Mál nr. 169/2018

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu (Guðmundur Þórir Steinþórsson aðstoðarsaksóknari)
gegn
X (Jón Bjarni Kristjánsson lögmaður)
Lykilorð
  • Reynslulausn
  • Fullnusta refsingar
  • Skilorðsrof
  • Kærumál
Útdráttur

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að Þ skyldi gert að afplána eftirstöðvar fangelsisrefsingar.

 

Úrskurður Landsréttar

Landsréttardómararnir Ásmundur Helgason, Hervör Þorvaldsdóttir og Ragnheiður Harðardóttir kveða upp úrskurð í máli þessu.

Varnaraðili skaut málinu til Landsréttar með kæru 8. febrúar 2018, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 8. febrúar 2018, í málinu nr. R-[…]/2018, þar sem varnaraðila var gert að sæta afplánun á 220 daga eftirstöðvum refsingar samkvæmt dómum Héraðsdóms Reykjavíkur frá 30. júní 2016 og 14. febrúar 2017, sem honum var veitt reynslulausn á með ákvörðun Fangelsismálastofnunar 29. júní 2017. Kæruheimild er í 2. mgr. 82. gr. laga nr. 15/2016, um fullnustu refsinga, sbr. XXX. kafla laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Í kæru varnaraðila er gerð sú athugasemd við meðferð málsins í héraði að dómari hafi verið búinn að semja hinn kærða úrskurð áður en þinghaldið fór fram, en úrskurðurinn hafi verið „afhentur“ strax að loknum málflutningi. Hvorki úrskurðurinn, sem uppfyllir kröfur 3. og 4. mgr. 181. gr., sbr. 107. gr. laga nr. 88/2008, né þingbók málsins gefa til kynna að dómarinn hafi ekki hlýtt á röksemdir aðila fyrir kröfum sínum við meðferð málsins áður en hann tók endanlega afstöðu til þeirra. Ekki er því efni til athugasemda við meðferð málsins í héraði.

Eins og rakið er í hinum kærða úrskurði var varnaraðila veitt reynslulausn á 220 daga eftirstöðvum fangelsisrefsingar sem hann hlaut með tveimur dómum Héraðsdóms Reykjavíkur 30. júní 2016 og 14. febrúar 2017. Reynslutíminn var ákveðinn tvö ár frá 4. ágúst 2017. Samkvæmt 2. mgr. 81. gr. laga nr. 15/2016 er það almennt skilyrði reynslulausnar að viðkomandi gerist ekki sekur um nýtt brot á reynslutíma.

Samkvæmt 2. mgr. 82. gr. laga nr. 15/2016 getur dómstóll úrskurðað að maður, sem hlotið hefur reynslulausn, skuli afplána eftirstöðvar refsingar ef hann á reynslutíma rýfur gróflega almennt skilyrði reynslulausnar, enda liggi fyrir sterkur grunur um að hann hafi framið nýtt brot sem varðað getur sex ára fangelsi eða að brotið varði við 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga.

Í ljósi rannsóknargagna málsins verður á það fallist að varnaraðili sé undir sterkum grun um tilraun til þjófnaðar í geymslu fjölbýlishúss í úthverfi Reykjavíkur 20. september 2017, en hann var handtekinn á vettvangi ásamt öðrum manni, sem hefur borið að hafa staðið á verði fyrir varnaraðila meðan hann hafi brotist inn í geymsluna. Þjófnaður varðar allt að 6 ára fangelsi samkvæmt 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Samkvæmt 20. gr. sömu laga varðar tilraun almennt sömu refsingu og fullframið brot. Þá bera framlögð rannsóknargögn með sér að varnaraðili sé enn fremur undir sterkum grun um þrjú fíkniefnabrot á reynslutíma, en þau varða allt að 6 ára fangelsi, sbr. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974, um ávana og fíkniefni.

Með vísan til þess sem hér hefur verið rakið er á það fallist að fullnægt sé því skilyrði 2. mgr. 82. gr. laga nr. 15/2016 að varnaraðili sé undir sterkum grun um að hafa framið nýtt brot á reynslutíma sem varðað getur sex ára fangelsi. Með vísan til þess sem fyrir liggur um framangreind brot er enn fremur á það fallist að með þeim hafi varnaraðili rofið á reynslutíma gróflega almennt skilyrði reynslulausnar sem honum var veitt frá 4. ágúst 2017. Með þessum rökum verður niðurstaða hins kærða úrskurðar staðfest.

Úrskurðarorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 


Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur fimmtudaginn 8. febrúar 2018

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, kt. […], verði á grundvelli 2. mgr. 82. gr. laga um fullnustu refsinga gert að sæta afplánun á 220 daga eftirstöðvum refsingar samkvæmt dómum Héraðsdóms Reykjavíkur frá 30. júní 2016 og 14. febrúar 2017 sem honum var veitt reynslulausn á með ákvörðun Fangelsismálastofnunar frá 29. júní 2017.

Í greinargerð lögreglustjóra kemur fram að með ákvörðun Fangelsismálastofnunar, dags. 29. júní 2017, hafi kærða verið veitt reynslulausn á 220 daga eftirstöðvum fangelsisrefsingar sem hann hlaut með dómum Héraðsdóms Reykjavíkur frá 30. júní 2016 og 14. febrúar 2017. Kærði hafi síðan þá ítrekað komið við sögu lögreglu í málum þar sem fyrir liggi sterkur grunur um að hann hafi m.a. gerst sekur um brot sem varðað geta allt að 6 ára fangelsi. Hafi hann að mati lögreglustjóra með háttsemi sinni undanfarið þannig rofið gróflega almennt skilyrði reynslulausnarinnar.

Meðferð máls þessa hófst í kjölfar máls nr. 007-2018-[…] er varðar nytjastuld og vörslu fíkniefna. Aðfaranótt fimmtudagsins 8. febrúar 2018 hafi lögregla verið við eftirlit á Smiðjuvegi þegar lögreglumennirnir urðu varir við bifreiðina […] en bifreiðinni hafði verið stolið 2. febrúar sl. við […] í Reykjavík. Lögreglan hafi haft afskipti af ökumanni og farþegum bifreiðarinnar, en kærði hafi verið meðal farþega í aftursæti. Þar sem mikill hamagangur hefði verið inni í bifreiðinni og hún runnið aftur á bak þar til hún staðnæmdist hafi allir farþegar og ökumaður verið handteknir. Við leit á kærða á lögreglustöðinni á Hverfisgötu hafi fundist ætluð fíkniefni, nánar tiltekið hvítt duft og ætlað kannabis innan á buxum hans auk óþekktra taflna og meintra stera í úlpu hans. Kærði sé grunaður um að hafa stolið fyrrnefndri bifreið en upptökur úr […], vinnustað tjónþola og eiganda bifreiðarinnar […], sýna kærða ganga inn á starfsmannagang verslunarinnar um það leyti sem kveikjuláslyklum bifreiðarinnar hafi verið stolið. Vísist nánar til rannsóknargagna.

Auk þessa máls hafi lögregla til meðferðar fjölda mála er varða ætluð brot kærða á reynslutímanum og lögreglustjóri telur að sýni fram á að hann hafi gróflega brotið gegn almennum skilyrðum reynslulausnarinnar og leiða eigi til þess að honum verði gert að afplána eftirstöðvar fangelsisrefsingar. Í máli nr. 007-2018-[…] sé kærði grunaður um þjófnað og líkamsárás, með því að hafa mánudaginn 1. janúar 2018, veist að starfsmanni verslunarinnar […], Reykjavík, og í kjölfarið gengið út úr versluninni með vörur sem hann hefði ekki greitt fyrir. Í máli nr. 007-2017-[…] sé kærði grunaður um húsbrot, hylmingu og vörslu fíkniefna, með því að hafa, 19. október 2017, haft í vörslum sínum 0,96 g af maríjúana, samtals 1,44 g af ecstasty og 1,96 g af amfetamíni en lögregla hafi haft afskipti af honum á hótelherbergi […], Reykjavík. Efnin hafi fundist á gólfi í herbergi 9, sem kærði sé grunaður um að hafa brotist inn í en á vettvangi hafi fundist þýfi úr öðru innbroti (mál nr. 007-2017-[…]). 

Lögregla telji að það sem fram sé komið í framangreindum málum sýni fram á sterkan rökstuddan grun um háttsemi kærða sem varðað geti fangelsi allt að sex árum. Auk framangreindra mála hafi lögregla til meðferðar neðangreind mál er varða ætlaða refsiverða háttsemi kærða. Í máli nr. 007-2017-[…] sé kærði grunaður um hylmingu, með því að hafa, 13. september 2017, í félagi við annan mann tekið við og haft í vörslum sínum stolna muni, hvítan Iphone 7 í gráu leðurveski og gráa macbook pro OS X fartölvu, sem hafi fundist við leit lögreglu í bifreiðinni […] í kjölfar afskipta lögreglu af kærða við JL-Húsið, Hringbraut 21, Reykjavík. Í máli nr. 007-2017-[…] sé kærði grunaður um tilraun til þjófnaðar, með því að hafa, miðvikudaginn 20. september 2017, í félagi við annan mann brotist inn í geymslu í fjölbýlishúsi við […], Reykjavík. Kærði hafi verið handtekinn á vettvangi en hann hafi neitað sök í skýrslutöku. Tilkynnandi hafi séð tvo menn á upptöku öryggismyndavéla fara inn í geymsluna og kvaðst samverkamaður kærða hafa verið að vakta fyrir kærða á meðan hann brytist inn. Í máli nr. 007-2017-[…] sé kærði grunaður um akstur án ökuréttinda og akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna, með því að hafa, 29. október 2017, ekið inn í Skeifuna frá Grensásvegi óhæfur til að stjórna ökutækinu vegna áhrifa ávana- og fíkniefna (í blóði mældist MDMA 1300 ng/ml, metýlfenídat 10 ng/ml, tetrahýrdókannabínól 0,7 ng/ml og klónazepam 8,3 ng/ml). Í máli nr. 007-2017-[…] sé kærði grunaður um húsbrot og vörslur fíkniefna, með því að hafa, þriðjudaginn 14. nóvember 2017, í félagi við aðra verið í leyfisleysi í íbúð í […], Reykjavík, sem sé leigð ferðamönnum, en á vettvangi hafi fundist ætluð fíkniefni. Kærði neiti sök en enn eigi eftir að taka skýrslur af vitnum og öðrum sakborningum.

Samkvæmt framangreindu liggi kærði undir sterkum grun um að hafa framið brot sem varði við tilgreind ákvæði almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Sé það mat lögreglu að fullnægt sé skilyrðum 2. mgr. 82. gr. laga nr. 15/2016 um fullnustu refsingar um að hann hafi á reynslulausnartímanum rofið gróflega almenn skilyrði reynslulausnarinnar. Með vísan til framangreinds sé þess krafist að krafan nái fram að ganga.

 

Niðurstaða

Samkvæmt 2. mgr. 82. gr. laga nr. 15/2016 um fullnustu refsingar getur dómstóll að kröfu ákæranda úrskurðað að maður, sem hlotið hefur reynslulausn, skuli afplána eftirstöðvar refsingar ef hann á reynslutímanum rýfur gróflega almennt skilyrði reynslulausnar, enda liggi fyrir sterkur grunur um að hann hafi framið nýtt brot sem varðað getur sex ára fangelsi eða að brotið varði við 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga.

Fram kemur í greinargerð lögreglustjóra að með ákvörðun Fangelsismálastofnunar, dags. 29. júní 2017, hafi kærða verið veitt reynslulausn á 220 daga eftirstöðvum fangelsisrefsingar, sem hann hlaut með dómum Héraðsdóms Reykjavíkur frá 30. júní 2016 og 14. febrúar 2017. Þá kemur fram að kærði hafi frá þeim tíma ítrekað komið við sögu lögreglu í málum þar sem fyrir liggur sterkur grunur um að hann hafi m.a. gerst sekur um brot sem varðað geta allt að 6 ára fangelsi og eru þau rakin í greinargerð.

Síðast liðna nótt urðu lögreglumenn við eftirlit á Smiðjuvegi í Kópavogi varir við bifreiðina […] en bifreiðinni hafði verið stolið 2. febrúar sl. við […] í Reykjavík (sjá mál nr. 007-2018-[…]). Þeir höfðu afskipti af ökumanni og farþegum bifreiðarinnar, en kærði var meðal farþega í aftursæti. Allir farþegar og ökumaður voru  handteknir. Við leit á kærða á lögreglustöðinni á Hverfisgötu fundust ætluð fíkniefni, nánar tiltekið hvítt duft og ætlað kannabis innan á buxum hans auk óþekktra taflna og meintra stera í úlpu hans. Kærði er grunaður um að hafa stolið fyrrnefndri bifreið en upptökur úr […], vinnustað tjónþola og eiganda bifreiðarinnar […], sýna kærða ganga inn á starfsmannagang verslunarinnar um það leyti sem kveikjuláslyklum bifreiðarinnar var stolið.

Samkvæmt gögnum málsins og því sem rakið hefur verið er fallist á það með lögreglu að kærði sé undir sterkum grun um að hafa framið brot sem varðar við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, 2., sbr. 5. og 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974 o.fl.

Dómurinn telur því að fullnægt sé skilyrðum 2. mgr. 82. gr. laga nr. 15/2016 um fullnustu refsingar um að hann hafi á reynslulausnartímanum rofið gróflega almenn skilyrði reynslulausnarinnar. Dómurinn telur ekki fært að fallast á varakröfu verjanda. Með vísan til framangreinds er fallist á kröfu lögreglustjóra eins og hún er fram sett.

Þórður Clausen Þórðarson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Kærði, X, kt. […], skal sæta afplánun á 220 daga eftirstöðvum refsingar samkvæmt dómum Héraðsdóms Reykjavíkur frá 30. júní 2016 og 14. febrúar 2017 sem honum var veitt reynslulausn á með ákvörðun Fangelsismálastofnunar frá 29. júní 2017.