Mál nr. 356/2018

Gunnar Árnason (sjálfur)
gegn
BL ehf. (Einar Þór Sverrisson lögmaður)
Lykilorð
  • Kærumál.
  • Málskostnaðartrygging.
  • Frávísun frá Landsrétti.
Útdráttur

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem fallist var á kröfu B ehf. um að G yrði gert að setja tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar í máli aðila. Bú G var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði héraðsdóms 14. mars 2018. Þann úrskurð kærði G til Landsréttar en því máli var vísað frá þar sem kæruheimild skorti. Með málsókn sinni gegn B ehf. leitaðist G við að fá viðurkennda tilvist tiltekinna fjárhagslegra réttinda sem tilheyra myndu þrotabúi hans samkvæmt 72. gr., sbr. 74. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Þar sem ekki lá fyrir að G héldi uppi þeim hagsmunum gegn B ehf. á grundvelli 130. gr. laga nr. 21/1991 til hagsbóta fyrir þrotabúið eða að þrotabúið hefði framselt G hina ætluðu kröfu á hendur B ehf., var óhjákvæmilegt að vísa málinu frá Landsrétti.

Úrskurður Landsréttar

Landsréttardómararnir Kristbjörg Stephensen, Oddný Mjöll Arnardóttir og Sigurður Tómas Magnússon kveða upp úrskurð í máli þessu.

Málsmeðferð og dómkröfur aðila

  1. Sóknaraðili skaut málinu til Landsréttar með kæru 11. apríl 2018, sem barst héraðsdómi þann dag en kærumálsgögn bárust Landsrétti 25. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 28. mars 2018 í málinu nr. E-[…]/2018, þar sem fallist var á kröfu varnaraðila um að sóknaraðila yrði gert að setja tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar í máli sóknaraðila á hendur varnaraðila. Kæruheimild er í o- lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
  2. Sóknaraðili krefst þess aðallega að hinum kærða úrskurði verði hrundið og hann felldur úr gildi en til vara að fjárhæð málskostnaðartryggingar verði lækkuð verulega og að honum verði ekki gert að greiða málskostnað. Að því frágengnu krefst hann þess að honum verði ekki gert að greiða málskostnað en að því frágengnu að fjárhæðir málskostnaðartryggingar og málskostnaðar verði lækkaðar verulega. Þá krefst hann málskostnaðar úr hendi varnaraðila vegna meðferðar málsins í héraði og kærumálskostnaðar.    
  3. Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

    Niðurstaða
  4. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness 14. mars 2018 var bú sóknaraðila tekið til gjaldþrotaskipta. Sóknaraðili kærði úrskurðinn til Landsréttar en þar sem kæruheimild skorti var málinu vísað frá Landsrétti með úrskurði 7. maí 2018 í máli nr. 319/2018. Úrskurður héraðsdóms um að bú sóknaraðila skuli tekið til gjaldþrotaskipta er því endanlegur ef ekki kemur til endurupptöku málsins á grundvelli 1. mgr. 137. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Með málsókn sinni leitast sóknaraðili við að fá viðurkennda tilvist tiltekinna fjárhagslegra réttinda, sem tilheyra myndu þrotabúi sóknaraðila samkvæmt 72. gr., sbr. 74. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Ekki liggur fyrir að  sóknaraðili haldi uppi framangreindum hagsmunum gegn varnaraðila á grundvelli 130. gr. laga nr. 21/1991 til hagsbóta fyrir þrotabúið eða að þrotabú sóknaraðila hafi framselt til sóknaraðila hina ætluðu kröfu á hendur varnaraðila. Er óhjákvæmilegt í ljósi þeirrar óvissu, sem ríkir um heimild sóknaraðila til að halda uppi framangreindri kröfu á hendur varnaraðila, að vísa máli þessu frá Landsrétti.
  5. Rétt þykir að kærumálskostnaður falli niður.

Úrskurðarorð:

Máli þessu er vísað frá Landsrétti.

Kærumálskostnaður fellur niður.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur miðvikudaginn 28. mars 2018 

Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 21. mars 2018, er höfðað af Gunnari Árnasyni, Brekkugötu 14, Hafnarfirði, á hendur BL ehf., Sævarhöfða 2, Reykjavík.

Við þingfestingu málsins 6. mars sl. krafðist sóknaraðili málskostnaðartryggingar úr hendi stefnanda með vísan til b-liðar 1. mgr. 133. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Varnaraðili mótmælir kröfunni.

Munnlegur málflutningur um kröfu sóknaraðila fór fram 21. mars sl.

I.

Varnaraðili höfðaði mál þetta gegn sóknaraðila með stefnu birtri 27. febrúar sl. Krefst hann þess að viðurkennd verði með dómi bótaskylda sóknaraðila vegna tjóns sem hann telur sóknaraðila hafi valdið á vél bifreiðarinnar […], af gerðinni […], þegar bifreiðin var í viðgerð hjá sóknaraðila. Til grundvallar kröfu sinni hefur varnaraðili lagt fram matsgerð dómkvadds matsmanns sem aflað var í sérstöku matsmáli nr. […]/2016. Í niðurstöðum matsmannsins kemur m.a. fram að kostnaður vegna viðgerða á vélinni geti verið á bilinu 1,5–3,5 milljónir króna og ástæður þess að olíudæla bifreiðarinnar hafi brotnað megi rekja til þess að ekki hafi verið skipt um olíudælu um leið og tímareim var endurnýjuð. 

Í málinu liggur fyrir yfirlit úr svonefndri vanskilaskrá Creditinfo, frá 6. mars 2018. Samkvæmt yfirlitinu var gert árangurslaust fjárnám hjá varnaraðila 3. mars 2017, en einnig voru gerð árangurslaus fjárnám hjá honum 11. janúar 2017, 5. desember 2016 og 13. apríl 2016, auk fleiri fjárnáma sem ná allt aftur til 6. mars 2014. Einnig koma fram í vanskilaskránni upplýsingar um greiðsluáskorun á hendur varnaraðila 14. mars 2017 og um greiðslusamkomulag í vanskilum, dags. 3. febrúar 2017, auk eldri skráninga. 

Við munnlegan flutning málsins lagði sóknaraðili fram endurrit úr þingbók Héraðsdóms Reykjaness frá 8. mars sl. í máli nr. […]/2017, Landsbankinn hf. gegn varnaraðila. Samkvæmt endurritinu er gert ráð fyrir að aðalmeðferð í málinu fari fram 23. mars 2018. Þá gerir varnaraðili grein fyrir því í stefnu málsins að Landsbankinn hf. hafi krafist þess að bú hans verði tekið til gjaldþrotaskipta vegna meintrar fjárkröfu bankans á hendur honum.  

II.

Sóknaraðili telur að fyrirliggjandi gögn og upplýsingar leiði verulegar líkur að því að varnaraðili sé ófær um greiðslu málskostnaðar sem á hann kynni að verða lagður í málinu og að skilyrði b-liðar 1. mgr. 133. gr. sé því fullnægt. Árangurslaust fjárnám hafi síðast verði gert hjá varnaraðila 3. mars 2017, en samtals hafi verið gerð níu árangurslaus fjárnám hjá varnaraðila á sl. fjórum árum. Þá hafi Landsbankinn hf. krafist þess að bú sóknaraðila verði tekið til gjaldþrotaskipta.

Sóknaraðili telur að dómur Landsréttar 9. mars 2018, í málinu nr. 209/2018, […] gegn […] og […], hafi ekki fordæmisgildi í máli þessu. Til stuðnings kröfu sinni vísar sóknaraðili m.a til dóma Hæstaréttar Íslands í málunum nr. 661/2017, 114/2017, 730/2015 og 724/2015. Sóknaraðili tekur einnig fram að Landsbankinn hf. hafi leyst umrædda bifreið til sín, en sóknaraðili hafi haldsrétt í henni, sbr. dóm Hæstaréttar Íslands 24. ágúst 2016 í máli nr. 454/2016, Landsbankinn hf. gegn Gunnari Árnasyni, þar sem fallist var á kröfu Landsbankans hf. um að bifreiðin […] yrði tekin úr vörslum varnaraðila og fengin Landsbankanum hf. með beinni aðfarargerð. Samkvæmt dóminum sé bifreiðin skráð á nafn Landsbankans hf., en varnaraðili skráður umráðamaður hennar.

Við munnlegan flutning málsins krafðist varnaraðili þess að kröfu sóknaraðila yrði hafnað með vísan til áðurgreinds dóms Landsréttar. Þá vísar hann til niðurstöðu matsgerðar í matsmáli nr. […]/2016 sem styrki málstað hans gagnvart sóknaraðila. Þá hafi hann reynt að ná sáttum við sóknaraðila á grundvelli matsgerðarinnar en án árangurs og því hafi verið nauðsynlegt fyrir hann að höfða mál þetta. Málssókn hans sé því ekki tilefnislaus. Hann telur ennfremur að fyrirliggjandi gögn veiti ekki vísbendingu um að hann sé ófær um greiðslu málskostnaðar.

III.

Í þessum þætti málsins er til úrlausnar krafa sóknaraðila um að varnaraðila verði gert að leggja fram málskostnaðartryggingu í máli því sem hér er til meðferðar. 

Samkvæmt gögnum málsins gerði sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu árangurslaust fjárnám hjá varnaraðila síðast 6. mars 2017 og 11. janúar 2017, en áður hafði sýslumaður gert nokkur árangurslaus fjárnám hjá varnaraðila á árinu 2016. Þá hefur verið krafist gjaldþrotaskipta á búi sóknaraðila og er sú krafa til meðferðar í Héraðsdómi Reykjaness.  

Sóknaraðili reisir kröfu sína um að varnaraðila verði gert að setja tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar á því að leiða megi að því líkur að varnaraðili sé ófær um greiðslu málskostnaðar. Vísar sóknaraðili til b-liðar 1. mgr. 133. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Á sóknaraðila hvílir sönnunarbyrði fyrir því að skilyrði ákvæðisins, að leiddar séu líkur að því að varnaraðili sé ófær um að greiða málskostnað sem á hann kann að falla, sé fullnægt. Telur sóknaraðili að fyrrgreindar upplýsingar veiti nægjanlegar líkur fyrir ógjaldfærni varnaraðila.                     

Samkvæmt dómafordæmum Hæstaréttar Íslands hefur verið talið að það sé fullnægjandi vísbending um að stefnandi sé ekki fær um greiðslu málskostnaðar ef gert hefur verið árangurslaust fjárnám hjá honum eða bú hans verið tekið til gjaldþrotaskipta, sbr. dóma Hæstaréttar Íslands 21. nóvember 2017 í máli nr. 661/2017, 30. nóvember 2017 í máli nr. 114/2017 og 16. nóvember 2015 í máli nr. 730/2015.

Samkvæmt b-lið 1. mgr. 133. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála getur stefndi krafist þess við þingfestingu máls að stefnandi setji tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar ef leiða má líkur að því að stefnandi sé ófær um greiðslu málskostnaðar. Megintilgangur lagaákvæðisins er að tryggja greiðslu á málskostnaði þeim til handa sem þarf að taka til varna gegn málssókn og verða fyrir útgjöldum af vörnum sínum, þótt fyrirfram sé sýnt að sá sem málið sækir geti ekki greitt málskostnað sem á hann yrði felldur, sbr. fyrrgreindan dóm Hæstaréttar í máli nr. 730/2015.

Séu skilyrði b-liðar 1. mgr. 133. gr. laga nr. 91/1991 fyrir hendi ákveður dómari samkvæmt 2. mgr. greinarinnar hvort varnaraðila verði gert að setja málskostnaðartryggingu, hver fjárhæð hennar skuli vera, í hvaða formi það skuli gert og innan hvaða frests, sbr. dóm Hæstaréttar 2. júní 2015 í máli nr. 340/2015.

Þó ekki verði fullyrt með vissu hvort málssókn varnaraðila sé tilefnislaus eða tilgangslítil, sbr. athugasemdir um b-lið 133. gr. laga nr. 91/1991 sem fylgdu frumvarpi að lögunum, verður að líta til þess að varnaraðili hefur um árabil átt í alvarlegum greiðsluerfiðleikum. Hefur á síðustu árum nokkrum sinnum verið gert hjá honum árangurslaust fjárnám, auk þess sem krafa um gjaldþrotaskipti á búi hans er nú til meðferðar við Héraðsdóm Reykjaness, eins og áður segir. Gefur þetta nægjanlega vísbendingu um ógjaldfærni varnaraðila og þar með að hann sé ófær um að greiða þann málskostnað sem á hann kann að falla. Með vísan til framangreinds hefur sóknaraðili því leitt líkur að því að varnaraðili sé ófær um greiðslu málskostnaðar. Verður því fallist á kröfu sóknaraðila um að varnaraðila beri að setja tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar. Ekki verður fallist á það með varnaraðila að þessi niðurstaða fari í bága við rétt hans til réttlátrar málsmeðferðar fyrir dómstólum, sbr. 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar. Þá verður ekki fallist á það með varnaraðila að dómur Landsréttar í máli nr. 209/2018 eða fyrrgreindur dómur Hæstaréttar, 2. júní 2015, í máli nr. 340/2015, hafi sérstakt fordæmisgildi fyrir það mál sem hér er til úrlausnar. Í umræddum dómi Hæstaréttar var það rökstutt sérstaklega að kröfu um málskostnaðartryggingu væri hafnað í ljósi eðlis þeirrar kröfu sem um var deilt, en málið var höfðað til heimtu vangoldinna vinnulauna. Þá hafði sóknaraðila í því máli verið veitt gjafsókn vegna rekstrar málsins fyrir héraðsdómi. Þessi atvik eiga ekki við í þessu máli.

Við ákvörðun tryggingarfjárhæðar er litið til atvika málsins, eðlis þess og sýnilegs umfangs á þessu stigi. Um fjárhæð hennar, form og frest til að leggja hana fram fer eins og í úrskurðarorði segir.

Með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 verður varnaraðila gert að greiða sóknaraðila málskostnað í þessum þætti málsins sem þykir hæfilega ákveðinn 200.000 krónur.

Ragnheiður Snorradóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

ÚRSKURÐARORÐ:

Varnaraðili, Gunnar Árnason, skal innan þriggja vikna frá uppkvaðningu úrskurðar þessa setja málskostnaðartryggingu, að fjárhæð 1.000.000 króna, í formi peningagreiðslu eða bankaábyrgðar.

Varnaraðili greiði sóknaraðila 200.000 krónur í málskostnað.