Viðmiðunarreglur

Landsréttar um málskostnaðartryggingar

_______________________

 

1. gr.
Form tryggingar

Landsréttur ákveður form málskostnaðartryggingar og metur hvort taka eigi tryggingu gilda.

Að jafnaði er rétt að leggja málskostnaðartryggingu fram í formi reiðufjár eða bankatryggingar.

 

2. gr. 
Meðferð málskostnaðartryggingar í reiðufé

Reiðufé sem afhent er sem málskostnaðartrygging varðveitir Landsréttur á bankareikningi í eigin nafni, auðkennt viðkomandi dómsmáli með málsnúmeri. Vextir sem á slíkt reiðufé falla bætast við trygginguna.

 

3. gr.
Gildistími bankatryggingar

Rétt er að setja það skilyrði að bankatrygging, sem lögð er fram sem málskostnaðar-trygging, haldi fullu gildi þar til Landsréttur staðfestir að hún sé úr gildi fallin en þó ekki lengur en í þrjú ár frá því að tryggingin var tekin. Slík trygging ber hvorki vexti né verðtryggingu nema dómari ákveði annað.

 

4. gr.
Bókun um málskostnaðartryggingu

Hafi málskostnaðartrygging verið sett skal bókað í þingbók hvers konar tryggingu sé um að ræða og hversu háa og skulu skilríki um trygginguna lögð fram í málinu.

 

5. gr.
Afhending málskostnaðartryggingar

Málskostnaðartrygging skal afhent Landsrétti. Sá sem setur málskostnaðartryggingu á rétt á því að frá kvittun fyrir afhendingu tryggingarinnar.

 

6. gr.
Greiðsla tryggingarfjár

Nú er sá sem setur málskostnaðartryggingu í formi reiðufjár dæmdur til að greiða málskostnað eða gerir sátt þar um og ber þá að greiða dæmdan, úrskurðaðan eða umsaminn málskostnað af tryggingarfé þegar fyrir liggur yfirlýsing um að ekki komi til frekari áfrýjunar málsins, þegar áfrýjunarfrestur er liðinn án áfrýjunar eða þegar endanlegur dómur er genginn í málinu. Innstæða, svo og vextir sem hún hefur borið, skal greidd þeim sem á að fá tryggingarféð að því marki sem nauðsynlegt er til þess að málskostnaður verði að fullu greiddur. Sömu skilyrði og að framan greinir gilda um endurgreiðslu tryggingarfjár til þess sem trygginguna setti.

Nú er málskostnaðartrygging sett í formi bankatryggingar og skal þá Landsréttur, þegar fyrir liggur yfirlýsing um að ekki komi til áfrýjunar málsins, þegar áfrýjunarfrestur er liðinn án áfrýjunar eða þegar endanlegur dómur er genginn í málinu, gefa út yfirlýsingu um að banka sé heimilt að greiða tryggingarhafa allt tryggingarféð eða þann hluta sem samsvarar dæmdum, úrskurðuðum eða umsömdum málskostnaði, eða eftir atvikum um að trygginguna megi fella niður.

Aðili máls, sem telur sig eiga rétt til tryggingarfjár, skal gera reka að því að fá það greitt út með því að krefja um greiðslu þess eða afla yfirlýsingar Landsréttar um að banka sé heimilt að greiða honum það.

 

7. gr.
Fyrning

Ef tryggingarfjár, sem afhent hefur verið í formi reiðufjár, er ekki vitjað gilda um það almennar fyrningarreglur.

 

8. gr.
Aðrar tryggingar

Viðmiðunarreglur þessar gilda, eftir því sem við getur átt, um tryggingu fyrir greiðslu þóknunar til matsmanns, skv. 63. gr. laga nr. 91/1991, og tryggingu vegna ástæðulausrar kæru, skv. 3. mgr. 170. gr. sömu laga.

 

 

Þannig samþykkt á fundi dómara Landsréttar
14. mars 2018.