REGLUR

um réttindi lögmanna við rekstur máls

fyrir Landsrétti
______________


1. gr.

Til að flytja áfrýjað einkamál fyrir Landsrétti þarf lögmaður að hafa málflutningsréttindi fyrir Landsrétti. Sömu réttindi þarf til að fá í sakamáli skipun sem verjandi eða réttargæslumaður eða til að flytja mál brotaþola fyrir réttinum.
Héraðsdómslögmanni sem fengið hefur réttindi samkvæmt 2. mgr. 9. gr. laga nr. 61/1942 um málflytjendur, sbr. 31. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn, er heimilt að flytja áfrýjað einkamál fyrir réttinum og fá skipun í sakamáli sem verjandi eða réttargæslumaður eða til að flytja mál brotaþola fyrir réttinum.

Um heimild lögmanns í öðru ríki á Evrópska efnahagssvæðinu til að flytja mál fyrir réttinum fer eftir 3. mgr. 2. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn.

 

2. gr.

Í einkamálum og sakamálum er héraðsdómslögmönnum heimilt að kæra úrskurð héraðsdóms til Landsréttar.

Til að skila greinargerð vegna kæru í einkamáli þarf lögmaður að hafa málflutningsréttindi fyrir Landsrétti. Í sakamálum er héraðsdómslögmanni, sem skipaður hefur verið verjandi eða réttargæslumaður fyrir héraðsdómi, þó heimilt að skila greinargerð til réttarins vegna kæru.

Í kærumálum eftir lögum nr. 13/1984 um framsal og aðra réttaraðstoð í sakamálum, lögræðislögum nr. 71/1997, barnaverndarlögum nr. 80/2002 og lögum nr. 12/2010 um handtöku og afhendingu manna milli Norðurlanda vegna refsiverðra verknaða (norræn handtökuskipun), er héraðsdómslögmanni, sem gætir hagsmuna aðila máls, þó heimilt að skila greinargerð til réttarins.


3. gr.

Lögmaður sem lætur frá sér fara kæru eða greinargerð skal undirrita hana sjálfur.


4. gr.

Héraðsdómslögmaður getur sótt um áfrýjunarleyfi til réttarins og tekið til andsvara vegna beiðni um slíkt leyfi.

 

Reglur þessar voru samþykktar á fundi dómara Landsréttar 13. febrúar 2018.

Kópavogi, 14. febrúar 2018

Björn L. Bergsson,
skrifstofustjóri.