Jafnréttisstefna, jafnlaunastefna og jafnréttisáætlun Landsréttar

Markmið jafnréttisstefnu Landsréttar er að tryggja konum og körlum sem starfa hjá Landsrétti jöfn tækifæri eins og kveðið er á um í lögum nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Hjá Landsrétti eru karlar og konur metin á eigin forsendum og hafa sömu tækifæri og sömu réttindi í starfi og til starfsframa. Helstu áherslur í jafnréttisstefnu Landsréttar eru:

 1. Að konum og körlum séu greidd jöfn laun og sömu kjör fyrir jafnverðmæt störf.
 2. Að konur og karlar hafi jafna möguleika til starfa og verkefna.
 3. Að stefnt sé að jöfnu kynjahlutfalli meðal starfsmanna og í hverjum starfahópi fyrir sig.
 4. Að konur og karlar hafi sömu tækifæri til starfsframa, starfsþróunar og símenntunar.
 5. Að konur og karlar geti samræmt vinnu og einkalíf.
 6. Að kynferðisleg og kynbundin áreitni og kynbundið ofbeldi sé ekki liðið.
 7. Að markvisst sé unnið að aukinni vitund og þekkingu starfsfólks um jafnréttistengd málefni.

Jafnréttisstefnan byggist á stefnu dómstólasýslunnar 2018–2022.[1] Jafnréttisstefna og jafnréttisáætlun Landsréttar skal vera aðgengileg og birt á vefsíðu dómstólsins. Stefnuna skal yfirfara eigi sjaldnar en á þriggja ára fresti. Stjórnendur og starfsfólk ber sameiginlega ábyrgð á því að framfylgja stefnu og áætlun Landsréttar í jafnréttismálum.


 

[1] Stefna Dómstólasýslunnar 2018–2022, sett í samræmi við hlutverk dómstólasýslunnar sem er skilgreint í lögum um dómstóla nr. 50/2016.

Jafnlaunastefna Landsréttar og jafnréttisáætlun

Jafnlaunastefna þessi tekur til Landsréttar, vinnustaðar starfsfólks hjá dómstólunum, og kveður á um markmið og aðgerðir til að tryggja starfsfólki þau réttindi sem kveðið er á um í 19. gr. laga nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.

Landsréttur greiðir annars vegar lögákveðin laun samkvæmt 23. gr. og 44. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla og hins vegar laun eftir umfangi og eðli starfa sem taka mið af þeim kröfum sem störf gera um þekkingu, hæfni og ábyrgð. Forsendur launaákvarðana, að lögbundnum ákvörðunum slepptum, eru að þær séu í samræmi við kjara- og stofnanasamninga og launastefnu Landsréttar, studdar rökum og tryggi að sömu laun séu greidd fyrir sambærileg eða jafnverðmæt störf. Launastefna Landsréttar, að því marki sem ákvörðun launa er á forræði réttarins, tekur mið af framangreindum sjónarmiðum, annars vegar að umbuna fyrir hæfni og ábyrgð í starfi og hins vegar að fylgja stofnana- og kjarasamningum.

Jafnlaunastefna er hluti af jafnréttisviðmiðum Landsréttar sem byggjast á því grundvallarviðmiði að tryggja launajafnrétti en í því felst að við ákvörðun launa skuli þess gætt að kynjum sé ekki mismunað. Einstaklingar skulu fá greitt fyrir störf sín út frá verðmæti starfanna óháð kyni, kynvitund eða öðrum ómálefnalegum ástæðum. Markmið jafnlaunastefnu Landsréttar er að óútskýrður launamunur nemi minna en einu prósenti í fjárhæð launa einstaklinga innan hvers hóps starfsmanna.

Til að fylgja eftir jafnlaunastefnu Landsréttar skuldbindur dómstóllinn sig til að:

 • Innleiða, skjalfesta og viðhalda jafnlaunakerfi í samræmi við kröfur jafnlaunastaðalsins ÍST 85:2012 og öðlast vottun í samræmi við 19. gr. laga nr. 10/2008, um jafnlaunavottun, sbr. lög nr. 56/2017.
 • Framkvæma árlega launagreiningu innan sinna vébanda.
 • Bregðast við óútskýrðum launamun með stöðugum umbótum og eftirliti og markvissum viðbrögðum eftir því sem tilefni gefst til.
 • Framkvæma árlega innri úttekt og rýni stjórnenda.
 • Fylgja lögum, reglum og kjarasamningum sem og öðrum kröfum sem í gildi eru á hverjum tíma og staðfesta árlega af yfirstjórn að þeim sé hlítt, að konum og körlum séu greidd jöfn laun fyrir sömu eða jafnverðmæt störf.
 • Kynna árlega niðurstöður launagreiningar og jafnlaunastefnu fyrir starfsmönnum. Stefnan skal einnig vera aðgengileg á heimasíðu Landsréttar.

 

Ábyrgð á framkvæmd, eftirfylgni og reglulegri yfirferð

Forseti Landsréttar ber ábyrgð á jafnréttisstefnu og jafnréttisáætlun Landsréttar. Skrifstofustjóri Landsréttar ber ábyrgð á því að jafnréttisstefnunni og jafnréttisáætluninni sé framfylgt. Við Landsrétt er starfandi vinnuhópur um jafnréttismál, skipaður einum landsréttardómara, einum löglærðum aðstoðarmanni landsréttardómara, almennum starfsmanni og skrifstofustjóra, sem hefur það hlutverk að:

 • Fylgja því eftir að jafnréttisáætlun sé fylgt og gæta að öllum álitaefnum er lúta að jafnréttismálum.
 • Tryggja að staða jafnréttismála sé kynnt fyrir starfsfólki í tengslum við árlega úttekt á jafnlaunamálum.
 • Vinna að endurskoðun jafnréttisáætlunar Landsréttar og aðgerða í kjölfar árlegrar yfirferðar áætlunar og innri úttektar jafnlaunavottunarkerfis.
 • Sækja sér þekkingu á jafnréttistengdum málum og fylgjast með því sem er efst á baugi. Setja fram tillögur um fræðsluviðburði tengda jafnréttismálum eftir atvikum innan dómstólsins.

Nánar um skipan nefndar og störf vísast til jafnlaunakerfis Landsréttar.

Ráðningar, starfsframi og starfsþróun

20. gr. jafnréttislaga

Starfsfólk Landsréttar er hvatt til að vera stöðugt vakandi fyrir tækifærum til að byggja upp hæfni, vaxa og þróast í starfi. Því er litið á starfsþjálfun, símenntun og endurmenntun starfsfólks sem mikilvægan hluta af starfi dómstólsins. Þess er gætt að starfsfólk hafi sömu tækifæri til sí- og endurmenntunar, óháð kyni.

Landsréttur leitast við að halda sem jöfnustu hlutfalli kynjanna í öllum þeim störfum þar sem ráðning er á forræði dómstólsins þannig að laus störf skulu standa öllum opin óháð kyni auk þess sem vinna skal gegn því að störf flokkist sem sérstök karla- eða kvennastörf.

Samræming vinnu og einkalífs

21. gr. jafnréttislaga

Hjá Landsrétti er lögð áhersla á að bæði karlar og konur geti samræmt starfsskyldur sínar og ábyrgð gagnvart fjölskyldu. Gagnkvæmur sveigjanleiki er til staðar varðandi vinnutíma, sbr. 13. og 17. gr. laga nr. 70/1996, eftir því sem kostur er. Bæði karlar og konur eru hvött og studd til að sinna ábyrgð sinni sem foreldri og nýta réttindi sín sem slík, sbr. til dæmis lög nr. 95/2000, um fæðingar- og foreldraorlof.

Kynbundið ofbeldi, kynbundin og kynferðisleg áreitni

22. gr. jafnréttislaga

Í stefnu dómstólasýslunnar, sem Landsréttur leggur til grundvallar í starfsemi sinni, kemur fram að starfsmenn skuli vinna störf sín af heilindum og lögum samkvæmt, sýna virðingu og skilning og að framkoma sem veldur öðrum vanlíðan eða óöryggi verði ekki liðin. Af hálfu Landsréttar er farið eftir stefnu og viðbragðsáætlun dómstólasýslunnar gegn einelti, kynferðislegri og kynbundinni áreitni og ofbeldi, sem samþykkt var 24. ágúst 2018. Stefnan er sett í samræmi við 38. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum og reglugerð nr. 1009/2015 um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum.