Mál nr. 162/2018

Héraðssaksóknari (Björn Þorvaldsson saksóknari)
gegn
X (Bragi Björnsson lögmaður)
Lykilorð
  • Útlendingur
  • Farbann
  • Kærumál
Útdráttur

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem X var gert að sæta áfram farbanni á grundvelli 1. mgr. 100. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, sbr. b-lið 1. mgr. 95. gr. sömu laga.

 

Úrskurður Landsréttar

Landsréttardómararnir Aðalsteinn E. Jónasson, Ásmundur Helgason og Ragnheiður Harðardóttir kveða upp úrskurð í máli þessu.

Varnaraðili skaut málinu til Landsréttar með kæru 5. febrúar 2018, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 5. febrúar 2018, í málinu nr. R-105/2018, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram farbanni meðan mál hans er til meðferðar fyrir dómstólum, þó eigi lengur en til mánudagsins 5. mars 2018 klukkan 16. Kæruheimild er í l-lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Varnaraðili sætir ákæru fyrir brot gegn 1. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sem getur varðað allt að sex ára fangelsi. Aðalmeðferð í máli hans fór fram fyrir Héraðsdómi Reykjaness 7. og 11. desember 2017 er málið var dómtekið. Boðað hefur verið til endurflutnings í málinu 23. febrúar næstkomandi og mun uppkvaðning dóms í málinu hafa verið boðuð í beinu framhaldi af honum. Í hinum kærða úrskurði er varnarðila gert að sæta farbanni þar til dómur fellur í máli hans, þó ekki lengur en til 5. mars klukkan 16.

Varnaraðili er nígerískur ríkisborgari með engin tengsl við landið. Með vísan til þess er fallist á niðurstöðu héraðsdóms að fullnægt sé skilyrði b-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008, sbr. 1. mgr. 100. gr. laganna til að varnaraðili sæti áfram farbanni. Verður hinn kærði úrskurður því staðfestur. 

Úrskurðarorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.


 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness mánudaginn 5. febrúar 2018

Héraðssaksóknari hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjaness úrskurði að X, nígerískum ríkisborgara, fæddum […], verði gert að sæta áfram farbanni þar til dómur fellur í sakamálinu S-[…]/2017, þó eigi lengur en til mánudagsins 5. mars 2018, klukkan 16:00.

Varnaraðili mótmælir kröfu héraðssaksóknara og krefst þess að kröfunni verði hafnað.

Í greinargerð með kröfunni segir að Héraðssaksóknari hafi gefið út ákæru 20. september sl. á hendur varnaraðila fyrir peningaþvætti í febrúar 2016. Málið hafi verið þingfest í Héraðsdómi Reykjaness 13. október 2017. Er varnaraðili ákærður fyrir að hafa skipulagt og gefið fyrirmæli um peningaþvætti þegar meðákærðu hafi tekið við 31.600.000 krónum af ótilgreindum aðila, geymt fjármunina á bankareikningum, nýtt að hluta, flutt að hluta, sent að hluta til Ítalíu og millifært 20.500.000 krónur af umræddu fé á bankareikning félagsins […] í Hong Kong, þrátt fyrir að þau hafi mátt vita að um væri að ræða ólöglega fengið fé, en um hafi verið að ræða fé sem ótilgreindur aðili komst yfir með fjársvikum í tengslum við viðskipti félaganna […] Ltd í Suður Kóreu og […] ehf. Brotin eru nánar rakin í ákærunni.

Varnaraðili hafi skipulagt og gefið meðákærðu fyrirmæli um peningaþvættið, eftir að hann kom til landsins 2. febrúar 2016, og hafi brotin þannig verið framin að hans undirlagi. Hafi hann komið til landsins gagngert til að sjá til þess að fjármunirnir yrðu sendir tilteknum erlendum aðilum. Þá hafi hann afhent meðákærðu tilhæfulausa reikninga sem hafi verið framvísað í Arion banka 8. febrúar 2016 og flutt hluta af fjármununum úr landi. Mátti varnaraðila á sama hátt og meðákærðu vera ljóst að um ólöglega fengið fé var að ræða. Varnaraðili neitaði sök við þingfestingu málsins. Aðalmeðferð í málinu fór fram […] 2017.

Varnaraðili hafi verið framseldur til Íslands frá Ítalíu vegna rannsóknar málsins. Hann hafi setið í gæsluvarðhaldi frá 17. ágúst 2017 til 10. janúar 2018, en þá hafi úrskurður héraðsdóms Reykjaness um gæsluvarðhald frá 8. janúar 2018 verðið felldur niður og varnaraðila gert að sæta farbanni á grundvelli b. liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 til mánudagsins 5. febrúar kl. 14.00.

Að tilstuðlan A kom varnaraðili til landsins 2. febrúar 2017, gagngert til þess að veita viðtöku hluta fyrrnefndra fjármuna og senda þá með símgreiðslu til félagsins […] Ltd. í Hong Kong. Til þess hafi hann haft meðferðis nauðsynleg skjöl sem voru tilhæfulausir reikningar um viðskipti milli aðila sem ekki áttu við rök að styðjast. Varnaraðili virðist hafa útbúið nauðsynleg skjöl svo unnt væri að koma hluta fjármunanna úr landi auk þess sem hann móttók reiðufé. Þá sé varnaraðili grunaður um að tengjast beint þeim aðilum sem komu því til leiðar með blekkingum í tölvupóstsamskiptum að fjármunirnir hafi verið greiddir á reikning […] ehf. í stað […] ehf.

Varnaraðili hafi farið af landi brott 10. febrúar 2016 og var því lögreglu nauðsynlegt að krefjast þess við Héraðsdóm Reykjavíkur að gefin yrði út alþjóðleg handtökuskipun á hendur honum. Krafa um handtökuskipun hafi verið lögð fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur 30. mars 2016 og úrskurðurinn verið kveðinn upp samdægurs. Með bréfi til innanríkisráðuneytisins, dags. 4. apríl 2016, hafi verið óskað eftir því að varnaraðili yrði eftirlýstur og hann handtekinn hvar sem til hans myndi nást og hann framseldur íslenskum yfirvöldum. Þann 14. febrúar sl. hafi borist upplýsingar um að varnaraðili hafi verið handtekinn á flugvellinum í Bologna á Ítalíu. Degi síðar ráðuneytið sent beiðni til ítalskra yfirvalda um framsal hans. Ítölsk dómsmálayfirvöld hafi samþykkt framsalið þann 10. júlí 2017 og þá hafi hafist undirbúningur að flutningi varnaraðila til landsins. Var hann fluttur til landsins 17. ágúst 2017.

Varnaraðili var úrskurðaður í gæsluvarðhald á grundvelli rannsóknarhagsmuna frá 17.-24. ágúst 2017, sbr. úrskurð R-[…]/2017. Hann var síðan úrskurðaður í áframhaldandi gæsluvarðhald á grundvelli b. liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008, sbr. úrskurð R-[…]/2017, til 21. september 2017. Var sá úrskurður staðfestur með dómi Hæstaréttar Íslands í málinu númer 528/2017. Þá var varnaraðili úrskurðaður í gæsluvarðhald á grundvelli b. liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008, sbr. úrskurð R-[…]/2017, til 19. október 2017. Sá úrskurður staðfestur með dómi Hæstaréttar Íslands í málinu númer 602/2017. Varnaraðili var síðan úrskurðaður í áframhaldandi gæsluvarðhald 16. nóvember 2017, sbr. úrskurð Héraðsdóms Reykjaness í máli R-[…]/2017, sem staðfestur var af Hæstarétti Íslands 20. nóvember 2017 í málinu númer 723/2017. Við lok aðalmeðferðar 11. desember 2017 var varnaraðili síðan úrskurðaður í áframhaldandi gæsluvarðhald til 8. janúar 2018, sbr. mál númer R-[…]/2017, sem staðfest var af Hæstarétti Íslands 13. desember 2017 í málinu númer 777/2017. Síðast var varnaraðili úrskurðaður til að sæta gæsluvarðhaldi til mánudagsins 5. febrúar, en úrskurðurinn var sem fyrr segir felldur úr gildi og varnaraðila gert að sæta farbanni til klukkan 14:00 5. febrúar 2018. Aðalmeðferð í máli varnaraðila fór fram dagana 7. og 11. desember 2017 og málið dómtekið. Dómur í málinu hafi hins vegar ekki verið kveðinn upp enn vegna embættisanna dómarans. Dómari hafi nú boðað að málið verði endurflutt 23. febrúar nk. og dómur verði kveðinn upp skömmu síðar.

Telja verði hvoru tveggja ríka almanna- og einkahagsmuni fyrir því að fallist verði á umbeðna kröfu. Er um að ræða stórfellt peningaþvætti, sem hagsmunir almennings krefjast að saksótt verði fyrir. Meint brot varða öll verulega fjárhagslega hagsmuni og verulega hagsmuni aðila sem áttu í hvers konar viðskiptum við […] ehf. á umræddum tíma sem ollu […] ehf. og hinum suður kóreska viðskiptavini þess gríðarlegu tjóni. Héraðssaksóknari telji að farbann sé nauðsynlegt til að tryggja návist varnaraðila við meðferð málsins fyrir dómi. Eiginkona hans og barn búi í Ghana og í Nígeríu. Líta verði til þess að hann kom ekki sjálfviljugur til landsins heldur eftir framsal í fylgd lögreglufulltrúa. Þá sé varnaraðili erlendur ríkisborgari sem engin tengsl hafi við landið og því sé veruleg hætta á að hann reyni að koma sér undan saksókn.

Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna, 1. mgr. 100. gr. laga nr. 88/2008 sbr. b. lið 1. mgr. 95. gr.  laga 88/2008 um meðferð sakamála, er þess krafist að krafan nái fram að ganga.

Svo sem fram er komið lauk aðalmeðferð í máli varnaraðila 11. desember síðastliðinn. Málið er umfangsmikið og reyndist ekki unnt vegna embættisanna dómara málsins að leggja dóm á það innan lögmælts frests samkvæmt 1. mgr. 184. gr. laga nr. 88/2008, en málið verður endurflutt 23. febrúar nk. og mun uppkvaðning dóms í málinu hafa verið boðuð í beinu framhaldi af endurflutningi málsins. Samkvæmt því sem rakið er að framan er fallist á að varnaraðili sé undir rökstuddum grun um brot sem varðað getur fangelsisrefsingu. Þá er fallist á að hætta sé á að varnaraðili muni reyna að komast úr landi eða leynast ellegar koma sér með öðrum hætti undan málssókn eða fullnustu refsingar fari hann frjáls ferða sinna. Samkvæmt þessu eru uppfyllt skilyrði b. liðar 1. mgr. 95. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Er fallist á kröfu héraðssaksóknara eins og hún er fram sett og nánar greinir í úrskurðarorði.

Úrskurð þennan kveður upp Jón Höskuldsson héraðsdómari.

Ú r s k u r ð a r o r ð:

Varnaraðili, X, fæddur […], skal sæta farbanni þar til dómur fellur í sakamálinu S-[…]/2017, þó eigi lengur en til mánudagsins 5. mars 2018, klukkan 16:00.