Mál nr. 146/2018

Héraðssaksóknari (Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari)
gegn
X (Arnar Kormákur Friðriksson lögmaður)
Lykilorð
  • 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
  • Gæsluvarðhald
  • Kærumál
Útdráttur

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta áfram gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Úrskurður Landsréttar

Landsréttardómararnir Jóhannes Sigurðsson, Vilhjálmur H. Vilhjálmsson og Þorgeir Ingi Njálsson kveða upp úrskurð í máli þessu.

Varnaraðili skaut málinu til Landsréttar með kæru 29. janúar 2018, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 2. febrúar 2018. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 26. janúar 2018 í málinu nr. R-[…]/2018 þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 20. apríl 2018 klukkan 16. Kæruheimild er í l-lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur […] janúar 2018 var varnaraðili sakfelldur fyrir brot gegn 211. gr., sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og dæmdur til að sæta fangelsi í fimm ár og sex mánuði. Við uppkvaðningu dómsins lýsti varnaraðili því yfir að hann tæki sér lögboðinn frest til að taka afstöðu til áfrýjunar. Samkvæmt gögnum málsins hefur varnaraðili sætt gæsluvarðhaldi vegna málsins frá 7. október 2017 og frá 11. sama mánaðar á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008, síðast með úrskurði héraðsdóms 30. desember 2017 sem staðfestur var með úrskurði Landsréttar 4. janúar 2018 í málinu nr. 28/2018.

Samkvæmt síðari málslið 3. mgr. 97. gr. laga nr. 88/2008 getur dómari, eftir kröfu ákæranda, úrskurðað að gæsluvarðhald skuli haldast meðan á áfrýjunarfresti eftir 199. gr. laganna stendur, svo og meðan mál er til meðferðar fyrir æðri dómi uns endanlegur dómur er upp kveðinn. Er ekkert því til fyrirstöðu að ákærandi geti krafist þess í einu lagi að sakborningur verði úrskurðaður í gæsluvarðhald meðan á áfrýjunarfresti stendur og meðan mál hans er til meðferðar fyrir æðri dómi, komi til þess að héraðsdómi verði áfrýjað í tæka tíð, sbr. dóm Hæstaréttar frá 24. febrúar 2017 í málinu nr. 131/2017. 

Að framangreindu virtu er fallist á með héraðsdómi að skilyrði séu uppfyllt til að varnaraðili sæti áfram gæsluvarðhaldi svo sem krafist er og nánar greinir í úrskurðarorði.

Kærumálskostnaður verður ekki úrskurðaður, sbr. 3. mgr. 237. gr. laga nr. 88/2008.    

Úrskurðarorð:

Varnaraðili, X, sæti áfram gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 20. apríl 2018 klukkan 16.

 


Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur föstudaginn 26. janúar 2018

Héraðssaksóknari hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði X, kt. […], verði gert að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi á meðan áfrýjunarfresti stendur í máli hans og eftir atvikum meðan mál hans er til meðferðar fyrir dómstólum á áfrýjunarstigi, allt til föstudagsins 20. apríl 2018 kl. 16:00.

Í greinargerð sækjanda kemur fram að héraðssaksóknari hafi gefið þann 18. desember sl. út ákæru á hendur X þar sem honum hafi verið gefið er að sök að hafa, að kvöldi þriðjudagsins 3. október 2017, í félagi við þrjá aðra aðila, ruðst vopnaðir hnífum og macebrúsum inn á heimili við […] í Reykjavík þar sem ákærða sé m.a. gefið að sök að hafa stungið A, sem hafi verið gestkomandi í íbúðinni, í kviðinn með hníf með þeim afleiðingum að A hlaut stungusár neðan við nafla sem náði í gegnum kviðvegg og lífhimnu, í gegnum hengi smágirnis á tveimur stöðum og í gegnum hengi þverristils alveg við ristilinn eins og nánar er lýst í meðfylgjandi ákæru Héraðssaksóknara og rannsóknargögnum málsins. Var háttsemi X heimfærð undir 211. gr., sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Við upphaf aðalmeðferðar í málinu (S-[…]/2017) í Héraðsdómi Reykjavíkur þann 8. janúar síðastliðinn hafi X neitað sök samkvæmt ákæru en gengist við því að hafa stungið brotaþola umrætt sinn. Framhald aðalmeðferðar fór síðan fram 11. janúar sl. og var málið tekið til dóms að henni lokinni og sakfellingardómur kveðinn upp nú í dag.

Ákærði hafi upphaflega þann 7. október sl. verið úrskurðaður í gæsluvarðahald á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga 88/2008 og b- liðar 1. mgr. 99. gr. sömu laga með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur nr. 357/2017 til 11. október 2017 en hafi frá þeim tíma sætt gæsluvarðhaldi á grundvelli almannahagsmuna sbr. úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur nr. 358/2017 sem staðfestur var af Hæstarétti með dómi í máli nr. 657/2017 og nú síðast úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur nr. 523/2017 sem staðfestur var með dómi Landsréttar nr. 28/2018.

Dómfelldi hafi verið sakfelldur og dæmdur til fangelsisvistar fyrir alvarlegt brot, en refsirammi ákvæðisins sem háttsemin varðar við er 16 ára fangelsi. Að mati ákæruvaldsins er brotið þess eðlis að með tilliti til almannahagsmuna er nauðsynlegt að tryggja áfram að kærði gangi ekki laus á meðan mál hans er til meðferðar hjá dómstólum. Dómstólar hafi talið skilyrði gæsluvarðhalds á grundvelli almannahagsmuna vera fyrir hendi í máli dómfellda, sbr. framangreinda dóma Hæstaréttar og Landsréttar, og að áliti ákæruvaldsins hefur ekki neitt nýtt komið fram í málinu sem breytt getur því mati dómstóla.

Sakarefni málsins sé talið varða við 211. gr. sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en brot gegn ákvæðunum geti varðað fangelsi allt að 16 árum ef sök sannast. Um heimild til gæsluvarðhalds er vísað til 2. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008.

               

Niðurstaða

                Eins og rakið hafi verið krefst saksóknari þess að dómfelldi sæti áfram gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Samkvæmt ákvæðinu má úrskurða sakborning í gæsluvarðhald ef sterkur grunur leikur á því að hann hafi framið afbrot sem að lögum getur varðað 10 ára fangelsi, enda sé brotið þess eðlis að ætla megi varðhald nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur fyrr í dag í málinu  nr. S-[…]/2018 var dómfelldi dæmdur til fimm og hálfs árs fangelsisvistar. Dómfelldi lýsti því yfir við dómsuppsögu að hann tæki sér fjögurra vikna frest til að taka ákvörðun um hvort hann áfrýi dómnum.

Dómfelldi játaði að hafa veist að brotaþola með hnífi í íbúð í […] að kvöldi 3. október sl. og fær játning hans stoð í frásögn vitna. Fyrir liggur að stunguáverki var á brotaþola á kvið og virðist hnífurinn hafa farið í gegnum kviðvegginn og lífhimnu fyrir neðan nafla. Samkvæmt áverkavottorði sem lagt hefur verið fram getur hnífsstunga sem þessi verið lífshættuleg og valdið dauða. Í þessu ljósi ber að fallast á það með saksóknara að ákærði sé undir sterkum grun um brot gegn 211. gr., sbr. 20 gr. almennra hegningarlaga, þ.e. tilraun til manndráps. Getur brotið varðað 10 ára fangelsi eða meira.

Þegar litið er til eðlis brotsins, og þess sem fram kemur í greinargerð saksóknara og framangreindum dómi, er fallist á með saksóknara að gæsluvarðhald sé nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna, sbr. 2.mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála sbr. og 3. mgr. 97. gr. laganna, til þess að gera dómfellda að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi á meðan mál hans er eftir atvikum til meðferðar fyrir æðri dómi eða þar til áfrýjunarfrestur er liðinn. Hæstiréttur og Landsréttur hafa staðfest það mat héraðsdóms að skilyrði 2. mgr. 95. gr. séu uppfyllt. Ekki þykja efni til að marka gæsluvarðhaldinu skemmri tíma.  Það verður því orðið við kröfu saksóknara eins og nánar greinir í úrskurðarorði.

Lárentsínus Kristjánsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Dómfelldi, X, kt. […], skal áfram sæta gæsluvarðhaldi á meðan áfrýjunarfresti stendur í máli hans og eftir atvikum meðan mál hans er til meðferðar fyrir dómstólum á áfrýjunarstigi, allt til föstudagsins 20. apríl 2018 kl. 16:00.