Mál nr. 167/2018

Héraðssaksóknari (Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari)
gegn
X (Guðbjarni Eggertsson lögmaður)
Lykilorð
  • 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
  • Gæsluvarðhald
  • Kærumál
Útdráttur

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

 

Úrskurður Landsréttar

Landsréttardómararnir Ingveldur Einarsdóttir, Jón Finnbjörnsson og Oddný Mjöll Arnardóttir kveða upp úrskurð í máli þessu.

Varnaraðili skaut málinu til Landsréttar með kæru 6. febrúar 2018, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 8. febrúar 2018. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 6. febrúar 2018, í málinu nr. R-99/2018, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 5. mars 2018 klukkan 16. Kæruheimild er í l-lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, til vara að honum verði gert að sæta farbanni í stað gæsluvarðhalds, en að því frágengnu að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Varnaraðili hefur sætt gæsluvarðhaldi frá 25. ágúst 2017, fyrst á grundvelli rannsóknarhagsmuna, sbr. a-lið 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008, en með stoð í 2. mgr. sömu lagagreinar frá 22. september 2017. Ákæra á hendur varnaraðila var gefin út 16. nóvember 2017 þar sem varnaraðila ásamt þremur öðrum er gefið að sök stórfellt fíkniefnalagabrot sem talið er varða við 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa staðið saman að innflutningi á 1.328 ml. af vökva sem innihélt amfetamínbasa, sem hafði 49% styrkleika, ætlaðan til söludreifingar hér á landi í ágóðaskyni, og tilraun til samskonar brots með því að hafa ætlað sér að flytja inn allt að 3.912 ml. af samskonar vökva til viðbótar framangreindu magni. Aðalmeðferð í málinu er fyrirhuguð […]. mars 2018.

Með dómum Hæstaréttar 26. september 2017 í máli nr. 606/2017 og 22. nóvember 2017 í máli nr. 726/2017 var því slegið föstu að fullnægt væri skilyrðum til þess að varnaraðili sætti gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Fallist er á með héraðsdómi að ekkert sé fram komið sem haggar þeirri niðurstöðu. Verður hinn kærði úrskurður því staðfestur.

 

Úrskurðarorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 


Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur þriðjudaginn 6. febrúar 2018

Héraðssaksóknari hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði, með vísan til 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, að ákærða X, kt. […], […], Reykjavík, verði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 5. mars nk. kl. 16.

Í greinargerð sækjanda kemur fram að Héraðssaksóknari hafi til meðferðar mál lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu á hendur ákærða vegna meints brots á 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Upphaf málsins megi rekja til þess að lögreglu hafi borist upplýsingar frá erlendum tollyfirvöldum um að grunur léki á að í Audi A6 bifreiðinni […]-[…] væru falin fíkniefni, en bifreiðin hafi verið um borð í ferjunni Norrænu á leið hingað til lands. Ökumaður bifreiðarinnar hafi verið A. Ferjan hafi komið hingað til lands frá Danmörku að morgni fimmtudagsins 24. ágúst sl. Við skoðun og frumrannsókn lögreglu á bifreiðinni hafi komið í ljós amfetamínvökvi sem virtist hafa lekið úr undirvagni bifreiðarinnar. Með heimild héraðsdóms Reykjaness hafi lögregla fengið heimild til að hlusta síma A og koma fyrir eftirfararbúnaði undir bifreiðinni. Þá fylgdi lögregla bifreiðinni eftir þar sem henni var ekið áleiðis til Reykjavíkur.

Er A hafi komið til Reykjavíkur hafi hann lagt bifreiðinni við Hótel Hilton við Suðurlandsbraut í Reykjavík þar sem hann beið þar til Lexus bifreið, sem í hafi verið X, B og C, hafi verið ekið að honum og úr henni kom C og settist inn í Audi bifreiðina. Bifreiðunum hafi síðan báðum verið ekið að gistiheimili við […] í Reykjavík þar sem fjórmenningarnir hafi farið inn. Á leiðinni að gistiheimilinu hafi mátt heyra A og C ræða saman m.a. um það hvort leitað hafi verið í Audi bifreiðinni á tollsvæðinu á Seyðisfirði. Skömmu síðar sáust mennirnir fara út og skoða Audi bifreiðina í nágrenni gistiheimilisins. Að morgni 25. ágúst sl. keyrðu síðan B og C Audi bifreiðina um miðborgina og að lokum inn í bílskúr við […] í Reykjavík þar sem B og C hafi verið handteknir skömmu síðar. Um svipað leiti kom X keyrandi á Lexus bifreiðinni og lagði henni utan við […] til móts við bílskúrinn en þegar hann varð var við lögreglu tók hann til fótanna og hljóp suður Skipholt þar sem hann var handtekinn stuttu síðar. Í framhaldi var A handtekinn á gistiheimilinu við […].

Við rannsókn á Audi bifreiðinni kom í ljós að við haldlagningu í framhöggvara bifreiðarinnar voru 1328 millilítrar af amfetamíni en við mælingar lögreglu hafi komið í ljós að höggvarinn rúmar 5240 millilítra. Þá hafi rannsókn lögreglu leitt í ljós að B og C hafi komið hingað til lands, með flugi frá Póllandi þar sem þeir séu búsettir, að kvöldi 24. ágúst sl. þ.e. sama dag og A hafi komið til landsins með ferjunni. Við yfirferð á hlustunum hafi einnig komið fram að A hafi átt í símasamskiptum við nokkra aðila meðan hann keyrði frá Seyðisfirði til Reykjavíkur en þeirra á meðal var C. X sé búsettur hér á landi og sé það grunur lögreglu að hann hafi átt að taka á móti mönnunum og vera þeim innan handar með aðstöðu en við rannsókn lögreglu hafi komið í ljós að X er sá sem hafi pantað herbergi fyrir B, C og A á gistiheimilinu, hann hafði samkvæmt eigin framburði afnot af bílskúrnum í […] og þá hafi fundist talstöðvar bæði í Audi bifreiðinni og Lexus bifreið X sem talið sé að notaðar hafi verið í samskiptum fjórmenningarnir eftir að þeir hafi hist við Hótel Hilton að kvöldi 24. ágúst sl.

Ákærði hafi neitað sök við skýrslutöku hjá lögreglu. Hann hafi sætt gæsluvarðhaldi frá 25. ágúst sl. Með úrskurði héraðsdóms Reykjaness þann 22. september hafi ákærða verið gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli almannahagsmuna. Hafa úrskurðir héraðsdóms verið staðfestir með dómum Hæstaréttar nr. 606/2017 og 726/2017. Þann 10. janúar sl. úrskurðaði Héraðsdómur Reykjavíkur ákærða áfram í gæsluvarðhald til dagsins í dag, 6. febrúar.

Rannsókn málsins sé lokið og hafi verið gefin út ákæra á hendur X, þann 16. nóvember sl. fyrir stórfellt fíkniefnalagabrot og hafi málið verið þingfest þann 13. desember í Héraðsdómi Reykjavíkur.  Aðalmeðferð í málinu mun fara fram þann […]. mars n.k.

Í ljósi ofangreinds sé það mat héraðssaksóknara að ákærði sé undir sterkum grun um aðild að innflutningi á miklu magni af sterkum fíkniefnum hingað til lands. Ljóst sé að fíkniefnin hafi verð ætluð til sölu og dreifingar hér á landi. Með hliðsjón af alvarleika sakarefnis og þess að ríkir almannahagsmunir standi til þess að menn gangi ekki lausir þegar svo stendur á sé þess krafist að ákærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi meðan mál hans er til meðferðar.

Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og 2. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008  er þess krafist að krafan nái fram að ganga eins og hún er sett fram.

Niðurstaða:

Ákærði mótmælir kröfuna. Ákærði hefur setið í gæsluvarðhaldi frá 25. ágúst sl., fyrst á grundvelli rannsóknarhagsmuna, sbr. a-lið 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008, en frá 22. september sl. á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Ákæra var gefin út á hendur ákærða 16. nóvember 2017 og málið var þingfest fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur 13. desember sl. Aðalmeðferð mun fara fram […]. mars n.k. Fallist er á það með héraðssaksóknara að ákærði sé undir sterkum grun um aðild að innflutningi á miklu magni af sterkum fíkniefnum hingað til lands sem ætluð voru til sölu og dreifingar hér á landi. Brotið er í ákæru heimfært undir 173. gr. a almennra hegningarlaga og getur háttsemi ákærða varðað allt að 12 ára fangelsi. Telja verður brotið þess eðlis að varðhald sé nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna. Dómarinn telur að ekkert hafi breyst frá því dómar Hæstaréttar í málum nr. 606/2017 og 726/2017 voru kveðnir upp. Ekki er því fallist á varakröfu verjanda að ákærði sæti farbanni. Með hliðsjón af alvarleika ætlaðra ákærða sem greinir í ákæru telur dómurinn skilyrðum fyrir áframhaldandi gæsluvarðhaldi ákærða því fullnægt sbr. 2. mgr. 195. gr. laga nr. 88/2008 og verður krafa héraðssaksóknara tekin til greina svo sem í úrskurðarorði greinir.

Þórður Clausen Þórðarson héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákærði, X, kt. […], […] Reykjavík, skal sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 5. mars nk. kl. 16.