Mál nr. 142/2018

Ákæruvaldið (Einar Laxness aðstoðarsaksóknari)
gegn
X (Sveinn Andri Sveinsson lögmaður)
Lykilorð
  • 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
  • Gæsluvarðhald
  • C. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
  • Kærumál
Útdráttur

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta áfram gæsluvarðhaldi á grundvelli c-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

 Úrskurður Landsréttar

Landsréttardómararnir Kristbjörg Stephensen, Sigurður Tómas Magnússon og Vilhjálmur H. Vilhjálmsson kveða upp úrskurð í máli þessu.

Varnaraðili skaut málinu til Landsréttar með kæru 31. janúar 2018, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 2. þessa mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 31. janúar 2018, í málinu nr. R-95/2018, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 28. febrúar 2018 klukkan 15. Kæruheimild er í l-lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.        

Ef varnaraðili verður sakfelldur fyrir þau brot, sem hann er sakaður um, er sennilegt að hann verði dæmdur í óskilorðsbundið fangelsi. Af þeim sökum stendur 3. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 því ekki í vegi að fallist verði á kröfuna. Með vísan til þess og að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar er hann staðfestur.

Úrskurðarorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness miðvikudaginn 31. janúar 2018

 

                Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess fyrir dóminum í dag að ákærða, X, kt. […], ríkisborgara […], verði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi til miðvikudagsins 28. febrúar 2018, kl. 16:00.

                Ákærði mótmælir kröfu lögreglustjóra og krefst þess að henni verði hafnað.

I

Í greinargerð lögreglustjóra segir meðal annars að þriðjudaginn 5. desember 2017 hafi ákærði verið handtekinn vegna meintra brota gegn almennum hegningarlögum og lögum um ávana- og fíkniefni. Við athugun á skráningum í málaskrá lögreglu hafi komið fram að ákærði hafði ítrekað komið við sögu lögreglu frá því í september 2017 og til þess dags sem hann var handtekinn, einkum vegna auðgunarbrota, brota gegn umferðarlögum og lögum um ávana- og fíkniefni. Við rannsókn lögreglu hafi einnig komið í ljós að ákærði hafði dvalið hér á landi í stuttan tíma og svo hafi virst sem tengsl hans við landið væru takmörkuð. Hann hafi til að mynda ekki stundað atvinnu hér síðan í september 2017 og virst framfleyta sér með brotastarfsemi. Í ljósi alls þessa hafi það verið mat lögreglu að skilyrðum c-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála væri fullnægt í málinu. Lögreglustjóri hafi því lagt fram kröfu við dóminn 6. desember 2017 um að ákærða yrði gert að sæta gæsluvarðhaldi til 3. janúar 2018 og hafi dómurinn fallist á þá kröfu. Í ljósi umfangs málsins og þess að lagt hafði verið hald á töluvert magn af ætluðu þýfi við rannsókn lögreglu hafi verið farið fram á það 3. janúar sl. fyrir dómnum að gæsluvarðhald yfir ákærða yrði framlengt til miðvikudagsins 31. janúar 2018 og hafi dómurinn fallist á þá kröfu.

Lögreglustjóri segir rannsókn mála ákærða lokið. Embætti héraðssaksóknara hafi gefið út ákæru á hendur ákærða vegna meintra brota hans gegn ákvæðum almennra hegningarlaga, umferðarlaga og laga um ávana- og fíkniefni, sbr. fyrirliggjandi afrit ákæru, dagsett 30. janúar 2018. Embætti ríkissaksóknara hafi falið lögreglustjóra að annast saksókn í málinu, sbr. meðfylgjandi bréf frá 30. desember 2017. Þá liggi jafnframt fyrir ákærudrög vegna annarra mála sem lögreglustjóri hafi ákæruvald í, sbr. meðfylgjandi ákærudrög, dagsett 31. janúar 2018, en stefnt sé að gefa ákæru út á næstu dögum.

Vegna rannsóknar málsins vinni lögregla að því að afla sakavottorðs ákærða frá […], en samkvæmt þeim upplýsingum sem lögreglu hafa borist frá […] yfirvöldum eigi ákærði sakaferil að baki þar í landi, meðal annars vegna auðgunarbrota.

II

Lögreglustjóri segir það mat embættisins að ákærði sé undir rökstuddum grun um að hafa í fjölda skipta á undanförnum vikum framið auðgunarbrot víðsvegar um höfuðborgina, aðallega með því að brjótast inn í bifreiðar, en einnig með því að brjótast inn á heimili fólks. Um þetta vísi lögreglustjóri til þeirra rannsóknargagna lögreglu sem fylgi kröfu hans.

Að mati lögreglustjóra auki það á alvarleika málsins að svo virðist sem að frá því að ákærði flutti hingað til lands hafi hann nær eingöngu framfleytt sér með afbrotum. Svo virðist sem ákærði hafi ekki getað séð sér farborða á annan hátt en með brotastarfsemi og telji lögreglustjóri verulegar líkur á því að ákærði haldi brotastarfsemi sinni áfram verði honum ekki gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi á meðan mál hans er til meðferðar innan refsivörslukerfisins.

          Það sé mat lögreglustjóra að öll skilyrði fyrir áframhaldandi gæsluvarðhaldi séu fyrir hendi í tilviki ákærða. Þannig liggi fyrir rökstuddur grunur um ítrekuð brot gegn almennum hegningarlögum, þ.m.t. auðgunarbrot, brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni og brot gegn umferðarlögum. Samkvæmt framansögðu hafi þegar verið gefin út ákæra á hendur ákærða af hálfu héraðssaksóknara, auk þess sem fyrir liggi ákærudrög vegna þeirra brota sem lögreglustjóri fari með ákæruvald í. Að mati lögreglustjóra séu verulegar líkur á því að ákærði muni hljóta óskilorðsbundinn fangelsisdóm vegna þeirra brota sem honum séu gefin að sök. Skilyrði c-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála séu því uppfyllt og sé þess því krafist að ákærða verði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi.

 III

Fyrir liggur að ákæra hefur verið gefin út á hendur ákærða fyrir hegningar-, umferðar-, lögreglu- og fíkniefnalagabrot. Sakamál á grundvelli ákærunnar, sem barst dómnum í dag og fékk númerið S-[…]/2018 hér fyrir dómi, bíður úthlutunar. Þá hefur lögreglustjóri upplýst að verið sé að leggja lokahönd á aðra ákæru á hendur ákærða vegna fjölmargra ætlaðra brota hans gegn almennum hegningarlögum og sérrefsilögum. Öll hin meintu brot ákærða voru framin á undanförnum nokkrum mánuðum. Hefur ákærði sætt gæsluvarðhaldi á grundvelli c-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála vegna þeirra frá 6. desember 2017.

Samkvæmt framangreindu og fyrirliggjandi rannsóknargögnum þykir mega slá því föstu að ákærði sé undir rökstuddum grun um fjölmörg brot gegn almennum hegningarlögum og sérrefsilögum, sem fangelsisrefsing er lögð við. Á það þykir verða að fallast með lögreglustjóra að ætla megi að ákærði muni halda áfram brotastarfsemi fari hann frjáls ferða sinna. Að hinum meintu brotum ákærða virtum þykir ákvæði 3. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 ekki standa því í vegi að fallist verði á kröfu lögreglustjóra. Samkvæmt þessu og öðru framangreindu þykir vera fullnægt skilyrðum c-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 til að ákærða verði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi og verður krafa lögreglustjóra því tekin til greina með þeim hætti sem nánar greinir í úrskurðarorði.

Úrskurð þennan kveður upp Kristinn Halldórsson héraðsdómari.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Kærði, X, sæti gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 28. febrúar 2018, klukkan 15:00.