REGLUR
um málsgögn í sakamálum

______________

 

 1. gr.

Þegar ríkissaksóknara hafa borist dómsgerðir samkvæmt 1. mgr. 202. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, og verjandi hefur verið skipaður, skal ríkissaksóknari í samráði við verjanda útbúa málsgögn. Til þeirra teljast afrit þeirra málsskjala og endurrita sem aðilar telja þörf á við úrlausn málsins, eins og áfrýjun er háttað.Til málsgagna teljast hljóð- og myndupptökur af aðila- og vitnaskýrslum fyrir héraðsdómi.
Landsrétti skulu afhent málsgögn í þeim fjölda eintaka, sem rétturinn telur þörf á, svo og dómsgerðir. Jafnframt skal ríkissaksóknari láta réttinum í té rafrænt eintak allra gagna málsins, þar með talið hljóð- og myndupptökur, sem fram fóru fyrir héraðsdómi, á minnislykli eða með öðrum tæknilega fullnægjandi hætti.
Ríkissaksóknari skal afhenda verjanda ákærða eitt eintak málsgagna auk rafræns eintaks, sbr. 2. mgr. 1. gr.

 

2. gr.

Almennt skulu einungis tekin með í málsgögn þau skjöl er lögð voru fram í héraði og þörf er á við flutning og úrlausn málsins fyrir Landsrétti.
Nú er dómi einungis áfrýjað um hluta þeirra ákæruliða, sem fjallað var um í héraði og skulu þá málsgögn aðeins hafa að geyma skjöl um þá liði sem sæta áfrýjun.
Þegar dómi er áfrýjað með takmörkuðum hætti, sbr. a- til e-liði 1. mgr. 196. gr. laga nr. 88/2008, skal takmarka málsgögn með hliðsjón af því í hvaða skyni er áfrýjað.

 

3. gr.

Nú telur ríkissaksóknari, eins og áfrýjun dóms er háttað og að höfðu samráði við verjanda, að alls engin þörf sé á að taka í málsgögn tiltekin skjöl, sem lögð voru fram við meðferð máls í héraði, og skulu þau þá ekki vera meðal málsgagna ríkissaksóknara. Fallist verjandi ekki á að þau séu óþörf getur hann útbúið málsgögn af sinni hálfu, sem hafi að geyma þau málskjöl sem hann telur nauðsynleg vegna flutnings málsins fyrir Landsrétti og eru ekki meðal málsgagna ríkissaksóknara.

 

4. gr.

Fremst í málsgögnum skal vera efnisskrá og skal skipan hennar og einstakra liða vera í samræmi við röðun málsgagna, eins og henni er lýst í 5. gr. Í efnisskrá skal geta blaðsíðutals hvers skjals í málsgögnum.

 

5. gr.

Málsgögn skulu, ef því er að skipta, geyma endurrit eða ljósrit eftirtalinna gagna í þessari röð, nema sérstakar ástæður mæli með annarri niðurröðun:


A-hluti – málsóknargögn

1. Ákæru og önnur gögn sem varða málsóknina sérstaklega.


B-hluti – héraðsdómur og gögn tengd áfrýjun

1. Hinn áfrýjaða dóm ásamt birtingarvottorði og yfirlýsingu dómþola um áfrýjun ef því er að skipta.
2. Áfrýjunarstefnu með áritun um birtingu.
3. Bréfaskipti sem lúta að áfrýjun, skipun verjanda og réttargæslumanns, ef því er að skipta, fyrir Landsrétti.
4. Gögn um persónulega hagi ákærða, svo sem sakavottorð og annað sem talið er skipta máli við ákvörðun refsingar.


C-hluti – endurrit þinghalda, skýrslur fyrir dómi, hljóð- og myndupptökur, dómsuppsaga

1. Endurrit þinghalda í málinu fyrir héraðsdómi.
2. Tilgreiningu á þeim sem gáfu skýrslu fyrir héraðsdómi.
3. Tilgreiningu á þeim sem ríkissaksóknari óskar eftir að gefi skýrslu fyrir Landsrétti, ásamt hlutlausum og hnitmiðuðum útdrætti úr framburði þeirra sem gefið hafa skýrslu fyrir héraðsdómi og sem ríkissaksóknari óskar eftir að gefi viðbótarskýrslu fyrir Landsrétti auk þess sem markmið þeirrar skýrslugjafar er skilgreint.
4. Hljóð- og myndupptökur ásamt endurriti af framburði málsaðila og vitna fyrir héraðsdómi að því leyti sem þörf er á vegna reksturs málsins fyrir Landsrétti. Óski ríkissaksóknari eftir því að hlýtt verði á upptökur framburðar við aðalmeðferð ber honum að greina með eins nákvæmum hætti og kostur er hvaða hluta framburðar er talið að skipti máli að hlýða á.
5. Endurrit vegna dómsuppsögu.


D-hluti – rannsóknargögn lögreglu

1. Kæru og önnur gögn tengd henni.
2. Önnur gögn vegna rannsóknar og skal þeim skipað saman eftir rannsóknar¬tilvikum ef því er að skipta.
3. Skýrslur ákærða og vitna hjá lögreglu og samantektir lögreglu á efni þeirra.


E-hluti – réttarfarsgögn

1.Úrskurði um gæsluvarðhald á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Að öðru leyti nægir yfirlit frá Fangelsismálastofnun um gæsluvarðhaldsvist ákærða vegna rannsóknar málsins, nema ríkissaksóknari telji ástæðu til að láta einstaka úrskurði og dóma, ef því er að skipta, fylgja. Alltaf skal geta úrskurða og dóma í efnisskrá samkvæmt 4. gr.
2. Aðra úrskurði á rannsóknarstigi. Nægilegt er að listi um úrskurði og ástæður þeirra sé meðal málsgagna, nema ríkissaksóknari telji sérstaka ástæðu til að einstakir úrskurðir og dómar, ef því er að skipta, fylgi. Geta skal úrskurða og dóma í efnisskrá samkvæmt 4. gr.


F-hluti – önnur gögn

1. Önnur gögn, svo sem eldri dóma og viðurlagaákvarðanir, sem haft geta þýðingu við ákvörðun refsingar.


G-hluti – skjöl lögð fram eftir þingfestingu

1. Greinargerð ákærða ef því er að skipta.
2. Bókanir, sem kunna að hafa verið lagðar fram.
3. Önnur skjöl.


Skjölum innan hluta D, E, F og G skal raða eftir því sem unnt er í tímaröð.

 

6. gr.

Málsgögn skulu vera í einu bindi eða fleiri ef þarf. Á kápu skal greina nafn og númer máls og nöfn þeirra sem flytja málið fyrir Landsrétti. Endurrit og ljósrit skjala skulu vera skýr, vel læsileg og án yfirstrikana eða merkja um þær.

 

7. gr.

Ef hluta skjals, sem lagt var fram í héraði, er sleppt skal þess getið sérstaklega á viðeigandi stað í skjalinu og þá jafnframt hve mörgum blaðsíðum er sleppt.

8. gr.

Málsgögn skulu vera með blaðsíðutali. Ný skjöl fyrir Landsrétti skulu merkt með bókstöfum í stafrófsröð, talið frá upphafi stafrófs. Þau nýju skjöl sem liggja fyrir er málsgögn eru útbúin skulu jafnframt vera blaðsíðusett þar á viðeigandi hátt.

 

9. gr.

Uppdrættir, ljósmyndir og annað, sem ekki er unnt að hafa í málsgögnum þannig að vel fari, skal vera í sérstöku bindi eða möppu. Það skal merkt með rómverskum tölum og skal þessara gagna getið þar í málsgögnum sem þau ella væru.

 

10. gr.

Nú skilar ákærði einnig málsgögnum af sinni hálfu og skal kaflaskipan í efnisskrá hans vera með sama hætti og greinir frá í 5. gr.
Ákærði skal tilgreina þá sem hann óskar eftir að gefi skýrslu fyrir Landsrétti og ríkissaksóknari hefur ekki þegar tilgreint, ásamt hlutlausum og hnitmiðuðum útdrætti úr framburði þeirra sem gefið hafa skýrslu fyrir héraðsdómi og ákærði óskar eftir að gefi viðbótarskýrslu fyrir Landsrétti auk þess sem markmið þeirrar skýrslugjafar er skilgreint. Óski ákærði eftir því að hlýtt verði á upptökur framburðar við aðalmeðferð ber honum að greina með eins nákvæmum hætti og kostur er hvaða hluta framburðar er talið að skipti máli að hlýða á.

 

11. gr.

Nú er héraðsdómur ómerktur og máli vísað heim í hérað til meðferðar og getur þá ríkissaksóknari óskað eftir því að Landsréttur varðveiti málsgögn í 12 mánuði. Sé dómi áfrýjað á ný má ríkissaksóknari, við gerð málsgagna, láta við það sitja að hafa þar einungis þau gögn sem bæst hafa við frá fyrri meðferð málsins og skal hann skipa þeim í röð í samræmi við þessar reglur eftir því sem við á. Að öðru leyti er heimilt að nota eldri málsgögn.

 

12. gr.

Nú afhendir ríkissaksóknari, eða ákærði ef því er að skipta, Landsrétti málsgögn sem eru í verulegu ósamræmi við reglur þessar og getur þá rétturinn, allt þar til sjö dögum fyrir flutning málsins, mælt fyrir um að bætt skuli úr innan tilgreinds frests. Nú er fyrirmælum um úrbætur ekki sinnt og getur þá Landsréttur frestað máli þar til úr hefur verið bætt.

Reglur þessar eru settar samkvæmt heimild í 3. mgr. 202. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, sbr. 12. gr. laga nr. 49/2016 um breytingu á lögum um meðferð einkamála og sakamála og öðlast gildi þegar í stað.

 

Landsrétti 2. janúar 2018

Hervör Þorvaldsdóttir

Björn L. Bergsson