Mál nr. 79/2018

Ákæruvaldið (Stefanía G. Sæmundsdóttir saksóknari)
gegn
X (Björgvin Jónsson lögmaður) (Eva Bryndís Helgadóttir réttargæslumaður)
Lykilorð
 • Brot gegn blygðunarsemi.
 • Hótanir.
 • Klám.
 • Kröfugerð.
 • Ærumeiðingar.
 • Reynslulausn.
 • Hegningarauki.
Útdráttur

X var sakfelldur fyrir brot gegn 209. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa, án vitundar A, tekið upp myndband af A og sér þar sem þeir stunduðu kynmök, sent A mynd sem sýndi þá nakta í kynmökum og sent D umrædd gögn í pósti ásamt öðrum gögnum sem var ætlað að sýna fram á að X og A hefðu átt í kynferðissambandi. X var einnig sakfelldur fyrir brot gegn 209. og 2. mgr. 210. gr. almennra hegningarlaga með því að hafa sent tveimur nafngreindum mönnum myndir af A og sér að stunda kynmök. Þá var X sakfelldur fyrir brot gegn 233. gr. almennra hegningarlaga með því að hóta A að birta fyrrgreindar myndir á netinu og senda A tölvuskeyti með hótunum um ofbeldi gegn honum og hans nánustu. Var X talinn hafa ítrekað móðgað og smánað A með þeirri háttsemi sem hann var sakfelldur fyrir svo að í því hafi falist stórfelldar ærumeiðingar í skilningi 233. gr. b almennra hegningarlaga. Við ákvörðun refsingar var litið til ákvæða 1., 5., 6. og 7. töluliðar 1. mgr. og 3. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga. Að því virtu og með hliðsjón af 77. og 78. gr. almennra hegningarlaga var refsing X ákveðin fangelsi í 15 mánuði. Þá var X gert að greiða A miskabætur.

Dómur Landsréttar

Mál þetta dæma landsréttardómararnir Aðalsteinn E. Jónasson, Ásmundur Helgason og Ragnheiður Harðardóttir.

Málsmeðferð og dómkröfur aðila

 1. Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar með áfrýjunarstefnu 6. apríl 2017 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Með vísan til 1. mgr. 78. gr. laga nr. 49/2016, um breytingu á lögum um meðferð einkamála og lögum um meðferð sakamála (millidómstig), sbr. 4. gr. laga nr. 53/2017, um breytingu á lögum um dómstóla og fleira, er málið nú rekið fyrir Landsrétti. Áfrýjað er dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 17. mars 2017 í málinu nr. S-921/2016.
 2. Ákæruvaldið krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms að því er varðar sakfellingu ákærða og að refsing ákærða verði þyngd. Þá er þess krafist að ákærði verið dæmdur til að greiða allan sakarkostnað í málinu.
 3. Ákærði krefst þess aðallega að ákæru um brot gegn 209. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 samkvæmt 2. ákærulið verði vísað frá dómi, en að því frágengnu að hann verði sýknaður af þeim sakargiftum. Þess er jafnframt krafist að ákærði verði sýknaður af sakargiftum samkvæmt 1. ákærulið, samkvæmt 3. og 7. tölulið 2. ákæruliðar, samkvæmt 4. ákærulið, að frátöldum sakargiftum um brot gegn 209. gr. almennra hegningarlaga varðandi mynd er ákærði sendi B, samkvæmt 5. lið ákæru, að frátöldum sakargiftum varðandi myndir á minnislykli og útprentaðar myndir sem ákærði sendi D, og samkvæmt 6. ákærulið að því er varðar háttsemi sem lýst er í 1., 2., og 3. ákærulið, 4. ákærulið um meinta sendingu myndasyrpu til C og 5. ákærulið utan sendingar mynda og bréfs til D. Þá er þess krafist að miskabótakröfu brotaþola verði vísað frá dómi að því er tekur til ákæruliða sem krafist er frávísunar á eða sýknu af, en að öðru leyti að bætur verði stórlega lækkaðar. Til vara krefst ákærði þess að refsing sem honum var dæmd í héraði verði milduð og hún ákveðin skilorðsbundin að öllu leyti eða hluta, sem og að miskabótakrafa brotaþola verði verulega lækkuð. Loks krefst ákærði þess að málsvarnarlaun til handa skipuðum verjanda hans verði greidd úr ríkissjóði. 
 4. Brotaþoli, A, krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms um greiðslu miskabóta. Þá krefst hann þess að ákærði verði dæmdur til greiðslu þóknunar réttargæslumanns.

  Málsatvik
 5. Málsatvik eru reifuð í hinum áfrýjaða dómi. Þar er jafnframt gerð grein fyrir framburði ákærða, brotaþola og vitna við aðalmeðferð málsins í héraði. Sú athugasemd er gerð við málavaxtalýsingu í héraðsdómi að brotaþoli mætti hjá lögreglu 14. apríl 2014 og lagði fram kæru á hendur ákærða fyrir kynferðisbrot og brot gegn friðhelgi einkalífs, en ekki 14. febrúar það ár eins og þar greinir.


  Niðurstaða
 6. Málið er höfðað með ákæru héraðssaksóknara 18. nóvember 2016 á hendur ákærða fyrir hegningarlagabrot gegn brotaþola, A, framin á árunum 2011 til 2014, en brotaþoli var þá á aldrinum […] til [..] ára. Ákæra er í sex liðum.

  Ákæruliður 1
 7. Í 1. ákærulið er ákærða gefið að sök brot gegn blygðunarsemi brotaþola með því að hafa, á ótilgreindum tíma, á þáverandi heimili sínu, tekið upp myndband af brotaþola og sér þar sem þeir stunduðu kynmök, án vitundar brotaþola, en greint honum frá því síðar, eins og í ákæru greinir. Er háttsemi ákærða talin varða við 209. gr. almennra hegningarlaga í ákæru.
 8. Við aðalmeðferð málsins fyrir Landsrétti voru spilaðar hljóðupptökur af skýrslum ákærða og brotaþola í héraði hvað þennan ákærulið varðar. Eins og rakið er í héraðsdómi kannaðist ákærði við að hafa tekið upp myndbandið en bar því við að brotaþoli hefði vitað af myndupptökunni og jafnframt átt frumkvæði að henni.
 9. Brotaþoli hefur frá upphafi neitað að hafa vitað að ákærði hafi verið að taka kynmök þeirra upp á myndband. Í ákæru er því lýst að ákærði hafi fyrst greint brotaþola frá myndbandinu í skilaboðum á Facebook 1. maí 2012. Þetta er ekki í samræmi við framburð brotaþola fyrir héraðsdómi, sem lýsti því að ákærði hefði haft samband við hann daginn eftir kynmökin og sagst þurfa að sýna honum svolítið. Hann hefði farið að hitta ákærða sem hefði sýnt honum hluta myndbandsins, en hann hafi ekki viljað horfa á það.
 10. Í málinu liggja fyrir gögn um Facebook-samskipti ákærða og brotaþola í maí 2012. Hefjast þau með skilaboðum sem ákærði sendi brotaþola og rakin eru í 1. tölulið 2. ákæruliðar. Eins og þar kemur fram sendi ákærði brotaþola mynd úr framangreindri upptöku, meðal annars með eftirfarandi orðum: „ … ég á þetta live allt saman … 10 min myndband, búinn að vera með camerur síðan það var ráðist inn heim til mín …“. Í svari brotaþola næsta dag sagði meðal annars: „Að þú skyldir taka þetta svona upp er rosalega sick í alvöru.“ Nokkur samskipti áttu sér stað á milli þeirra í kjölfarið þar sem ákærði ritaði meðal annars: „Ég get þó með hreinu hjarta beðið þig afsökunar á því að hafa tekið þetta upp … .“ Þá kom fram í síðari skilaboðum ákærða að hann hefði spurt þáverandi lögmann sinn áður en hann „tók þetta upp“ hvort löglegt væri að taka upp myndband af kynmökum tveggja lögráða einstaklinga „og annar aðilinn vissi af því en hinn ekki“. Hefði lögmaðurinn sagt að það væri löglegt ef myndbandið færi ekki á netið.
 11. Myndupptakan sem um ræðir liggur fyrir í málinu. Ákærði vísaði til þess í skýrslu sinni í héraði að í lok myndskeiðsins mætti sjá brotaþola horfa í átt að myndavélinni, sem sýndi að hann hefði vitað af upptökunni. Eins og fram kemur í niðurstöðu héraðsdóms er þetta ekki rétt. Þá sést á myndskeiðinu að ákærði kveikti á upptökunni áður en brotaþoli kom í mynd og slökkti á henni nokkru eftir að hann hvarf úr mynd. Ekkert af því sem fram kemur á myndbandinu bendir til þess að brotaþoli hafi vitað af upptökunni, eins og ákærði hefur haldið fram. Þá samrýmast þær staðhæfingar hans ekki samskiptum þeirra á Facebook, sem að framan greinir. Er fallist á það með héraðsdómi að með hliðsjón af þessu sé framburður ákærða ótrúverðugur um að brotaþoli hafi vitað af upptökunni. Beri því að hafna honum, en leggja til grundvallar trúverðugan framburð brotaþola um að ákærði hafi tekið myndbandið upp án vitundar hans. Kom skýrt fram hjá brotaþola við skýrslugjöf í héraði að ákærði hefði brotið gegn blygðunarsemi hans með háttseminni. Samkvæmt framangreindu er staðfest niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu ákærða samkvæmt 1. ákærulið og varðar brot hans við 209. gr. almennra hegningarlaga.

  Ákæruliður 2
 12. Í 2. ákærulið eru ákærða gefnar að sök hótanir og brot gegn blygðunarsemi brotaþola með skilaboðum á Facebook í maí 2012, eins og nánar er rakið í sjö töluliðum, og háttsemin talin varða við 233. gr. og 209. gr. almennra hegningarlaga. Óumdeilt er í málinu að samskiptin áttu sér stað á milli ákærða og brotaþola eins og lýst er í ákæru.
 13. Í greinargerð ákærða til Landsréttar krafðist hann þess að ákæruatriði um meint brot gegn blygðunarsemi yrði vísað frá héraðsdómi þar sem ákæra fullnægði ekki áskilnaði c-liðar 1. mgr. 152. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála.
 14. Samkvæmt 2. mgr. 199. gr. laga nr. 88/2008 skal ákærði lýsa yfir áfrýjun héraðsdóms í bréflegri tilkynningu til ríkissaksóknara þar sem meðal annars skal tekið fram í hvaða skyni sé áfrýjað og hverjar séu dómkröfur ákærða. Þegar áfrýjun er ráðin gefur ríkissaksóknari út áfrýjunarstefnu, en í henni skal greina hver áfrýi héraðsdómi og nákvæmlega í hverju skyni það sé gert, sbr. c-lið 2. mgr. 201. gr. laga nr. 88/2008.
 15. Í tilkynningu um áfrýjun 5. apríl 2017 kom fram að áfrýjað væri aðallega í því skyni að ákærði yrði sýknaður af kröfum ákæruvaldsins í málinu, en til vara að refsing samkvæmt hinum áfrýjaða dómi yrði milduð. Var kröfugerð þessi tekin upp í áfrýjunarstefnu 6. sama mánaðar. Frávísunarkrafa ákærða var því samkvæmt framangreindu of seint fram komin.
 16. Jafnframt er til þess að líta að lýsing á háttsemi ákærða og heimfærsla til refsiákvæða í 1. til 6. tölulið þessa ákæruliðar tekur mið af því að ákærði hafi sent brotaþola mynd sem sýndi þá nakta í kynferðismökum og síðan nokkur skilaboð, þar sem vísað var til myndefnisins. Þá hafi ákærði sent brotaþola aðra mynd af þeim að stunda kynmök með skilaboðum sem í 7. tölulið greinir. Er verknaðarlýsing ákæru sem lýtur að meintu broti gegn blygðunarsemi að þessu leyti í samræmi við c-lið 1. mgr. 152. gr. laga nr. 88/2008 og því engin efni til að vísa þessum hluta málsins frá dómi án kröfu.
 17. Í skilaboðunum sem ákærði sendi brotaþola fólust hótanir um að birta myndirnar sem um ræðir á internetinu. Hvort tveggja myndefnið og skilaboð ákærða um að dreifa því voru til þess fallin að særa blygðunarsemi brotaþola og bar hann jafnframt fyrir héraðsdómi að sú hefði verið raunin. Samkvæmt því, en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms, verður ákærði sakfelldur fyrir þá háttsemi sem honum er gefin að sök í þessum ákærulið og varða brot hans við 233. gr. og 209. gr. almennra hegningarlaga.

  Ákæruliður 3
 18. Í 3. ákærulið eru ákærða gefnar að sök hótanir í tveimur tölvuskeytum til brotaþola í ágúst 2013. Ákærði hefur kannast við að hafa sent brotaþola tölvuskeytin. Með þeim krafði hann brotaþola um greiðslu skuldar samkvæmt einhvers konar greiðslusamningum sem fram er komið að brotaþoli hafi ritað undir fyrir tilverknað ákærða. Ákærði lýsti því fyrir héraðsdómi að um hefði verið að ræða einhvers konar „kaupsáttmála“ á milli hans og brotaþola, en í samningunum hefði verið kveðið á um að brotaþoli skyldi endurgreiða honum tiltekna fjárhæð við sambandsslit.
 19. Ummæli sem fram koma í 1. og 2. tölulið þessa ákæruliðar verða ekki skilin á annan veg en að í þeim felist hótanir um ofbeldi gagnvart brotaþola og hans nánustu ef hann innti ekki af hendi greiðslu samkvæmt „sáttmálanum“. Lýsti brotaþoli því jafnframt fyrir héraðsdómi að hann hefði óttast mjög að ákærði léti verða af hótunum sínum.
 20. Samkvæmt framangreindu verður ákærði sakfelldur fyrir þá háttsemi sem honum er gefin að sök í þessum ákærulið og varða brot hans við 233. gr. almennra hegningarlaga. 

  Ákæruliður 4
 21. Í 4. ákærulið er ákærða gefið að sök að hafa brotið gegn blygðunarsemi brotaþola og dreift klámi, með því að hafa sent tveimur nafngreindum mönnum myndir af brotaþola og ákærða nöktum að stunda kynmök. Ákærði hefur kannast við að hafa sent B mynd eins og lýst er í ákæru, en neitar að hafa sent C myndasyrpu eins og þar greinir.
 22. Fyrir Landsrétti voru spilaðar hljóðupptökur af skýrslum vitnanna C og E, sem þau gáfu við aðalmeðferð málsins í héraði. Er framburður þeirra og vitnisins B rakinn í héraðsdómi. Þá liggja fyrir skilaboð sem C sendi brotaþola á Facebook í mars 2014 svohljóðandi: „jæja A … gemmér 30k og ég sendi kæró ekki þessa myndasyrpu sem X sendi mér af þér í mjög innilegum stellingum.“ Með vísan til framangreinds, en að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms, er staðfest niðurstaða hans um sakfellingu ákærða fyrir þá háttsemi sem honum er gefin að sök í þessum ákærulið og varðar við 209. gr. og 2. mgr. 210. gr. almennra hegningarlaga. 

  Ákæruliður 5
 23. Í 5. ákærulið er ákærða gefið að sök brot gegn blygðunarsemi brotaþola með póstsendingu til þáverandi kærustu hans, D, í febrúar 2015, eins og nánar er rakið. Ákærði hefur viðurkennt að hafa sent D umslag með gögnunum sem um ræðir. Í skýrslu ákærða fyrir héraðsdómi kom fram að þetta hefði hann gert eftir að brotaþoli hringdi í hann þar sem hann sat í fangelsi og sagðist vilja binda enda á samband þeirra. Kvaðst ákærði hafa viljað sýna D hvaða mann brotaþoli hefði að geyma.
 24. Í niðurstöðum héraðsdóms er rakinn framburður brotaþola og vitnisins D. Með vísan til þess sem þar kemur fram er fallist á að ákærði hafi brotið gegn blygðunarsemi brotaþola með því að senda D minnislykil sem hafði að geyma myndir af ákærða og brotaþola nöktum að stunda kynmök og útprentaðar myndir með sama efni, ásamt öðrum gögnum sem talin eru upp í ákæru og ætlað var að sýna fram á að þeir hefðu átt í kynferðissambandi. Verður ákærði sakfelldur samkvæmt þessum ákærulið og varðar brot hans við 209. gr. almennra hegningarlaga.

  Ákæruliður 6
 25. Í 6. ákærulið er ákærða gefið að sök að hafa með þeirri háttsemi sem í fyrri ákæruliðum greinir ítrekað móðgað og smánað brotaþola svo að í því hafi falist stórfelldar ærumeiðingar í skilningi 233. gr. b almennra hegningarlaga.
 26. Í verknaðarlýsingu í þessum ákærulið er því lýst að brotaþoli hafi á tímabilinu sem um ræðir verið maki og síðar fyrrum maki ákærða. Þá er því lýst í inngangsorðum ákæru að brotaþoli hafi verið unnusti ákærða.
 27. Ákærði bar við aðalmeðferð málsins að hann og brotaþoli hefðu kynnst árið 2011 og hafi þeir í fyrstu hist stundum og stundað kynmök. Síðan hefði samband þeirra þróast, brotaþoli hefði flutt til hans og þeir búið saman á fleiri en einum stað. Einnig kom fram hjá ákærða að hann hefði oft látið brotaþola fá peninga á þeim tíma sem þeir hafi verið saman. Þeir hefðu gert með sér samning um þessi peningalán, sem vísað er til í 3. ákærulið, en þetta hefði verið eins konar „kaupsáttmáli milli hjóna“.
 28. Í héraðsdómi er rakinn framburður brotaþola um fyrstu kynni þeirra ákærða og tildrög þess að hann átti við hann kynmök. Brotaþoli kvaðst hins vegar ekki hafa litið svo á að hann væri í sambandi með ákærða, heldur hefði hann verið þvingaður í þessar aðstæður. Ákærði hefði sagt honum að hann hefði tekið kynmök þeirra upp á myndband til öryggis og til að tryggja að brotaþoli myndi hitta hann áfram. Þá hefði ákærði látið hann skrifa undir skuldaviðurkenningu, sem að framan greinir.
 29. Með hliðsjón af framangreindu þykir ekki verða lagt til grundvallar að brotaþoli hafi verið unnusti eða maki ákærða eins og fram kemur í ákæru. Hins vegar liggur fyrir að brotaþoli bjó um tíma hjá ákærða og að þeir áttu í kynferðissambandi, en ráðið verður af gögnum málsins að mikill aðstöðumunur hafi verið á milli þeirra og að brotaþoli hafi verið fjárhagslega háður ákærða. Með hliðsjón af þessu þykir samband þeirra hafa verið þannig að brotaþoli hafi verið nákominn ákærða í skilningi 233. gr. b almennra hegningarlaga. Verður jafnframt talið að ákærði hafi með háttsemi þeirri sem hann er sakfelldur fyrir samkvæmt 1. til 5. ákærulið, móðgað og smánað brotaþola svo að varði hann refsingu samkvæmt þeirri lagagrein. Verður ákærði því einnig sakfelldur samkvæmt þessum ákærulið.

  Ákvörðun refsingar, miskabóta og sakarkostnaðar
 30. Sakaferill ákærða er rakinn í héraðsdómi. Eins og þar kemur fram var ákærða með ákvörðun Fangelsismálastofnunar 11. júní 2015 veitt reynslulausn skilorðsbundið í tvö ár á 390 daga eftirstöðvum fangelsisrefsingar samkvæmt þremur refsidómum frá […] 2011, […] 2013 og […] 2014. Var það gert þótt lögregla hefði þá hafið rannsókn vegna þeirra brota sem hann er sakfelldur fyrir í máli þessu. Ákærði hefur staðist skilorð reynslulausnarinnar, sbr. 2. mgr. 81. gr. laga nr. 15/2016, um fullnustu refsinga, áður 2. mgr. 64. gr. laga nr. 49/2005. Eru því ekki skilyrði að lögum til að dæma reynslulausnina upp samkvæmt reglum 60. gr. almennra hegningarlaga, eins og gert var með hinum áfrýjaða dómi.
 31. Auk þeirra sjónarmiða sem reifuð eru um refsiákvörðun í héraðsdómi þykir rétt að líta til þess að ákærði hefur tvívegis áður verið sakfelldur fyrir kynferðisbrot, en í báðum tilvikum beindust brot hans gegn unglingspiltum. Ákærði er í máli þessu sakfelldur fyrir á annan tug brota sem beindust gegn blygðunarsemi og friðhelgi einkalífs brotaþola. Sýndi hann sterkan og einbeittan vilja til verksins. Þá eykur á saknæmi brotanna að brotaþoli var honum nákominn. Samkvæmt framangreindu verður refsing ákveðin með vísan til 1., 5., 6. og 7. töluliðar 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga, 3. mgr. sömu lagagreinar og 77. og 78. gr. sömu laga. Þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 15 mánuði.
 32. Brotaþoli á rétt á miskabótum úr hendi ákærða, sbr. b-lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Með vísan til sjónarmiða sem rakin hafa verið um ákvörðun refsingar og þess sem reifað er í héraðsdómi um ákvörðun miskabóta þykja þær hæfilega ákveðnar 1.500.000 krónur, með vöxtum sem í dómsorði greinir.
 33. Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað er staðfest. Um áfrýjunarkostnað fer samkvæmt því sem í dómsorði greinir. Við ákvörðun þóknunar lögmanna hefur verið tekið tillit til virðisaukaskatts.

Dómsorð:

Ákærði, X, sæti fangelsi í 15 mánuði.

Ákærði greiði A 1.500.000 krónur, með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá 1. júní 2012 til 7. janúar 2017, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað er staðfest.

Ákærði greiði að 2/3 hlutum áfrýjunarkostnað málsins, sem samtals nemur 2.147.465 krónum, en þar eru með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Björgvins Jónssonar lögmanns, 1.581.000 krónur, og þóknun réttargæslumanns brotaþola, Evu Bryndísar Helgadóttur lögmanns, 496.000 krónur. Að öðru leyti greiðist áfrýjunarkostnaður úr ríkissjóði.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 17. mars 2017

Mál þetta, sem dómtekið var 24. febrúar sl., er höfðað með ákæru útgefinni af héraðssaksóknara 18. nóvember 2016 á hendur X, kennitala […], […], Reykjavík, fyrir hegningarlagabrot, framin á árunum 2011 til 2014, gegn unnusta hans, A, kt. […], sem hér greinir:

1. Brot gegn blygðunarsemi A, með því að hafa, á ótilgreindum tíma, að þáverandi heimili ákærða að […]í Reykjavík, tekið upp myndband af A og ákærða sjálfum að stunda kynmök, án vitundar A, en ákærði greindi A fyrst frá myndbandinu í skilaboðum á samskiptavefnum Facebook þann 1. maí 2012.

Telst þetta varða við 209. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.


2. Hótanir og brot gegn blygðunarsemi A, í skilaboðum til hans á Facebook, í maí 2012, sem hér greinir:

1) Þann 1. maí sent honum mynd sem sýndi ákærða og A nakta að stunda kynmök og skrifað: „þú veist vel hvaðan þetta er!! og í hvaða skipti.. ég á þetta live allt saman.. 10 min myndband, búinn að vera með camerur síðan það var ráðist inn heim til mín… ég á 4 myndbönd sem ég hef geymt af okkur, ef að ég þyrfti að nýta þau einhvern tímann!! ég mun ekki gera það ef að ég fæ allt það sem ég hef latið þig fá tilbaka, og að þú hafi samband á næstu 18 tímum! […] hafðu samband ég er með gott mail […] til að byrja á síðan fer þetta á netið, mér er slétt sama hver sér mig nakinn, ég er gay.. þú ekki.. svo segirðu.. hafðu samband klarum þetta og það verður ekkert úr þessu.. ég mun þá eyða þessu öllu…. ég stend við mitt like always! sagði orðrétt við þig að ég gæti gert þitt líf dásamlegt eða hreint ömurlegt.. ekki leika leiki við mig […].. hringdu 18 tímar þú ert með númerið mitt…“,

2) Þann 1. maí skrifað: „[…] ef að þú eyðir mér úaf fb.. þá fer þetta lika á netið.. hafðu samband, ræðum þetta og málið dautt, mín þolinmæi er á þrotum!! þú vissir það vel… 17 og halfur timi.. ekki viltu að […].. fái að sjá þetta… eða einhverjir aðrir eg hef engu að tapa A minn…“

3) Þann 2. maí skrifað: „ég póstaði myndinni á vegginn þinn í nokkrar sekúndur, það var allt og sumt. eyddi henni síðan strax út.. það er þegar reiðin tekur yfir.. ég væri búinn að henda þessu á netið ef að reiðin í mér væri enn jafn mikil.. er þó að búast við að þú hringir. ef að símtalið kemur ekki þá veistu að þetta sé til. og hvað verður síðan er eitthvað sem þu getur ekki vitað, enn ég vill klára þetta í góðu enn ekki svona.“

4) Þann 2. maí skrifað: „[…] þá er nú gott að hafa þetta undir höndum.. ég mun birta þetta […], ef þú finnur það ekki hjá mér að tala við mig á annan hátt enn á facebook […]“

5) Þann 4. maí skrifað: „[…] Hver veit nema að ég fái mér um helgina! að fíkillinn komi upp hjá mér!ef að ég yrði eitthvað þreyttur á að bíða enn og aftur eftir símtali! og að ég verði reiður og geri einhverja vitleysu með þetta aftur… og þá jafnvel láti myndbandið sjálft fara á netið! Það sem er komið á netið fer ekki af því aftur! […] ef að ég þekki sjálfan mig rétt, þá myndi ég láta myndbandið flakka á netið í einhverju reiðiskasti! ef að ég væri að fá mér […]“

6) Þann 4. maí skrifað: „[…] og þegar maður er reiður að nota fíkniefni.. þá er það ekki sniðug blanda eins og þú veist sjálfur! maður er ekkert að spá í afleiðingarnar sem síðan fylgja.. eins og ég sagði það sem er komið á netið helst á netinu.. Ég treysti á það að þú hringir“

7) Þann 12. maí sent A aðra mynd sem sýndi ákærða og A nakta að stunda kynmök og skrifað: „að sjalfsogðu helt eg eftir copy.. eg var að sverja upp a grof ommu að það væui ekki fleiri myndbond her i ibuðinni a þo alltaf eitt i bankaholfinu hja mer.. sem enginn kemst i nema EG […] hvað heldurðu svo að gerist þegar að min reiði fari alveg a fullt ??.. og eg á þetta enn til….“

Telst þetta varða við 233. gr. og 209. gr. almennra hegningarlaga.

 

3. Hótanir í tölvupóstum til A í ágúst 2013, sem hér greinir:

1) Þann 26. ágúst skrifað: „Þú ert með greiðslusamning sem að ég ætlast til að verði staðið við! […] ef að þér sé annt um sjálfan þig, þina vini og ekki síst þína fjölskyldu þá stendurðu við þennan samning, þessi samningur mun elta þig til ársins 2015. þú veist fullvel að þú munt ekki getað verið með þinni family á jólum,páskum,afmælum eða neinu öðrum fjölskylduboðum í friði ef að þú borgar ekki! því að þeir munu og vilja fá þetta borgað, það er auðvelt að nálgast þetta, eins og um áramótin hjá […] eða bara um jólin upp í […] eða þá hjá […] upp í […],síðan […], og á þá vinnustaði sem þú munt vinna á! Ekki gleyma að við fáum ALLTAF upplýsingar um það hvar þig er að finna! Það verða farnar allar leiðir til að fá þetta borgað, það koma vextir ef að það verður ekki borgað. […] það verður enginn staður sem þú ert öruggur á meðan þú borgar ekki, þú hefur séð og hitt mína menn. þeir svífast einskis, á meðan þeir hafa go on hjá mér, þá skipti ég mér ekki af því hvað verður gert við þig eða þína nánustu. […]“

2) Þann 29. ágúst skrifað: „[…] Það er eins og þú sért að kalla yfir þig óöryggi og ótta, getur aldrei verið viss hver er á eftir þér, hver mun koma inn um hurðina hjá þér þennan dag eða hinn, eða inn um hurðina hjá vinum þínum eða fjölskyldu. Getur aldrei verið viss um að það sé verið að stilla þér upp, eða að þú verður laminn eða rukkaður þar sem þú sést. það verður enginn staður sem að þú getur verið öruggur á því að menn finnast alltaf. Ég gaf þér séns til að tala við mig A minn, þú vonandi mannst hvað gerðist þá þegar þú gerðir það ekki! […] Talaðu við mig áður enn það verður óbærilegt að getað farið útúr húsi,hugsandi um það hver sé á eftir þér þú villt ekki vera fastur í andlegu fangelsi.“

Telst þetta varða við 233. gr. almennra hegningarlaga.


4. Brot gegn blygðunarsemi […] og dreifingu kláms, með því að hafa, á ótilgreindum tímum, sent annars vegar B mynd af A og ákærða nöktum að stunda kynmök, og hins vegar C myndasyrpu af hinu sama.

Telst þetta varða við 209. gr. og 2. mgr. 210. gr. almennra hegningarlaga.


5. Brot gegn blygðunarsemi A, sem þá hafði slitið sambandinu við ákærða, með því að hafa með póstsendingu, með póstáritun dagsettri […] 2014, sent unnustu A, D, á heimili hennar, minnislykil með sjö myndum af A nöktum að stunda kynmök með ákærða, þrjár útprentaðar myndir sem sýndu hið sama, óundirritað og ódagsett bréf þar sem hann meðal annars lýsti A sem óheiðarlegum og óáreiðanlegum, vísaði í myndirnar og kynlífsmyndband af ákærða og A, sem hann sagði hvort tveggja vera á netinu, staðhæfði að A hefði stundað kynlíf með ákærða á sama tíma og hann var í sambandi með D og ýjaði að því að A væri með kynsjúkdóm. Auk þessa sendi ákærði með sendingunni útprentanir af sjö flugmiðum milli […] og […] á nafni A á tímabilinu […] 2013 til […] 2014, þar sem ákærði er tilgreindur sem greiðandi, ljósrit af sex handrituðum og ódagsettum einkabréfum A til ákærða og útprentanir af fimmtán einkatölvupóstum A til ákærða, dagsettum á tímabilinu 30. ágúst til 19. desember 2013, en bréfin og tölvupóstana hafði A sent ákærða þegar ákærði […] í […] á […].

Telst þetta varða við 209. gr. almennra hegningarlaga.

 

6. Stórfelldar ærumeiðingar gegn A, sem á tímabilinu var maki hans og síðar fyrrum maki, með því að hafa með þeirri háttsemi, sem lýst er í ákæruliðum 1-5, ítrekað móðgað og smánað A. Telst þetta varða við 233. gr. b almennra hegningarlaga.

Er þess krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

Af hálfu brotaþola er krafist miskabóta úr hendi ákærða að fjárhæð 2.000.000 krónur, auk vaxta, skv. 8. gr. vaxtalaga nr. 38/2001, frá 1. júní 2012 þar til mánuður er liðinn frá því ákærða var kynnt bótakrafan, en dráttarvaxta skv. III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags, sbr. 9. gr. sömu laga. Þá er krafist greiðslu þóknunar réttargæslumanns úr hendi ákærða.


Verjandi ákærða krefst sýknu og að sakarkostnaður, þ.m.t. málsvarnarlaun, verði greiddur úr ríkissjóði. Til vara er krafist vægustu refsingar er lög leyfa og að skaðabætur verði lækkaðar.

Mánudaginn 14. febrúar 2014 mætti brotaþoli á lögreglustöð og lagði fram kæru á hendur ákærða fyrir kynferðisbrot og brot gegn friðhelgi einkalífs. Við það tækifæri greindi brotaþoli frá þeim atvikum málsins að hann hafi kynnst ákærða í mars 2011. Brotaþoli hafi á þeim tíma notað fíkniefni og verið kominn í skuld vegna þess. Brotaþoli hafi ákveðið að bjóða fram kynferðislega þjónustu gegn greiðslu til að greiða skuldina. Hafi hann þekkt til ákærða og vitað að ákærði væri samkynhneigður. Brotaþoli hafi boðið ákærða kynlífsþjónustu gegn því að fá í staðinn greiðslu sem hann hafi ætlað að nota til að greiða fíkniefnaskuldina. Ákærði hafi þekkst boðið og brotaþoli sofið hjá honum. Hafi þeir stundað kynmök saman. Á þessum tíma hafi brotaþoli átt kærustu. Tíminn hafi liðið og brotaþoli verið í sambandi við ákærða og ekki losnað frá honum. Hafi hann þurft að halda sambandinu við ákærða leyndu fyrir kærustu sinni, auk þess sem ákærði hafi ekki mátt vita af sambandinu við kærustuna. Þannig hafi tímar liðið og ákærði orðið ástfanginn af brotaþola. Brotaþoli hafi ekki losnað úr aðstæðunum þar sem ákærði hafi sagt að brotaþoli skuldaði honum vegna fíkniefnaskuldarinnar. Síðan hafi hann sagt brotaþola að hann hefði tekið kynmök þeirra upp á myndband. Hann hafi sýnt brotaþola myndir því til staðfestingar og hafi brotaþola brugðið mikið. Ákærði hafi síðan hótað því að dreifa efninu ef brotaþoli héldi ekki áfram að hitta sig. Þannig hafi tímar liðið og brotaþoli verið í sífelldum ótta. Ákærði hafi sent brotaþola ýmis skilaboð á fésbókinni og í gegnum tölvupóst. Að endingu hafi myndefnið farið í umferð og ákærði hafi dreift því. Ákærði hafi farið í afplánun á árinu 2013. Í byrjun árs 2014 hafi brotaþoli loksins náð að slíta sambandi sínu við ákærða, sem enn hafi verið í afplánun. Það hafi gerst í kjölfar þess að ákærði hafi sent þáverandi kærustu brotaþola myndir af kynmökum ákærða og brotaþola og ýmis önnur gögn um samskipti þeirra. Brotaþoli hafi þá verið hættur neyslu fíkniefna, en í gegnum það ferli hafi honum orðið enn ljósara hversu alvarlega ákærði hefði brotið gegn sér með hótunum um dreifingu myndefnis með kynmökum þeirra og síðan með því að dreifa efninu. Hafi brotaþoli eftir sendingu efnisins til kærustunnar tekið ákvörðun um að kæra ákærða til lögreglu.

Er brotaþoli lagði fram kæru hjá lögreglu afhenti hann nokkurt magn gagna um samskipti sín við ákærða í gegnum tölvupóst og fésbókina. Þá afhenti hann lögreglu umslag er ákærði hafði sent þáverandi kærustu brotaþola þar sem var að finna afrit af samskiptum ákærða og brotaþola og minnislykil sem sýndi þá stunda kynmök. Í kjölfar kæru brotaþola voru teknar skýrslur af ákærða og vitnum. Ákærði afhenti lögreglu einnig nokkurt magn gagna um samskipti sín við brotaþola. Á meðal rannsóknargagna málsins eru útskriftir af fésbókarsamskiptum ákærða og brotaþola sem ákært er fyrir í málinu. Að auki eru  útskriftir af tölvupóstum á milli þeirra, minnislykill með myndskeiði og myndir er sýna þá stunda kynmök.

Við aðalmeðferð málsins gáfu ákærði og brotaþoli skýrslur fyrir dóminum. Að auki gáfu skýrslur tvær fyrrum kærustur brotaþola, móðir ákærða og systir, fangavörður og tveir einstaklingar er ákærði og brotaþoli áttu samskipti við á þeim tíma er sakarefni samkvæmt ákæru áttu sér stað.

Ákærði hefur lýst atvikum svo að hann hafi kynnst brotaþola á árinu 2011. Báðir hafi þeir verið í neyslu á þeim tíma og hafi þeir ,,djammað“ saman. Í þessum fyrstu kynnum þeirra hafi brotaþoli stundum komið heim til ákærða og þeir haft kynmök. Samband ákærða og brotaþola hafi þróast upp frá þessu. Ákærði hafi tekið á sínum málum og farið í meðferð 2012 vegna fíkniefnaneyslu sinnar. Brotaþoli hafi á þessum tíma verið í sambandi með E. Ákærði og brotaþoli hafi eytt miklum tíma saman. Brotaþoli hafi flutt inn til ákærða og þeir búið saman á fleiri en einum stað eftir því sem ákærði hafi flutt á milli staða. Þannig hafi brotaþoli í fyrstu flutt heim til ákærða er ákærði hafi búið heima hjá […] í […]. Þaðan hafi þeir flutt í […] þar sem þeir hafi búið, ásamt […] ákærða. Síðar hafi þeir flutt inn á […] þar sem þeir hafi leigt íbúð. E hafi slitið sambandi sínu við brotaþola er hún hafi frétt af sambandi hans og ákærða. Það hafi verið á árinu 2012. Á þeim tíma er ákærði og brotaþoli hafi búið saman hafi þeir gert flest eins og önnur pör. Þeir hafi t.a.m. farið í bíó saman og út að borða. Eins hafi þeir farið saman til útlanda. Þeir hafi á þessum sambúðartíma stundað kynlíf. Kvaðst ákærði hafa staðið í þeirri trú að samband þeirra snérist um meira en kynlíf en ákærði hafi verið ástfanginn af brotaþola. Ákærði kvaðst hafa fengið dóm fyrir rán og farið í afplánun á dómi fyrir það brot í apríl 2013. Á þeim tíma hafi ákærði og brotaþoli búið saman inni á […]. Er ákærði hafi farið í afplánun hafi brotaþoli áfram búið í íbúðinni. Ákærði hafi afplánað dóm sinn á […]. Brotaþoli hafi margsinnis heimsótt ákærða í fangelsið, […].

Í febrúar 2014 hafi brotaþoli hringt í ákærða í fangelsið […] og slitið sambandi þeirra. Ákærða hafi fundist þetta skrýtið og það hafi verið erfitt að eiga við það. Sambandsslit hafi ekki legið í loftinu. Samband ákærða og brotaþola hafi á tíðum verið stormasamt. 2012 hafi ákærði verið hættur í neyslu en brotaþoli hafi notað fíkniefni. Á þessum tíma hafi […] ákærða verið […] og […] hans […]. Það hafi verið erfitt að vera með brotaþola í neyslu, við þessar aðstæður, og mikið álag hafi verið á heimilinu. Brotaþoli hafi farið í meðferð á árinu 2012 en hætt í henni undir lok meðferðarinnar. Ákærði hafi reynt að ná til hans varðandi neysluna og oft þurft að vera ákveðinn við hann. Ákærði hafi reynt allt í þeirri viðleitni og stundum notað svokallaða öfuga sálfræði sem falist hafi í því að vera grimmur við hann og leiða honum þannig fyrir sjónir hvar hann væri að lenda. Ákærði kvaðst þrátt fyrir þetta aldrei hafa beitt brotaþola kúgun af neinu tagi eða hótað honum. Þá hafi ákærði á engan hátt stefnt að því að meiða æru brotaþola eða særa blygðunarsemi hans. Allt hafi verið gert til að reyna að fá brotaþola til að hætta neyslu.

Að því er 1. tl. ákærunnar varðaði hafi ákærði, með samþykki brotaþola, tekið upp myndband af þeim stunda kynmök. Ef horft sé á myndbandið megi sjá brotaþola horfa í myndavélina. Hann hafi því vitað af upptökunni. Myndbandið hafi verið tekið á árinu 2012. Myndbandið hafi verið einhvers konar fantasía en brotaþoli hafi viljað að þeir tækju upp kynmökin. Ákærði kvaðst hafa lagt myndbandið fram hjá lögreglu. Hann hafi ekki dreift því.

Að því er hótanir samkvæmt 1. lið 2. tl. ákæru varðaði hafi ákærði sent brotaþola skilaboð á fésbókinni 1. maí 2012. Kvaðst ákærði kannast við þessi skrif sem sín. Á þessum tíma hafi brotaþoli verið í neyslu fíkniefna og strokið að heiman. Ákærði hafi reynt að fá hann heim og beitt hann þessari öfugu sálfræði í þeim tilgangi. Það myndband sem vísað sé til í skilaboðunum sé myndband sem brotaþoli hafi vitað um. Ákærði hafi aldrei dreift þessu myndbandi heldur hafi hann látið lögreglunni það í té. Að því er skilaboð í 2. lið 2. tl. ákæru varðaði væri sama staða uppi. Brotaþoli hafi vitað um myndbandið og ákærði ekki sett það á netið eða ætlað að gera það. Að því er varðaði 3. lið 2. tl. þá hafi ákærði verið að beita brotaþola öfugri sálfræði. Á þessum tíma hafi brotaþoli enn verið í sambandi við E og ákærði vísað til hennar í skilaboðunum. Ákærði kvaðst hafa verið óhress með brotaþola á þessum tíma og hafa greitt ýmislegt fyrir hann en brotaþoli ekki viljað svara honum. Hann hafi skrifað þetta til að fá brotaþola til að hafa samband við sig en þetta hafi ekki verið hótun í garð brotaþola. Hann kvaðst ekki muna hvort hann hafi í raun sett myndina á vegginn í nokkrar sekúndur, svo sem hann hefði sagt að hann myndi gera. Varðandi 4. - 6. lið 2. tl. hafi margt verið í gangi á þessum tíma. […] ákærða hafi verið […] og komið nálægt […]. Það hafi komið mjög illa við fjölskylduna að brotaþoli skyldi vera í neyslu fíkniefna og ákærði hafi gert allt til að koma honum á rétt ról aftur. Það hafi aldrei staðið til að gera það sem vísað væri til í þessum töluliðum ákæru og hann hafi einfaldlega verið að reyna að fá brotaþola til að hafa samband og opna augu hans fyrir því hvernig fyrir honum væri komið. Að því er 7. lið 2. tl. ákæru varðaði hafi ástandið verið sem áður og ákærði verið að reyna að fá brotaþola til að koma heim. Engar eiginlegar hótanir hafi legið að baki þessum skilaboðum eða öðrum samkvæmt 2. tl. ákæru. 

Ákærði kvaðst á þeim tíma er þeir hafi verið saman oft hafa látið brotaþola fá peninga. Einhverju sinni hafi verið gerður samningur þeirra á milli um þessi peningalán. Það hafi verið um eins konar sáttmála að ræða, en aldrei hafi staðið til að innheimta hann. Samningurinn hafi verið skriflegur og kveðið á um endurgreiðslur ef brotaþoli og ákærðu slitu sambandi sínu. Á þessum tíma hafi ákærði og brotaþoli búið inni á […] og […]. Í ágúst 2013 hafi ákærði verið í afplánun […]. Þrátt fyrir þessi skilaboð sem fram kæmu í 1. lið 3. tl. ákæru hafi aldrei staðið til innheimta þennan samning. Ákærði hafi sem fyrr verið að beita brotaþola öfugri sálfræði. Ákærði hafi aldrei ætlað að senda einhverja menn á eftir honum. Það sama ætti við um tilvik samkvæmt 2. lið 3. tl. ákæru. Ekki hafi verið um hótun að ræða heldur hafi ákærði verið að reyna að aðstoða fíkil og reynt að ná brotaþola aftur á rétta braut.

Brotaþoli hafi skuldað C peninga vegna fíkniefnakaupa. Ákærði hafi greitt eitthvað af skuld hans við C, en C hafi verið kunningi þeirra beggja. Ákærði kvaðst ekki hafa sent C myndir af sér og brotaþola í kynmökum, svo sem honum væri gefið að sök í 4. tl. ákæru en það væri ekki útilokað að hann hefði sagt C að hann ætti slíkar myndir. Ákærði kvaðst hins vegar ekki muna hvort hann hefði sent B slíkar myndir. Er ákærða var bent á að hann hefði játað það hjá lögreglu kvað hann það geta verð rétt. Ákærði kvaðst muna eftir því að B hafi sýnt E slíkar myndir og hafi E í framhaldi dreift þeim um netið. Ástæða þess að ákærði hafi sent þessar myndir hafi verið sú að hann hafi verið að reyna að ná til brotaþola. Ákærði kvaðst hafa ítrekað við B að hann léti ekki myndirnar frá sér.

Að því er 5. tl. ákæru varðar kvaðst ákærði hafa verið í afplánun í fangelsinu […] er brotaþoli hafi í febrúar 2014 hringt í ákærða og endað samband þeirra. Ákærði kvaðst í framhaldi af því hafa tekið saman ýmis gögn um samband sitt og brotaþola. Þar hafi verið um að ræða minnislykil með myndum af brotaþola nöktum í kynmökum við ákærða, bréf er ákærði hafi ritað með lýsingum af brotaþola, afrit af flugmiðum er brotaþoli hafi […] og afrit af einkabréfum og tölvupóstum á milli þeirra. Er ákærði og brotaþoli hafi hafið samband sitt hafi brotaþoli verið í sambandi með E. Er brotaþoli hafi hætt með ákærða hafi brotaþoli verið að kynnast stelpu, D. Fyrir ákærða hafi vakað að láta D vita um hvers konar mann brotaþoli hefði að geyma. Hann hafi sjálfur verið í andlegu ójafnvægi á þessum tíma eftir sambandsslitin og fundist rétt að gera þetta. Hafi þetta verið eins konar örþrifaráð af hans hálfu. Hann hafi ekki verið að hefna sín á brotaþola, smána hann eða lítillækka. Honum hafi heldur ekki fundist sem hann væri að brjóta trúnað gagnvart brotaþola með sendingunni. Hann kvaðst ekki myndi hafa gert þetta með sama hætti í dag. Líf hans hafi einfaldlega verið í rúst á þessum tímum. Umfjöllun dagblaðs hafi haft ömurleg áhrif á líf ákærða og hafi hann af þeim ástæðum orðið að flytja til útlanda að afplánun lokinni. Ákærði kvaðst ekki hafa stefnt að því að meiða æru, móðga eða smána brotaþola með þeirri háttsemi sem lýst væri í öllum liðum ákæru.

 

Brotaþoli kvaðst hafa kynnst ákærða á árinu 2011 í gegnum […] ákærða, sem hann hafi þekkt. Brotaþoli hafi notað fíkniefni á þessum tíma og ákærði átt efni. Hafi þeir neytt fíkniefna saman. Vegna neyslu sinnar hafi brotaþoli skuldað C peninga, sem hann hafi fengið að láni hjá honum. Upphæðin hafi ekki verið há, sennilega um 40.000 krónur og hafi brotaþoli beðið ákærða að hjálpa sér við að greiða skuldina. Hann hafi svarað því þannig að það yrði að koma greiði fyrir greiða. Honum hafi verið ljóst hvað það þýddi, en hann hafi vitað að ákærði væri samkynhneigður. Eftir umhugsun hafi hann ákveðið að fá peninga frá ákærða og eiga við hann kynmök í staðinn. Tíminn hafi liðið og ákærði látið hann fá peninga og skartgripi í staðinn fyrir kynmök. Ákærði hafi þó ekki greitt upp skuld hans við C og þannig hafi hann haldið brotaþola í þeirri stöðu að hann hafi ekki getað annað en stundað kynmök áfram með ákærða. Með tímanum hafi ákærði litið svo á að þeir væru í sambandi. Brotaþola hafi hins vegar fundist hann vera í andlegu fangelsi. Ákærði hafi sífellt verið að tala um endurgreiðslu á láninu og brotaþola fundist hann vera fastur. Þannig hafi hlutirnir gengið áfram. Einhverju sinni hafi ákærði síðan hringt og sagt að hann væri með svolítið er hann vildi sýna honum. Brotaþoli hafi farið heim til hans, þar sem ákærði sýndi honum myndskeið af sér og brotaþola í kynmökum. Brotaþoli hafi ekki vitað af því að hann hefði tekið kynmök þeirra upp á myndband. Ákærði hafi sagt að myndbandið væri til öryggis og til að tryggja að brotaþoli myndi hitta hann áfram. Er þarna var komið hafi brotaþoli verið kominn í eins konar feluleik. Ákærði hafi verið hrifinn af brotaþola og brotaþoli ekkert getað gert vegna myndbandsins. Hafi hann því oft brugðið á það ráð að láta sig hverfa. Til tryggingar peningaskuldinni hafi ákærði látið brotaþola undirrita skuldarviðurkenningu.

Fyrst þegar brotaþoli hafi kynnst ákærða hafi brotaþoli verið í sambandi með E. Ákærði hafi ekki þolað það og brotaþoli reynt að halda tengslum þeirra leyndum fyrir honum. Það hafi ekki tekist og þess vegna hafi ákærði sent myndir, af sér og brotaþola að stunda kynlíf, til vina brotaþola, B og C.  Ákærði hafi einnig sett þessar myndir inn á fésbókarvegginn sinn í stuttan tíma. Það hafi orðið til þess að myndskeiðið hafi farið hratt um internetið. E hafi séð myndirnar og orðið brjáluð. Ákærði hafi farið í afplánun. Hann hafi krafist þess að brotaþoli svaraði sér í síma og þá jafnan hringt í heimasíma. Hann hafi krafist þess að brotaþoli skrifaði undir skuldasamning. Þetta hafi gengið svo langt að ákærði hafi sent einhverja menn á eftir brotaþola til að gera honum ljósan alvarleika málsins. Þetta hafi allt verið gert í þeim tilgangi að hóta brotaþola og hræða hann til áframhaldandi sambands við ákærða. Brotaþola hafi liðið eins og hann væri fastur og gæti ekkert gert. Á meðan ákærði hafi búið í […] hafi brotaþoli oft verið heima hjá ákærða. Hann hafi svo ætlað að leigja með […] þegar hún hafi tekið á leigu íbúð í […]. Ákærði hafi einnig viljað komast þar inn og brotaþoli leyft honum að gista. Þetta hafi svo orðið að rútínu. Á meðan þessu hafi farið fram hafi ákærði þó ekki staðið við sinn hlut af samkomulaginu. Hann hafi aldrei að fullu gert upp skuldina við C þrátt fyrir að brotaþoli hafi staðið við sitt og veitt ákærða kynlíf gegn greiðslu skuldarinnar. Brotaþoli kvaðst aldrei hafa litið svo á að hann væri í sambandi með ákærða. Hann hafi verið þvingaður inn í þessar aðstæður. Að baki hafi legið þessi ógn um að myndband af kynmökum þeirra færi á netið. Brotaþoli hafi skammast sín mikið vegna alls þessa, en þessu hafi fylgt mikil skömm. Ákærði hafi gengið svo langt að hann hafi farið að hóta vinum brotaþola. Brotaþoli hafi tekið ákvörðun um að vera meira heima hjá ákærða og borða þar, þar sem hann hafi ekki getað hugsað sér að láta aðra sjá þá saman úti. Þeir hafi meira að segja farið saman til útlanda, en brotaþoli hafi í tvígang farið með ákærða til […]. 

Brotaþoli kvaðst ekki hafa vitað af því er ákærði tók upp kynmök þeirra samkvæmt 1. tl. ákæru. Það hafi ekki verið með vilja hans gert. Ákærði hafi sagt honum eftirá að það væri ekki ólöglegt að taka þetta upp ef efninu væri ekki dreift. Hann kvaðst hafa fengið sjokk og liðið mjög illa er hann hafi áttað sig á því að ákærði væri með þetta myndband og ekki treyst ákærða. Honum hafi fundist ákærði brjóta gegn sér með því að taka myndbandið upp. Að því er varðaði 1. til 7. lið 2. tl. ákæru þá kvaðst brotaþoli hafa látið sig hverfa í maí 2012, eins og hann hafi stundum gert. Ákærði hafi sent honum hótanir til að fá hann til að koma aftur. Í þessari atrennu hafi ákærði sent C og B myndband af kynmökum þeirra. Brotaþoli kvað sér hafa liðið mjög illa vegna alls þessa. Hann hafi vitað að hætta væri á að ákærði myndi láta verða af hótunum sínum. Brotaþoli kvaðst hafa lagt fram tölvupósta hjá lögreglu, frá því í lok ágúst 2013, er ákærði hafi sent honum og ákært væri fyrir í 3. tl. ákæru. Þar hafi komið fram upplýsingar um greiðslusamninginn. Póstarnir hafi valdið honum vanlíðan og á þessum tíma hafi hann ekki treyst sér út úr húsi. Hann hafi upplifað efni póstanna sem hótanir og kúgun. Á þessum tíma hafi tveir menn, sem ákærði hafi sent á eftir brotaþola og hétu F og G, verið að leita að brotaþola.

Að því er varðaði 4. tl. ákæru hafi ákærði sent mynd, á C og B, af ákærða og brotaþola að stunda kynlíf. C hafi tjáð brotaþola að hann hefði fengið myndskeiðið frá ákærða og yrði því dreift ef brotaþoli myndi ekki gera upp skuld sína. Brotaþoli kvaðst í framhaldi hafa gert upp skuldina við C. B hafi sagt brotaþola að hann hefði fengið mynd af kynmökum ákærða og brotaþola. Brotaþola hafi brugðið mikið en þetta hafi staðfest að myndin hafi verið komin í umferð. Brotaþoli hafi á þessum tíma verið búinn að vera edrú í hálft til eitt ár. Hann kvaðst hafa afhent gögn samkvæmt 5. tl. ákæru er hann hafi lagt fram kæru, en það hafi verið daginn eftir að ákærði hafi sent D pakka með efni um ákærða og brotaþola. D hafi þá verið farin að heyra einhverjar sögur um þá. Er póstsendingin hafi borist D hafi brotaþoli sennilega verið í sturtu. D hafi tekið við pakkanum, opnað hann og séð allt sem í honum var. Gögn þessi hafi stafað frá fáránlegu tímabili í lífi brotaþola. Hafi hann verið fastur í þessu sambandi við ákærða og þurft að senda honum tölvupósta og skrifa honum á fésbókinni. Þetta hafi hann gert af ótta við að ákærði myndi ella dreifa efni um kynmök þeirra. Brotaþoli kvaðst hafa skrifað ákærða á innilegum nótum þar sem það hafi ákærði viljað heyra. Að öðrum kosti myndi brotaþoli hljóta verra af. Brotaþoli hafi farið í meðferð vegna fíknivandans og í tengslum við […] kynnst D. Eftir þessa póstsendingu ákærða hafi brotþoli tekið ákvörðun um að slíta endanlega sambandinu við ákærða og kæra hann til lögreglu. Hafi hann notið stuðnings frá svonefndum ,,sponsorum“ í tengslum við fundi í AA. Þar hafi aðrir lýst svipaðri lífsreynslu, að hafa fengið greitt fyrir kynlíf og verða síðan fastir í vítahring sem þeir kæmust ekki út úr. D hafi orðið ólétt eftir brotaþola. Hafi þau verið áfram saman um hríð en sambandi þeirra lokið á árinu 2016. D hafi reynt að horfa fram hjá þessum kafla í lífi brotaþola en þetta hafi alltaf fylgt þeim og verið þeim erfitt. Ákærði hafi móðgað brotaþola og smánað með þeim samskiptum þeirra á milli er hann hafi sent öðrum. Sennilega hafi ákærði verið ástfanginn af brotaþola en það hafi ekki verið gagnkvæmt. Brotaþoli hafi leitað til ákærða til að losna undan skuld en setið fastur, þrátt fyrir að hafa staðið við sinn hluta af samningnum.                                                                                   

E kvaðst hafa verið kærasta brotaþola í um tvö ár. Í upphafi sambands þeirra hafi hún ekki þekkt ákærða eða vitað af honum. Einhverju síðar hafi hún hitt ákærða. Hafi brotaþoli skýrt það þannig að ákærði væri vinur sinn. Upp frá þessu hafi það oft gerst að ákærði hafi hringt í brotaþola. Hafi aðstaðan verið sérkennileg og brotaþoli og E orðið að láta líta út fyrir að E væri ekki á staðnum. Á þessum tíma hafi ákærði og brotaþoli í tvígang farið til […]. Hafi brotaþoli talað um að ferðirnar væru vinnuferðir. Henni hafi þó fundist sérkennilegt að brotaþoli og ákærði væru þetta góðir vinir, en E hafi vitað til þess að ákærði væri samkynhneigður. Síðar hafi E farið að heyra utan að sér að ákærði elskaði brotaþola en brotaþoli ekki viljað við það kannast. Það hafi hins vegar verið sérkennilegt í þessu öllu að ákærði hafi farið að hóta E og sífellt verið að hringja heim í brotaþola. Brotaþoli hafi á þessum tíma notað fíkniefni og E frétt að ákærði væri að kaupa fíkniefni fyrir brotaþola. Hún hafi síðan orðið þess áskynja að það væri eins og þau væru þrjú saman. Hún og brotaþoli hafi t.a.m. verið með samskonar hring og hún síðar séð að ákærði var með samskonar hring. Þá hafi brotaþoli farið að segja henni meira af ákærða. Hafi hann sagt að hann skuldaði ákærða peninga og kæmist því ekki frá honum. Síðan hafi E farið að sjá tölvupósta þar sem kynlífi á milli ákærða og brotaþola hafi verið lýst. Hafi hún þá áttað sig á því að brotaþoli hafi logið að henni allan tímann og að þeir hafi í raun verið í sambandi. Um líkt leyti hafi hún séð mynd sem hafi staðfest þetta en þar hafi ákærði og brotaþoli verið í kynmökum. E hafi frétt að ákærði hafi sett myndina á netið og myndin farið um allt. Hafi hún ekki getað meir og slitið sambandi sínu við brotaþola.

D kvaðst hafa byrjað með brotaþola í janúar 2014. Þau hafi kynnst í […]. Í upphafi hafi hún ekki mikið velt fyrir sér fortíð hans. Hún hafi því ekki vitað af sambandi brotaþola og ákærða. Síðar hafi brotaþoli farið að segja henni lítillega frá ákærða og að ákærði væri með tök á honum frá því í fortíðinni. Væri brotaþoli að reyna að komast undan ákærða. Hann  hafi almennt ekki viljað ræða þessa hluti mikið. Hann  hafi í tvígang farið til […] og sagt að ferðirnar tengdust viðskiptum. Hlutirnir hafi gerst hratt og brotaþoli flutt inn til D. Um það leiti hafi hún orðið ólétt af barni þeirra. Í febrúar 2014 hafi D fengið umslag í pósti. Kvaðst hún telja að brotaþoli hafi ekki verið á staðnum er hún hafi tekið við umslaginu. Hún hafi opnað það og séð minnislykil sem hafi haft að geyma myndir af ákærða og brotaþola í kynmökum, bréf sem lýst hafi brotaþola sem óheiðarlegum og óáreiðanlegum, auk tölvupósta og útskrifta af fésbókinni. Hún  hafi fengið sjokk við að sjá þessi gögn en hún hafi skoðað þau öll. Brotaþoli hafi orðið sár yfir því að hún skyldi hafa skoðað gögnin og liðið illa vegna þessa. Málið hafi haft áhrif á samband þeirra og hún farið að taka meira eftir því hve brotinn einstaklingur brotaþoli í rauninni var. Hann hafi meira rætt tilfinningar sínar og líðan eftir þetta. Þau hafi að lokum farið sitt í hvora áttina en í […] 2016 hafi þau slitið sambandinu. D hafi verið farin að fá hótanir frá ákærða og heyrt slúður um sig utan úr bæ. Hafi ákærði hótað því að segja frá hlutum. Hafi hann t.a.m. sent henni SMS þar sem hann hafi lýst því að hann væri í fangelsi […] með manni sem sakfelldur hefði verið fyrir […] gagnvart D og þeir væru að hlæja að þeim.  

C kvaðst hafa þekkt brotaþola frá fyrri tíma, en hann hafi einnig þekkt ákærða. C hafi á sínum tíma lánað brotaþola pening. Hafi ákærði á þeim tíma rætt um að brotaþoli skuldaði sér einnig peninga. Ákærði hafi einhverju síðar sent C myndband og því fylgt þau skilaboð að C mætti gera við það hvað sem hann vildi. C hafi skoðað myndbandið og séð ákærða og brotaþola í kynmökum. C kvaðst hafa sýnt E myndbandið en að öðru leyti ekkert gert meira með það. Hafi E brugðist mjög illa við. Kvaðst C hafa sýnt E myndskeiðið til að hefna sín á brotaþola vegna skuldarinnar. Brotaþoli hafi seinna haft samband og sagt að hann vildi gera upp skuldir sínar við C. Hafi það gengið eftir. Ákærði hafi hins vegar ekkert greitt af skuldum brotaþola við C. Ákærði hafi sett myndina á fésbókina. Hafi hann sagt að brotaþoli hafi stungið sig í bakið. Hafi ákærði ætlað að dreifa myndum af brotaþola ef hann greiddi ekki skuld sína til baka.

B kvaðst hafa þekkt brotaþola frá æsku. Ákærða hafi C síðar kynnst í gegnum brotaþola. Inn í hópinn hafi einnig komið […] ákærða og hafi þau öll verið mikið saman. B hafi vitað til þess að ákærði hafi boðið yngri drengjum kynlíf gegn greiðslu. Hann hafi m.a. farið þess á leit við B að hann myndi hafa kynmök við sig fyrir pening. B hafi ekki fallist á það. Einhverju síðar hafi ákærði sent B mynd á fésbókinni þar sem ákærði og brotaþoli voru í kynmökum. Brotaþoli hafi þá verið í sambandi með E og ákærði sagt að hann ætlaði að eyðileggja líf brotaþola og stúlkunnar eða samband þeirra. Hafi B brugðið við þessa sendingu og ekki vitað hvað hann ætti að gera. Þessi mynd sem ákærði hafi sent B hafi síðar farið í dreifingu en B hafi séð hana á netinu. Hann hafi ekki vitað hver hefði dreift myndinni, en mjög margir hefðu dreift henni áfram eftir að hún fór í loftið. Myndin hafi verið sett á netið í gegnum falskan notanda. Hann kvaðst viss um að ákærði hafi verið þessi falski notandi þar sem tilvísun í ákærða hafi komið fram á síðunni. B hafi ætlað að finna síðuna aftur síðar en þá hafi verið búið að blokka hana. Ákærði hafi ekki farið þess á leit við B að hann dreifði myndinni. Hann hafi beðið B um að dreifa henni ekki strax en að ákærði ætlaði að dreifa henni sjálfur. B kvað brotaþola aldrei hafa opnað sig um samband sitt og ákærða. Hann hafi skynjað að brotaþoli vildi ekki tala um það og að brotaþoli væri hræddur við ákærða.  

H kvað brotaþola hafa flutt inn til ákærða á meðan ákærði hafi búið á heimili […]. Hafi henni fundist samband ákærða og brotaþola vera eðlilegt og eins og um par væri að ræða. Þeir hafi deilt saman rúmi og virst vera hamingjusamt par. Þegar ákærði hafi farið í afplánun hafi brotaþoli búið áfram inni á heimilinu. Brotaþoli hafi verið í neyslu fíkniefna og átt það til að láta sig hverfa þegar svo hafi háttað til. Ekki hafi H orðið vör við neinar hótanir eða þvinganir af hálfu ákærða gagnvart brotaþola. 

I kvaðst um tíma hafa búið í sömu íbúð og ákærði og brotaþoli. Hafi þeir deilt rúmi og hún litið svo á að um ástarsamband væri að ræða þeirra á milli. Er ákærði hafi afplánað dóm í fangelsinu […] hafi hún ekið brotaþola [...]. Henni hafi fundist samband ákærða og brotaþola jákvætt. 

Fyrir dóminn kom fangavörður úr fangelsinu […]. Hann lýsti því að ákærði hafi verið í afplánun […]. Brotaþoli hafi komið og heimsótt ákærða í fangelsið. Fangavörðurinn hafi ekki orðið var við neins konar þvingun af hálfu ákærða gagnvart brotaþola.

Niðurstaða:  

Ákærða eru í máli þessu gefnar að sök hótanir, brot gegn blygðunarsemi, dreifing kláms og stórfelldar ærumeiðingar gagnvart brotaþola á árunum 2011 til 2014. Er brotum ákærða lýst í töluliðum 1 til 6. Ákærði neitar sök samkvæmt öllum liðum ákæru. Kveðst hann hafa kynnst brotaþola á árinu 2011 og þeir verið í ástarsambandi allt þar til brotaþoli hafi slitið sambandinu í febrúar 2014 er hann hafi verið í afplánun í fangelsinu […]. Ákærði hefur lýst sambandi sínu við brotaþola þannig að það hafi á köflum verið erfitt. Brotaþoli hafi að mestu búið heima hjá honum. Í upphafi sambands þeirra hafi þeir báðir notað fíkniefni. Ákærða hafi tekist að ná tökum á neyslunni og hætt henni. Brotaþoli hafi hins vegar ekki hætt í neyslu. Það hafi leitt til þess að oft hafi ákærði þurft að nota svokallaða öfuga sálfræði á brotaþola. Hann hafi þurft að vera ákveðinn og beita brotaþola mikilli ákveðni til að ná sambandi við hann, en brotaþoli hafi oft strokið að heiman. Beri samskipti á milli ákærða og brotaþola, sem fram komi í gögnum málsins og ákært er fyrir í málinu, þessa merki. Í engu tilviki hafi ákærði samt sem áður, í raun og veru, verið að hóta brotaþola illu. Einungis hafi vakað fyrir ákærða að fá brotaþola til að hafa samband og koma aftur heim.

Brotaþoli hefur lýst sambandi sínu og ákærða á þann hátt að til þess hafi verið stofnað með því að ákærði hafi greitt honum fyrir kynmök. Brotaþoli hafi verið kominn í skuld vegna fíkniefnakaupa og leitað til ákærða með að greiða fyrir sig skuldina gegn því að brotaþoli hefði við hann kynmök. Brotaþoli hafi staðið við sinn hlut en ákærði ekki. Þar sem ákærði hafi ekki greitt skuldina fyrir hann hafi hann neyðst til að vera áfram með honum og stunda með honum kynmök. Síðan hafi ákærði tekið kynmök þeirra upp á myndband án þess að brotaþoli hafi vitað um og hótað honum því að dreifa efninu ef hann héldi ekki áfram að hitta sig. Þannig hafi brotaþoli verið fastur í aðstæðum og ekki losnað frá ákærða. Hafi ákærði haldið honum í þessum aðstæðum allt þar til brotaþoli hafi ákveðið að ljúka sambandinu í febrúar 2014. Brotaþoli hafi þá verið búinn að taka á sínum málum og í gegnum AA samtökin fundið styrk til þess, en þar hafi hann áttað sig á því að fleiri en hann væru í svipuðum vandræðum, að hafa fengið greitt fyrir kynmök en sitja síðan fastir í aðstæðunum. 

Fyrir dóminn komu nokkur vitni. Þeirra á meðal voru fyrrum kærustur brotaþola. Lýstu þær því báðar hvernig brotaþoli hafi haldið sambandi sínu við ákærða  leyndu fyrir þeim. Hafi það ekki verið fyrr en ákærði eða vinir ákærða hafi sýnt þeim myndir af brotaþola og ákærða í kynmökum að þær áttuðu sig á sambandi ákærða og brotaþola. Lýstu þær því báðar að brotaþoli hafi átt mjög erfitt í sambandi sínu við ákærða, en ákærði hafi virst hafa tök á honum. Fyrir dóminn komu einnig B og C. Báru þeir báðir að ákærði hefði sent þeim myndir af ákærða og brotaþola í kynmökum. Bar C jafnframt að ákærði hefði sagt við sig að gera það sem hann vildi við myndina. Kvaðst C hafa sýnt þáverandi kærustu brotaþola myndina í þeim tilgangi að hefna sín á brotaþola, en brotaþoli hafi ekki verið búinn að gera upp við sig skuld sína við hann. B og C lýstu því báðir að þessar myndir hafi komist í umferð á netinu, án þess að þeir hafi dreift þeim. Báru þeir báðir að ákærði hefði dreift myndunum.

 

1.tl. ákæru

Í 1. tl. ákæru er ákærða gefið að sök að hafa tekið upp myndband af ákærða og brotaþola í kynmökum, án vitundar brotaþola, og að hafa greint brotaþola frá myndbandinu í skilaboðum á fésbókinni 1. maí 2012. Ákærði kveður brotaþola hafa vitað af upptökunni og lagt hana til.

Ákærði sendi brotaþola skilaboð á fésbókinni í maí 2012, en skilaboð þessi koma meðal annars fram í 1. til 7. kafla 2. tl. ákæru, sem rakið verður síðar. Í skilaboðum 1. maí 2012 rekur ákærði að hann sé búinn að vera með myndavélar og að hann eigi þetta efni allt. Hafi hann geymt efnið ef hann þyrfti að nýta það einhvern tímann. Viti brotaþoli vel hvaðan efnið sé. Brotaþoli svarar ákærða næsta dag og segir meðal annars að það hafi verið ,,sjúkt“ af ákærða að taka kynmökin upp. Brotþoli kom fyrir dóminn og lýsti því að hann hafi ekki vitað af því að ákærði hafi tekið kynmökin upp. Var brotaþoli trúverðugur í frásögn sinni fyrir dóminum. Staðhæfing ákærða um að brotaþoli hafi vitað af upptökunni er ekki í samræmi við það sem ákærði ritar á fésbókarsíðu brotaþola og lýst var hér að framan. Fyrir dómi vísaði ákærði jafnframt til þess að af myndskeiðinu mætti sjá að brotaþoli horfi í myndavélina. Það er hins vegar ekki rétt. Með hliðsjón af þessu er ákærði ótrúverðugur um að brotaþoli hafi vitað af upptökunni. Verður í niðurstöðu lagt til grundvallar að ákærði hafi tekið myndbandið upp án vitundar brotaþola. Með þessari háttsemi sinni braut ákærði gegn blygðunarsemi brotaþola. Verður ákærði sakfelldur samkvæmt þessum lið ákæru og er háttsemin í þessum lið rétt heimfærð til refsiákvæða.

1 til 7 liður 2. tl. ákæru

Ákærða eru í þessum 7 liðum 2. tl. ákæru gefnar að sök hótanir og brot gegn blygðunarsemi brotaþola með því að hafa dagana 1. til 12. maí 2012 skrifað brotaþola skilaboð og sent honum mynd af ákærða og brotaþola nöktum stunda kynmök. Ákærði neitar sök. Af svari hans fyrir dóminum verður ráðið að hann viðurkenni að hafa skrifað þessi skilaboð. Hann kveðst ekki hafa verið að hóta brotaþola eða brjóta gegn blygðunarsemi hans. Fyrir ákærða hafi vakað að fá brotaþola, sem hafi verið í stroki að heiman, til að hafa samband við sig.

Brotaþoli kom fyrir dóminn og lýsti því hvernig hann hafi upplifað skrif ákærða sem hótanir, auk þess sem skilaboðin og myndin af ákærða og brotaþola í kynmökum hafi sært blygðunarsemi hans. Var brotaþoli trúverðugur í frásögn fyrir dóminum. Í skilaboðunum öllum hótar ákærði því að setja myndina á netið. Í einum skilaboðunum lýsir hann því að hann hafi sett myndina á vegg brotaþola í nokkrar sekúndur. Samrýmist það framburðum vitna í málinu sem lýstu því að mynd af ákærða og brotaþola stunda kynmök hafi farið á örskotsstundu um allt netið. Hafi fjöldi manns séð myndina, þ.á m. vitnin. Fyrir dóminum kvaðst ákærði ekki viss hvort hann hafi sett myndina í raun og veru á netið í nokkrar sekúndur.

Þegar skilaboðin samkvæmt liðum 1 til 7 eru virt og hliðsjón höfð af framburðum vitna sem segjast hafa séð þessa mynd á internetinu er sannað að ákærði hafi með skilaboðunum hótað brotaþola og brotið gegn blygðunarsemi hans. Verður ákærði því sakfelldur samkvæmt öllum liðum 2. tl. ákæru og er háttsemin hans rétt heimfærð til refsiákvæða hvað þetta varðar í ákæru.

1 og 2 liður 3. tl. ákæru

Ákærða eru í þessum tveimur liðum ákæru gefnar að sök hótanir gagnvart brotaþola. Ákærði hefur lýst því að ákærði og brotaþoli hafi ritað undir samninga vegna skuldar brotaþola við ákærða. Hafi samningarnir, sem ákærði vilji kalla sáttmála, kveðið á um endurgreiðslur. Brotaþoli lýsti því hvernig ákærði hafi útbúið þessa samninga til að knýja á um að brotaþoli héldi sambandi sínu við ákærða. Ummæli þau sem fram koma í 1. og 2. lið 3. tl. ákæru eru hótanir gagnvart brotaþola. Lýsti brotþoli því fyrir dóminum að hann hafi upplifað þessi skilaboð sem hótanir, en ákærði hafi sent menn á eftir sér til að tryggja að hann stæði við samninga. Með hliðsjón af þessu verður ákærði sakfelldur fyrir hótanir samkvæmt þessum liðum ákæru og er háttsemi hans rétt heimfærð til refsiákvæða í ákæru.

4. tl.

Ákærða er í þessum tölulið gefið að sök brot gegn blygðunarsemi brotaþola og dreifingu kláms með því að hafa sent B og C myndasyrpu af ákærða og brotaþola nöktum að stunda kynmök. Ákærði hefur viðurkennt að hafa sent B umræddar myndir. Hann synjar hins vegar fyrir að hafa sent C þessar myndir. B kom fyrir dóminn og staðfesti að ákærði hafi sent sér myndirnar. Það sama gerði C. Kvaðst C jafnframt hafa sýnt E þessar myndir til að hefna sín á brotaþola, svo sem fyrr var rakið. Fyrir dóminum staðfesti E að hafa séð mynd af ákærða og brotaþola í kynmökum. Með þessu er sannað að ákærði hafi bæði sent B og C myndina.

Mynd sú sem ákærði sendi B og C er klám í skilningi 2. mgr. 2010. gr. laga nr. 19/1940. Með því að senda B og C þessa mynd dreifði ákærði klámi, auk þess að brjóta gegn blygðunarsemi brotaþola. Verður ákærði sakfelldur samkvæmt þessum tölulið ákæru og er háttsemin þar rétt heimfærð til refsiákvæða.

5.tl. ákæru

Í 5. tl. ákæru er ákærða gefið að sök brot gegn blygðunarsemi brotaþola með því að hafa sent þáverandi unnustu brotaþola, D, minnislykil með sjö myndum af brotaþola nöktum stunda kynmök með ákærða, þrjár útprentaðar myndir af því sama, óundirritað bréf þar sem ákærði meðal annars lýsti brotaþola sem óheiðarlegum og óáreiðanlegum, vísaði í myndirnar og kynlífsmyndband af ákærða og brotaþola, staðhæfði að hafa stundað kynlíf með brotaþola á sama tíma og brotaþoli var í sambandi með D og að hafa ýjað að því að brotaþoli væri með kynsjúkdóm. Að auki sendi ákærði með sendingunni sjö útprentaða flugmiða, ljósrit af sex handrituðum og ódagsettum einkabréfum brotaþola til ákærða og útprentanir af fimmtán einkatölvupóstum brotaþola til ákærða.

Ákærði hefur viðurkennt að hafa sent D umrædda póstsendingu. Kveðst hann hafa viljað vara D við brotaþola og hvaða mann hann hefði að geyma. Brotaþoli og D komu bæði fyrir dóminn. Lýsti D því að hún hefði opnað umrætt bréf að brotaþola fjarstöddum. Hafi hún séð allt í bréfinu, þ. á m. minnislykilinn með myndum af ákærða og brotaþola, útprentuðu myndirnar og annað í bréfinu. Hafi henni brugðið mikið, en hún hafi á þeim tíma ekki vitað af því að samband ákærða og brotaþola hefði verið þetta náið. Brotaþoli lýsti því fyrir dóminum að mjög hafi tekið á hann er D hafi opnað og lesið efni umræddrar póstsendingar. Hafi honum fundist hann niðurlægður og þetta sært blygðunarsemi hans.

Með hliðsjón af trúverðugum framburði brotaþola, sem stoð fær í vitnisburði þáverandi kærustu hans, er sannað að ákærði hafi sært blygðunarsemi brotaþola með póstsendingu skv. 5. tl. ákæru. Verður ákærði sakfelldur samkvæmt ákæru og er háttsemi hans rétt heimfærð til refsiákvæða í ákærunni.

6.tl. ákæru

Ákærða eru í þessum lið gefnar að sök stórfelldar ærumeiðingar gegn brotaþola, sem á tímabili var maki ákærða og síðar fyrrum maki, með þeirri háttsemi sem lýst er í 1.-5. tl. ákæru. Hafi hann ítrekað móðgað og smánað brotaþola. Ákærði neitar sök samkvæmt þessum lið ákæru. Ákærði móðgaði og smánaði brotaþola með þeim hótunum, dreifingu kláms er sýndi brotaþola og þeim blygðunarsemisbrotum gagnvart brotaþola er hann hefur hér að framan verið sakfelldur fyrir. Verður ákærði sakfelldur samkvæmt þessum tölulið ákæru fyrir stórfelldar ærumeiðingar og er háttsemi hans þar rétt heimfærð til refsiákvæða.

Ákærði er fæddur í […]. Hann á að baki sakaferil, sem nær allt aftur til ársins 1995. Hér er þess einungis getið að ákærði var dæmdur í sekt í héraðsdómi […] 2009 fyrir brot gegn 209. gr. og 3. mgr. 210. gr. laga nr. 19/1940 og barnaverndarlögum. Þá var hann […] 2013 dæmdur í 18 mánaða fangelsi fyrir rán og brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni. Loks var ákærði […] 2014 dæmdur í 18 mánaða fangelsi fyrir brot gegn 3. mgr. 202. gr. laga nr. 19/1940 og áfengislögum. Ákærða var 11. júní 2015 veitt reynslulausn í 2 ár á eftirstöðvum refsingar, 390 dögum. Í 5. mgr. 80. gr. laga nr. 15/2016 um fullnustu refsidóma er nú kveðið á um að unnt sé, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, að veita fanga reynslulausn á eftirstöðvum refsingar þó svo hann eigi mál til meðferðar hjá lögreglu, ákæruvaldi eða dómstólum. Er um breytingu að ræða frá fyrra horfi er föngum var ekki veitt reynslulausn væru mál á hendur þeim til meðferðar hjá lögreglu, ákæruvaldi eða dómstólum. Af því leiddi að ekki var vandkvæðum bundið að kveða á um afplánun eftirstöðva refsinga með sama hætti og um skilorðsrof væri að ræða. Í þessu máli háttar svo til að ákærða var veitt reynslulausn á árinu 2015, þó svo mál brotaþola hafi þá verið til meðferðar hjá lögreglu, en kæra var lögð fram á árinu 2014. Er því ekki um eiginlegt rof á reynslulausn að ræða þegar ákærði er í þessu máli sakfelldur fyrir kynferðisbrot, hótanir og stórfelldar ærumeiðingar gagnvart brotaþola. Á hinn bóginn er til þess að líta að rökleysa felst í því að ákærði sé áfram á reynslulausn samhliða því að honum verður dæmd fangelsisrefsing í máli þessu. Er því óhjákvæmilegt annað en að taka reynslulausnina upp og dæma hana með í máli þessu. Eftirstöðvar refsingar í málinu nema 13 mánuðum.

Brot ákærða nú eru hegningarauki við tvo síðastgreindu dómana hér að framan og verður refsing ákveðin með hliðsjón af 78. gr., sbr. 77. gr., laga nr. 19/1940. Brot ákærða í máli þessu eru alvarleg. Hótaði hann brotaþola því að dreifa myndefni er sýndi hann og ákærða nakta í kynmökum, en myndefnið hafði ákærði tekið upp án vitundar brotaþola. Þá sendi hann þetta myndefni á nafngreinda einstaklinga og komust þessar myndir í dreifingu á internetinu í framhaldi. Eykur það mjög á alvarleika verknaðarins að efni sem komist hefur í dreifingu á netinu getur farið mjög víða og er engin leið að vita hvar það er niðurkomið eða hverjir hafa séð það. Það gat ákærða ekki dulist. Ákærði braut gegn blygðunarsemi brotaþola með því að dreifa og hóta að dreifa þessu efni, sem og öðru er vörðuðu persónuleg málefni brotaþola og hann hafði treyst ákærða fyrir. Þá er til þess að líta að töluverður aðstöðumunur var á ákærða og brotaþola. Á ákærði sér engar málsbætur. Með hliðsjón af þessu, sbr. og 1., 6. og 7. tl. 1. mgr. 70. gr. laga nr. 19/1940, er refsing ákærða ákveðin fangelsi í 2 ár.   

Brotaþoli krefst miskabóta úr hendi ákærða að fjárhæð 2.000.000 króna, auk vaxta. Þó svo ekki liggi fyrir sérfræðileg gögn um líðan brotaþola er unnt að slá því föstu að það framferði ákærða að taka upp kynmök ákærða og brotaþola, án vitundar brotaþola, og að dreifa því, hefur valdið brotaþola miklum miska, svo sem hann heldur fram. Svo sem áður var rakið verður böndum ekki komið á slíkt efni eftir að það hefur einu sinni farið í umferð. Var því lýst hér fyrir dóminum að fjöldi manns hefði séð myndefnið. Með hliðsjón af þessu, sbr. 26. gr. laga nr. 50/1993, verður miskabótakrafa brotaþola tekin til greina að fullu, ásamt vöxtum sem í dómsorði greinir.

Ákærði greiði sakarkostnað, málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns og þóknun réttargæslumanns brotaþola, sem nánar greinir í dómsorði. Við ákvörðun málsvarnarlauna og þóknunar hefur verið tekið tillit til virðisaukaskatts.

Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Margrét Unnur Rögnvaldsdóttir saksóknari.

Símon Sigvaldason héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

D ó m s o r ð :

Ákærði, X, sæti fangelsi í 2 ár.

Ákærði greiði A 2.000.000 króna með vöxtum, samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá 1. júní 2012 til 7. janúar 2017 en með dráttarvöxtum, skv. 1. mgr. 6. gr. sömu laga, frá þeim degi til greiðsludags.

Ákærði greiði 2.847.071 krónur í sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Unnsteins Arnar Elvarssonar héraðsdómslögmanns, 1.088.565 krónur og þóknun réttargæslumanns brotaþola, Sonju H. Berndsen héraðsdómslögmanns, 1.455.140 krónur.