Nýir dómar og úrskurðir
431/2018
Ákæruvaldið (Þorbjörg S. Gunnlaugsdóttir saksóknari)
gegn
Jóni Valdimar Jóhannssyni (Jón Egilsson lögmaður)
Útdráttur máls 431/2018
J var sakfelldur fyrir brot gegn 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa hrint A þannig að hann féll í gólfið með þeim afleiðingum að hann hlaut lífshættulega og alvarlega höfuðáverka. Við ákvörðun refsingar var litið til þess að J hefði ekki áður gerst sekur um ofbeldisbrot en árásin hefði verið stórfelld og tilefnislaus og haft í för með sér alvarlegar afleiðingar fyrir brotaþola. Með hliðsjón af því og með vísan til 1. og 2. töluliðar 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga var refsing J ákveðin fangelsi í 10 mánuði en fullnustu refsingarinnar var frestað skilorðsbundið vegna dráttar á meðferð málsins.
876/2018
Þrotabú Búálfsins sportbars ehf. (Kristinn Hallgrímsson lögmaður, Dóra Sif Tynes lögmaður, 2. prófmál)
gegn
Regin atvinnuhúsnæði ehf. (Jón Ármann Guðjónsson lögmaður, Pétur Már Jónsson lögmaður, 2. prófmál)
Útdráttur máls 876/2018
Héraðsdómur féllst á kröfu þrotabús B ehf. um riftun á greiðslu skuldar B ehf. við R ehf. sem fór fram með þeim hætti að Á ehf. tók yfir skuld B ehf. við R ehf. samkvæmt skuldabréfi. Byggði héraðsdómur á því að skuldskeytingin hefði verið riftanleg samkvæmt 139. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. þar sem hún hefði farið fram eftir frestdag og á þeim tíma hefði verið ljóst að félagið væri ógjaldfært. Þá yrði ekki annað séð en að yfirtaka Á ehf. á skuldum B ehf. við R ehf. hefði verið hluti kaupverðs fyrir rekstur þess. Auk þess hefði verið um að ræða greiðslu skuldar með óvenjulegum greiðslueyri, sbr. 1. mgr. 134. gr. sömu laga, og hefði ráðstöfunin leitt til mismununar kröfuhafa. Málsaðilar undu báðir niðurstöðu héraðsdóms um riftun greiðslunnar og deildu einungis um það fyrir Landsrétti hvort fallast ætti á kröfu þrotabús B ehf. um að R ehf. bæri vegna riftunarinnar að greiða honum andvirði hinnar yfirteknu skuldar með nánar tilgreindum vöxtum. Með vísan til héraðsdóms, sem ekki hafði verið áfrýjað að því leyti, byggði Landsréttur á því að R ehf. hefði verið grandvís um riftanleika ráðstöfunarinnar er hún fór fram. Með skuldskeytingunni hefði R ehf. fengið skuld B ehf. gerða upp við sig og sú greiðsla hefði valdið þrotabúi B ehf. tjóni þar sem það hefði vegna skuldskeytingarinnar orðið af þeim hluta endurgjalds fyrir rekstur B ehf. sem Á ehf. innti af hendi með yfirtöku skuldarinnar. Var því með vísan til þriðja málsliðar 1. mgr. og 3. mgr. 142. gr. laga nr. 21/1991 fallist á kröfu þrotabús B ehf. um að R ehf. yrði gert að endurgreiða fjárhæðina. Tók Landsréttur jafnframt fram að réttarsamband þessara þriggja aðila að öðru leyti breytti engu í því sambandi, enda væri það greiðsla skuldar B ehf. við R ehf. sem sætti riftun en hvorki sala á rekstri félagsins né skuldskeytingin sem slík.
32/2019
Ómar Sigtryggsson (Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson lögmaður)
gegn
Landsbankanum hf. (Hannes J. Hafstein lögmaður)
Útdráttur máls 32/2019
L hf. höfðaði mál á hendur Ó til heimtu skuldar samkvæmt lánssamningi Ó við LÍ hf., en umræddri kröfu var ráðstafað til L hf. við fall LÍ hf. Ó hélt því fram að L hf. ætti ekki kröfu á hendur sér þar sem krafan hefði fallið niður fyrir skuldajöfnuð sem Ó hefði lýst yfir og L hf. samþykkt. Byggði Ó jafnframt á því að umrædd krafa væri fyrnd og fallin niður vegna tómlætis. Í dómi Landsréttar kom fram að skilyrðum skuldajafnaðar hefði ekki verið fullnægt þar sem viðkomandi kröfur voru ekki gagnkvæmar. Þá var talið, að virtum viðbrögðum L hf. við yfirlýsingu Ó um skuldajöfnuð og fyrirliggjandi samskiptum aðila, að L hf. hefði ekki gefið sjálfstætt og fyrirvaralaust loforð sem gæti leitt til þess að L hf. teldist bundinn af yfirlýsingu Ó um skuldajöfnuð. Hvað varðaði aðrar málsástæður Ó var því hafnað að krafa L hf. væri fyrnd. Þá var talið að Ó hefði ekki mátt vænta þess að L hf. hefði fallið frá kröfu sinni. Krafan var því ekki fallin niður sökum tómlætis. Var Ó því dæmdur til að greiða L hf. umkrafða fjárhæð.
238/2019
Krónan ehf. (Bjarki Þór Sveinsson lögmaður)
gegn
Sveitarfélaginu Árborg (Sigurður Sigurjónsson lögmaður) og Heilbrigðiseftirliti Suðurlands (Magnús Baldursson lögmaður)
Útdráttur máls 238/2019
K ehf. deildi um það við S og H hvort tilkynning sem sá síðarnefndi sendi honum 6. desember 2016 væri stjórnvaldsákvörðun eða tilmæli um það sem betur mætti fara í framsetningu brauðmetis í verslun hans. Landsréttur féllst á það með K ehf. að H hefði tekið bindandi stjórnvaldsákvörðun 6. desember sem skyldaði hann til að setja brauðmeti í verslun sinni í umbúðir eða tryggja með öðrum hætti að varan mengaðist ekki. Fyrir lægi að H hefði lögum samkvæmt heimild til þess að gera kröfur um að matvælafyrirtæki lágmörkuðu mögulega mengun á matvörum í verslunum að því tilskyldu að málefnaleg sjónarmið lægju að baki þeim ráðstöfunum sem krafist væri. Landsréttur hafnaði því að rannsókn H hefði verið ófullnægjandi og að ekki hefðu legið málefnaleg sjónarmið að baki ákvörðuninni. Voru H og S sýknaðir af öllum kröfum K ehf.
348/2019
Arna Berglind Halldórsd. Waage (Halldór Þ. Birgisson lögmaður)
gegn
þrotabúi Nostra Veitingahúss ehf. (enginn)
Útdráttur máls 348/2019
Ágreiningur málsins varðaði slit á ráðningarsamningi A við N ehf. en hún var einn stofnenda félagsins og eigandi að 10% eignarhlut. A krafðist ógreiddra launa samkvæmt ráðningarsamningi fyrir tímabilið 1. júlí til 9. október 2017 og launa í uppsagnarfresti þar sem hún taldi að riftun samningsins hefði verið ólögmæt. N ehf. byggði á því að A hefði tekið að sér að annast launalaust verk sem stofnandi, hluthafi og stjórnandi félagsins og að ráðningarsamningurinn hefði einungis verið gerður að forminu til. Landsréttur taldi að þó að N ehf. hefði ekki verið unnt að standa skil á launagreiðslum til A að fullu þá væri hvergi í gögnum málsins að finna upplýsingar um að hún hefði af þeim sökum eða öðrum ákveðið að falla frá launakröfum sínum samkvæmt ráðningarsamningnum. Þyrfti N ehf. því að bera hallann af sönnunarskorti um að ekki hefði staðið til að greiða henni laun fyrir þetta tímabil eða að skerða ætti launagreiðslurnar á einhvern hátt. Landsréttur taldi að ekki yrði ráðið af gögnum málsins að A hefði vanefnt starfsskyldur sínar með þeim hætti að réttlætanlegt hefði verið að rifta ráðningarsamningnum án fyrirvara og var riftunin því talin ólögmæt. Var fallist á kröfu A um ógreidd laun samkvæmt ráðningarsamningnum og fallist á að hún ætti rétt til greiðslu skaðabóta sem tækju mið af umsömdum launum hennar í uppsagnarfresti í þrjá mánuði.
40/2019
Ákæruvaldið (Óli Ingi Ólason saksóknari)
gegn
Eiði Smára Rúnarssyni (Björgvin Jónsson lögmaður, Snorri Snorrason lögmaður, 1. prófmál)
Útdráttur máls 40/2019
E var gefið að sök umferðarlagabrot með því að hafa ekið bifreið yfir leyfilegum hámarkshraða. E neitaði sök og byggði meðal annars á því að hraðamæling lögreglu hefði ekki verið marktæk þar sem hún gæti hafa skekkst vegna ytri þátta sem hefðu truflað mælinguna. Þá hélt hann því fram að ratsjáin hefði ekki verið prófuð fyrir og eftir hraðamælingu í samræmi við verklagsreglur ríkislögreglustjóra um hraðamælingar með ratsjá. Landsréttur taldi sannað að ratsjáin sem notuð var hefði ekki orðið fyrir truflunum við hraðamælingu í umrætt sinn auk þess sem talið var sannað að hún hefði verið prófuð fyrir og eftir hraðamælinguna í samræmi við verklagsreglur. Var E því sakfelldur fyrir brotið og refsing hans ákveðin sekt að fjárhæð 115.000 krónur að viðlagðri vararefsingu.
932/2018
Ólafur Bjarni Stefánsson (Jónas Þór Jónasson lögmaður)
gegn
Brimi hf. (Guðmundur Siemsen lögmaður)
Útdráttur máls 932/2018
Ó sem var skipverji á fiskiskipi B hf. varð óvinnufær sökum veikinda á nánar tilgreindu tímabili. Á tímabilinu stóð yfir verkfall sjómanna. Deildu aðilar um hvernig skýra bæri 1. mgr. 36. gr. sjómannalaga nr. 35/1985 og hvort réttur Ó til veikindalauna hefði stofnast við upphaf óvinnufærni hans eða þegar skipið hélt á ný til veiða að loknu verkfalli. Í dómi Landsréttar kom fram að við túlkun á framangreindu ákvæði skyldi leggja til grundvallar þá almennu reglu að þegar launþegi eigi rétt til launa í forföllum vegna veikinda eða slyss hefjist réttindatímabilið við upphaf veikinda eða þegar slys beri á höndum, sbr. dóm Hæstaréttar 7. nóvember 1996 í máli nr. 306/1995. Þá taldi rétturinn að 2. málsliður fyrrgreinds ákvæðis ætti ekki við um skipverja í verkfalli. Var B hf. því sýknað af kröfum Ó.
332/2018
Ákæruvaldið (Björn Þorvaldsson saksóknari)
gegn
Jóhannesi Baldurssyni (Reimar Pétursson lögmaður) og X (Gunnar Egill Gunnarsson lögmaður)
Útdráttur máls 332/2018
Í málinu voru JB, sem framkvæmdastjóri markaðsviðskipta G hf., og X, sem starfsmaður deildar eigin viðskipta G hf., ákærðir fyrir að hafa í sameiningu stundað markaðsmisnotkun, með hlutabréf útgefin af bankanum sjálfum, á tímabilinu 1. júní 2007 til 26. september 2008, samtals 331 viðskiptadag, með því að setja fram tilboð og eiga viðskipti í viðskiptakerfi kauphallarinnar sem tryggðu óeðlilegt verð, bjuggu til verð á hlutabréfunum og gáfu eða voru líkleg til að gefa eftirspurn og verð hlutabréfanna ranglega og misvísandi til kynna. Í ákærunni var markaðsmisnotkunin sögð hafa verið framkvæmd af X og tveimur öðrum starfsmönnum deildar eigin viðskipta G hf. að undirlagi JB og Y, bankastjóra G hf. Fyrir Landsrétti krafðist JB endurskoðunar á úrskurðum héraðsdóms en heimild skorti til að kæra undir rekstri málsins. Hann taldi að brotinn hefði verið á sér réttur, sem honum væri tryggður með 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar og 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, til að fá aðgang að gögnum sem hann taldi sig þurfa til að undirbúa og setja fram varnir sínar. Landsréttur taldi þessi sjónarmið JB ekki geta leitt til sýknu og hafnaði því að ómerkja dóm héraðsdóms á þessum grunni. Í dómi Landsréttar var ekki fallist á að brot JB væru fyrnd enda hafði hann verið ákærður og sakfelldur í héraðsdómi áður en 10 ára fyrningarfrestur brotsins rann út. Landsréttur taldi ákæruvaldið ekki hafa sýnt fram á að háttsemi X hefði verið þess eðlis að hún varðaði refsingu samkvæmt a- og b-lið 1. töluliðar 1. mgr. 117. gr. laga nr. 108/2007 og var hann því sýknaður af kröfum ákæruvaldsins. Vísað var til þess að samkvæmt dómi Hæstaréttar 4. febrúar 2016 í máli nr. 842/2014 væri fjármálafyrirtækjum, sem hafa heimild til verðbréfaviðskipta, óheimilt samkvæmt lögum nr. 108/2007 að stunda viðskipti með eigin hluti á skipulegum verðbréfamarkaði í því skyni að mynda markaði með hlutina eins og um viðskiptavakt væri að ræða. Þrátt fyrir að G hf. hefði lýst sig formlegan viðskiptavaka með bréf í sjálfum sér og upplýst Fjármálaeftirlitið um að hann stundaði virka viðskiptavakt með hluti í sjálfum sér þá hafi viðskipti deildar eigin viðskipta G hf. með hlutabréf í bankanum gengið miklu lengra og verið mun umfangsmeiri en tíðkast hjá viðskiptavaka í eðlilegu viðskiptaumhverfi. Í dómi Landsréttar kom fram að sá mikli fjöldi tilboða, sem deild eigin viðskipta G hf. gerði og þau umfangsmiklu viðskipti sem hún átti þátt í að koma á, gáfu eða voru að minnsta kosti líkleg til að gefa eftirspurn og verð hlutabréfa í G hf. ranglega eða misvísandi til kynna. Var niðurstaða hins áfrýjaða dóms um að í þeirri háttsemi hafi falist brot gegn a-lið 1. töluliðar 1. mgr. 117. gr. laga nr. 108/2007 því staðfest. Þegar litið var til stöðu JB innan bankans og upplýsinga, sem hann hafði fengið um stöðu bankans í eigin hlutabréfum, var talið að óháð hugsanlegri afsakanlegri villu hans um heimild G hf. til að reka viðskiptavakt með eigin hlutabréf, hefði JB vitað eða hlotið að vita af hinum umfangsmiklu kaupum deildar eigin viðskipta G hf. á hlutabréfum í bankanum og jafnframt að honum hefði ekki getað dulist að þau gátu ekki byggst á viðskiptalegum sjónarmiðum. Var JB því sakfelldur fyrir brot gegn a-lið 1. töluliðar 1. mgr. 117. gr. laga nr. 108/2007. Refsing hans var ákveðin fangelsi í 12 mánuði en fullnustu hennar var frestað skilorðsbundið í tvö ár.
542/2019
A (Þorbjörg I. Jónsdóttir lögmaður, Kolbrún Garðarsdóttir lögmaður, 3. prófmál)
gegn
B (Hildur Sólveig Pétursdóttir lögmaður, Bjarki Már Baxter lögmaður, 2. prófmál)
Útdráttur máls 542/2019
Staðfest var sú niðurstaða héraðsdóms að A skyldi greiða B einfalt meðlag með börnum þeirra, C og D, frá 1. nóvember 2017 til fulls 18 ára aldurs þeirra. Krafa A um að gjafsóknarkostnaður hans vegna reksturs málsins í héraði yrði ákveðinn 2.000.000 króna var of seint fram komin og var henni vísað frá Landsrétti.
349/2019
Natascha Elisabet Fischer (Halldór Þ. Birgisson lögmaður)
gegn
þrotabúi Nostra Veitingahúss ehf. (enginn)
Útdráttur máls 349/2019
Ágreiningur málsins varðaði slit á ráðningarsamningi NE við N ehf. en hún var einn stofnenda félagsins og eigandi að 10% eignarhlut. NE krafðist ógreiddra launa samkvæmt ráðningarsamningi fyrir tímabilið 1. júlí til 9. október 2017 og launa í uppsagnarfresti þar sem hún taldi að riftun samningsins hefði verið ólögmæt. N ehf. byggði á því að NE hefði tekið að sér að annast launalaust verk sem stofnandi, hluthafi og framkvæmdastjóri félagsins og að ráðningarsamningurinn hefði einungis verið gerður að forminu til. Landsréttur taldi að þó að N ehf. hefði ekki verið unnt að standa skil á launagreiðslum til NE að fullu þá væri hvergi í gögnum málsins að finna upplýsingar um að hún hefði af þeim sökum eða öðrum ákveðið að falla frá launakröfum sínum samkvæmt ráðningarsamningnum. Þyrfti N ehf. því að bera hallann af sönnunarskorti um að ekki hefði staðið til að greiða henni laun fyrir þetta tímabil eða að skerða ætti launagreiðslurnar á einhvern hátt. Landsréttur taldi að ekki yrði ráðið af gögnum málsins að NE hefði vanefnt starfsskyldur sínar með þeim hætti að réttlætanlegt hefði verið að rifta ráðningarsamningnum án fyrirvara og var riftunin því talin ólögmæt. Var fallist á kröfu NE um ógreidd laun samkvæmt ráðningarsamningnum og að hún ætti rétt til greiðslu skaðabóta sem tækju mið af umsömdum launum hennar í þriggja mánaða uppsagnarfresti. Skaðabótakrafan var lækkuð sem nam upphæð tveggja launagreiðslna sem NE fékk greiddar frá öðrum vinnuveitanda fyrir tímabilið 1. desember 2017 til 31. janúar 2018.
33/2019
Ómar Sigtryggsson (Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson lögmaður)
gegn
Landsbankanum hf. (Hannes J. Hafstein lögmaður)
Útdráttur máls 33/2019
L hf. höfðaði mál á hendur Ó til heimtu skuldar vegna yfirdráttar á tékkareikningi sem stofnaður var í LÍ hf., en umræddri kröfu var ráðstafað til L hf. við fall LÍ hf. Ó hélt því fram að L hf. ætti ekki kröfu á hendur sér þar sem krafan hefði fallið niður fyrir skuldajöfnuð sem Ó hefði lýst yfir og L hf. samþykkt. Byggði Ó jafnframt á því að umrædd krafa væri fyrnd og fallin niður vegna tómlætis. Í dómi Landsréttar kom fram að skilyrðum skuldajafnaðar hefði ekki verið fullnægt þar sem viðkomandi kröfur voru ekki gagnkvæmar. Þá var talið, að virtum viðbrögðum L hf. við yfirlýsingu Ó um skuldajöfnuð og fyrirliggjandi samskiptum aðila, að L hf. hefði ekki gefið sjálfstætt og fyrirvaralaust loforð sem gæti leitt til þess að L hf. teldist bundinn af yfirlýsingu Ó um skuldajöfnuð. Hvað varðaði aðrar málsástæður Ó var því hafnað að krafa L hf. væri fyrnd. Þá var talið að Ó hefði ekki mátt vænta þess að L hf. hefði fallið frá kröfu sinni. Krafan var því ekki fallin niður sökum tómlætis. Var Ó því dæmdur til að greiða L hf. umkrafða fjárhæð.
725/2019
A (Kjartan Ragnars lögmaður)
gegn
B (Sveinn Andri Sveinsson lögmaður)
Útdráttur máls 725/2019
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu A um breytingu á frumvarpi sýslumanns til úthlutunar söluverðs fasteignar. Fasteignin var seld á nauðungarsölu til slita á sameign A og B. Í kjölfar sölunnar greindi A og B á um í hvaða hlutföllum bæri að úthluta söluandvirði eignarinnar. Í úrskurði Landsréttar var hafnað þeim málatilbúnaði A að ómerkja bæri úrskurð héraðsdóms. Landsréttur vísaði jafnframt til þess að A hefði ekki tekist sönnun um að þinglýstar eignarheimildir gæfu ranga mynd af eignarhaldi fasteignarinnar. Því stæðu engar heimildir til þess að söluverði eignarinnar yrði úthlutað út frá öðrum eignarhlutföllum en þeim sem mælt væri fyrir um í heimildarskjölum um hana. Þá yrði við úthlutun sýslumanns á söluverði eignarinnar og í máli sem rekið væri um hana eftir ákvæðum XIII. kafla laga um nauðungarsölu nr. 90/1991 ekki leyst úr ágreiningi sem lyti að fjárhagslegu uppgjöri á milli A og B. Því var hinn kærði úrskurður staðfestur.
730/2019
A (Auður Björg Jónsdóttir lögmaður)
gegn
B (enginn)
Útdráttur máls 730/2019
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem máli A, sem krafðist skilnaðar að borði og sæng frá B, var vísað frá dómi á þeim grundvelli að hvorki lægi fyrir samkomulag aðila um fjárskipti né væru opinber skipti hafin vegna fjárslita þeirra, sbr. 1. mgr. 44. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993. Yfirlýsing annars hjóna um eignaleysi var ekki talin nægja til að skilyrði 95. gr. sömu laga teldust uppfyllt.
740/2019
Byggingarsamvinnufélagið Samtök aldraðra (Jón Bjarni Kristjánsson lögmaður)
gegn
Helgu Kristínu Ottósdóttur, Guðrúnu Eyjólfsdóttur, Gunnari Þórólfssyni o.fl. (Jóhannes Stefán Ólafsson lögmaður)
Útdráttur máls 740/2019
B krafðist ógildingar kaupsamnings og afsals um fasteign sem H var kaupandi og afsalshafi að og byggði á því að H væri ekki og hefði aldrei verið félagsmaður í B og kaupin hefðu því verið í andstöðu um kvöð um félagsaðild að B sem þinglýst hefði verið á fasteignina. Með úrskurði Landsréttar var staðfest sú niðurstaða héraðsdóms að vísa málinu frá dómi, enda skorti B lögvarða hagsmuni af úrlausn kröfunnar, auk þess sem málið væri vanreifað af hálfu B og málatilbúnaður hans uppfyllti ekki áskilnað d- og e-liðar 1. gr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um skýrleika og samhengi kröfugerðar, málsástæðna og atvika.
750/2019
A (Vilhjálmur Þ.Á. Vilhjálmsson lögmaður)
gegn
B (Valgeir Kristinsson lögmaður)
Útdráttur máls 750/2019
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu A um að kaupmáli hennar og B væri ógildur eða óskuldbindandi og yrði ekki lagður til grundvallar við yfirstandandi fjárskipti A og B. Ekki var fallist á að umræddur kaupmáli væri haldinn form- eða efnisannmörkum sem valdið gætu ógildingu hans. Var hinn kærði úrskurður því staðfestur.
805/2019
Ákæruvaldið (Margrét Unnur Rögnvaldsdóttir saksóknari)
gegn
X (Ólafur V. Thordersen lögmaður)
Útdráttur máls 805/2019
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.
748/2019
A (Þorbjörg I. Jónsdóttir lögmaður)
gegn
barnaverndarnefnd Reykjavíkur (Ebba Schram lögmaður)
Útdráttur máls 748/2019
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að börn A skyldu vistuð utan heimilis í tvo mánuði.
806/2019
Lögreglustjórinn á Suðurnesjum (Súsanna Björg Fróðadóttir aðstoðarsaksóknari)
gegn
X (Lilja Margrét Olsen lögmaður)
Útdráttur máls 806/2019
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.
803/2019
Lögreglustjórinn á Suðurnesjum (Súsanna Björg Fróðadóttir aðstoðarsaksóknari)
gegn
X (Ásta Björk Eiríksdóttir lögmaður)
Útdráttur máls 803/2019
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og einangrun meðan á því stendur.
749/2019
A (Þorbjörg I. Jónsdóttir lögmaður)
gegn
barnaverndarnefnd Reykjavíkur (Ebba Schram lögmaður)
Útdráttur máls 749/2019
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að barn A skyldi vistað utan heimilis í tvo mánuði.
Dagskrá
Sjá DAGSKRÁ