R E G L U R
Landsréttar nr. 6/2020
Leiðbeiningar til málflytjenda varðandi munnlega sönnunarfærslu
og spilun á upptökum fyrir Landsrétti í sakamálum
-------------------------------------
1. Inngangur
Markmiðið með leiðbeiningum þessum er að treysta í sessi meginregluna um milliliðalausa sönnunarfærslu í sakamálum á áfrýjunarstigi.
Ekki er gert ráð fyrir að munnleg sönnunarfærsla fyrir héraðsdómi verði endurtekin frá grunni fyrir Landsrétti. Miðað er við að endurskoðun Landsréttar á mati á sönnunargildi munnlegs framburðar fari að jafnaði fram á grundvelli:
- endurrita af framburði fyrir héraðsdómi,
- myndupptöku, eða eftir atvikum hljóðupptöku, af framburði fyrir héraðsdómi,
- munnlegrar viðbótarskýrslu af ákærða eða vitni sem gefið hefur skýrslu fyrir héraðsdómi,
- munnlegrar skýrslu af ákærða eða vitni sem ekki hefur gefið skýrslu fyrir héraðsdómi.
2. Hljóð- og myndupptökur – Afhending og aðgangur
Um afhendingu á hljóðupptökum af framburði í héraði til málflytjenda fyrir Landsrétti, aðgang þeirra að myndupptökum svo og aðgang aðila að hljóðupptökum fer eftir verklagsreglum dómstólsýslunnar nr. 15/2018 frá 22. maí 2018 um afhendingu og færslu hljóð- og myndskráa.
3. Rökstuðningur málflytjenda fyrir munnlegri sönnunarfærslu og spilun á skýrslutökum úr héraði
Rökstuðningur fyrir munnlegri sönnunarfærslu
3.1 Samkvæmt e-lið 2. mgr. 203. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála skal í greinargerð málsaðila til Landsréttar koma fram hvort hann telji nauðsynlegt að afla munnlegra skýrslna eða viðbótarskýrslna fyrir Landsrétti, og þá hverra, ásamt rökstuðningi þar að lútandi, þar á meðal fyrir því hvers vegna ekki sé nægilegt að byggja á upptökum, sbr. 3. mgr. 13. gr. laganna.
3.2 Í greinargerð komi fram nákvæm tilgreining á ákærðu og vitnum sem óskað er eftir að gefi munnlega skýrslu fyrir Landsrétti og rök fyrir þýðingu skýrslutökunnar. Í greinargerð komi fram með knöppum og greinargóðum hætti eftirfarandi:
a. Hvort um sé að ræða nýja skýrslu eða viðbótarskýrslu.
b. Tilgreining á þeim atriðum sem skýrslugjafa er ætlað að bera um og hvað eigi að leiða í ljós eða færa frekari sönnur á með skýrslutöku.
c. Rökstuðningur fyrir þörf á munnlegri sönnunarfærslu um einstök atriði.
d. Rökstuðningur fyrir því að ekki nægi að spila upptöku af framburði viðkomandi skýrslugjafa fyrir héraðsdómi.
e. Tilvísanir í þau atriði í fyrri framburði sem ætlunin er að spyrja ítarlegar um auk nákvæmrar tilgreiningar blaðsíðutala í málsgögnum þar sem fyrri framburð er að finna.
f. Áætlun um hversu langan tíma hver skýrsla muni taka.
3.3 Í greinargerð þess aðila sem síðar skilar greinargerð komi jafnframt fram afstaða til óska áfrýjanda um nýjar skýrslur og viðbótarskýrslur og rökstuðningur fyrir mótmælum ef um þau er að ræða. Óski sá sem síðar skilar greinargerð eftir nýjum skýrslum eða viðbótarskýrslum á áfrýjandi þess kost að koma á framfæri rökstuddum skriflegum mótmælum við þeim óskum áður en gagnaöflun í máli er lokið. Jafnframt á áfrýjandi, og eftir atvikum sá sem síðar skilar greinargerð, þess kost að koma fram með nýjar óskir um skýrslugjöf ef málatilbúnaður gagnaðila gefur tilefni til þess.
Rökstuðningur fyrir spilun á upptökum af framburði í héraði
3.4 Samkvæmt e-lið 2. mgr. 203. gr. laga um meðferð sakamála er gert ráð fyrir að unnt verði við aðalmeðferð fyrir Landsrétti að spila upptökur af einstökum skýrslum, sem teknar voru í héraði í heild eða að hluta, eftir því sem þurfa þykir vegna sönnunar.
3.5 Í greinargerð komi fram rökstuðningur fyrir þýðingu spilunar sem og nákvæm tilgreining á þeim upptökum sem óskað er eftir að verði spilaðar við aðalmeðferð fyrir Landsrétti. Í greinargerð komi eftirfarandi atriði fram um spilun á hverjum framburði fyrir sig eða fleiri sameiginlega:
a. Rökstuðningur um þýðingu viðkomandi framburðar fyrir niðurstöðu máls.
b. Rökstuðningur um hvort og þá að hvaða leyti mat héraðsdóms á sönnunargildi framburðarins, í heild eða hvað varðar einstök atriði, hafi að öðru leyti verið rangt.
c. Hvort leiða eigi í ljós innra ósamræmi í framburði eða ósamræmi milli viðkomandi framburðar og gagna máls eða annars framburðar,
d. Tilvísun í þann framburð eða hluta af framburði fyrir héraðsdómi sem óskað er eftir að verði spilaður, það er blaðsíðutal í málsgögnum þar sem þann framburð er að finna.
3.6 Í greinargerð þess aðila sem síðar skilar greinargerð komi jafnframt fram afstaða til óska áfrýjanda um spilun á hverjum framburði fyrir sig og rökstuðningur fyrir mótmælum ef um þau er að ræða. Áfrýjandi á þess kost að koma á framfæri rökstuddum skriflegum mótmælum, áður en gagnaöflun í máli er lokið, við óskum þess aðila sem síðar skilar greinargerð um spilun á upptökum af framburði. Jafnframt á áfrýjandi, og eftir atvikum sá sem síðar skilar greinargerð, þess kost að koma fram með nýjar óskir um spilun á upptökum ef málatilbúnaður gagnaðila gefur tilefni til þess.
4. Leiðbeiningar Landsréttar um mat á þörf fyrir munnlega sönnunarfærslu og spilun á upptökum fyrir réttinum
4.1 Um skýrslutöku af ákærða fyrir Landsrétti.
4.1.1 Ákærða er í öllum tilfellum heimilt að gefa skýrslu fyrir Landsrétti ef hann óskar þess hvort sem hann hefur gefið skýrslu fyrir héraðsdómi eða ekki.
4.1.2 Þegar þess er krafist að sýknudómi verði í heild eða að hluta snúið við og ætla má að niðurstaða þar um verði að einhverju leyti byggð á mati á sönnunargildi munnlegs framburðar ákærða er rétt að ákærði komi fyrir Landsrétt og gefi skýrslu. Ef slík ósk hefur ekki komið fram af hálfu ákærða sjálfs eða ákæruvaldsins skal Landsréttur hafa frumkvæði að því að ákærði gefi skýrslu fyrir réttinum en ákæruvaldið skal þá hlutast til um að ákærði komi fyrir Landsrétt við aðalmeðferð málsins.
4.1.3 Í öðrum sakamálum en um getur í lið 4.1.2 þar sem reynir á sekt eða sýknu eða þegar áfrýjað er til refsiþyngingar eða refsimildunar og ætla má að niðurstaða málsins ráðist að einhverju leyti af mati á munnlegum framburði ákærða er rétt að ákærði komi fyrir Landsrétt og gefi skýrslu. Frá þessu má þó víkja ef ákærði hefur gefið skýrslu fyrir héraðsdómi og af hans hálfu er lýst yfir með skýrum hætti að hann óski ekki eftir því að gefa skýrslu fyrir Landsrétti, enda njóti hann aðstoðar verjanda/lögmanns. Liggi afstaða ákærða ekki fyrir skal Landsréttur ganga á eftir því hvort ákærði hyggist gefa skýrslu eða yfirlýsingu hans um að hann vilji ekki gefa skýrslu. Yfirlýsingu ákærða um að hann hyggist ekki gefa skýrslu skal leggja fram í máli eða bóka um hana í þingbók.
4.1.4 Þegar eingöngu er áfrýjað til refsiþyngingar eða refsimildunar eða eingöngu er deilt um lagaatriði og ætla má að niðurstaða máls ráðist ekki af munnlegum framburði er ekki þörf á að ákærði gefi skýrslu fyrir Landsrétti nema hann óski eftir því.
4.2 Um skýrslutökur af vitnum fyrir Landsrétti.
4.2.1 Þegar þess er krafist að dómi um sýknu ákærða verði í heild eða að hluta snúið við og ætla má að niðurstaða þar um verði að einhverju leyti byggð á mati á sönnunargildi munnlegs framburðar vitnis sem ætla má að geti borið um atriði sem hafa verulega þýðingu fyrir niðurstöðu málsins (lykilvitni) er rétt að það vitni gefi skýrslu fyrir Landsrétti hvort sem ósk hefur komið fram um það eða ekki. Frá þessu má þó víkja ef vitnið hefur gefið skýrslu fyrir héraðsdómi og af hálfu ákærða er því lýst yfir með skýrum hætti að hann óski ekki eftir því að vitnið gefi skýrslu fyrir Landsrétti, enda njóti ákærði aðstoðar verjanda/lögmanns. Yfirlýsingu ákærða skal leggja fram í máli eða bóka um hana í þingbók.
4.2.2 Í öðrum sakamálum en um getur í lið 4.2.1 þar sem reynir á sekt eða sýknu eða þegar áfrýjað er til refsiþyngingar eða refsimildunar og ætla má að niðurstaða málsins geti ráðist af munnlegum framburði vitnis sem borið getur um atriði sem hafa verulega þýðingu fyrir niðurstöðu málsins er rétt að vitnið komi fyrir Landsrétt og gefi skýrslu ef þess hefur verið óskað af hálfu ákærða eða ákæruvalds. Ef slík ósk hefur ekki komið fram skal Landsréttur leita eftir skýrri afstöðu ákærða og ákæruvalds til þess hvort óskað sé eftir slíkri skýrslugjöf. Yfirlýsingar ákærða og ákæruvalds um að ekki sé óskað eftir því að leiða slíkt vitni skulu lagðar fram eða bókað um þær í þingbók. Hafi ákærði, sem nýtur aðstoðar verjanda/lögmanns, lýst því yfir með skýrum hætti að hann óski ekki eftir því að vitni, sem þegar hefur gefið skýrslu fyrir héraðsdómi, gefi skýrslu fyrir Landsrétti og ákæruvaldið er sama sinnis, er að jafnaði ekki þörf á að leiða slíkt vitni.
4.2.3 Þegar eingöngu er áfrýjað til refsiþyngingar eða refsimildunar eða eingöngu er deilt um lagaatriði og ætla má að niðurstaða máls ráðist ekki af munnlegum framburði verða ekki teknar skýrslur af vitnum fyrir Landsrétti nema fallist sé á rökstudda ósk um það af hálfu ákærða eða ákæruvalds og Landsréttur telji þörf á því.
4.3 Spilun á upptökum við aðalmeðferð fyrir Landsrétti.
4.3.1 Þegar Landsréttur hefur ákveðið að ákærði og/eða lykilvitni sem gefið hafa skýrslu fyrir héraðsdómi gefi skýrslu fyrir réttinum skal, áður en skýrsla er gefin, spila upptöku af framburði viðkomandi fyrir héraðsdómi í heild eða þann hluta sem þýðingu er talinn hafa. Landsréttur getur þó þess í stað falið ákæruvaldinu að lesa upp útdrátt úr viðkomandi framburði sem getur að líta í hinum áfrýjaða dómi eða ákæruvaldið tekur saman úr framburði viðkomandi fyrir héraðsdómi. Dómsformaður gefur síðan ákærða eða vitni kost á að gera athugasemdir eða bæta við fyrri framburð og gefur við svo búið málflytjendum kost á að spyrja viðbótarspurninga.
4.3.2 Í öllum sakamálum þar sem reynir á sekt eða sýknu skal við aðalmeðferð fyrir Landsrétti að jafnaði spila í heild eða að hluta upptökur af framburði þeirra ákærðu og vitna í héraði sem Landsréttur metur lykilvitni og ekki gefa skýrslu fyrir Landsrétti hvort sem ósk hefur komið fram þar um eða ekki.
4.3.3 Í öðrum sakamálum en að framan greinir, svo sem þegar eingöngu er áfrýjað til refsiþyngingar eða refsimildunar eða eingöngu er deilt um lagaatriði, verða upptökur af framburði ákærðu og vitna að jafnaði ekki spilaðar við aðalmeðferð fyrir Landsrétti.
5. Undirbúningsþinghald og tilkynningar
5.1 Samkvæmt 3. mgr. 204. gr. laga um meðferð sakamála getur Landsréttur tekið mál fyrir á dómþingi fyrir aðalmeðferð til að ráða til lykta atriðum varðandi rekstur þess, þar með talið gagnaöflun og framlagningu gagna, hvaða skýrslutökur verði heimilaðar fyrir Landsrétti og hvaða upptökur verði spilaðar við aðalmeðferð. Dómsformaður getur tekið mál fyrir einn í framangreindu skyni og tekið einn ákvarðanir varðandi rekstur þess sem ekki eru kæranlegar.
5.2 Undirbúningsþinghald fer meðal annars fram til þess að gefa málflytjendum kost á að fjalla nánar um þýðingu munnlegrar sönnunarfærslu og spilunar á myndupptökum af framburði sem gefinn var fyrir héraðsdómi við aðalmeðferð fyrir Landsrétti ef rökstuddar óskir þar að lútandi hafa komið fram af hálfu málsaðila. Landsréttur getur boðað til þinghalds þótt slík ósk hafi ekki komið fram og þótt ágreiningur sé ekki með aðilum um slíka sönnunarfærslu. Hafi ekki komið fram ósk af hálfu ákærða í greinargerð um að hann gefi skýrslu fyrir Landsrétti skal í undirbúningsþinghaldinu leitast við að fá fram skýra afstöðu hans til þess að gefa skýrslu og skal bókað í þingbók um afstöðu ákærða. Þá er rétt að gefa báðum aðilum kost á að setja fram rökstuddar óskir um að fleiri skýrslur verði teknar af vitnum eða fleiri upptökur spilaðar en þeir hafa þegar óskað eftir í greinargerð. Afstaða málflytjenda í þessum efnum skal bókuð í þingbók.
5.3 Ákvörðun um skýrslutöku fyrir Landsrétti og/eða spilun á myndupptökum er bókuð í þingbók réttarins og sú bókun kynnt málflytjendum með tölvupósti.
5.4 Hafi Landsréttur ekki talið ástæðu til að boða til undirbúningsþinghalds getur rétturinn tekið ákvörðun um munnlega sönnunarfærslu og spilun á myndupptökum á grundvelli greinargerða málsaðila með bókun í þingbók réttarins og skal sú ákvörðun kynnt málflytjendum með tölvupósti. Komi fram rökstuddar óskir um frekari skýrslutökur boðar Landsréttur til undirbúningsþinghalds eða tekur nýja ákvörðun sem tilkynnt er málflytjendum með tölvupósti.
5.5 Ákvörðun Landsréttar varðandi munnlegar skýrslutökur og spilun á myndupptökum verður ekki rökstudd nema sérstakt tilefni þyki til.
5.6 Undirbúningsþinghald skal að jafnaði háð með hæfilegum fyrirvara fyrir aðalmeðferð máls og skal ákvörðun Landsréttar um munnlegar skýrslutökur og spilun á myndupptökum að jafnaði tilkynnt málflytjendum svo skjótt sem verða má fyrir aðalmeðferð málsins. Slíkri ákvörðun skal fylgja áætlun Landsréttar um þann tíma sem gert er ráð fyrir að aðalmeðferð málsins muni taka, þar með talinn hámarksræðutími hvers málflytjanda.
5.7 Sá málflytjandi sem skráður er fyrir málinu í Landsrétti sækir undirbúningsþinghald.
6. Framkvæmd munnlegrar sönnunarfærslu fyrir Landsrétti
6.1 Hafi Landsréttur ákveðið að ákærði gefi skýrslu við aðalmeðferð fyrir Landsrétti gilda ákvæði 113. gr. laga um meðferð sakamála. Boðun vitna, sem Landsréttur hefur ákveðið að gefi skýrslu í sakamáli við aðalmeðferð fyrir Landsrétti, fer eftir 120. og 121. gr. laganna. Vitni skulu almennt kvödd fyrir dóm í samræmi við 2. mgr. 120. gr. sömu laga.
6.2 Um framkvæmd munnlegrar sönnunarfærslu við aðalmeðferð fyrir Landsrétti fer eftir 206. gr. laga um meðferð sakamála.
6.3 Þegar Landsréttur hefur heimilað að tekin verði viðbótarskýrsla af þeim sem gaf skýrslu fyrir héraðsdómi fer skýrslutakan fram í samræmi við lið 4.3.1 í reglum þessum.
6.4 Viðbótarskýrslutökur fyrir Landsrétti skulu vera hnitmiðaðar og ekki fela í sér óþarfa endurtekningu á munnlegri sönnunarfærslu í héraði. Málflytjendur spyrji aðeins um þau atriði sem Landsréttur hefur heimilað að munnleg sönnunarfærsla fari fram um.
6.5 Um munnlega skýrslugjöf fer að öðru leyti eftir XVII. og XVIII. kafla laga um meðferð sakamála um skýrslugjöf ákærðu og vitna.
7. Skýrslutökur í munnlega fluttum kærumálum
Hafi Landsréttur ákveðið að kærumál skuli munnlega flutt fyrir Landsrétti fer um munnlega sönnunarfærslu eftir framangreindum viðmiðum.
8. Gildistaka, brottfall eldri reglna og birting
Viðmiðunarreglur þessar taka gildi 1. apríl 2020 og falla þá úr gildi eldri viðmið og tilmæli Landsréttar til málflytjenda varðandi spilun á upptökum og munnlega sönnunarfærslu fyrir Landsrétti, frá 30. janúar 2018, að því er varðar sakamál. Leiðbeiningarreglur þessar verða birtar á heimasíðu Landsréttar.
Kópavogi, 25. mars 2020
Hervör Þorvaldsdóttir,
forseti Landsréttar