Mál nr. 120/2018

Barnaverndarnefnd Reykjavíkur (Ebba Schram lögmaður)
gegn
A og B (Flosi Hrafn Sigurðsson lögmaður)
Lykilorð
  • Vanhæfi
  • Hæfi dómara
  • Kærumál
Útdráttur

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem kröfu BR, um að héraðsdómarinn K viki sæti í máli BR gegn A og B, var hafnað. Í úrskurði Landsréttar var vísað til orða sem héraðsdómarinn gekkst við að hafa látið falla í samtali sínu við lögmann sóknaraðila áður en þinghald var sett í málinu 14. desember 2017 og að lögmanni varnaraðila fjarstöddum. Taldi Landsréttur að orð héraðsdómarans væru hlutlægt séð til þess fallin að draga mætti óhlutdrægni hans í efa. Var K því gert að víkja sæti í málinu með vísan til g-liðar 1. mgr. 5. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

 

Úrskurður Landsréttar

Landsréttardómararnir Arnfríður Einarsdóttir, Jóhannes Sigurðsson og Þorgeir Ingi Njálsson kveða upp úrskurð í máli þessu.

Sóknaraðili skaut málinu til Landsréttar með kæru 19. janúar 2018, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 23. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 10. janúar 2018 í málinu nr. E-[…]/2017 þar sem Kristrún Kristinsdóttir héraðsdómari hafnaði kröfu sóknaraðila um að hún viki sæti í máli sóknaraðila á hendur varnaraðilum. Kæruheimild er í a-lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og að krafa hans um að héraðsdómari víki sæti verði tekin til greina.

Varnaraðilar krefjast þess að kröfu sóknaraðila verði hafnað. Þeir krefjast einnig kærumálskostnaðar.

Í hinum kærða úrskurði tekur héraðsdómari fram að áður en þinghald var sett í málinu 14. desember 2017 og að lögmanni varnaraðila fjarstöddum hafi hann spurt lögmann sóknaraðila um málið, meðal annars hvar það væri unnið, af hvaða starfsmanni, hvaða aðstæður væru fyrir hendi og á hverju úrskurður sóknaraðila um forsjársviptingu byggðist. Krafa sóknaraðila væri á hinn bóginn byggð á því að dómarinn hefði beint þeirri spurningu til lögmanns hans hvort mark væri takandi á þeim starfsmönnum sóknaraðila sem hefðu haft aðkomu að málinu og jafnframt hvort sóknaraðili byggði málatilbúnað sinn á gögnum eða eingöngu fullyrðingum og hvort lögmaðurinn teldi úrskurð sóknaraðila vera réttan. Í tölvupósti til héraðsdómara sama dag og framangreint þinghald var háð lýsti lögmaður sóknaraðila yfir áhyggjum af hæfi dómarans í ljósi spurninganna. Í þinghaldi 8. janúar 2018 lagði sóknaraðili fram bókun í málinu þar sem hann krafðist þess að héraðsdómari viki sæti í því á grundvelli g-liðar 1. mgr. 5. gr. laga nr. 91/1991.

Í skriflegum athugasemdum héraðsdómara, sem lagðar voru fram með kærumálsgögnum til Landsréttar, sagði að lýsing lögmanns sóknaraðila í kæru á samskiptum þeirra væri ekki nákvæm og að ummæli dómarans um starfsmenn Barnaverndar Reykjavíkur hefðu ekki verið með þeim neikvæðu formerkjum sem lýst var í kæru sóknaraðila. Þegar lögmaður sóknaraðila hafi ekki getað svarað því hver hefði unnið að málinu hafi dómarinn látið þau orð falla að það væri væntanlega starfsmaður sem lögmaðurinn teldi að mark væri á takandi. Til að taka af allan vafa áréttaði dómarinn í athugasemdunum að það væri ekki viðhorf hans að á starfsmönnum Barnaverndar Reykjavíkur væri almennt ekki mark takandi og féllst ekki á að af umræddum orðaskiptum við lögmann sóknaraðila mætti með réttu draga þá ályktun.   

Tilgangur hæfisreglna í réttarfarslögum er að tryggja að dómari sitji ekki í máli nema hann sé óhlutdrægur gagnvart bæði aðilum máls og efni þess, en einnig til að tryggja traust aðilanna til dómstóla með því að koma í veg fyrir að dómari standi að úrlausn máls í tilviki þar sem réttmæt tortryggni gæti risið um óhlutdrægni hans. Að virtum þeim orðum héraðsdómara sem rakin eru hér að framan og hann hefur gengist við að hafa látið falla í samtali sínu við lögmann sóknaraðila þykja þau hlutlægt séð til þess fallin að draga megi óhlutdrægni hans með réttu í efa, sbr. g-lið 1. mgr. 5. gr. laga nr. 91/1991. Er því óhjákvæmilegt að fella hinn kærða úrskurð úr gildi og taka til greina kröfu sóknaraðila um að héraðsdómara verði gert að víkja sæti í málinu.

Rétt er að kærumálskostnaður falli niður.

Úrskurðarorð:

Kristrún Kristinsdóttir héraðsdómari skal víkja sæti í máli þessu.

Kærumálskostnaður fellur niður.

 


Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 10. janúar 2018

Mál þetta var tekið til úrskurðar 8. janúar sl. um þá kröfu stefnanda að dómari víki sæti í málinu. Stefnandi málsins og sóknaraðili í þessum þætti þess er Barnaverndarnefnd Reykjavíkur, Ráðhúsinu við Tjarnargötu í Reykjavík. Stefndu í málinu eru A, […], Reykjanesbæ og B, […], Mosfellsbæ.

Stefnandi gerir þær kröfur í málinu að stefndu verði svipt forsjá dóttur sinnar, C, kt. […], sem nú er vistuð á heimili á vegum stefnanda. Stefndu krefjast sýknu af öllum dómkröfum stefnanda og málskostnaðar. Málið sætir flýtimeðferð samkvæmt XIX. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 53. gr. b barnaverndarlaga nr. 80/2002.

Mál þetta var þingfest 14. desember sl. og var þann dag frestað til framlagningar greinargerðar stefndu til föstudagsins 5. janúar sl. Fyrirtöku málsins var frestað utan réttar til mánudagsins 8. janúar sl. og lagði lögmaður stefndu þá fram greinargerð þeirra ásamt matsbeiðni. Þá krafðist lögmaður stefnanda þess með bókun að dómarinn viki sæti í málinu sökum vanhæfis á grundvelli ákvæðis g-liðar 5. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Lögmaður stefndu krafðist þess að kröfunni yrði hafnað. Krafan var tekin til úrskurðar sama dag þegar lögmenn aðila höfðu lýst sjónarmiðum sínum fyrir dóminum.

Lögmaður stefnanda óskaði eftir því við dómstjóra Héraðsdóms Reykjavíkur 13. desember sl. að hann féllist á flýtimeðferð málsins og gæfi út réttarstefnu og varð hann við því. Með símtali síðdegis sama dag fól dómstjórinn dómaranum Kristrúnu Kristinsdóttur að fara með málið, sem þingfest skyldi daginn eftir, þann 14.desember sl., kl. 10.00, en lögmaður stefndu féll frá stefnufresti. Dómstjórinn upplýsti dómarann í símtalinu um að hann hefði ekki fengið gögn málsins í hendur, heldur yrðu þau afhent við þingfestinguna morguninn eftir.

Á tilsettum tíma lagði lögmaður stefnanda fyrir dómarann stefnu ásamt 124 öðrum dómskjölum sem mörg hver eru umfangsmikil. Þá þegar, áður en þinghald var sett og áður en lögmaður sem sótti þing fyrir stefndu kom í dómsal, spurði dómarinn lögmann stefnanda um málið, m.a. hvar það væri unnið og af hvaða starfsmanni, hvaða aðstæður væru fyrir hendi og á hverju úrskurður stefnanda um forsjársviptingu byggði.

Stefnandi byggir kröfu sína um að dómari víki sæti á því að með spurningum sínum til lögmannsins sé réttmætt að efast um hlutlægni dómara í garð stefnanda. Kveður lögmaður stefnanda spurningarnar hafa verið um hvort mark væri takandi á þeim starfsmönnum Barnaverndar Reykjavíkur sem hafi haft aðkomu að málinu, hvort stefnandi byggi málatilbúnað sinn á gögnum eða eingöngu fullyrðingum og hvort lögmaður telji úrskurð stefnanda vera réttan. Stefnandi telji með hliðsjón af efni þessara gildishlöðnu spurninga sérstaka og verulega hættu vera á því að dómari geti ekki nálgast málið af hlutleysi. Fordæmalaust sé að dómari inni lögmann eftir slíkum atriðum. Þessi orð dómara séu ótvírætt til þess fallin að draga megi með réttu í efa að hugur dómara gagnvart stefnanda sé með þeim hætti að tryggt sé að óhlutdrægni verði gætt við úrlausn málsins.

Krafa stefndu um að kröfunni verði hafnað er studd þeim rökum að ekki sé óeðlilegt að dómari vilji kynna sér um hvað mál snúist sem lagt sé fyrir hann og hverjir hafi komið að því. Í barnaverndarmáli þar sem dómari hefur lögboðna frumkvæðisskyldu við meðferð máls eigi það ekki síst við. Lögmaður stefndu hafi ekki verið viðstaddur samskiptin, en ekki verði séð að það geti valdið vanhæfi dómara þótt lögmaður aðila máls sé inntur eftir svörum við spurningum um málið.

Samkvæmt g-lið 5. gr. laga nr. 91/1991 er dómari vanhæfur til að fara með mál ef fyrir hendi eru atvik eða aðstæður sem eru fallnar til þess að draga óhlutdrægni hans með réttu í efa. Aðili getur krafist þess að dómari víki sæti, svo sem hér er gert, en auk þess gætir dómari að hæfi sínu til að fara með mál af sjálfsdáðum, sbr. 1. mgr. 6. gr. laga um meðferð einkamála. Til þess að gæta að hæfi sínu þarf dómari m.a. að hafa upplýsingar um það hverjir eru aðilar máls og hugsanleg lykilvitni og æskilegt er að það liggi fyrir sem fyrst eftir að dómari hefur fengið máli úthlutað.

Svar við spurningu dómara um hvaða starfsmaður hefði unnið málið hjá Barnavernd Reykjavíkur hafði lögmaðurinn ekki á hraðbergi. Eftir þingfestingu málsins hefur dómari kynnt sér öll gögn þess og komist að raun um að dómari hefur engin þau tengsl við aðila eða mikilvæg vitni í málinu að valdið geti vanhæfi til meðferðar málsins.

Samskiptin áttu sér stað rétt fyrir þingfestingu málsins, en þá ákveður dómari almennt hversu langur frestur er veittur lögmanni gagnaðila til að skila greinargerð. Við spurningum dómara til lögmanns stefnanda um aðstæður í málinu og um grundvöll þess komu fram óljós og hikandi svör. Spurði dómari þá hvort lögmaðurinn þekkti vel þann úrskurð stefnanda sem byggt væri á. Þessu svaraði lögmaðurinn þannig að stefnandi hefði falið borgarlögmanni fyrirsvar og kröfugerð í málinu og því væri málið höfðað og dómkrafan gerð. Fram kemur í gögnum málsins að þetta hafi stefnandi gert með bréfi til borgarlögmanns, dags. 16. október 2017.

Dómarinn hefur margoft áður farið með mál í Héraðsdómi Reykjavíkur sem stefnandi hefur átt aðild að án þess að stefnandi hafi haft uppi kröfu um að dómarinn víki sæti. Krafa stefnanda byggir ekki á neinum atriðum sem varða efni þessa máls sérstaklega. Dómarinn fellst ekki á að spurningar um málið feli í sér viðhorf sem valdi vanhæfi til meðferðar málsins svo sem lögmaður stefnanda heldur fram.

Samkvæmt öllu framansögðu verður ekki fallist á að stefnandi hafi sýnt fram á að fyrir hendi séu atvik eða aðstæður sem eru til þess fallin að draga óhlutdrægni dómarans með réttu í efa, sbr. g-lið 5. gr. laga um meðferð einkamála. Kröfu stefnanda um að dómari víki sæti verður því hafnað.

Úrskurð þennan kveður upp Kristrún Kristinsdóttir héraðsdómari.

Ú r s k u r ð a r o r ð

Kröfu sóknaraðila, Barnaverndarnefndar Reykjavíkur, um að Kristrún Kristinsdóttir héraðsdómari víki sæti, er hafnað.