Mál nr. 14/2018

Ákæruvaldið (Stefanía G. Sæmundsdóttir saksóknari)
gegn
Stefáni Guðmundssyni (Daníel Isebarn Ágústsson lögmaður), Aðalsteini Steinþórssyni (Páll Rúnar M. Kristjánsson lögmaður), Ingimar Eydal Óskarssyni (Magnús Hrafn Magnússon lögmaður) og Karli Óskari Geirssyni (Bjarki Þór Sveinsson lögmaður)
Lykilorð
 • farþegaflutningar.
 • haffæri.
 • lögskráning.
 • Reglugerð.
 • Sekt.
 • siglingalög.
 • Skipstjóri.
 • Stjórnvaldsákvörðun.
Útdráttur

S, A, I og K voru gefin að sök brot gegn lögum um eftirlit með skipum, reglugerð um leyfi til farþegaflutninga með skipum, siglingalögum, lögum um lögskráningu sjómanna, reglugerð um lögskráningu sjómanna og lögum um áhafnir íslenskra farþegaskipa og flutningaskipa, sem skipstjórar á hvalaskoðunarbátum G ehf. Með dómi Landsréttar voru þeir allir sakfelldir fyrir að hafa siglt með of marga farþega, en S jafnframt sakfelldur fyrir að bera ábyrgð á því sem fyrirsvarsmaður G. Á hinn bóginn voru S og K sýknaðir af þeim sakargiftum að hafa siglt án þess að lögskrá áhöfn áður en farið var á sjó. Auk þess var A sakfelldur fyrir að hafa siglt án skipskjala, en sýknaður af því að hafa ekki verið með vélavörð um borð. Þeim var öllum gerð sektarrefsing fyrir þá háttsemi sem þeir voru sakfelldir fyrir.

 

Dómur Landsréttar

Mál þetta dæma landsréttardómararnir Kristbjörg Stephensen, Sigurður Tómas Magnússon og Vilhjálmur H. Vilhjálmsson.

Málsmeðferð og dómkröfur aðila

 1. Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 12. janúar 2017 í samræmi við yfirlýsingu ákærða Stefáns Guðmundssonar um áfrýjun, en 25. apríl sama ár í samræmi við yfirlýsingar og að fengnum áfrýjunarleyfum vegna ákærðu Aðalsteins Steinþórssonar, Ingimars Eydal Óskarssonar og Karls Óskars Geirssonar. Málið barst Landsrétti 2. janúar 2018, en samkvæmt 1. mgr. 78. gr. laga nr. 49/2016, sbr. 76. gr. laga nr. 117/2016 og 4. gr. laga nr. 53/2017, hefur málið verið rekið fyrir Landsrétti frá þeim tíma. Áfrýjað er dómi Héraðsdóms Norðurlands eystra frá 14. desember 2016 í málinu nr. S-54/2016. Málið var upphaflega höfðað með fjórum ákærum 26. febrúar 2016 en rekið sem eitt mál undir framangreindu málsnúmeri frá þingfestingu 7. apríl 2016.
 2. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur að því er varðar sakfellingu ákærðu og að ákærði Stefán verði auk þess sakfelldur fyrir að hafa, sem framkvæmdastjóri útgerðarinnar Gentle Giants – Hvalaferða ehf., brotið gegn lögum nr. 35/2010 og reglugerð nr. 817/2010, hvorum tveggja um lögskráningu sjómanna, vegna ferðar farþegabátsins Ömmu Siggu ÞH-7790 24. júlí 2015. Þá krefst ákæruvaldið þess að refsing ákærðu sem ákveðin var í hinum áfrýjaða dómi verði þyngd.
 3. Ákærði Stefán gerir aðallega kröfu um að dómi héraðsdóms verði hrundið og breytt á þann veg að hann verði sýknaður af öllum kröfum ákæruvaldsins en til vara að refsing hans verði felld niður eða lækkuð.
 4. Ákærðu Aðalsteinn, Ingimar Eydal og Karl Óskar krefjast þess aðallega að þeir verði sýknaðir af öllum kröfum ákæruvaldsins en til vara að refsing þeirra verði felld niður eða lækkuð.
 5. Af hálfu málsaðila hafa ekki komið fram óskir um munnlega sönnunarfærslu fyrir Landsrétti eða spilun á upptökum af framburði í héraði og dómurinn hefur ekki talið að slík sönnunarfærsla hafi þýðingu við endurskoðun hins áfrýjaða dóms.

  Málsatvik og sönnunarfærsla
 6. Svo sem greinir í hinum áfrýjaða dómi gerir félagið Gentle Giants-Hvalaferðir ehf. út farþegabáta til hvalaskoðunarferða frá Húsavík. Ákærði Stefán er framkvæmdastjóri félagsins. Farþegabátarnir Amma Sigga ÞH 7790 og Amma Kibba ÞH 7775 voru notaðir til slíkra hvalaskoðunarferða sumarið 2015. Um er að ræða opna farþegabáta og er annar þeirra hannaður til að flytja allt að 22 farþega en hinn allt að 24 farþega,  auk tveggja manna áhafnar. Farnar voru allt að fimm ferðir daglega á hvorum báti og skipt um áhöfn innan dagsins.
 7. Landhelgisgæsla Íslands hafði afskipti af ferðum farþegabátsins Ömmu Siggu 24., 27. og 28. júlí 2015. Landhelgisgæslan hlutaðist til um að lögreglan á Norðurlandi eystra tæki á móti bátnum þegar hann kæmi í höfn á Húsavík og kannaði hversu margir farþegar væru um borð og hverjir væru í áhöfn. Í ferðinni 24. júlí var ákærði Karl Óskar skipstjóri en með honum í áhöfn var leiðsögumaður og reyndust 24 vera um borð. Í ferðinni 27. júlí var ákærði Stefán skipstjóri og reyndust 20 vera um borð. Í ferðinni 28. júlí var ákærði Stefán skipstjóri og með honum í áhöfn var háseti og reyndust 18 vera um borð. Í kæru Landhelgisgæslunnar 28. júlí 2015 vegna ferðanna 24. og 27. júlí og kæru 29. júlí 2015 vegna ferðarinnar 28. júlí, kom fram að við athugun á lögskráningu hefði komið í ljós að enginn væri lögskráður á bátinn í umrædd skipti og að fengist hafi staðfestingar á því frá Samgöngustofu.
 8. Landhelgisgæslan hafði enn fremur afskipti af ferðum farþegabátsins Ömmu Siggu 20. september 2015 og fór starfsmaður hennar þá um borð til eftirlits. Í ferðinni var ákærði Aðalsteinn skipstjóri en 13 farþegar reyndust vera um borð. Í kæru Landhelgisgæslunnar 21. september 2015 vegna ferðarinnar kemur fram að við athugun á atvinnuréttindum og lögskráningu hafi komið í ljós að enginn vélavörður var um borð og engin undanþága frá mönnunarnefnd. Einnig hafi komið í ljós að engin skipsskjöl voru um borð.
 9. Landhelgisgæslan hafði afskipti af ferðum farþegabátsins Ömmu Kibbu 24. og 28. júlí 2015 og óskaði eftir því að lögregla tæki á móti bátnum þegar hann kæmi í höfn og kannaði hversu margir farþegar væru um borð og hverjir væru í áhöfn. Í ferðinni 24. júlí var ákærði Ingimar Eydal skipstjóri og var hann ásamt háseta lögskráður á bátinn en 20 reyndust vera um borð. Í ferðinni 28. júlí var ákærði Aðalsteinn skipstjóri og var hann ásamt háseta lögskráður á bátinn en 18 reyndust vera um borð.
 10. Í málinu liggur fyrir haffærisskírteini vegna farþegabátsins Ömmu Siggu, útgefið af Samgöngustofu 31. júlí 2015, með gildistíma til 31. október 2015 og haffærisskírteini vegna farþegabátsins Ömmu Kibbu, útgefið af Samgöngustofu 14. apríl 2015, með gildistíma til 31. október 2015. Skírteinin fela bæði í sér leyfi til farþegaflutninga og kemur þar fram að hámarksfjöldi farþega sé 12. Þá kemur þar fram um öryggismönnun að ávallt þurfi að vera að minnsta kosti tveir menn í áhöfn. Í málinu liggur enn fremur fyrir útprentun úr skipaskrá með yfirskriftinni „Farþegaleyfi“ sem virðist sýna að farþegabáturinn Amma Sigga hafi á tímabilinu 3. júlí til 1. ágúst 2015 haft leyfi til að flytja að hámarki 12 farþega.
 11. Í málinu liggja fyrir tölvupóstsamskipti ákærða Stefáns við starfsmenn Samgöngustofu frá því í ágúst og september 2015. Í tölvupósti 25. ágúst 2015 óskaði ákærði Stefán eftir staðfestingu Samgöngustofu á því að farþegafjöldi í farþegabátum af sömu gerð og Amma Sigga og Amma Kibba miðaðist við borgandi farþega. Einnig að farþegar í einkaerindum á vegum útgerðarinnar teldust ekki falla undir skilgreiningu á farþegaleyfi og að björgunarleiðangrar lytu engum takmörkunum á farþegafjölda. Í svari lögfræðings hjá Samgöngustofu 18. september 2015 segir að reglugerðin fjalli um skip sem flytji farþega í atvinnuskyni. Þegar ekki væri um að ræða flutning í atvinnuskyni yrði því að ætla að reglugerðin ætti ekki við. Hafa bæri í huga að bátarnir væru notaðir í atvinnuskyni og skráðir þannig og stofnunin gengi út frá þeirri forsendu að þeir væru notaðir í atvinnuskyni. Þegar um væri að ræða einkaerindi eða björgunaraðgerðir yrði að ætla að reglugerðin ætti ekki við. Í tölvupósti 25. ágúst 2015 til Samgöngustofu óskaði ákærði Stefán meðal annars eftir staðfestingu á því að lögskráningarkerfi sjómanna hefði ekki virkað sem skyldi og að kerfið væri í endurbótaferli. Í svari forstjóra Samgöngustofu sama dag kom fram að unnið væri að endurnýjun á skipaskrá og lögskráningarkerfi sjómanna. Forstjórinn kvað vitneskju vera hjá Samgöngustofu um einstaka hnökra í uppitíma lögskráningarkerfisins en í þeim tilvikum hefði boðum verið komið til stofnunarinnar. Hann kannaðist ekki við kvartanir um að lögskráning hefði ekki tekist þess vegna.
 12. Meðal nýrra gagna sem lögð hafa verið fram fyrir Landsrétti eru tölvupóstar sem B lögreglumaður sendi Samgöngustofu vegna rannsóknar málsins. Í tölvupósti 2. desember 2015 var vísað til framburðar Stefáns Guðmundssonar um að ekki hafi verið unnt að lögskrá bátana Ömmu Siggu og Ömmu Kibbu í lögskráningarkerfi Samgöngustofu dögum og vikum saman. Í tilefni af því óskaði lögreglumaðurinn eftir upplýsingum um hvort kerfi Samgöngustofu hefðu legið niðri 24., 27. og 28. júlí eða öðru sem gæti skýrt framburð ákærða Stefáns. Jafnframt var vísað til þess að Aðalsteinn Steinþórsson hefði haldið því fram að hann hefði, í sjóferð á Ömmu Siggu 21. september 2015, haft undanþágu til að gegna vélavarðarstöðu en ekki hefði verið unnt að skrá sama manninn sem skipstjóra og vélavörð vegna tæknilegra örðugleika við lögskráningarkerfið. Lögreglumaðurinn beindi þeirri spurningu til Samgöngustofu hvort ákærði Aðalsteinn hefði haft undanþágu til að gegna vélavarðarstöðu á bátnum Ömmu Siggu 21. september 2015. Í framburði lögreglumannsins fyrir dómi kom fram að ekki hefðu borist svör frá Samgöngustofu við fyrirspurnunum þrátt fyrir ítrekanir.
 13. Meðal nýrra gagna fyrir Landsrétti er yfirlýsing fyrirsvarsmanna fjögurra hvalaskoðunarfyrirtækja frá því í október 2016 þar sem þeir lýsa því yfir að lögskráningarkerfi Samgöngustofu hafi verið haldið allnokkrum og mismunandi hnökrum undanfarin misseri, allt frá því að samþykkja ekki skráningu á starfsmönnum með fullgild réttindi og til þess að liggja niðri heilu dagana.

  Málsástæður aðila
  Málsástæður ákæruvaldsins
 14. Af hálfu ákæruvaldsins er því haldið fram að ákærði Stefán beri refsiábyrgð á vanrækslu á lögskráningu bæði sem skipstjóri og útgerðarmaður þar sem í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 35/2010 um lögskráningu sjómanna segi meðal annars að skipstjóri beri ábyrgð á því að lögskráning fari fram en honum sé heimilt að fela útgerðarmanni að annast lögskráninguna og hafi það verklag tíðkast í útgerð ákærða Stefáns.
 15. Af ákæruvaldsins hálfu er sýknuástæðum ákærðu hafnað. Þá telur ákæruvaldið að ekki sé samræmi í hinum áfrýjaða dómi milli þess sem sakborningar séu sakfelldir fyrir og þeirrar refsingar sem þeim hafi verið gerð.

  Málsástæður ákærðu
 16. Af hálfu allra ákærðu er því haldið fram að sú stjórnvaldsákvörðun Samgöngustofu að takmarka hámarksfjölda farþega um borð í bátunum Ömmu Siggu og Ömmu Kibbu við 12 hafi verið ólögmæt og markleysa þar sem hún hafi ekki verið undirbúin með fullnægjandi hætti og ekki átt stoð í lögum. Skýra lagastoð skorti fyrir því að takmarka farþegafjölda farþegabáts við helming þess fjölda sem hann sé hannaður og smíðaður til þess að flytja. Slík takmörkun sé íþyngjandi og skerðing á atvinnufrelsi.
 17. Af hálfu allra ákærðu er því jafnframt haldið fram að með hámarksfjölda farþega, samkvæmt haffærisskírteini bátanna, sé átt við hámarksfjölda borgandi farþega, enda séu aðrir farþegar ekki fluttir í atvinnuskyni. Í umræddum sex ferðum hafi þeir farþegar sem voru umfram 12 ýmist verið boðsgestir eða starfsmenn útgerðar sem ekki hafi greitt fargjald og því ekki verið farþegar í skilningi 5. mgr. 1. gr. laga nr. 47/2003 um eftirlit með skipum eða reglugerðar nr. 463/1998 um leyfi til farþegaflutninga með skipum.
 18. Af hálfu allra ákærðu er byggt á því að engri refsiverðri háttsemi sé lýst í þeim ákvæðum sem vísað sé til í ákærum hvað varðar farþegafjölda og því andstætt 69. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 1. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 að sakfella ákærðu á grundvelli þeirra ákvæða.
 19. Af hálfu ákærðu Stefáns og Karls Óskars er krafa um sýknu, að því er varðar meint brot á lögum og reglugerð um lögskráningu sjómanna, byggð á því að lögskráningarkerfi Samgöngustofu hafi verið í ólagi og legið niðri á þeim tíma sem umræddar ferðir voru farnar á farþegabátnum Ömmu Siggu 24., 27. og 28. júlí 2015. Því hafi ekki verið unnt að skrá áhafnir bátsins inn í kerfið. Af hálfu ákærða Aðalsteins er byggt á sömu varnarástæðu að því er varðar meint brot hans á lögum nr. 30/2007 um áhafnir íslenskra farþegaskipa og flutningaskipa. Þá er því haldið fram af hans hálfu að skipsskjöl hafi verið um borð en hann ekki vitað hvar þau voru geymd.
 20. Af hálfu ákærðu Aðalsteins og Ingimars Eydal er byggt á því að samkvæmt forsendum héraðsdóms virðist sem þeir hafi verið sakfelldir og gerð refsing vegna brota gegn lögum nr. 35/2010 enda þótt þeim hafi ekki verið gefin slík brot að sök í ákærum. 

  Niðurstaða Landsréttar
 21. Í 5. mgr. 1. gr. laga nr. 47/2003 er kveðið á um að farþegaflutningar í atvinnuskyni með skipum sem lögin gilda um séu háðir leyfi Samgöngustofu, þar með taldar skoðunar- og veiðiferðir ferðamanna. Slíkt leyfi skuli gefið út þegar í ljós er leitt að fullnægt sé ákvæðum laganna og reglugerða settra samkvæmt þeim. Enn fremur segir þar að ráðherra sé heimilt að setja reglugerð um útgáfu og skilyrði leyfis. Í 29. gr. laganna segir að brot gegn þeim eða reglum settum samkvæmt þeim varði sektum eða fangelsi allt að tveimur árum. Þegar lögin voru sett var í gildi reglugerð nr. 463/1998 um leyfi til farþegaflutninga með skipum sem sett var á grundvelli heimildar í eldri lögum um eftirlit með skipum nr. 35/1993. Í 1. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 463/1998 er kveðið á um að það sé hlutverk Siglingastofnunar Íslands að ákveða leyfilegan hámarksfjölda farþega á skipi og í 1. mgr. 3. gr. að farþegaflutningar í atvinnuskyni með skipum séu háðir slíku leyfi Siglingamálastofnunar Íslands. Þegar þau atvik áttu sér stað sem ákærur lúta að var reglugerð þessi enn í gildi og hafði ekki verið breytt þótt Samgöngustofa hefði tekið við framangreindu hlutverki Siglingamálastofnunar Íslands 1. júlí 2013 á grundvelli laga nr. 119/2012 um Samgöngustofu, stjórnsýslustofnun samgöngumála. Líta verður svo á að umrædd reglugerðarákvæði hafi átt næga stoð í lögum nr. 47/2003 á þeim tíma sem atvik málsins áttu sér stað.
 22. Fyrir liggur að Samgöngustofu og útgerð farþegabátanna Ömmu Siggu og Ömmu Kibbu greindi á um hver hámarksfjöldi farþega í bátunum ætti að vera. Ekki liggur hins vegar annað fyrir en að ákvarðanir um hámarksfjölda farþega í umræddum farþegabátum hafi verið teknar af bæru stjórnvaldi. Hámarksfjöldi farþega kom fram með skýrum hætti í þágildandi farþegaleyfum og óumdeilt er að ákærðu var kunnugt um þennan hámarksfjölda farþega. Þá voru ekki á ákvörðununum neinir formlegir eða efnislegir annmarkar sem heimiluðu ákærðu að virða að vettugi þær takmarkanir á hámarksfjölda farþega sem fram komu í leyfunum.
 23. Af framangreindu ákvæði 5. mgr. 1. gr. laga nr. 47/2003 og öðrum ákvæðum laganna er ljóst að þeim er meðal annars ætlað að stuðla að öryggi skipverja og farþega. Með hliðsjón af því verður að telja að ákvæði 1. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 463/1998, sem miðar að því binda leyfi til farþegaflutninga við tiltekinn hámarksfjölda farþega, hafi stoð í 5. mgr. 1. gr. laga um eftirlit með skipum. Í 2. tölul. 2. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar kemur fram með skýrum hætti að leyfilegur hámarksfjöldi farþega skuli koma fram í leyfisskírteini til farþegaflutninga. Umrædd lagaákvæði og reglugerðarákvæði setja þannig skýran ramma um þá tiltölulega einföldu og auðskildu hátternisreglu að farþegafjöldi í farþegaskipum takmarkist við þann fjölda sem fram kemur í farþegaleyfi útgefnu af Samgöngustofu. Þótt refsiákvæði 29. gr. laga nr. 47/2003 og 6. gr. reglugerðar nr. 463/1998 séu tiltölulega almennt orðuð þykja þau að þessu leyti fullnægja kröfum 69. gr. stjórnarskrár og 1. mgr. 1. gr. almennra hegningarlaga um skýrleika refsiheimilda.
 24. Við úrlausn þess hverjir teljist farþegar í þessu tilliti er rétt að byggja á hugtakinu farþegi í reglugerð nr. 463/1998 en samkvæmt 1. mgr. 1. gr. hennar gildir hún um öll íslensk skip sem flytja farþega í atvinnuskyni, á sjó, ám eða vötnum án tillits til stærðar. Í 3. mgr. 1. gr. segir að með farþega í reglugerðinni sé átt við hvern mann, eins árs að aldri eða eldri, sem er á skipi og er ekki skipverji. Í ferðum sem á annað borð eru farnar með farþega í atvinnuskyni er þannig óhjákvæmilegt að líta svo á að allir um borð, eldri en eins árs, aðrir en áhöfn skipsins, teljist farþegar hvort sem um er að ræða borgandi farþega, boðsgesti eða aðra. Það að umræddir bátar voru hannaðir og búnir fyrir fleiri farþega en leyfi var fyrir fær þessu ekki breytt. Þá er ekki unnt að túlka svar lögfræðings Samgöngustofu 18. september 2015 við tölvupósti ákærða Stefáns eða framburð hans fyrir héraðsdómi með þeim hætti að takmarkanir á farþegafjölda í ferðum í atvinnuskyni tækju aðeins til borgandi farþega.
 25. Í 29. gr. laga 47/2003 og 6. gr. reglugerðar nr. 463/1998 er ekki afmarkað hverjir geti borið refsiábyrgð á brotum sem þar er lögð refsing við. Kveðið er á um skyldur skipstjóra í III. kafla siglingalaga nr. 34/1985 og um ábyrgð skipstjóra á haffærni skips og fleiru í 9. gr. laga nr. 47/2003.  Óumdeilt er að umræddar sex ferðir farþegabátanna Ömmu Siggu og Ömmu Kibbu voru farnar með ferðamenn í atvinnuskyni. Ákærðu hafa ekki mótmælt niðurstöðum talningar lögreglu og Landhelgisgæslu á heildarfjölda farþega um borð í bátunum. Sem skipstjórum bar ákærðu að sjá til þess að ekki væru fleiri farþegar um borð en leyfi Samgöngustofu kvað á um. Undan þessari ábyrgð losnuðu ákærðu ekki þótt sala og afhending farmiða færi fram í landi á vegum útgerðar bátanna. Ákærðu báru því refsiábyrgð á því að í ferðunum voru fleiri farþegar en sá hámarksfjöldi sem farþegaleyfi Samgöngustofu kváðu á um. Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður ákærði Stefán einnig sakfelldur vegna fjölda farþega umfram hámarksfarþegafjölda í þeim ferðum sem hann var ekki skipstjóri.
 26. Ákærða Karli Óskari er gefið að sök að hafa siglt farþegabátnum Ömmu Siggu 24. júlí 2015 án þess að lögskrá áhöfnina áður en farið var á sjó. Ákærða Stefáni er gefin að sök sama háttsemi í sjóferð 27. júlí 2015. Samkvæmt ákærum eru þeir taldir hafa sem skipstjórar brotið gegn lögum 35/2010 og reglugerð um sama efni en ákærða Stefáni er auk þess í báðum tilvikum gefið að sök brot gegn þessum refsiákvæðum sem framkvæmdastjóri útgerðar farþegabátanna.
 27. Í kærum Landhelgisgæslunnar vegna umræddra ferða segir það eitt að við athugun á lögskráningu hafi komið í ljós að enginn hafi verið lögskráður á bátana og hafi fengist staðfesting á því frá Samgöngustofu. Umræddar staðfestingar liggja ekki fyrir í málinu. Í málinu liggja heldur ekki fyrir neinar aðrar skjallegar upplýsingar um lögskráningu sjómanna á farþegabátunum Ömmu Siggu og Ömmu Kibbu frá því tímabili sem um ræðir, hvorki upplýsingar úr lögskráningarkerfi Samgöngustofu né yfirlýsingar stofnunarinnar.
 28. Ákærðu hafa borið því við að hnökrar hafi verið á notkun lögskráningarkerfisins sem hafi valdið því að ekki var unnt að lögskrá beint í kerfið. Þessar varnir hafa nokkra stoð í tölvupósti forstjóra Samgöngustofu til ákærða Stefáns 25. ágúst 2015. Þá bar C, […] hjá Landhelgisgæslunni, fyrir héraðsdómi að starfsmenn hennar hefðu orðið varir við hnökra á lögskráningarkerfi Samgöngustofu og þá sérstaklega rafrænni skráningu um helgar. Þessir hnökrar virðast meðal annars hafa komið upp þegar skrá þurfti fleiri en eina áhöfn á sama bát sama daginn eða sömu skipverja á fleiri en einn bát sama daginn. Í framlögðum tölvupósti D, lögfræðings Samgöngustofu, 29. júní 2015 til ákærða Stefáns segir að lögskráningarkerfið ráði ekki við sérreglur á bátunum. Umbætur gangi ekki jafn hratt og æskilegt væri. Til að lögskrá megi áhafnarmeðlimi þurfi að færa inn undanþágu en það megi gera með því að hringja til Samgöngustofu eða senda inn lista yfir áhafnarmeðlimi. Í tölvupósti E, […] hjá Samgöngustofu, 25. október 2016 segir að lögskráningarkerfi sem nú sé í notkun hafi ekki verið hannað til lögskráningar á fleiri skip sama daginn. Samkvæmt framlögðum gögnum liggur fyrir að Samgöngustofa hafi síðar gert ráðstafanir til að bæta úr framangreindum annmörkum á kerfinu.
 29. Í málinu liggur fyrir að þegar lögskráningarkerfi Samgöngustofu lá niðri eða hnökrar voru á skráningu í það hafi verið unnt að senda Samgöngustofu beiðni um lögskráningu, meðal annars í tölvupósti. Af hálfu ákærðu er látið að því liggja að sú leið hafi í einhverjum tilvikum verið farin af hálfu útgerðar Ömmu Siggu og Ömmu Kibbu. Ekki liggur hins vegar fyrir hvort það hafi verið reynt í umræddum tilvikum.
 30. Samkvæmt framlögðum tölvupóstum 2. desember 2015 óskaði lögregla eftir því að Samgöngustofa upplýsti hvort kerfi hennar hefðu legið niðri 24., 27. og 28. júlí 2015. Upplýst þykir að fyrirspurninni var ekki svarað þrátt fyrir ítrekanir. Samkvæmt því hefur ekki verið gengið úr skugga um hvort hnökrar hafi verið á lögskráningarkerfinu þá daga sem um ræðir í máli þessu. 
 31. Samkvæmt 108. gr. laga nr. 88/2008 hvílir sönnunarbyrði um sekt ákærða og atvik, sem telja má honum í óhag, á ákæruvaldinu. Með vísan til ófullkominna sönnunargagna um skort á lögskráningu í umræddum ferðum og skorts á svörum Samgöngustofu við fyrirspurnum lögreglu, þykir ákæruvaldinu ekki hafa tekist að færa fram nægilega sönnun, sem ekki verði véfengd með skynsamlegum rökum, um að ákærðu hafi gerst sekir um brot á lögum og reglugerð um lögskráningu.
 32. Ákærða Aðalsteini er meðal annars gefið að sök að hafa verið við skipstjórn á farþegabátnum Ömmu Siggu á Skjálfandaflóa 20. september 2015 án þess að vera með vélavörð. Af ákæruvaldsins hálfu er byggt á því að brotið varði við 1. og 3. mgr. 12. gr., sbr. 1. mgr. 15. gr. laga nr. 76/2001 um áhafnir íslenskra farþegaskipa og flutningaskipa. Í 3. mgr. 12. gr. laganna segir að Samgöngustofa ákveði mönnun farþegaskipa, farþegabáta og flutningaskipa. Í þágildandi haffærisskírteini Ömmu Siggu kemur fram um öryggismönnun að skipstjóri og smáskipavélavörður skuli vera um borð. Skipstjóri megi þó gegna báðum stöðunum hafi hann tilskilin réttindi í þær báðar. Háseta þurfi þá til viðbótar í áhöfn.
 33. Í kæru Landhelgisgæslunnar 21. september 2015 kom fram að við athugun á réttindum og lögskráningu hafi komið í ljós að enginn vélavörður hafi verið um borð og engin undanþága verið frá mönnunarnefnd.
 34. Í framburði ákærða Stefáns fyrir héraðsdómi kom fram að sótt hefði verið um undanþágu vegna ákærða Aðalsteins til vélgæslustarfa þar sem hann hefði ekki komist á námskeið í vélgæslu. Hann virtist þó ekki vita um afdrif þeirrar undanþágubeiðni. Ákærði Aðalsteinn bar fyrir héraðsdómi að hann hefði, eftir því sem hann best vissi, verið með slíka undanþágu. Í greinargerð ákærða Aðalsteins til Landsréttar er því haldið fram að hann hafi verið með gilda undanþágu til þess að gegna starfi vélavarðar samhliða skipstjórastarfinu en vegna hnökra á lögskráningu virðist sú undanþága ekki hafa verið skráð.
 35. Eins og áður hefur verið rakið virðast hafa verið hnökrar á skráningu í lögskráningarkerfi Samgöngustofu hvað varðar áhafnir farþegabáta af þeirri gerð sem hér um ræðir og lögskráningarkerfið ekki sniðið að þeim undanþágum sem heimilt var að veita vegna áhafna þessara báta. Samkvæmt framlögðum tölvupóstum 2. og 22. desember 2015 óskaði lögregla eftir því að Samgöngustofa upplýsti hvort ákærði Aðalsteinn hefði haft gilda undanþágu sem vélavörður á bátnum Ömmu Siggu á þeim tíma sem um ræðir. Lögreglumaðurinn sem sendi fyrirspurnina bar fyrir héraðsdómi að fyrirspurninni hefði ekki verið svarað þrátt fyrir ítrekanir.
 36. Í málinu liggja ekki fyrir nein skjalleg gögn sem styðja fullyrðingar í kæru Landhelgisgæslunnar um að ákærði Aðalsteinn hafi ekki haft undanþágu til að gegna starfi vélavarðar samhliða starfi skipstjóra og Samgöngustofa hefur ekki svarað fyrirspurn lögreglu þar að lútandi. Með vísan til ófullkominna sönnunargagna þykir vera slíkur vafi um réttindamál ákærða Aðalsteins að óhjákvæmilegt er að sýkna hann af broti gegn ákvæðum laga nr. 76/2001.
 37. Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður niðurstaða hans staðfest hvað varðar brot ákærða Aðalsteins gegn 2. mgr. 8. gr., sbr. 233. gr. siglingalaga, enda þykir ákvæði 242. gr. laganna, sem mælir fyrir um skyldu til að tilkynna ráðuneyti um fyrirhugaða málshöfðun, ekki fela í sér málshöfðunarskilyrði.
 38. Með vísan til framangreinds og forsendna hins áfrýjaða dóms að öðru leyti þykir refsing ákærðu ákveðin með eftirfarandi hætti.
 39. Refsing ákærða Stefáns þykir hæfilega ákveðin 600.000 króna sekt, sem greiðist innan fjögurra vikna frá birtingu dóms þessa að telja, en sæti ella 32 daga fangelsi.
 40. Við refsingu ákærða Aðalsteins er tekið tillit til þess að hann er eingöngu sakfelldur fyrir að hafa flutt fleiri farþega en hámarksfjöldi samkvæmt farþegaleyfi Samgöngustofu mælti fyrir um og að hafa ekki skipsskjöl um borð. Refsing hans þykir hæfilega ákveðin 150.000 króna sekt, sem greiðist innan fjögurra vikna frá birtingu dóms þessa að telja, en sæti ella 12 daga fangelsi.
 41. Við refsingu ákærða Ingimars Eydal er tekið tillit til þess að hann er eingöngu sakfelldur fyrir að hafa flutt fleiri farþega en hámarksfjöldi samkvæmt farþegaleyfi Samgöngustofu mælti fyrir um. Refsing hans þykir hæfilega ákveðin 120.000 króna sekt, sem greiðist innan fjögurra vikna frá birtingu dóms þessa að telja, en sæti ella 10 daga fangelsi.
 42. Refsing ákærða Karls Óskars þykir hæfilega ákveðin 200.000 króna sekt, sem greiðist innan fjögurra vikna frá birtingu dóms þessa að telja, en sæti ella 14 daga fangelsi.
 43. Ákvæði héraðsdóms um málsvarnarlaun verjenda ákærðu og útlagðan kostnað þeirra verða staðfest.
 44. Eftir þessum úrslitum verða ákærðu hver um sig dæmdir til að greiða helming sakarkostnaðar málsins á báðum dómstigum samkvæmt yfirliti ríkissaksóknara og ákvörðun Landsréttar um málsvarnarlaun skipaðra verjenda fyrir Landsrétti, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Ákærði Stefán Guðmundsson greiði 600.000 krónur í sekt í ríkissjóð innan fjögurra vikna frá uppkvaðningu dómsins en sæti ella 32 daga fangelsi.

Ákærði Aðalsteinn Steinþórsson greiði 150.000 krónur í sekt í ríkissjóð innan fjögurra vikna frá uppkvaðningu dómsins en sæti ella 12 daga fangelsi.

Ákærði Ingimar Eydal Óskarsson greiði 120.000 krónur í sekt í ríkissjóð innan fjögurra vikna frá uppkvaðningu dómsins en sæti ella 10 daga fangelsi.

Ákærði Karl Óskar Geirsson greiði 200.000 krónur í sekt í ríkissjóð innan fjögurra vikna frá uppkvaðningu dómsins en sæti ella 14 daga fangelsi.

Ákvæði héraðsdóms um málsvarnarlaun verjenda ákærðu og útlagðan kostnað þeirra eru óröskuð.

Ákærði Stefán greiði helming málsvarnarlauna skipaðs verjanda síns í héraði, Daníels Isebarn Ágústssonar lögmanns, 1.023.000 króna og útlagðs kostnaðar hans, 81.931 krónu, svo og helming málsvarnarlauna sama verjanda fyrir Landsrétti, 500.000 króna.

Ákærði Aðalsteinn greiði helming málsvarnarlauna skipaðs verjanda síns í héraði, Páls Rúnars M. Kristjánssonar lögmanns, 777.480 króna og útlagðs kostnaðar hans, 81.931 krónu, svo og helming málsvarnarlauna sama verjanda fyrir Landsrétti, 350.000 króna.

Ákærði Ingimar Eydal greiði helming málsvarnarlauna skipaðs verjanda síns í héraði, Sigríðar Dísar Guðjónsdóttur lögmanns, 777.480 króna og útlagðs kostnaðar hennar, 81.931 krónu, svo og helming málsvarnarlauna verjanda síns fyrir Landsrétti, Magnúsar Hrafns Magnússonar lögmanns, 350.000 króna.

Ákærði Karl Óskar greiði helming málsvarnarlauna skipaðs verjanda síns í héraði, Bjarka Þórs Sveinssonar lögmanns, 777.480 króna og útlagðs kostnaðar hans, 81.931 krónu, svo og helming málsvarnarlauna sama verjanda fyrir Landsrétti, 350.000 króna.

Ákærðu greiða óskipt helming annars sakarkostnaðar fyrir Landsrétti sem er 32.800 krónur.

Sakarkostnaður greiðist að öðru leyti úr ríkissjóði.

 


Dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra miðvikudaginn 14. desember 2016

 Mál þetta sem dómtekið var 19. október sl., höfðaði lögreglustjórinn á Norðurlandi eystra með fjórum ákærum útgefnum 26. febrúar 2016, á hendur Stefáni Guðmundssyni, kt. […], […], Garðabæ, Aðalsteini Steinþórssyni, kt. […], […], Húsavík, Karli Óskari Geirssyni, kt. […], […], Húsavík og Ingimar Eydal, kt. […], […], Húsavík.

 Ákært er í máli nr. S-54/2016 á hendur Stefáni Guðmundssyni:

„...fyrir brot á lögum um eftirlit með skipum, reglugerð um leyfi til farþegaflutninga með skipum, siglingalögum, lögum um lögskráningu sjómanna og reglugerð um lögskráningu sjómanna, með því að hafa föstudaginn 27. júlí 2015, gert út og verið við skipstjórn á farþegabátnum Ömmu Siggu, skipaskrárnúmer 7790, á Skjálfandaflóa, með 18 farþega um borð í bátnum, en farþegabáturinn hafði aðeins leyfi til að flytja 12 farþega, og aðeins með tryggingu fyrir þeim fjölda og án þess að lögskrá áhöfnina áður en hann fór á sjó, en ákærði er stjórnarformaður og framkvæmdastjóri útgerðaraðilans Gentle Giants-Hvalaferða ehf.

Telst þetta varða við 5. mgr. 1. gr., sbr. 29. gr., laga nr. 47/2003, um eftirlit með skipum, með síðari breytingum, 1. mgr. 2. gr., 1. mgr. 3. gr. og 2. ml. 1. gr. 4. gr., sbr. 6. gr. reglugerðar nr. 463/1998, um leyfi til farþegaflutninga með skipum, með síðari breytingum, 1. mgr. og 2. mgr. 4. gr., sbr. 9. gr. laga nr. 35, 2010 um lögskráningu sjómanna, með síðari breytingum, 1. mgr. 2. gr., sbr. 8. gr., reglugerðar nr. 817, 2010, um lögskráningu sjómanna, með síðari breytingum og 4. mgr. 145. gr., sbr. 239. gr. og 241. gr. siglingalaga nr. 34, 1985, með síðari breytingum.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“

 Ákært er í máli nr. S-55/2016 á hendur Aðalsteini Steinþórssyni:

„...fyrir brot á lögum um eftirlit með skipum, reglugerð um leyfi til farþegaflutninga með skipum, siglingalögum og lögum um áhafnir íslenskra farþegaskipa og flutningaskipa, með því að hafa sunnudaginn 20. september 2015, verið við skipstjórn á farþegabátnum Ömmu Siggu, skipaskrárnúmer 7790, á Skjálfandaflóa, með 13 farþega um borð í bátnum, en farþegabáturinn hafði aðeins leyfi til að flytja 12 farþega, og aðeins með tryggingu fyrir 12 farþega, án þess að vera með vélavörð um borð og engin skipsskjöl.

Telst þetta varða við 5. mgr. 1. gr., sbr. 29. gr., laga nr. 47/2003, um eftirlit með skipum, með síðari breytingum, 1. mgr. 2. gr., 1. mgr. 3. gr., og 2. ml. 1. mgr. 4. gr., sbr. 6. gr. reglugerðar nr. 463/1998, um leyfi til farþegaflutninga með skipum, með síðari breytingum, 1. mgr. og 3. mgr. 12. gr., sbr. 1. mgr. 15. gr. laga nr. 76, 2001, um áhafnir íslenskra farþegaskipa og flutningaskipa, með síðari breytingum og 2. mgr. 8. gr. og 4. mgr. 145. gr., sbr. 233. gr. siglingalaga nr. 34, 1985, sbr. og 1. mgr. 6. gr. og 1. mgr. 7. gr. sömu laga.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“

 Ákært er í máli nr. S-56/2016 á hendur Stefáni Guðmundssyni og Aðalsteini Steinþórssyni:

„...fyrir eftirtalin brot á lögum um eftirlit með skipum, reglugerð um leyfi til farþegaflutninga með skipum, siglingalögum, lögum um lögskráningu sjómanna og reglugerð um lögskráningu sjómanna:

 I.

Gegn ákærða Stefáni, fyrir að hafa þriðjudaginn 28. júlí 2015, gert út og verið við skipstjórn á farþegabátnum Ömmu Siggu, skipaskrárnúmer 7790, á Skjálfandaflóa, með 18 farþega um borð í bátnum, en farþegabáturinn hafði aðeins leyfi til að flytja 12 farþega, og aðeins með tryggingu fyrir þeim fjölda og án þess að lögskrá áhöfnina áður en hann fór á sjó, en ákærði er stjórnarformaður og framkvæmdastjóri útgerðaraðilans Gentle Giants-Hvalaferða ehf.

Telst þetta varða við 5. mgr. 1. gr., sbr. 29. gr., laga nr. 47/2003, um eftirlit með skipum, með síðari breytingum, 1. mgr. 2. gr., 1. mgr. 3. gr. og 2. ml. 1. gr. 4. gr., sbr. 6. gr. reglugerðar nr. 463/1998, um leyfi til farþegaflutninga með skipum, með síðari breytingum, 1. mgr. og 2. mgr. 4. gr., sbr. 9. gr. laga nr. 35, 2010 um lögskráningu sjómanna, með síðari breytingum, 1. mgr. 2. gr., sbr. 8. gr., reglugerðar nr. 817, 2010, um lögskráningu sjómanna, með síðari breytingum og 4. mgr. 145. gr., sbr. 239. gr. og 241. gr. siglingalaga nr. 34, 1985, með síðari breytingum.

II.

Gegn ákærða Aðalsteini sem skipstjóra og Stefáni sem framkvæmdastjóra útgerðarinnar Gentle Giants-Hvalaferða ehf., fyrir að hafa föstudaginn 28. júlí 2015, siglt úr höfn á Húsavík og út á Skjálfandaflóa á farþegabátnum Ömmu Kibbu, skipaskrárnúmer 7775 með 18 farþega um borð í farþegabátnum, en þeir höfðu aðeins leyfi til að flytja 12 farþega og voru aðeins með tryggingar fyrir þeim fjölda.

Telst þetta varða við 5. mgr. 1. gr., sbr. 29. gr., laga nr. 47/2003, um eftirlit með skipum, með síðari breytingum, 1. mgr. 2. gr., 1. mgr. 3. gr. og 2. ml. 1. gr. 4. gr. sbr. 6. gr. reglugerðar nr. 463/1998, um leyfi til farþegaflutninga með skipum, með síðari breytingum og 4. mgr. 145. gr., sbr. 239. gr. og 241. gr. siglingalaga nr. 34, 1985, með síðari breytingum.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“

 Ákært er í máli nr. S-57/2016 á hendur Stefáni Guðmundssyni, Karli Óskari Geirssyni og Ingimar Eydal Óskarssyni:

„...fyrir eftirtalin brot á lögum um eftirlit með skipum, reglugerð um leyfi til farþegaflutninga með skipum, siglingalögum, lögum um lögskráningu sjómanna og reglugerð um lögskráningu sjómanna: 

I.

Gegn ákærða Ingimar Eydal sem skipstjóra og ákærða Stefáni sem framkvæmdastjóra útgerðarinnar Gentle Giants-Hvalaferða ehf., fyrir að hafa föstudaginn 24. júlí 2015, siglt úr höfn á Húsavík og út á Skjálfandaflóa á farþegabátnum Ömmu Kibbu, skipaskrárnúmer 7775, með 18 farþega um borð í bátnum, en þeir höfðu aðeins leyfi til að flytja 12 farþega og voru aðeins með tryggingar fyrir þeim fjölda.

Telst þetta varða við 5. mgr. 1. gr., sbr. 29. gr,. laga nr. 47/2003, um eftirlit með skipum, með síðari breytingum, 1. mgr. 2. gr., 1. mgr. 3. gr. og 2. ml. 1. gr. 4. gr. sbr. 6. gr. reglugerðar nr. 463/1998, um leyfi til farþegaflutninga með skipum, með síðari breytingum og 4. mgr. 145. gr., sbr. 239. gr. og 241. gr. siglingalaga nr. 34, 1985, með síðari breytingum. 

II.

Gegn ákærða Karli Óskari sem skipstjóra og ákærða Stefáni sem fram­kvæmdastjóra útgerðarinnar Gentle Giants-Hvalaferða ehf., fyrir að hafa þennan sama dag, siglt úr höfn á Húsavík og út á Skjálfandaflóa á farþegabátnum Ömmu Siggu, skipaskrárnúmer 7790, með 22 farþega um borð í bátnum, en þeir höfðu aðeins leyfi til að flytja 12 farþega og voru aðeins með tryggingar fyrir þeim fjölda og fyrir að sigla bátnum án þess að lögskrá áhöfnina áður en farið var á sjó.

Telst þetta varða við 5. mgr. 1. gr., sbr. 29. gr., laga nr. 47/2003, um eftirlit með skipum, með síðari breytingum, 1. mgr. 2. gr., 1. mgr. 3. gr. og 2. ml. 1. gr. 4. gr. sbr. 6. gr. reglugerðar nr. 463/1998, um leyfi til farþegaflutninga með skipum, með síðari breytingum, 1. mgr. og 2. mgr. 4. gr., sbr. 9. gr. laga nr. 35, 2010 um lögskráningu sjómanna, með síðari breytingum, 1. mgr. 2. gr., sbr. 8. gr., reglugerðar nr. 817, 2010, um lögskráningu sjómanna, með síðari breytingum og 4. mgr. 145. gr., sbr. 239. gr. og 241. gr. siglingalaga nr. 34, 1985, með síðari breytingum.

Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“

Málin voru sameinuð.

Við aðalmeðferð breytti sækjandi næstsíðast töldu ákærunni þannig að farþegafjöldi í báðum köflum væri lækkaður úr 18 í 16.

Ákærðu krefjast allir sýknu.    

Ákærðu gáfu skýrslur fyrir dómi. Þá gáfu vitnaskýrslur B, F, H, J, C, L, D, M, N, O og P. 

I

Ákærði Stefán er framkvæmdastjóri Gentle Giants-Hvalaferða ehf. sem gerir út skip til hvalaskoðunarferða og selur fólki far í slíkar ferðir. Til þess notar fyrirtækið skip sem eru kölluð ,,RIB bátar“, (,,rigid inflatable boats“).

Aðrir ákærðu eru allir starfsmenn sama fyrirtækis og hafa farið með stjórn skipanna.

Ákærðu vefengja ekki að svo margir hafi verið um borð í einstökum tilvikum sem rakið er í ákærum með framangreindri breytingu og ekki heldur að leyfilegur farþegafjöldi hafi verið sá sem þar greinir. Eru nægar sönnur á þetta færðar. Sýknukrafa þeirra í þessum þætti málsins er byggð á því að fjöldi umfram leyfilegan fjölda farþega og tveggja manna áhöfn hafi verið boðsgestir, sem ekki hafi keypt far. Hafi þeir því ekki verið farþegar í þeim skilningi sem lagður sé í það hugtak í ákærum.

Þá telja ákærðu að refsiheimildir sem vísað er til í ákærum séu ekki nægilega skýrar og að ákvörðun Siglingastofnunar um að veita leyfi fyrir aðeins 12 farþegum hafi verið ólögmæt.

Skipin voru að flytja farþega gegn gjaldi í öllum tilvikum sem ákært er fyrir. Verður enginn greinarmunur gerður á farþegum eftir því hvort þeim var boðið eða ekki. Þegar af þessari ástæðu er sú mótbára haldlaus að aðeins 12 farþegar hafi verið látnir greiða far­gjald.

Fyrir dóminn hefur verið lögð teikning af sams konar skipi og þeim sem munu hafa verið notuð í fyrrgreindum ferðum. Segir þar að hámarksmönnun sé ,,-2+24“ manns og áhöfn ,,-2“.

Um þessi skip gilda lög nr. 47/2003 um eftirlit með skipum, þar sem segir í 5. mgr. 1. gr. að farþegaflutningar í atvinnuskyni, þ.m.t. skoðunar- og veiðiferðir ferða­manna, með skipum sem lögin gildi um séu háðir leyfi Samgöngustofu. Er það því ekki hönnuður eða skipasmiður sem ákveður leyfilegan farþegafjölda, heldur Sam­göngustofa, sbr. 1. mgr. 2. gr. rg. nr. 463/1998. Að því gættu að samkvæmt 6. mgr. 1. gr. laga nr. 47/2003 er markmið laganna að tryggja öryggi íslenskra skipa, áhafna þeirra og farþega, verður ekki séð að sýnt hafi verið fram á að ákvörðun um fjölda farþega í þeim skipum sem mál þetta varðar hafi verið ólögmæt, þannig að virða megi hana að vettugi. Verður ekki fallist á mótbárur ákærðu sem á því eru byggðar.

Eins og áður sagði eru farþegaflutningar með skipum háðir leyfi Samgöngustofu og er það skýrt tekið fram í 5. mgr. 1. gr. laga nr. 47/2003, sbr. einnig 1. mgr. 3. gr. rg. 463/1998. Var þetta tekið fram í leyfisskírteini á haffærisskírteinum skipanna, svo sem heimilt er samkvæmt 2. ml. 1. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar. Ákærðu fluttu fleiri farþega en leyfi Samgöngustofu heimilaði og brutu með því gegn þessu ákvæði, eins og þeim er gefið að sök í ákærum. Er ákvæðið nægilega skýrt um þetta. Brotin varða refsingu samkvæmt 29. gr. laganna, sbr. 6. gr. reglugerðarinnar.

Ákærði Stefán var framkvæmdastjóri og bar sem slíkur ábyrgð á framkvæmd og fyrirkomulagi við farsölu og farþegaflutninga á vegum útgerðarinnar. Fram kom fyrir dómi að framkvæmdin var á þann veg að starfsmenn í miðasölu afhentu bæði boðsgestum og greiðandi farþegum sams konar farmiða. Eins og málið liggur fyrir þykir ekki vafi leika á að það hafi verið með vitund ákærða Stefáns og vilja að fleiri voru hafðir um borð en heimilt var samkvæmt leyfi Samgöngustofu. Verður hann því sakfelldur í þeim tilvikum einnig sem hann stýrði skipi ekki sjálfur.

Í 239. gr. siglingalaga nr. 34/1985 segir að stórfelld eða endurtekin brot skipstjóra gegn öðrum skyldum samkvæmt þeim en ákvæði 233.-238. gr. taki til, varði sektum eða fangelsi allt að tveimur árum. Háttsemi ákærða Stefáns varðar ekki við 1. mgr., sbr. 2. mgr. 241. gr. siglingalaga. Að þessu athuguðu verða ákærðu sýknaðir af því að hafa brotið gegn tilgreindum ákvæðum siglingalaga í ákærum hvað varðar þennan þátt málsins.

    II

Í 1. mgr. 4. gr. laga nr. 35/2010 segir að áður en haldið sé úr höfn skuli skipstjóri sjá til þess að allir skipverjar sem séu ráðnir til starfa um borð í skipi skráðu hér á landi séu lögskráðir í skiprúm og samkvæmt 2. mgr. sömu greinar er óheimilt að leggja skipi úr höfn nema allir skipverjar hafi verið lögskráðir í skiprúm, nema í neyðar­tilvikum. Samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laganna ber skipstjóri ábyrgð á því að lög­skráning fari fram í gegnum lögskráningarkerfið með rafrænum hætti. Honum er heimilt að fela útgerðarmanni að annast skráninguna. Í 2. mgr. sömu gr. segir að heimilt sé að senda öll áskilin gögn og upplýsingar til þess sem annist lögskráninguna, sbr. f-lið 1. mgr. 7. gr.

Í þeim tilvikum sem hér um ræðir annaðist skrifstofa Gentle Giants-Hvalaferða ehf. lögskráninguna.

Ákærðu byggja kröfur sínar um sýknu hvað varðar lögskráningu á því að rafrænt lögskráningarkerfi hafi verið háð slíkum hnökrum að í fjölda tilvika hafi verið ómögulegt að koma fram skráningu. Benda ýmis gögn til að þetta eigi að einhverju leyti við rök að styðjast, svo sem framburður vitnanna N, O og P, svo og gögn um samskipti Gentle Giants-Hvalaferða ehf. og Samgöngustofu í tölvupósti þann 18. október sl., þar sem starfsmaður félagsins brá á það ráð að senda upplýsingar um áhöfn í tölvupósti, þar sem ekki náðist sambandi við lögskráningarkerfið. Þá verður að líta til þess að B lögreglumaður sendi Samgöngustofu tölvupóst og spurði hvort kerfið hefði legið niðri tiltekna daga. Þessu erindi var ekki svarað. Þrátt fyrir þetta verður einnig að líta til þess að heimilt er samkvæmt fyrrnefndum f-lið 1. mgr. 7. gr. laga nr. 35/2010 að senda áskilin gögn til þess sem annast lögskráninguna. Engin gögn hafa verið lögð fyrir dóminn um að svo hafi verið gert í þeim tilvikum sem ákært er fyrir. Verður að leggja hallann á ákærðu af því að ekki liggur fyrir að tilkynnt hafi verið, ef svo var að ekki tókst að skrá í kerfið. Samkvæmt því verða þeir sakfelldir fyrir brot gegn 1. mgr. og 2. mgr. 4. gr., sbr. 9. gr. laga nr. 35/2010, sbr. einnig 1. mgr. 2. gr. og 8. gr. reglugerðar nr. 817/2010. Svo sem segir í 5. gr. nefndra laga ber skipstjóri ábyrgð á því að lögskráning fari fram, en ekki er að finna heimild til að refsa útgerðarmanni eða fyrirsvarsmanni útgerðar fyrir vanrækslu á lögskráningu. Verður ákærða Stefáni því ekki refsað fyrir slíka vanrækslu samkvæmt síðari kafla síðast­greindu ákærunnar.

    

III

Ekki er ágreiningur um það að ákærði Aðalsteinn framvísaði ekki skipsskjölum er stýrimaður á varðskipinu Þór krafði hann um þau 20. september 2015. Verður því jafnað til þess að þau hafi ekki verið um borð, hvort sem þau leyndust þar eða ekki, en ákærði byggir á því að skjölin hafi verið um borð, þótt hann hafi ekki vitað hvar þau væru. Varðar þetta við 2. mgr. 8. gr., sbr. 233. gr. siglingalaga nr. 34/1985.

Þá er ekki ágreiningur um að ákærði Aðalsteinn var einn í áhöfn í þetta sinn. Hann kveðst hafa haft undanþágu til að gegna starfi vélavarðar. Sú undanþága hefur ekki verið lögð fyrir dóminn og verður ákærði að bera hallann af því. Verður því að sakfella hann fyrir brot gegn tilgreindum ákvæðum í lögum nr. 76/2001, í ákæru í máli nr. S-55/2016. Hins vegar verður litið til þess við ákvörðun refsingar að fyrrgreindur lögreglumaður innti Samgöngustofu einnig eftir því hvort Aðalsteinn hefði haft undanþágu, en var ekki svarað.    

 

IV

Sakaferill ákærða Stefáns hefur ekki áhrif á refsingu hans, sem ákveðst eftir reglum 77. gr. almennra hegningarlaga. Litið verður til 1. tl. 70. gr. sömu laga. Refsing ákærða ákveðst 1.000.000 króna sekt, sem skal greiðast innan fjögurra vikna frá birtingu þessa dóms að telja, en ákærði ella sæta fangelsi í 40 daga.

Refsing ákærða Aðalsteins ákveðst að hluta sem hegningarauki, sbr. 78. gr. almennra hegningarlaga, við 70.000 króna sekt sem hann sætti þann 20. ágúst 2015 fyrir umferðarlagabrot, en að öðru leyti ákveðst refsing hans eftir reglum 77. gr. almennra hegningarlaga. Ákveðst hún 200.000 króna sekt til ríkissjóðs, sem skal greiðast innan fjögurra vikna frá uppsögu þessa dóms að telja, en ákærði ella sæta fangelsi í 14 daga.

Ákærði Ingimar Eydal hefur ekki sætt refsingum. Refsing hans ákveðst eftir reglum 77. gr. almennra hegningarlaga 250.000 króna sekt, sem skal greiðast innan fjögurra vikna frá uppsögu þessa dóms að telja, en ákærði ella sæta fangelsi í 18 daga.

Ákærði Karl Óskar hefur ekki sætt refsingum. Refsing hans ákveðst eftir reglum 77. gr. almennra hegningarlaga 300.000 króna sekt, sem skal greiðast innan fjögurra vikna frá uppsögu þessa dóms að telja, en ákærði ella sæta fangelsi í 22 daga.

Dæma ber ákærðu til að greiða allan sakarkostnað. Er þar um að tefla málsvarnarlaun og útlagðan kostnað verjenda þeirra, sem ákveðast eins og í dómsorði greinir. Verjendur hafa lagt fram yfirlit um vinnustundir sem þeir hafa varið í málið. Eru þær nokkuð fleiri en unnt þykir að ákveða þeim laun fyrir. Málsvarnarlaun eru ákveðin að virðisaukaskatti meðtöldum.

Dóm þennan kveður upp Erlingur Sigtryggsson héraðsdómari.

Gætt var ákvæðis síðari málsliðar 1. mgr. 184. gr. laga nr. 88/2008.

 

D Ó M S O R Ð

Ákærði Stefán Guðmundsson greiði 1.000.000 krónur í sekt innan fjögurra vikna frá birtingu þessa dóms að telja, en sæti ella fangelsi í 40 daga.

Ákærði Aðalsteinn Steinþórsson greiði 200.000 krónur í sekt innan fjögurra vikna frá uppsögu þessa dóms að telja, en sæti ella fangelsi í 14 daga.

Ákærði Karl Óskar Hermannsson greiði 300.000 krónur í sekt innan fjögurra vikna frá uppsögu þessa dóms að telja, en sæti ella fangelsi í 22 daga.

Ákærði Ingimar Eydal Óskarsson greiði 250.000 krónur í sekt innan fjögurra vikna frá uppsögu þessa dóms að telja, en sæti ella fangelsi í 18 daga.

Ákærði Stefán greiði 1.104.931 krónu í sakarkostnað, þ.m.t. málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Daníels Isebarns Ágústssonar hæstaréttarlögmanns, 1.023.000 krónur og útlagðan kostnað hans 81.931 krónu.

Ákærði Aðalsteinn greiði 859.411 krónur í sakarkostnað, þ.m.t. málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Páls Rúnars M. Kristjánssonar hæstaréttarlögmanns, 777.480 krónur og útlagðan kostnað hans, 81.931 krónu.

Ákærði Karl Óskar greiði 859.411 krónur í sakarkostnað, þ.m.t. málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Bjarka Þórs Sveinssonar hæstaréttarlögmanns, 777.480 krónur og útlagðan kostnað hans, 81.931 krónu.

Ákærði Ingimar Eydal greiði 859.411 krónur í sakarkostnað, þ.m.t. máls­varnar­laun skipaðs verjanda síns, Sigríðar Dísar Guðjónsdóttur héraðs­dóms­lögmanns, 777.480 krónur og útlagðan kostnað hennar, 81.931 krónu.