Mál nr. 227/2018

Ákæruvaldið (Björn Þorvaldsson saksóknari)
gegn
X (Reimar Snæfells Pétursson lögmaður)
Lykilorð
 • Kærumál.
 • Skattalög.
 • Álag.
 • Mannréttindasáttmáli Evrópu.
 • Frávísunarúrskurður staðfestur.
Útdráttur

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem máli ákæruvaldsins gegn X, sem áður hafði sætt álagi skattyfirvalda vegna sömu brota, var vísað frá dómi þar eð hin tvíþætta málsmeðferð færi í bága við 4. gr. 7. viðauka mannréttindasáttmála Evrópu.

Úrskurður Landsréttar

Landsréttardómararnir Jón Finnbjörnsson, Ragnheiður Bragadóttir og Þorgeir Ingi Njálsson kveða upp úrskurð í máli þessu.


Málsmeðferð og dómkröfur aðila

 1. Sóknaraðili skaut málinu til Landsréttar með kæru 26. febrúar 2018, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 1. mars sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 23. febrúar 2018 í málinu nr. S-[…]/2014 þar sem vísað var frá dómi máli sóknaraðila gegn varnaraðila. Kæruheimild er í t-lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.
 2. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar.
 3. Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

  Málsatvik
 4. Eins og rakið er í hinum kærða úrskurði hóf skattrannsóknarstjóri ríkisins rannsókn á skattskilum varnaraðila 31. janúar 2011 og gaf varnaraðili skýrslu 16. júní sama ár. Þá var 6. júlí sama ár tekin skýrsla af endurskoðanda sem annaðist skattframtöl varnaraðila. Að framkomnum athugasemdum varnaraðila í bréfi lögmanns hans 2. desember 2011 lauk skattrannsóknarstjóri rannsókn sinni með skýrslu 29. sama mánaðar. Samdægurs var mál varnaraðila sent ríkisskattstjóra til meðferðar samkvæmt 6. mgr. 103. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt.
 5. Ríkisskattstjóri boðaði endurákvörðun álagðra gjalda varnaraðila með bréfi 9. júlí 2012. Varnaraðili mótmælti fyrirhuguðum breytingum með bréfi 30. ágúst sama ár. Með úrskurði 11. september 2012 endurákvarðaði ríkisskattstjóri opinber gjöld varnaraðila gjaldárin 2007 til 2010 auk þess sem hann lagði á varnaraðila álag samkvæmt heimild í 1. og 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003.
 6. Varnaraðili skaut úrskurði ríkisskattstjóra til yfirskattanefndar með kæru 11. desember 2012. Í úrskurði 6. nóvember 2013 féllst nefndin á kröfu varnaraðila um frádrátt kostnaðar við uppgjör afleiðusamninga en staðfesti niðurstöðu ríkisskattstjóra að öðru leyti. 
 7. Með bréfi 23. febrúar 2012 beindi skattrannsóknarstjóri máli varnaraðila til rannsóknar hjá embætti sérstaks saksóknara. Bréfinu fylgdi fyrrgreind skýrsla skattrannsóknarstjóra ásamt fylgiskjölum. Sérstakur saksóknari hóf rannsókn sína 1. mars 2013 með skýrslutöku af varnaraðila. Þá var varnaraðili á ný kvaddur til skýrslutöku hjá embættinu 14. júní sama ár. Að auki voru teknar skýrslur af þremur vitnum í maí 2013 og eitt þeirra gaf skýrslu að nýju 9. ágúst sama ár.
 8. Mál þetta var höfðað á hendur varnaraðila með ákæru sérstaks saksóknara 9. júlí 2014, sem birt var varnaraðila 21. ágúst sama ár, fyrir brot gegn 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. mgr. 109. gr. laga um tekjuskatt nr. 90/2003. Við fyrirtöku málsins 2. september 2014 var bókuð ákvörðun um að fresta því í ótiltekinn tíma vegna íslensks máls sem þá var rekið fyrir Mannréttindadómstól Evrópu. Lá fyrir að þar myndi reyna á svipuð álitaefni og þau sem um ræðir í þessu máli og varnaraðili telur að leiða eigi til frávísunar málsins frá héraðsdómi. Héldu kærendur því fram að þeir hefðu verið saksóttir tvisvar fyrir sama brot með álagningu viðbótarálags á skatta og í framhaldinu höfðun refsimáls í andstöðu við 4. gr. 7. samningsviðauka mannréttindasáttmála Evrópu. Féllst dómstóllinn með dómi 18. maí 2017 í máli Jóns Ásgeirs Jóhannessonar og fleiri gegn Íslandi á sjónarmið kærenda. Á þessu tímabili var mál þetta tekið fyrir þrisvar sinnum, 21. desember 2016 og 8. mars og 12. apríl 2017. Í síðastnefnda þinghaldinu ákvað héraðsdómari að fresta því þar til fyrir lægi dómur Hæstaréttar í máli ákæruvaldsins gegn X þar sem krafist hafði verið frávísunar á sama grunni og í þessu máli. Dómur í því var kveðinn upp 21. september 2017. Var kröfu ákærða um frávísun málsins hafnað og hann sakfelldur fyrir þau skattalagabrot sem hann var ákærður fyrir. Við fyrirtöku þessa máls 8. nóvember 2017 var ákveðið að munnlegur málflutningur um frávísunarkröfu varnaraðila færi fram 8. febrúar 2018. Var fallist á þá kröfu hans með hinum kærða úrskurði.  
 9. Um málsatvik að öðru leyti vísast til hins kærða úrskurðar.   

  Niðurstaða
 10. Samkvæmt 1. mgr. 4. gr. 7. samningsviðauka mannréttindasáttmála Evrópu skal eins og segir í íslenskri þýðingu málsgreinarinnar enginn sæta lögsókn eða refsingu að nýju í sakamáli innan lögsögu sama ríkis fyrir brot sem hann hefur þegar verið sýknaður af eða sakfelldur um með lokadómi samkvæmt lögum og sakamálaréttarfari viðkomandi ríkis.
 11. Svo sem greinir í úrskurði héraðsdóms og með vísan til dóms Hæstaréttar 21. september 2017 í máli nr. 283/2016, þar sem stuðst var við dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu, verður lagt til grundvallar að meðferð máls varnaraðila hjá skattyfirvöldum, sem vísað er til hér að framan, hafi verið sakamál í skilningi 1. mgr. 4. gr. 7. samningsviðaukans og enn fremur að með rekstri þess annars vegar og rannsókn sérstaks saksóknara, ákæru og málsmeðferð fyrir héraðsdómi hins vegar hafi verið rekin tvö aðskilin mál á hendur varnaraðila vegna sama brots í skilningi ákvæðisins.
 12. Hvað sem framangreindu líður og svo sem rakið er í hinum kærða úrskurði hefur verið litið svo á að sú regla mannréttindasáttmálans, sem hér reynir á og nefnd hefur verið ne bis in idem, standi því ekki í vegi að fjallað sé um sama brot annars vegar hjá skattyfirvöldum, sem leitt getur til endurákvörðunar skatta og beitingar álags, og hins vegar fyrir dómstólum í sakamáli sem leitt getur til refsingar vegna sömu eða sambærilegra atvika. Á hinn bóginn er ljóst að ákveðnum skilyrðum þarf að vera fullnægt svo ekki sé með því fyrirkomulagi brotið gegn reglunni. Svo sem fram kemur í dómi Mannréttindadómstóls Evrópu í málinu A og B gegn Noregi frá 15. nóvember 2016 og Hæstiréttur studdist meðal annars við í framangreindum dómi sínum þarf rekstur málanna tveggja að vera nægilega tengdur að efni til og í tíma til að úr verði samþætt heild, allt í því skyni að meðalhófs sé gætt og hin samþætta málsmeðferð leggi ekki óhóflegar byrðar á viðkomandi. Við mat á því hvort málsmeðferð teljist nægilega samþætt að efni til beri í fyrsta lagi að líta til þess hvort meðferð seinna málsins hafi verið til fyllingar eða viðbótar meðferð hins fyrra, í öðru lagi hvort hin tvíþætta málsmeðferð hafi verið fyrirsjáanleg afleiðing þeirrar háttsemi sem um ræðir, í þriðja lagi hvort leitast hafi verið við af fremsta megni að forðast endurtekna öflun og mat sönnunargagna og í fjórða lagi hvort í síðari málsmeðferðinni hafi verið tekið tillit til þeirra viðurlaga sem áður voru á lögð. Við mat á því hvort rekstur málanna teljist nægilega samþættur í tíma sé ekki gerð krafa um að meðferð beggja mála hafi farið fram samhliða frá upphafi til enda en þó þurfi tímaleg tengsl að vera nægilega náin til að koma í veg fyrir óhóflegt óhagræði, óvissu og tafir vegna málareksturs sem dregst yfir lengri tíma. Jafnframt var því slegið föstu að þrátt fyrir að orðalag ákvæðisins gæfi til kynna að um endanlega ákvörðun þyrfti að vera að ræða í fyrra málinu, en það hefur í framkvæmd mannréttindadómstólsins verið metið með tilliti til þess hvort kæru- eða málshöfðunarfrestir séu liðnir, væri í málum af þessu tagi ekki nauðsynlegt að taka afstöðu til þess hvort eða hvenær ákvörðun er orðin endanleg þar sem það hafi ekki áhrif á mat á því hvort nægileg tengsl, í framangreindum skilningi, séu á milli meðferðar málanna.  
 13. Við mat á efnislegum tengslum mála varnaraðila er til þess að líta að þau viðurlög sem honum var gert að sæta hjá skattyfirvöldum og sem standa fyrir dyrum, verði hann sakfelldur í sakamálinu fyrir dómstólum, voru fyrirsjáanleg sem úrræði samkvæmt íslenskum rétti vegna brota á skattalögum. Þá hafði varnaraðili á öllum stigum málsins vitneskju frá skattyfirvöldum um í hvaða farveg mál hans væru lögð. Jafnframt leiðir af 109. gr. laga nr. 90/2003 að við ákvörðun refsingar í sakamálinu skuli tillit tekið til þess álags sem varnaraðili hefur sætt hjá skattyfirvöldum.
 14. Í framangreindum dómi Hæstaréttar 21. september 2017 var lagt til grundvallar að hvað hina lagalegu umgjörð varðar hefði sakamálið verið til fyllingar eða viðbótar málsmeðferð skattyfirvalda að efni til. Í málinu reyndi á málsmeðferð samkvæmt lögum nr. 90/2003. Því var jafnframt slegið föstu að það gæti verið hluti af efnislega samþættri málsmeðferð sem standist kröfur 4. gr. 7. viðauka við mannréttindasáttmálann þegar rannsókn lögreglu byggir á rannsókn skattrannsóknarstjóra, en nauðsynlegt reynist að afla viðbótargagna um einhverja þætti máls sem ekki hafa verið rannsakaðir nægilega af skattyfirvöldum. Þá yrði ekki séð að sú rannsókn sem sérstakur saksóknari ákvað að ráðast í hefði verið ónauðsynleg endurtekning fyrri málsmeðferðar, heldur hefði verið um að ræða rekstur tveggja aðskilinna mála sem mynduðu að efni til eina samþætta heild. Að virtum gögnum þessa máls þykir mega leggja til grundvallar að sama aðstaða sé að þessu leyti uppi í því.
 15. Með vísan til þess sem að framan er rakið telst fullnægt skilyrðinu um nauðsynlega efnislega samþættingu mála varnaraðila hjá annars vegar skattyfirvöldum og hins vegar ákæruvaldi og dómstólum. 
 16. Við úrlausn um það hvort skilyrðinu um samþættingu í tíma hafi verið fullnægt við rekstur mála skattyfirvalda og ákæruvalds á hendur varnaraðila er áréttað það markmið þess að tryggja að skattþegninn sem í hlut á sé ekki settur í óþarfa óvissu og tafir vegna málareksturs sem dregst yfir lengri tíma. Þá þarf að leggja mat á framvindu málsmeðferðar út frá viðmiðum samkvæmt dómum Mannréttindadómstóls Evrópu í máli Jóns Ásgeirs Jóhannessonar og fleiri gegn Íslandi og A og B gegn Noregi og dómi Hæstaréttar 21. september 2017 í máli ákæruvaldsins gegn X sem áður er getið. Var skilyrðinu um nægjanlega samþættingu í tíma talið fullnægt í seinni málunum tveimur en ekki í því fyrstnefnda.
 17. Heildartími sem rekstur beggja mála varnaraðila hefur þegar tekið er rétt rúm sjö ár og er þá miðað við tímann frá því skattrannsóknarstjóri hóf rannsókn sína 31. janúar 2011 þar til hinn kærði úrskurður um frávísun málsins var kveðinn upp 23. febrúar 2018. Þá er til þess að líta að frestun á málsmeðferð á meðan beðið var dóms mannréttindadómstólsins í máli Jóns Ásgeirs Jóhannessonar og fleiri, það er frá 2. september 2014 til 21. desember 2016, getur ekki talist vera á ábyrgð varnaraðila enda þótt hann hafi ekki lýst sig mótfallinn henni.
 18. Frá uppkvaðningu úrskurðar yfirskattanefndar þar til ákæra var gefin út 9. júlí 2014 liðu átta mánuðir og við það verður að miða að varnaraðili hafi ekki haft um hana vitneskju fyrr en hún var birt honum 21. ágúst sama ár.
 19. Þegar virtur er sá tími sem rekstur mála varnaraðila var samhliða hjá skattyfirvöldum og lögreglu, ákæruvaldi og dómstólum kemur í ljós að málin voru rekin samhliða í átta mánuði, það er frá 1. mars 2013 þegar varnaraðili gaf fyrst skýrslu sem sakborningur hjá sérstökum saksóknara og til 6. nóvember 2013 þegar úrskurður yfirskattanefndar var kveðinn upp. Stafar þessi skörun einvörðungu af því að varnaraðili nýtti sér rétt sinn til að kæra til nefndarinnar úrskurð ríkisskattstjóra frá 11. september 2012. Þá hefur sakamálið verið rekið eitt og sér frá 6. nóvember 2013.
 20. Í ljósi heildarmats allra tímaþátta, en jafnframt með sérstakri vísan til þess sem rakið er hér að framan um einstaka þætti, þykir mega fallast á það með varnaraðila að skilyrðinu um nauðsynlega samþættingu í tíma hafi ekki verið fullnægt við rekstur mála hans hjá skattyfirvöldum annars vegar og ákæruvaldi og dómstólum hins vegar. Samkvæmt því hefur með rekstri málanna verið brotið gegn ákvæðum 1. mgr. 4. gr. 7. samningsviðauka mannréttindasáttmálans, sbr. lög nr. 62/1994. Af því leiðir að staðfesta ber hinn kærða úrskurð.
 21. Kærumálskostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun skipaðs verjanda varnaraðila, Reimars Péturssonar lögmanns, sem ákveðin verður að teknu tilliti til virðisaukaskatts svo sem í úrskurðarorði greinir.

Úrskurðarorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Kærumálskostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun verjanda varnaraðila, Reimars Péturssonar lögmanns, 496.000 krónur.


Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur föstudaginn 23. febrúar 2018

Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 8. febrúar 2018, var höfðað með ákæru sérstaks saksóknara, dags. 9. júlí 2014, á hendur X, kt. […],[…], Reykjavík, fyrir meiri háttar brot gegn skattalögum, en samkvæmt ákæru lét ákærði undir höfuð leggjast að telja fram á skattframtölum sínum, vegna gjaldáranna 2007 til og með 2010, fjármagnstekjur samtals að fjárhæð 911.256.860 krónur, sem voru tekjur ákærða af 648 framvirkum samningum sem gerðir voru við Glitni banka hf., Landsbanka Íslands hf. og Straum – Burðarás Fjárfestingabanka hf., sem sundurliðast nánar í ákæru, og skattskyldar voru skv. 3. tl. C-liðar 7. gr., sbr. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt, og hafa með því komið sér undan greiðslu fjármagnstekjuskatts samtals að fjárhæð 91.125.686 krónur, sem nánar sundurliðast í ákæru.

Framangreind brot ákærða teljast varða við 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 39/1995 og 139. gr. laga nr. 82/1998, sbr. 1. mgr. 109. gr. laga um tekjuskatt nr. 90/2003, með síðari breytingum. Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

Í þessum þætti málsins krefst ákærði þess að málinu verði vísað frá dómi og að allur sakarkostnaður vegna málsins verði greiddur úr ríkissjóði, þ.m.t. málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans.

Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að kröfu ákærða um frávísun verði hafnað.

                                                                                   I.

Forsaga málsins er sú að 31. janúar 2011 hóf skattrannsóknarstjóri ríkisins rannsókn á skattskilum ákærða vegna tekjuáranna 2005 til og með 2009. Beindist hún einkum að vantöldum fjármagnstekjum ákærða og þar á meðal vantöldum tekjum af framvirkum samningum sem hann gerði við Glitni banka hf., Landsbanka Íslands hf. og Straum – Burðarás Fjárfestingabanka hf. umrædd ár. Vegna rannsóknarinnar kom ákærði til skýrslutöku hjá skattrannsóknarstjóra 16. júní 2011 og var skýrsla tekin 6. júlí sama ár af endurskoðanda sem annast hafði skattframtöl ákærða.

Með bréfi 7. október 2011 sendi skattrannsóknarstjóri ákærða skýrslu um rannsóknina sem dagsett var 5. sama mánaðar og gaf honum kost á að tjá sig um efni hennar og koma á framfæri athugasemdum ef þurfa þætti. Í bréfi 2. desember 2011 gerði ákærði tilteknar athugasemdir við skýrslu skattrannsóknarstjóra sem í framhaldi af því tók saman nýja skýrslu 29. sama mánaðar. Í henni var fjallað um andmæli ákærða og tekið fram að þau hefðu gefið tilefni til breytinga á skýrslunni frá upprunalegu horfi. Í skýrslunni var að finna samandregnar niðurstöður þar sem fram kom að ákærði hefði staðið skil á efnislega röngum skattframtölum vegna tekjuáranna 2006 og 2007. Hefði hann þar meðal annars vanrækt að gera grein fyrir skattskyldum tekjum vegna jákvæðs mismunar af framvirkum gjaldmiðlasamningum og framvirkum samningum með undirliggjandi skuldabréf. Þá hefði ákærði vanrækt að standa skil á skattframtölum vegna tekjuáranna 2008 og 2009.

Skattrannsóknarstjóri sendi ríkisskattstjóra mál ákærða til meðferðar með bréfi 29. desember 2011, sbr. 6. mgr. 103. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt. Var ákærða með bréfi sama dag tilkynnt um lok rannsóknar skattrannsóknarstjóra og að málið hefði á grundvelli fyrirliggjandi gagna verið sent ríkisskattstjóra sem myndi taka ákvörðun um hugsanlega endurálagningu. Í bréfinu sagði að fyrir lægi af hálfu skattrannsóknarstjóra að taka ákvörðun um refsimeðferð málsins í samræmi við ákvæði 110. gr. laga nr. 90/2003. Þar sem ákærði kynni að hafa bakað sér refsiábyrgð vegna þeirra brota á lögum sem upplýst hefðu verið við rannsóknina gæfist honum kostur á að tjá sig um fyrirhugaða refsimeðferð. Refsimeðferð gæti falist í því að skattrannsóknarstjóri gæfi ákærða kost á að ljúka henni með sektargerð, eða að máli hans yrði vísað til sektarmeðferðar hjá yfirskattanefnd eða til rannsóknar lögreglu. Var ákærða veittur 30 daga frestur til að tjá sig um fyrirhugaða refsimeðferð.

Ákærði fór þess á leit með bréfi 26. janúar 2012 til skattrannsóknarstjóra að málið yrði fellt niður þar sem rannsóknin hefði leitt í ljós að saknæmisskilyrðum væri ekki fullnægt. Skattalög væru ekki skýr og ótvíræð um ágreiningsefnið. Auk þess væri ljóst að engin ástæða væri til að ætla að ákærði hefði skilað efnislega röngum skattframtölum af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi. Yrði ekki fallist á niðurfellingu rannsóknar væri þess krafist að málinu lyki með sektarmeðferð hjá skattyfirvöldum.

Ríkisskattstjóri kvaðst í bréfi til ákærða 9. júlí 2012 hafa í hyggju að endurákvarða áður álögð opinber gjöld hans gjaldárin 2007 til og með 2010 með vísan til 6. mgr. 103. gr. og 96. gr. laga nr. 90/2003. Skýrsla skattrannsóknarstjóra fylgdi með og vísaði ríkisskattstjóri til þess að líta bæri á hana sem hluta forsendna boðaðra breytinga og væri af þeim sökum ekki tilefni til ítarlegrar umfjöllunar um efni hennar. Í niðurstöðukafla bréfsins greindi frá því að ríkisskattstjóri hygðist hækka stofn ákærða til útreiknings fjármagnstekjuskatts gjaldárin 2007, 2008, 2009 og 2010, en samkvæmt þágildandi 3. mgr. 66. gr. laga nr. 90/2003 skyldi tekjuskattur af fjármagnstekjum einstaklinga utan rekstrar vera 10% af þeim tekjum. Þær breytingar myndu leiða til hækkunar á stofni ákærða til útreiknings fjármagnstekjuskatts um 82.238.388 krónur gjaldárið 2007, vegna tekjuársins 2006, um 195.805.171 krónu gjaldárið 2008, vegna tekjuársins 2007, um 596.559.679 krónur gjaldárið 2009, vegna tekjuársins 2008, og um 90.650.632 krónur gjaldárið 2010, vegna tekjuársins 2009. Stofn gjaldanda til útreiknings auðlegðarskatts var svo ákveðinn 160.941.112 krónur vegna ákærða. Þá var tekið fram að ríkisskattstjóri hygðist nýta heimild 1. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003 og bæta 15% álagi á vanframtalinn stofn til fjármagnstekjuskatts gjaldárin 2009 og 2010 og auðlegðarskatts gjaldárið 2010. Álag á stofn ákærða til fjármagnstekjuskatts samkvæmt því varð 85.997.834 krónur gjaldárið 2009 og 10.490.824 krónur gjaldárið 2010. Álag á stofn ákærða til auðlegðarskatts varð 24.141.170 krónur. Einnig var tekið fram að ríkisskattstjóri hygðist nýta heimild 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003 og bæta 25% álagi á vantalinn stofn til fjármagnstekjuskatts gjaldárin 2007 og 2008. Álag á stofn ákærða til fjármagnstekjuskatts samkvæmt því varð 20.559.597 krónur gjaldárið 2007 og 48.951.293 krónur gjaldárið 2008. Þá sagði: „Vantaldar tekjur teljast svo stórfelldur annmarki á skattframtali gjaldanda að ekki eru efni til annars en að beita umræddu álagi enda hefur ekkert komið fram um það að gjaldanda verði ekki kennt um annmarka þessa á skattframtali hans. Sé það skoðun gjaldanda er hann hér með hvattur til þess að færa fram slíkar röksemdir og styðja þær gögnum í andmælum við bréfi þessu.“ Var ákærða veittur frestur til 25. sama mánaðar til að gera athugasemdir vegna skýrslunnar eða fyrirhugaðrar endurálagningar. Yrði endurákvörðun framkvæmd að fresti liðnum og tekið tillit til athugasemda kæmu þær fram innan frests og gæfu tilefni til breytinga. Sá frestur var síðar framlengdur að beiðni ákærða til 1. september 2012.

Með bréfi 31. ágúst 2012 mótmælti ákærði fyrirhuguðum breytingum ríkisskattstjóra. Í andmælunum kom fram að ákærði gæti ómögulega sætt sig við boðaðar breytingar. Galli hefði verið á málsmeðferð hjá skattrannsóknarstjóra enda hefði hlutlægni ekki verið gætt við hana. Þá hefði verið horft fram hjá framtalsmáta ákærða sem hefði verið í samræmi við framkvæmd sem tíðkast hefði og verið átölulaus um árabil. Þannig hefði ákærði í raun talið fram allar sínar tekjur miðað við þá framkvæmd sem hefði tíðkast í málum af þessum toga. Þá væri ekki unnt að líta fram hjá efnislegum raunveruleika þeirra viðskipta sem um ræddi, en afkoma þeirra gæti aðeins ráðist með því að reikna tap á móti hagnaði samninganna sem um ræddi, svo sem ákærði hefði gert. Eins var vísað með almennum hætti til fyrri andmæla í bréfi 2. desember 2011 til skattarannsóknarstjóra. Að endingu mótmælti ákærði beitingu álags í málinu, hann hefði haft fulla ástæðu til að ætla að skattskil hans væru fullnægjandi, hann hefði notið aðstoðar fagmanna í skattskilum sínum og væri einstaklingur.

Ríkisskattstjóri hratt áður boðuðum breytingum, í bréfi embættisins til ákærða 9. júlí 2012, í framkvæmd og endurákvarðaði opinber gjöld ákærða með úrskurði 11. september 2012. Vegna andmæla ákærða tók ríkisskattstjóri fram að þau gæfu ekki tilefni til að falla frá beitingu álags á vanframtaldar tekjur. Eins lægi fyrir að ákærði hefði ekki skilað skattskýrslum fyrir tekjuárin 2008 og 2009 fyrr en eftir að rannsókn skattrannsóknarstjóra hefði hafist. Ákærði hefði því ekki haft neina ástæðu til að telja skattskil sín fullnægjandi vegna þeirra ára og þá væri ákærði sjálfur ábyrgur fyrir eigin skattskilum og gæti ekki velt þeirri ábyrgð yfir á aðra. Þá teldist vanþekking ekki vera gild ástæða til að falla frá beitingu álags enda hefði ákærða verið í lófa lagið að leita upplýsinga hjá embætti ríkisskattstjóra um skattlagningu umræddra tekna.

Ákærði skaut úrskurði ríkisskattstjóra til yfirskattanefndar 11. desember 2012. Þar var þess krafist að hækkun ríkisskattstjóra á stofni til fjármagnstekjuskatts gjaldárin 2007 til og með 2010 yrði hnekkt. Þá var þess krafist að álag yrði fellt niður, þar með talið á auðlegðarskattsstofn. Einnig var þess krafist að innsend skattframtöl gjaldárin 2009 og 2010 yrðu lögð til grundvallar álagningu opinberra gjalda þau ár, að teknu tilliti til síðari leiðréttinga og athugasemda í bréfi 2. desember 2011.

Í úrskurði yfirskattanefndar 12. desember 2013 var sagt að fyrir lægi að við endurákvörðun hefði ríkisskattstjóri ekki tekið tillit til kostnaðar vegna þóknana sem Glitnir banki hf. og Straumur – Burðarás Fjárfestingarbanki hf. hefðu haldið eftir við uppgjör afleiðusamninga á tekjuárunum 2007, 2008 og 2009. Samkvæmt gögnum málsins hefði fjárhæð slíkra þóknana af samningum sem gerðir voru upp með jákvæðum mismun numið 593.777 krónum tekjuárið 2007, 17.318.121 krónu tekjuárið 2008 og 1.657.416 krónum tekjuárið 2009. Yrði að ganga út frá því að ákærði hefði verið skuldbundinn til að greiða umræddar þóknanir á lokunardegi samninga og bæri því að lækka stofn til fjármagnstekjuskatts um síðastgreindar fjárhæðir frá því sem ríkisskattstjóri hefði ákveðið. Þá var tekið fram að ekki þættu efni til að falla frá beitingu álags, enda hefði hvorki verið sýnt fram á að atvikum væri svo farið að 3. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003 ætti við né að tilefni væri til að falla frá álagsbeitingu að öðru leyti. Í úrskurðarorði sagði að stofn til fjármagnstekjuskatts lækkaði um 593.777 krónur gjaldárið 2008, 17.318.121 krónu gjaldárið 2008 og 1.657.416 krónur gjaldárið 2009 frá því sem ríkisskattstjóri hefði ákveðið en að öðru leyti væri kröfum ákærða hafnað.

                                                                                   II.

Með vísan til ákvæða 4. mgr. 110. gr. laga nr. 90/2003, 35. gr., sbr. 38. gr. reglugerðar nr. 373/2001, um framkvæmd skatteftirlits og skattrannsókna, og 2. gr. reglugerðar nr. 804/2007, um rannsókn og saksókn efnahagsbrota, beindi skattrannsóknarstjóri með bréfi 23. febrúar 2012 máli ákærða til rannsóknar hjá embætti sérstaks saksóknara. Kom þar fram að málið væri sent til lögreglurannsóknar á grundvelli fyrirliggjandi gagna um rannsókn skattrannsóknarstjóra á skattskilum ákærða, sbr. skýrslu 29. desember 2011, og annarra gagna málsins sem með fylgdu. Hefði ákærði staðið skil á efnislega röngum skattframtölum til skattyfirvalda vegna tekjuáranna 2006 og 2007 og hefði vanrækt að skila skattframtölum vegna tekjuáranna 2008 og 2009 og með því vanrækt að gera grein fyrir tekjum að fjárhæð 911.850.637 krónur. Kynni sú háttsemi að varða ákærða refsingu samkvæmt 1. mgr. 109. gr. laga nr. 90/2003 og eftir atvikum 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Bréfi skattrannsóknarstjóra til sérstaks saksóknara fylgdu í ljósriti í fyrsta lagi skýrslan frá 29. desember 2011 ásamt fylgiskjölum, í öðru lagi bréf skattrannsóknarstjóra til ríkisskattstjóra sama dag vegna heimilda ríkisskattstjóra til endurákvörðunar opinberra gjalda, í þriðja lagi bréf skattrannsóknarstjóra til ákærða sama dag þar sem tilkynnt var um lok rannsóknar og framsendingu máls til ríkisskattstjóra og boðuð fyrirhuguð ákvörðun um refsimeðferð, í fjórða lagi svarbréf ákærða 26. janúar 2012 og í fimmta lagi bréf skattrannsóknarstjóra 23. febrúar 2012 þar sem ákærða var tilkynnt um vísun málsins til rannsóknar lögreglu.

Hinn 1. mars 2013, eða tólf mánuðum og sex dögum eftir að skattrannsóknarstjóri vísaði máli ákærða til embættis sérstaks saksóknara mætti ákærði þar til skýrslutöku. Í upphafi skýrslunnar kom fram að ákærða, sem hefði stöðu sakbornings, hefði verið kynnt sakarefnið sem byggði á kæru skattrannsóknarstjóra. Þá sagði að ákærði hefði verið spurður hvort hann hefði fengið afhenta skýrslu skattrannsóknarstjóra og kynnt sér efni hennar og hann kveðið svo vera. Í framhaldinu var ákærði meðal annars spurður um atriði sem vörðuðu hann sjálfan, skattframtöl hans vegna tekjuáranna 2006 til og með 2009, meintar vanframtaldar fjármagnstekjur og hvers vegna hann hefði ekki skilað skattframtölum vegna tekjuáranna 2008 og 2009 innan lögmælts tíma. Þá var ákærði spurður ítarlega út í eðli og uppgjör viðskipta með framvirka samninga á árunum 2006 til og með 2009, sem og samskipti við þau fjármálafyrirtæki sem ákærði hefði átt í viðskiptum við. Ákærði mætti aftur til skýrslutöku hjá sama embætti 14. júní 2013. Þar var ákærði meðal annars spurður um samskipti hans við fagaðila sem önnuðust framtalsgerð fyrir ákærða og eiginkonu hans á umræddu tímabili, upplýsingagjöf til þeirra og þekkingu hans á viðskiptum með framvirka samninga.

Auk ákærða voru í maí 2013 kvaddir til skýrslutöku hjá embætti sérstaks saksóknara sem vitni A, endurskoðandi, B, endurskoðandi og eigandi [...] ehf., og C, viðskiptafræðingur, sem áður starfaði sem fulltrúi hjá [...] ehf. Vitnaskýrsla var að nýju tekin af B 14. ágúst 2013 hjá sama embætti.

Með ákæru sérstaks saksóknara 9. júlí 2014 var mál þetta höfðað á hendur ákærða. Með bréfi sérstaks saksóknara til Héraðsdóms Reykjavíkur sama dag og ákæran var gefin út var þess krafist að málið yrði tekið til dómsmeðferðar í samræmi við ákæru.

Mál ákæruvaldsins á hendur ákærða var þingfest 28. ágúst 2014 en ákærði var ekki viðstaddur það þinghald. Næst var málið tekið fyrir 2. september sama ár og neitaði ákærði þá sök. Bókað var að málinu yrði frestað ótiltekið enda væri að vænta dóms Mannréttindadómstóls Evrópu í kringum næstu áramót þar á eftir. Málið var næst tekið fyrir 21. desember 2016 og hafði því þá verið úthlutað til nýs dómara. Ákveðið var að halda málinu áfram enda hefði málið verið í fresti í rúm tvö ár án þess að umræddur dómur Mannréttindadómstóls Evrópu lægi fyrir. Í bókuninni var tekið fram að verjandi gerði ekki athugasemdir við ákvörðunina en krefðist frávísunar málsins. Þegar málið var tekið fyrir síðastnefndan dag var því aftur frestað og nú til 3. mars 2015 þar sem dómur Mannréttindadómstóls Evrópu lá ekki fyrir. Næst var málið tekið fyrir 8. mars 2017 og var þá flutt um frávísunarkröfu ákærða. Kröfu ákærða var samdægurs hafnað með úrskurði dómsins og var ákærða veittur frestur að skila greinargerð í málinu. Málið var næst tekið fyrir í þeim tilgangi 12. apríl 2017. Þar krafðist ákærði sýknu og tók til efnisvarna en hélt frávísunarkröfu einnig til haga á síðari stigum máls ef tilefni gæfist til. Málinu var frestað ótiltekið í því þinghaldi með vísan til máls ákæruvaldsins gegn [...] nr. 283/2016 fyrir Hæstarétti, sem hefði fordæmisgildi vegna málsástæðna ákærða í máli þessu. Málið var næst tekið fyrir 8. nóvember 2017, en þá lá fyrir dómur Hæstaréttar í máli nr. 283/2016 frá 21. september 2017. Með vísan til niðurstöðu þess dóms var máli þessu frestað til nýs flutnings um frávísunarkröfu ákærða til 8. febrúar 2018, en vegna dagskrár verjanda var ekki unnt að hafa þann málflutning fyrr.

                                                                                  III.

Krafa ákærða um frávísun málsins frá héraðsdómi er reist á því að efnismeðferð og sakfelling í málinu fari í bága við 1. mgr. 4. gr. 7. samningsviðauka Mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, en sú grein ber fyrirsögnina: Réttur til að vera ekki saksóttur eða refsað tvívegis. Samkvæmt því sem segir í íslenskri þýðingu 1. mgr. 4. gr. samningsviðaukans skal enginn sæta lögsókn eða refsingu að nýju í sakamáli innan lögsögu sama ríkis fyrir brot sem hann hefur þegar verið sýknaður af eða sakfelldur um með lokadómi samkvæmt lögum og sakamálaréttarfari viðkomandi ríkis. Er hér um að ræða reglu þá sem nefnd hefur verið ne bis in idem. Ákærði vísar einnig kröfu sinni til stuðnings til 70. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 6. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu.

Ákæruvaldið kveðst mótmæla kröfu ákærða á þeim grunni að Hæstiréttur hafi í nýlegum dómum ekki talið það fara gegn banni við tvöfaldri málsmeðferð að stjórnvöld geri manni að greiða skatt af álagi á skattstofn og sama manni séu síðan í öðru máli gerð viðurlög vegna sama brots. Málinu verði því ekki vísað frá héraðsdómi á þessum grundvelli.

                                                                                  IV.

Lagt verður til grundvallar úrlausn þessari, svo sem óumdeilt er í málinu, að meðferð ákærða hjá skattyfirvöldum og beiting álags af hálfu skattyfirvalda vegna brota ákærða á skattalögum sé sakamál í skilningi 1. mgr. 4. gr. 7. samningsviðauka við Mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Eins verður litið svo á að hvort tveggja, annars vegar beiting álagsins hjá skattyfirvöldum og hins vegar rannsókn sérstaks saksóknara og ákæra í máli því sem hér er til meðferðar, sé reist á sömu annmörkum á skattframtölum ákærða. Umrædd mál ákærða taka að auki til sama tímabils og varða í aðalatriðum sömu fjárhæðir.

Að því sögðu verður litið til þess að Hæstiréttur hefur í framkvæmd sinni lagt til grundvallar að 1. mgr. 4. gr. 7. viðauka við Mannréttindasáttmála Evrópu standi því ekki í vegi að rekin séu tvö aðskilin mál á hendur sama aðila vegna skattalagabrots. Það hefur Hæstiréttur meðal annars gert með skírskotun til dómaframkvæmdar Mannréttindadómstóls Evrópu um beitingu umrædds lagaákvæðis, sem leggur bann við tvöfaldri refsimeðferð. Ákveðin skilyrði þurfa hins vegar að vera uppfyllt þannig að ekki verði litið svo á að um endurtekna refsimeðferð sé að ræða, sem brýtur í bága við 1. mgr. 4. gr. 7. viðauka við Mannréttindasáttmála Evrópu. Þannig þarf að sýna fram á að rekstur mála sé nægjanlega samþættur eða samtengdur, hvort tveggja í efni og tíma, þannig að úr verði ein samþætt heild. Í því felst ekki aðeins að markmiðin sem að er stefnt og aðferðirnar við að ná þeim séu í reynd hvor annarri til fyllingar eða viðbótar, heldur einnig að afleiðingar þess fyrirkomulags séu fyrirsjáanlegar og fullnægi áskilnaði um meðalhóf við rekstur málanna beggja.

Í dómi meirihluta Hæstaréttar frá 21. september 2017 í máli nr. 283/2016 var því slegið föstu að málarekstur hjá skattyfirvöldum hefði að markmiði að leiða í ljós annað en það sem lögregla rannsakar og dómstólar dæma um vegna sama skattalagabrots. Að auki væru viðurlögin ólík og skilyrðin fyrir beitingu þeirra mismunandi. Samkvæmt því var lagt til grundvallar að meðferð sakamáls, sem leitt getur til sakfellingar skattþegns, sé samkvæmt viðmiðum Mannréttindadómstóls Evrópu, hvað efni varðar, til fyllingar eða viðbótar málsmeðferð skattyfirvalda.

Við rannsókn stjórnvalda á skattalagabrotum gilda ákveðnar reglur um málsmeðferð sem eiga að tryggja réttaröryggi skattþegnsins, þar á meðal reglur um andmælarétt og rétt til málskots innan stjórnsýslunnar. Rannsókn lögreglu og meðferð máls fyrir dómi lúta og reglum sem eiga að tryggja réttaröryggi þess sem sætir lögreglurannsókn, ákæru og dómsmeðferð. Gögn málsins bera ekki annað með sér en að ákærði hafi við rekstur beggja málanna notið þess réttaröryggis og hann nýtt sér tiltæk réttarúrræði.

Að gættu öllu því sem hér var rakið verður lagt til grundvallar að fullnægt hafi verið skilyrðinu um nauðsynlega efnislega samþættingu mála ákærða hjá annars vegar skattyfirvöldum og hins vegar ákæruvaldi þannig að úr hafi orðið ein samþætt heild. Í því felst, eins og áður segir, að seinni málareksturinn hafði ekki í för með sér ónauðsynlega endurtekningu hvað varðar öflun gagna og mat á þeim til sönnunar. Þá áréttar dómurinn að samkvæmt 1. mgr. 109. gr. laga nr. 90/2003 ber, eftir atvikum, við ákvörðun fésektar í efnisdómi vegna skattalagabrota, að taka tillit til álags sem skattþegn hefur sætt hjá skattyfirvöldum.

Kemur þá til úrlausnar hvort skilyrðinu um nauðsynlega samþættingu í tíma hafi verið fullnægt við rekstur mála skattyfirvalda og ákæruvalds á hendur ákærða. Markmið þess skilyrðis er að tryggja að skattþegninn sem í hlut á sé ekki settur í óþarfa óvissu og tafir vegna málareksturs sem dregst yfir lengri tíma.

Heildartíminn sem rekstur beggja mála ákærða hefur tekið er sjö ár og rúmir fjórir mánuðir og er þá miðað við tímann frá því að skattrannsóknarstjóri hóf rannsókn sína 31. janúar 2011 og þar til málið var flutt um frávísunarkröfu ákærða 8. febrúar 2018. Við umfjöllun um heildartímann verður að líta til þess tíma sem meðferð málsins fyrir héraðsdómi dróst á meðan sammæli var um að bíða dóms Mannréttindadómstóls Evrópu í kærumáli Jóns Ásgeirs Jóhannessonar o.fl. Sú frestun var viðvarandi frá þinghaldi 28. ágúst 2014 fram að þinghaldi 21. desember 2016, þá er málinu hafði verið úthlutað til nýs dómara. Dómara þótti þá rétt að halda málinu áfram enda liðin rúm tvö ár frá því að ákvörðun um frestun hafði verið tekin, enda þótt dómur hefði þá ekki enn legið fyrir í hinu íslenska kærumáli. Var málinu frestað til málflutnings um frávísunarkröfu ákærða sem fram fór 8. mars 2014. Þeirri kröfu ákærða var, sem fyrr segir, hafnað sama dag og fékk ákærði frest til að skila greinargerð til 12. apríl 2017. Í þinghaldi þann dag var málinu að nýju frestað ótiltekið á meðan beðið væri dóms Hæstaréttar í máli nr. 283/2016. Að dómi í því máli gengnum var boðað til fyrirtöku sem fram fór 8. nóvember 2017. Í því þinghaldi krafðist ákærði að nýju frávísunar málsins með tilliti til dóms meirihluta Hæstaréttar í máli nr. 283/2016. Í sama þinghaldi var ákveðið, með tilliti til anna verjanda ákærða, að málinu yrði frestað til flutnings um frávísunarkröfu ákærða til 8. febrúar 2018. Til samanburðar skal þess getið að heildarmeðferðartíminn í Hæstaréttarmáli nr. 283/2016 var sex ár og fjórir mánuðir, og er þá miðað við tímann frá því að skattrannsóknarstjóri hóf rannsókn sína í því máli 3. maí 2011 og þar til málið var flutt í Hæstarétti 4. september 2017, en hann var níu ár og þrír mánuðir í kærumáli Jóns Ásgeirs Jóhannessonar o.fl. sem lauk með dómi Mannréttindadómstóls Evrópu 18. maí 2017. Þar var fallist á þau sjónarmið kærenda að þeir hefðu sætt tvöfaldri refsimeðferð í andstöðu við 1. mgr. 4. gr. 7. viðauka við Mannréttindasáttmála Evrópu.

Næst er að líta til þess hve lengi stjórnsýslumál ákærða var til meðferðar hjá skattyfirvöldum. Meðferðin tók tvö ár og rétt rúma ellefu mánuði, það er frá 31. janúar 2011, þegar rannsókn skattrannsóknarstjóra hófst, og til 12. desember 2013, þegar úrskurður yfirskattanefndar lá fyrir. Til samanburðar er þess að geta að samkvæmt sömu viðmiðum stóð meðferð skattyfirvalda Hæstaréttarmáli nr. 283/2016 í þrjú ár og tíu mánuði en í þrjú ár og níu mánuði í kærumáli Jóns Ásgeirs Jóhannessonar o.fl.

Rekstur sakamálsins á hendur ákærða, eftir lok stjórnsýslumálsins, hefur staðið yfir í fjögur ár og tæpa tvo mánuði og er þá miðað við tímann frá því að úrskurður yfirskattanefndar lá fyrir 12. desember 2013 og þar til málflutningur um frávísunarkröfu ákærða fór fram 8. febrúar 2018. Verður hér sem fyrr að líta til tímans sem rekstur máls ákæruvaldsins hefur dregist fyrir dómi, í samtals tvö ár og rúma þrjá mánuði á meðan beðið var dóms Mannréttindadómstólsins í kærumáli Jóns Ásgeirs Jóhannessonar o.fl. og síðan í tvö ár og rúma fjóra mánuði á meðan beðið var dóms Hæstaréttar í máli nr. 283/2016. Til samanburðar skal nefnt að rekstur sakamálanna í Hæstaréttarmáli nr. 283/2016, eftir lok stjórnsýslumáls, tók þrjú ár og sex mánuði, en fimm ár og fimm mánuði fyrir íslenskum dómstólum í kærumáli Jóns Ásgeirs Jóhannessonar o.fl.

Þegar virt er tímalengdin frá endanlegri ákvörðun í stjórnsýslumálinu til útgáfu ákæru kemur í ljós að í máli þessu var ákæra gefin út 9. júlí 2014, eða sex mánuðum og 27 dögum eftir að úrskurður yfirskattanefndar 12. desember 2013 var kveðinn upp. Með hliðsjón af rökstuðningi meirihluta Hæstaréttar í máli nr. 283/2016 er rétt að hafa hér í huga að sá úrskurður varð endanlega bindandi ­að liðnum sex mánaða málshöfðunarfresti samkvæmt 2. mgr. 15. gr. laga nr. 30/1992 um yfirskattanefnd, eða tæpum mánuði áður en ákæra var gefin út. Til samanburðar var ákæra í Hæstaréttarmáli nr. 283/2016 gefin út tveimur mánuðum og níu dögum eftir lok stjórnsýslumálsins og þar af leiðandi tæplega fjórum mánuðum áður en úrskurður yfirskattanefndar varð endanlegur, en í kærumáli Jóns Ásgeirs Jóhannessonar o.fl. hafði liðið eitt ár og tæpir fjórir mánuðir frá því að úrskurður yfirskattanefndar lá fyrir og þar til ákæra var gefin út.

Næst er að skoða tímalengdina frá útgáfu ákæru 9. júlí 2014 til þess er málflutningur fór fram um frávísunarkröfu ákærða 8. febrúar 2018, sem er þrjú ár og tæpir sjö mánuðir. Verður hér sem fyrr að hafa í huga þann tíma sem meðferð málsins hefur dregist fyrir dómstólum á meðan beðið hefur verið dóms í Hæstaréttarmáli nr. 283/2016 og dóms Mannréttindadómstólsins í máli Jóns Ásgeirs Jóhannessonar o.fl. Í Hæstaréttarmálinu liðu þrjú ár og tæpir fjórir mánuðir frá útgáfu ákæru til málflutnings fyrir Hæstarétti en í kærumáli Jóns Ásgeirs Jóhannessonar o.fl. var þessi tími fjögur ár og tæpir tveir mánuðir.

Loks þarf í þessu sambandi að skoða þann tíma sem rekstur beggja mála ákærða var samhliða hjá skattyfirvöldum og lögreglu, ákæruvaldi og dómstólum. Í tilviki ákærða voru málin rekin samhliða í rúma tíu mánuði, það er frá 1. mars 2013, þegar ákærði gaf fyrst skýrslu sem sakborningur hjá sérstökum saksóknara, og til 12. desember 2013, þegar úrskurður yfirskattanefndar var kveðinn upp. Í Hæstaréttarmáli nr. 283/2016 voru málin rekin samhliða hjá yfirvöldum samkvæmt sama viðmiði í ellefu mánuði en í tólf mánuði í tilvikum Jóns Ásgeirs Jóhannessonar o.fl.

Samkvæmt því sem hér var rakið um tímalengd við rekstur mála ákærða, og með hliðsjón af áherslum meirihluta Hæstaréttar í máli nr. 283/2016, skortir á að fullnægjandi tengsl séu í tíma á milli aðskilinnar meðferðar sakamála á hendur ákærða hjá skattyfirvöldum og þess máls sem hér er til úrlausnar.

Í því heildarmati allra tímaþátta sem fram hefur farið er einkum tekið mið af því, í ljósi forsendna meirihluta Hæstaréttar í máli nr. 283/2016, að í máli ákærða var ákæra gefin út sex mánuðum og 27 dögum eftir úrskurð yfirskattanefndar. Var úrskurður yfirskattanefndar í máli ákærða því orðinn endanlega bindandi tæpum mánuði áður en ákæran á hendur honum var gefin út. Að því sögðu er það mat dómsins að það færi í bága við almennan tilgang að baki málskotsrétti innan stjórnsýslunnar, sem er að stuðla að auknu réttaröryggi borgaranna með því að veita aðilum stjórnsýslumála færi á að fá endurskoðun stjórnvaldsákvarðana, yrði litið svo á að það kæmi niður á réttarstöðu ákærða í sakamáli þessu, með tilliti til 1. mgr. 4. gr. 7. viðauka við Mannréttindasáttmála Evrópu, að hann hafi nýtt sér kæruleiðina til yfirskattanefndar.

Með framangreint í huga er til þess litið að þó að Hæstiréttur hafi, í máli nr. 283/2016, lagt til grundvallar að rekstur tveggja aðskilinna mála þurfi ekki að vera algjörlega samhliða frá upphafi til enda verður eftir sem áður að taka nægilegt tillit til hagsmuna málsaðila, þannig að málin séu rekin áfram af skilvirkni og fyrirsjáanleika, með réttaröryggi borgara að leiðarljósi. Einkum á þetta við í ljósi þess að mannréttindaákvæði, á borð við 1. mgr. 4. gr. 7. viðauka við Mannréttindasáttmála Evrópu, eru sett til verndar einstaklingum, ekki stjórnvöldum. Það verður einvörðungu gert með því að setja stjórnvöldum mörk sem taka mið af meðalhófi og hagsmunum borgaranna af fyrirsjáanleika við meðferð refsimála, út frá eðlilegum framgangi réttvísinnar og í ljósi ólíkra samfélagslegra hagsmuna.

Þar af leiðandi verður einnig tekið mið af heildartíma reksturs málanna beggja til þessa, hjá skattyfirvöldum og lögreglu, ákæruvaldi og dómstólum, sem er sjö ár og rúmir fjórir mánuðir, svo sem hér að framan er rakið. Það verður óhjákvæmilega að gera með hliðsjón af úrlausn Mannréttindadómstólsins í kærumáli Jóns Ásgeirs Jóhannessonar o.fl. gegn íslenska ríkinu, þar sem heildartími beggja málsmeðferða í íslensku réttarkerfi nam níu árum og þremur mánuðum og þá að gengnum efnisdómi í Hæstarétti. 

Að öllu þessu virtu verður ekki annað séð en að við rekstur málanna á hendur ákærða hafi verið farið á svig við skilyrði um meðalhóf, sem krafa er gerð um að gætt sé við rekstur tveggja sakamála samkvæmt 1. mgr. 4. gr. 7. viðauka við Mannréttindasáttmála Evrópu, eins og ákvæðið hefur verið túlkað af dómstólum. Hefur ákærði þar með verið settur í óhæfilega óvissu um réttarstöðu sína auk þess sem óþarfa tafir urðu á málarekstri hans hjá ákæruvaldinu, án þess að nokkrar skýringar væru gefnar á því. Er niðurstaðan því sú að sakamálin tvö á hendur ákærða, annars vegar hjá skattyfirvöldum og hins vegar í réttarvörslukerfinu, séu það ótengd í tíma að ítrekuð málsmeðferð, með því máli sem hér er til úrlausnar, fari í bága við 1. mgr. 4. gr. 7. viðauka við Mannréttindasáttmála Evrópu, eins og ákvæðið hefur verið skýrt af Hæstarétti, m.a. í ljósi dóma Mannréttindadómstóls Evrópu.

Samkvæmt þessu verður fallist á aðalkröfu ákærða og málinu vísað frá héraðsdómi. Um greiðslu málsvarnarlauna verjenda ákærðu fer svo sem í úrskurðarorði greinir.

Sigríður Hjaltested héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

ÚRSKURÐARORÐ:

Máli þessu er vísað frá dómi.

Úr ríkissjóði greiðast málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Reimars Péturssonar lögmanns, 1.264.800 krónur.