Mál nr. 374/2018

Selló ehf. (Ingvar Þóroddsson lögmaður)
gegn
Landsbankanum hf. ()
Lykilorð
 • Kærumál.
 • Nauðungarsala.
 • Frávísunarúrskurður felldur úr gildi.
Útdráttur

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem máli S var vísað frá dómi þar eð ekki yrði glögglega ráðið af tilkynningu S til héraðsdóms, þar sem krafist var ógildingar á nauðungarsölu, á hvaða málsástæðum og lagarökum S byggði kröfuna. Í úrskurði Landsréttar kom fram að sú skylda hefði hvílt á héraðsdómara að leiðbeina fyrirsvarsmanni S, sem ekki er lögfræðingur að mennt, um formhlið málsins. Þar sem það hafi ekki verið gert var hinn kærði úrskurður felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til frekari meðferðar.

Úrskurður Landsréttar

Landsréttardómararnir Ingveldur Einarsdóttir, Jón Finnbjörnsson og Vilhjálmur H. Vilhjálmsson kveða upp úrskurð í máli þessu.

Málsmeðferð og dómkröfur aðila

 1. Sóknaraðili skaut málinu til Landsréttar með kæru 16. apríl 2018, en kærumálsgögn bárust réttinum 26. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 3. apríl 2018 í málinu nr. Z-1/2018 þar sem vísað var frá dómi „kröfum sóknaraðila, Lárusar Hinrikssonar“. Kæruheimild er í 1. mgr. 85. gr., sbr. 1. mgr. 79. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu.
 2. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar.

  Málsatvik
 3. Mál þetta á rætur að rekja til nauðungarsölu sem fram fór 6. febrúar 2018 á fasteign sóknaraðila að Munkaþverárstræti 1, Akureyri. Hæstbjóðandi var Landsbankinn hf. Í endurriti úr gerðabók sýslumanns sama dag kom fram að boðinu yrði tekið ef greiðsla bærist eigi síðar en 20. febrúar sama ár. Með bréfi 14. febrúar 2018 til héraðsdóms krafðist sóknaraðili, Selló ehf., þess að fyrrgreint uppboð yrði fellt úr gildi.
 4. Með hinum kærða úrskurði 3. apríl 2018 var kröfum ,,sóknaraðila, Lárusar Hinrikssonar“, vísað frá dómi en málið hafði þá verið tekið fyrir að sóknaraðila fjarstöddum með heimild í 1. mgr. 82. gr. laga nr. 90/1991. Rökstuðningur héraðsdóms fyrir frávísun krafna sóknaraðila var á því byggður að af lestri kröfubréfs hans yrði ekki ráðið á hvaða málsástæðum og lagarökum hann reisti kröfu sína um ógildingu umræddrar nauðungarsölu. Væri krafa sóknaraðila svo vanreifuð að hún færi í bága við 3. tölulið 1. mgr. 81. gr. laga nr. 90/1991 ,,um skýran og glöggan málatilbúnað“ og uppfyllti beiðni sóknaraðila því ekki þau skilyrði sem mælt væri fyrir um í 1. mgr. 82. gr. laganna. Bæri samkvæmt því að vísa málinu sjálfkrafa frá héraðsdómi. 

  Niðurstaða
 5. Fallist er á með héraðsdómi að í kröfu sóknaraðila til dómsins hafi samhengi þeirra málsástæðna er hann tefldi fram til stuðnings kröfu sinni verið svo óljóst og málatilbúnaður svo óglöggur að héraðsdómara hafi verið óhægt um vik að leggja dóm á málið. Á hinn bóginn verður að horfa til þess að fyrirsvarsmaður sóknaraðila í héraði er ekki lögfræðingur að mennt. Hvíldi því sú skylda á héraðsdómara að leiðbeina honum um formhlið málsins, samkvæmt 4. mgr. 101. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 4. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1991. Þar sem það var ekki gert voru að svo komnu máli ekki efni til að vísa málinu frá af þessum sökum. Samkvæmt framangreindu verður hinn kærði úrskurður felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til frekari meðferðar.
 6. Það athugist að í úrskurðarorði var kröfum sóknaraðila, sem nefndur var Lárus Hinriksson, vísað frá dómi. Um augljósa nafnskekkju er að ræða, sem héraðsdómara hefði verið heimilt að leiðrétta, samkvæmt 3. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 4. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1991.

Úrskurðarorð:

Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til löglegrar meðferðar.


Úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra þriðjudaginn 3. apríl 2018

Mál þetta barst dómnum 15. febrúar sl.  Sóknaraðili er Selló ehf., kt. […], Gránufélagsgötu 10, Akureyri. Sóknaraðili kveður Landsbankann hf. vera varnaraðila málsins, en ljóst má vera af gögnum málsins að varnaraðilar þess eru fleiri samkvæmt 3. mgr. 82. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu.

Sóknaraðili kveðst vísa um heimild til að hafa kröfu sína uppi til XIII kafla laga nr. 90/1991.

Af gögnum málsins má ráða að fasteignin að Munkaþverárstræti 1, fastanúmer 214-9289, var seld nauðungarsölu, sem lauk þann 6. febrúar 2018. Hæstbjóðandi var Landsbankinn hf. og samþykkisfrestur var til 20. febrúar 2018. Var fyrirliggjandi beiðni því borin undir dóminn eftir að umræddri nauðungarsölu lauk. Af því má þegar vera ljóst að krafa sóknaraðila verður ekki að réttu byggð á XIII kafla laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu en ætti með réttu að byggjast á XIV kafla sömu laga.

Í 81. gr. laga nr. 90/1991 er kveðið á um það hvernig mál um gildi nauðungarsölu, sem þegar hefur farið fram, verður með réttu borið undir dómstóla. Skal í beiðni m.a. koma fram á hverjum málsástæðum og lagarökum kröfur eru reistar.

Af lestri kröfubréfs sóknaraðila verður ekki glögglega ráðið á hvaða málsástæðum og lagarökum hann reisir kröfu sína um ógildingu umræddrar nauðungarsölu. Ægir þar saman fullyrðingum um að tiltekin framaganga Landsbankans hf. við nauðungarsöluna feli í sér brot á reglum samningalaga, verið sé að krefja um greiðslu ólöglegs gengisláns sem sé annaðhvort glatað eða uppgreitt að greiðslukrafa sé fyrnd og að ekki hafi verið staðið rétt að birtingu greiðsluáskorunar. Enginn þessara fullyrðinga er hins vegar studd lýsingu atvika sem tengd verða þeim lagaákvæðum sem vísað er til þannig að hönd verði fest á. Er því útilokað á grundvelli málatilbúnaðar sóknaraðila að átta sig á því á hvaða forsendum hann í raun reisir kröfur sínar. Er krafa hans því vanreifuð með þeim hætti að hún uppfyllir ekki þann lágmarks áskilnað sem felst í 3. tölulið 1. mgr. 81. gr. laga nr. 90/1991 um skýran og glöggan málatilbúnað og er málið því ódómtækt í þeim búningi sem sóknaraðili hefur búið því.

Uppfyllir beiðnin því ekki skilyrði sem mælt er fyrir um í 1. mgr. 82. gr. laga nr. 90/1991 og ber því, þegar af þeirri ástæðu að vísa málinu sjálfkrafa frá héraðsdómi.           

Halldór Björnsson héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.

 Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Vísað er frá dómi kröfum sóknaraðila, Lárusar Hinrikssonar, í máli þessu.