Mál nr. 381/2018

Héraðssaksóknari (Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari)
gegn
X (Oddgeir Einarsson lögmaður)
Lykilorð
 • Kærumál.
 • Dómkvaðning matsmanns.
Útdráttur

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu X um afturköllun á dómkvaðningu matsmanns. Landsréttur vísaði til þess að í 6. mgr. 128. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og 1. mgr. 133. gr. sömu laga væri ekki að finna heimild fyrir matsþola til að hafa uppi slíka kröfu. Þar sem dómkvaðning hafði þegar farið fram og matsgerð þegar verið afhent væri engin lagastoð fyrir kröfu X. Var hinn kærði úrskurður því staðfestur.

Úrskurður Landsréttar

Landsréttardómararnir Aðalsteinn E. Jónasson, Hervör Þorvaldsdóttir og Ragnheiður Harðardóttir kveða upp úrskurð í máli þessu.

Málsmeðferð og dómkröfur aðila

 1. Varnaraðili skaut málinu til Landsréttar með kæru 27. apríl 2017, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 30. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 26. apríl 2018, í málinu nr. S-[…]/2017, þar sem hafnað var kröfu varnaraðila um að afturkalla dómkvaðningu matsmanns. Kæruheimild er í o-lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála.
 2. Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
 3. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og honum breytt þannig að dómkvaðning matsmanns verði afturkölluð.

  Niðurstaða
 4. Eins og fram kemur í hinum kærða úrskurði var, að kröfu ákæruvaldsins, dómkvaddur matsmaður til að svara spurningum um málsatvik, sem nánar voru tilgreindar í matsbeiðni, sbr. 1. mgr. 128. gr. laga nr. 88/2008.
 5. Hinn dómkvaddi matsmaður hefur þegar skilað áliti sínu, sem ágreiningslaust er að ekki var unnið í samræmi við fyrirmæli laga nr. 88/2008.
 6. Sóknaraðili byggir kröfu sína á 6. mgr. 128. gr. og 1. mgr. 133. gr. laga nr. 88/2008. Í þeim ákvæðum er ekki að finna heimild fyrir matsþola að gera þá kröfu sem hann hefur uppi. Breytir engu þar um þótt ekki hafi verið fylgt ákvæðum laga nr. 88/2008 um framkvæmd matsgerða.
 7. Með því að dómkvaðning hefur farið fram og þar sem matsgerð hefur þegar verið afhent er engin lagastoð fyrir kröfu sóknaraðila.
 8. Samkvæmt framangreindu er fallist á niðurstöðu hins kærða úrskurðar.

Úrskurðarorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.


 Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 26. apríl 2018

Með ákæru 26. maí 2017 var ákærði ákærður fyrir tilraun til manndráps. Hann var sakfelldur í héraði […] ágúst sama ár og dæmdur í fangelsi. Með dómi Hæstaréttar 7. desember síðastliðinn var héraðsdómurinn ómerktur, meðal annars vegna þess að málið hafði ekki verið rannsakað nægilega til að dómur yrði á það lagður.

Í þinghaldi 8. janúar var dómkvaddur matsmaður að kröfu ákærandans til að svara tilteknum spurningum varðandi málsatvik. Matsmaðurinn er sérfræðingur í réttarmeinafræði og starfar á Landspítalanum. Samkvæmt því sem upplýst er hélt matsmaður ekki matsfund og mun heldur ekki hafa fengið send öll gögn. Hann sendi hins vegar frá sér skjal sem innihélt álit hans á því sem hann hafði verið beðinn um að meta. Sækjandinn sendi verjandanum skjalið sem í framhaldinu krafðist þess að dómkvaðning sérfræðingsins „sem matsmanns í málinu S-[…]/2017, verði afturkölluð og annar hæfur matsmaður verði dómkvaddur í hans stað.“ Sækjandinn mótmælti kröfunni og kvað matsmanninn ekki hafa gert sig vanhæfan þótt hann hafi sent frá sér framangreint skjal. Krafan var tekin til úrskurðar 24. apríl síðastliðinn eftir að málflytjendur höfðu tjáð sig um hana.

Framangreint skjal hefur ekki verið lagt fram og verður það ekki gert. Í 1. mgr. 133. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 segir að dómari úrskurði um atriði varðandi framkvæmd matsgerðar, svo sem hvort það hafi verið metið sem skyldi meta samkvæmt dómkvaðningu eða hvort matsgerð sé nægilega vel rökstudd ef til álita kemur að endurskoða hana eða framkvæma endurmat. Málflytjendur eru sammála um að matsmaður hélt ekki matsfund og einnig mun matsbeiðandi ekki hafa útvegað honum öll gögn. Engu að síður sendi matsmaður frá sér framangreint skjal sem á engan hátt er hægt að líta á sem matsgerð. Samkvæmt þessu er ljóst að matsmaður hefur ekki lokið matinu en það gerir hann ekki vanhæfan til starfans. Það verður því ekki orðið við kröfu ákærða um að afturkalla dómkvaðninguna.

Arngrímur Ísberg héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu ákærða um að afturkalla dómkvaðningu matsmannsins.