REGLUR
um málsgögn í einkamálum

______________1. gr.

Þegar áfrýjandi afhendir Landsrétti áfrýjunarstefnu og greinargerð sína skal hann jafnframt skila málsgögnum á skrifstofu réttarins. Til málsgagna teljast þau málskjöl og önnur gögn sem áfrýjandi hyggst byggja mál sitt á fyrir Landsrétti og liggja þegar fyrir, auk skjala sem stefndi reisti mál sitt á í héraði og áfrýjandi má með réttu telja nauðsynleg vegna varna stefnda fyrir réttinum. Í málsgögnum skulu einnig vera héraðsdómurinn sem áfrýjað er, endurrit þinghalda í héraði og önnur gögn, sem mælt er fyrir um í reglum þessum. Til málsgagna teljast hljóð- og myndupptökur af aðila- og vitnaskýrslum fyrir héraðsdómi.

Landsrétti skulu afhent málsgögn í þeim fjölda eintaka sem rétturinn telur þörf á. Jafnframt skal áfrýjandi láta í té rafrænt eintak allra gagna málsins, þar með talið hljóð- og myndupptökur á minnislykli sem fram fóru í héraðsdómi eða með öðrum tæknilega fullnægjandi hætti. Afhenda skal stefnda, eða hverjum stefnda ef þeir eru fleiri en einn, eitt eintak málsgagna auk rafræns eintaks um leið og þau eru afhent Landsrétti.


2. gr.

Áfrýjandi ber ábyrgð á gerð málsgagna og að þau séu í samræmi við þessar reglur. Hann skal hafa samráð við stefnda um gerð þeirra og um hvaða skjölum, sem lögð voru fram í héraði, sé ofaukið vegna flutnings málsins fyrir Landsrétti. Hann skal taka sanngjarnt tillit til sjónarmiða stefnda um hvaða skjöl eigi að vera í málsgögnum.

Nú greinir aðila á um hvaða skjala sé þörf við gerð málsgagna og stefndi telur ástæðu til að þar séu skjöl sem áfrýjandi telur ofaukið og er stefnda þá heimilt að leggja þau fram af sinni hálfu. Í því tilviki ber hann ábyrgð á gerð þeirra málsgagna sem hann skilar.

Málsaðilum er skylt að gæta þess að ekki séu í málsgögnum, sem þeir afhenda Landsrétti, skjöl sem engu skipta við úrlausn málsins fyrir réttinum og að þar sé aðeins eitt eintak af hverju skjali.


3. gr.

Fremst í málsgögnum skal vera efnisskrá yfir gögnin og skal geta um blaðsíðutal hvers skjals.

Efnisskránni skal skipað svo:

Í fyrsta kafla skal geta allra skjala í framlagningarröð í héraði með réttu númeri og með vísan til blaðsíðutals í málsgögnunum. Þau skjöl sem lögð voru fram í héraði, en sleppt er í málsgögnum, skulu vera yfirstrikuð.

Í öðrum kafla skal greina skjöl í þeirri röð sem þau koma fyrir í málsgögnum, (sbr. b- til e-liði þessarar greinar) og geta blaðsíðutals í málsgögnum.

Í þriðja kafla skal greina öll þinghöld í málinu í héraði og endurrit af framburði málsaðila og vitna fyrir héraðsdómi (sbr. f- og g-liði þessarar greinar) og vísa til blaðsíðutals í málsgögnum þar sem endurrit þinghalds og einstaka framburðar er að finna.

Í fjórða kafla skal geta nýrra skjala, sem lögð eru fyrir Landsrétt (sbr. h- til j-liði þessarar greinar) með bókstafsmerkingum þeirra og jafnframt geta blaðsíðutals þar sem þau má finna í málsgögnum.

Í fimmta kafla skal geta þeirra skjala sem Landsréttur gerir kröfu um að fylgi málsgögnum og talin eru upp í k- til m-liðum þessarar greinar.

Röð skjala í málsgögnum og rafrænu eintaki þeirra skal vera sem hér segir:

a. Efnisskrá,

b. héraðsdómsstefna og skrá um framlögð gögn við þingfestingu máls í héraði,

c. greinargerð stefnda í héraði,

d. gagnstefna í héraði og greinargerð í gagnsök ef því er að skipta,

e. framlögð skjöl í héraði, að því marki sem áfrýjandi telur að vera þurfi í málsgögnum, að teknu tilliti til sjónarmiða stefnda. Skjölin skulu vera í tímaröð. Ótímasett skjöl skulu vera þar sem þau eiga helst heima miðað við efnislegt samhengi þeirra við önnur skjöl,

f. endurrit af bókunum í þingbók í héraði í tímaröð,

g. endurrit af framburði málsaðila og vitna fyrir héraðsdómi að því leyti sem þörf er á vegna reksturs málsins,

h. héraðsdómurinn, sem áfrýjað er,

i. áfrýjunarstefna,

j. greinargerð áfrýjanda,

k. tímaskrá þar sem tilgreind eru öll meginatriði málsatvika í tímaröð,

l. hlutlæg greining málsins og lýsing ágreiningsefna fyrir Landsrétti. Hún skal vera stutt og svo glögg sem verða má,

m. skrá yfir nöfn þeirra sem komið hafa fyrir dóm við meðferð málsins í héraði. Þá skal tiltaka nöfn þeirra sem óskað er eftir að verði leiddir til skýrslugjafar fyrir Landsrétti. Taka ber saman hlutlausan og hnitmiðaðan útdrátt úr framburði þeirra sem gefið hafa skýrslu fyrir héraðsdómi og óskað er eftir að gefi viðbótarskýrslu fyrir Landsrétti auk þess sem markmið þeirrar skýrslugjafar er skilgreint. Óski áfrýjandi eftir því að hlýtt verði á upptökur framburðar við aðalmeðferð ber honum að greina með eins nákvæmum hætti og kostur er hvaða hluta framburðar er talið að skipti máli að hlýða á.

Ef málsgögn eru í fleiri en einu hefti skal, auk blaðsíðutals, tilgreina í hvaða bindi þau eru.

 

4. gr.

Nú skilar stefndi einnig málsgögnum af sinni hálfu og skal kaflaskipan í efnisskrá hans vera með sama hætti og greinir í 3. gr. Í efnisskrá stefnda skal einungis geta skjala sem þar eru tekin upp.

Ef stefndi óskar eftir því að leiða aðila eða vitni til skýrslugjafar fyrir Landsrétti, sem áfrýjandi hefur ekki þegar tilgreint, skal hann tiltaka nöfn þeirra og taka saman hlutlausan og hnitmiðaðan útdrátt úr framburði þeirra sem gefið hafa skýrslu fyrir héraðsdómi og óskað er eftir að gefi viðbótarskýrslu fyrir Landsrétti auk þess sem markmið þeirrar skýrslugjafar er skilgreint. Óski stefndi eftir því að hlýtt verði á upptökur framburðar við aðalmeðferð ber honum að greina frá því með eins nákvæmum hætti og kostur er hvaða hluta framburðar er talið að skipti máli að hlýða á.

 

5. gr.

Málsgögn skulu vera í einu bindi eða fleiri ef þarf. Á kápu skal greina nafn og númer máls og nöfn þeirra sem flytja málið fyrir Landsrétti. Endurrit og ljósrit skjala skulu vera skýr, vel læsileg og án yfirstrikana eða merkja um þær.

 

6. gr.

Nú er hluta skjals, sem lagt var fram í héraði, sleppt og skal þess þá getið sérstaklega í skjalinu þar sem úrfellingin er. Taka skal fram hve mörgum blaðsíðum er sleppt.

 

7. gr.

Málsgögn skulu vera með blaðsíðutali. Ný skjöl fyrir Landsrétti skulu merkt með bókstöfum og skulu þau þeirra sem komast í málsgögnin jafnframt vera blaðsíðusett þar á viðeigandi hátt.

 

8. gr.

Uppdrættir, ljósmyndir og annað, sem ekki er unnt að hafa í málsgögnum þannig að vel fari, skal vera í sérstöku bindi eða möppu. Það skal merkt með rómverskum tölum og skal þessara gagna getið í málsgögnum þar sem þau ella væru.

 

9. gr.

Nú er héraðsdómur ómerktur og máli vísað heim í hérað til meðferðar og getur þá málsaðili óskað eftir því að Landsréttur varðveiti málsgögn í 12 mánuði. Sé dómi áfrýjað á ný má áfrýjandi, við gerð málsgagna, láta við það sitja að hafa þar einungis þau gögn sem bæst hafa við frá fyrri meðferð málsins og skal hann skipa þeim í röð í samræmi við þessar reglur eftir því sem við á. Að öðru leyti má hann nota eldri málsgögn.

 

10. gr.

Nú afhendir áfrýjandi eða stefndi Landsrétti málsgögn sem eru í verulegu ósamræmi við reglur þessar og getur þá rétturinn, allt þar til sjö dögum fyrir flutning málsins, mælt fyrir um að bætt skuli úr innan tilgreinds frests. Nú er fyrirmælum um úrbætur ekki sinnt og getur þá Landsréttur frestað máli þar til úr hefur verið bætt.

 

Reglur þessar eru settar samkvæmt heimild í 4. mgr. 156. gr. og 3. mgr. 159. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 12. gr. laga nr. 49/2016 um breytingu á lögum um meðferð einkamála og  sakamála og öðlast gildi þegar í stað.

 

Landsrétti, 2. janúar 2018

Hervör Þorvaldsdóttir

Björn L. Bergsson