gefi tilefni til að efast um almenna færni umsækjandans til að fara eftir siðareglum eða sýsla með fjármuni sína og annarra. Þá segir að frá setningu laga nr. 77/1998 hafi Lögmannafélag Íslands að minnsta kosti tvisvar synjað um veitingu meðmæla af þessum toga. Þar hafi háttað svo til að þeir umsækjendur höfðu áður starfað sem lögmenn og höfðu ekki skilað yfirlýsingum til félagsins um fjárvörslur sínar frá fyrri tíð. Í framkvæmd hafi Lögmannafélag Íslands einnig tekið til skoðunar ástæður gjaldþrots umsækjenda, ráðdeild þeirra við meðferð á fjármunum og ýmsa háttsemi umsækjanda sem kunni að gefa til kynna skort á virðingu umsækjanda fyrir þeim siðareglum sem gildi um störf lögmanna. Hafi þá bæði verið horft til ferils lögmanns áður en hann varð gjaldþrota og atriða sem varði erindrekstur lögmanns eftir réttindasviptingu. Til að gætt sé jafnræðis sé óhjákvæmilegt að líta til þessara atriða allra og vega og meta feril umsækjanda í þessu ljósi. Er síðan niðurstaða í dómi S-599/2001 rakin í bréfinu og bent á að sóknaraðili hafi aldrei greitt dæmdar bætur til fjölskyldu þess látna. Þá er aðilaskýrsla sóknaraðila fyrir dómi í umræddu sakamáli varðandi orsök og ástæður árásarinnar rakin í bréfinu. Segir að brot sóknaraðila hafi í alla staði verið svívirðilegt en það auki á alvarleika þess að áliti félagsins að starfandi lögmaður hafi framið það með tilheyrandi hætti fyrir orðspor lögmannastéttarinnar allrar. Þá veki það athygli að fjárhagslegar hvatir hafi verið að baki brotinu auk þess sem sóknaraðili hafi reynt að leyna atburðinum, sem auki á alvarleika málsins. Segir í framhaldi að þess vegna kvikni alvarleg álitamál um hæfni umsækjandans til að fara með viðkvæm fjárhagleg deilumál sem einatt komi til meðhöndlunar lögmanna. Þau álitamál séu engu minni þótt umsækjandinn hafi nú hlotið uppreist æru vegna refsidómsins sem um tefli, enda byggist ákvörðun um uppreist æru ekki með neinum hætti á mati á hæfni sóknaraðila til að fara með fjárhagslega hagsmuni sem lögmaður. Haft er eftir sóknaraðila að þetta afbrot hafi verið eina ástæða þess að hann hafi orðið gjaldþrota. Hann hafi fram að afbrotinu ávallt verið í fullum skilum með skuldbindingar sínar. Hann hafi hins vegar vegna fangelsisvistar misst aflahæfi sitt og reynst ófær um að standa frekari skil á skuldbindingum sínum. Er það álit Lögmannafélagsins að þessi afstaða sóknaraðila sé fjarstæðukennd í ljósi ástæðu þess að hann varð viðskiptafélaga sínum að bana. Þá segir: „Frásögn umsækjandans um ástæður gjaldþrotsins gerir því lítið annað en að vekja áleitnar spurningar um hvort honum hafi tekist að setja afbrot sitt í rétt samhendi og læra af því.“ Þá segir að Lögmannafélagið hafi leitast eftir föngum við að rannsaka fjárhag sóknaraðila frá þeim tíma sem hann fór í gjaldþrot. Það hafi hamlað rannsókn að engin gögn hafi fundist hjá skiptastjóra né í Þjóðskjalasafni. Auk þessa er rakið að sóknaraðili skilaði ekki til Lögmannafélagsins fjárvörsluyfirlýsingu fyrir rekstrarárið 2000 og hluta ársins 2001. Næst er rakin í bréfi Lögmannafélagsins aðkoma sóknaraðila að lögmannsstofunni Versus og upplýsingar um hann á heimasíðu lögmannsstofunnar. Auk þessa eru rakin fasteignakaup sóknaraðila af aðilum sem voru honum nátengdir. Segir að félaginu hafi virst skorta nokkuð á að sóknaraðili gerði grein fyrir framfærsluháttum sínum eða hvernig honum hafi tekist að mynda umræddar eignir. Auk þess gat félagið ekki séð af rýrum tekjum sóknaraðila á þeim tíma þegar um viðskiptin var samið hvernig ætlunin hafi verið að fjármagna kaupin. Er rakið í bréfinu hvaða upplýsingar Lögmannafélagið gat aflað sér um leigutekjur af eignunum, framtalsskil á árinu 2016 o.fl. og skoðun félagsins af þessum viðskiptum sóknaraðila. Að lokum segir í bréfinu að með hliðsjón af framangreindu telji Lögmannafélag Íslands sig ófært um að veita umsækjanda meðmæli. Umsækjandi hafi gerst sekur um manndráp í tilefni af deilu um fjármál, hann geri í dag lítið úr þeim fjárhagsmálum sem hafi orðið tilefni deilunnar, hann hafi ekki gætt að reglum um fjárvörslur lögmanna á fyrri tíð, hann hafi veitt ónægar upplýsingar um fjárhag sinn eins og hann er í dag og hafi leitast við að komast fram hjá réttindasviptingu með liðsinni frá lögmönnum í andstöðu við lög og siðareglur. Þá séu skýringar á kaupum umsækjanda á tveimur fasteignum ófullnægjandi og losarabragur á skattskilum. Þessi atriði virt heildstætt og sum jafnvel ein og sér standi því í vegi að mati stjórnar Lögmannafélags Íslands að umsækjanda verði í dag veitt meðmæli á grundvelli 2. mgr. 6. gr., sbr. 1. mgr. 11. gr., laga nr. 77/1998 um lögmenn. Var beiðni sóknaraðila um meðmæli hafnað.

Eins og að ofan greinir segir í 2. mgr. 6. gr. laga nr. 77/1998 að víkja megi frá þeim skilyrðum 2. tl. 1. mgr. að umsækjandi hafi aldrei orðið að sæta því að bú hans hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta og er tekið fram í 2. mgr. að það sé heimilt hafi umsækjandi haft forræði á fé sínu að minnsta kosti þrjú undanfarin ár. Það skilyrði uppfyllir sóknaraðili máls þessa. Tekur dómurinn undir þá málsástæðu sóknaraðila að Lögmannafélag Íslands hafi farið langt út fyrir lagaskyldu sína og langt út fyrir rannsóknarskyldu þá sem hvílir á félaginu þegar meta á hvort umsækjandi uppfylli það skilyrði að hafa haft forræði á búi sínu í að minnsta kosti þrjú ár. Rannsókn félagsins sem rakin er hér að framan í umsögn Lögmannafélagsins snýr að miklu leyti að þeirri háttsemi sem sóknaraðili sýndi af sér þegar brot hans gegn 211. gr. almennra hegningarlaga átti sér stað á árinu 2000, kaupum hans á fasteignum á árinu 2016, setu hans í stjórn einkahlutafélags og hvort sóknaraðila hafi „tekist að setja afbrot sitt í rétt samhengi og læra af því.“ Er það ekki hlutverk stjórnar Lögmannafélags Íslands að meta slíkt og engin lagastoð sem heimilar slíka rannsókn á persónulegum högum umsækjanda.

 Telur dómurinn að stjórn Lögmannafélagsins hafi farið langt út fyrir valdsvið sitt við mat á því hvort sóknaraðili falli undir undanþáguákvæði 2. mgr. 6. gr. laganna. Tekur dómurinn undir þá málsástæðu sóknaraðila að synjun Lögmannafélagsins um meðmæli sé byggð á ómálefnalegum sjónarmiðum. Að öllu ofantöldu virtu telur dómurinn að sóknaraðili uppfylli skilyrði 1. mgr., sbr. 2. mgr., 6. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Þá hefur sóknaraðili hlotið fangelsisdóm fyrir brot það sem hann var dæmdur fyrir á árinu 2001 og afplánað refsinguna samkvæmt lögum.

Samkvæmt framangreindu, auk þess að sautján ár eru liðin frá því að sóknaraðili hlaut dóm fyrir svívirðilegan verknað, þess að hann hefur afplánað refsingu sína og ekki orðið uppvís að refsiverðri háttsemi, þess að hann hefur haft forræði á búi sínu í tæp fjórtán ár og með vísan til 2. mgr. 68. gr. a almennra hegningarlaga, þykir rétt að verða við kröfu sóknaraðila um að svipting réttinda hans til að vera héraðsdómslögmaður, sem ákveðin var með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur uppkveðnum 29. maí 2001 í máli  nr. 599/2001, verði felld niður.

Málskostnaður verður ekki úrskurðaður. 

Ástríður Grímsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Ú r s k u r ð a r o r ð:

Svipting réttinda sóknaraðila, X, til að vera héraðsdómslögmaður, sem ákveðin var með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur þann 29. maí 2001 í máli nr. S-599/2001, er felld niður.

Málskostnaður úrskurðast ekki.